„Together we can“

Katrín Guðrún Tryggvadóttir á Special Olympics 2013
Katrín Guðrún Tryggvadóttir á Special Olympics 2013

Special Olympics eru alþjóðleg samtök sem halda utan um mót á vegum samtakanna og hafa einnig það hlutverk að efla samfélagsvitund í tengslum við þroskaskerta einstaklinga. Samtökin og þeir sem fyrir þau starfa hafa það að leiðarljósi að ná til sem flestra með boðskapnum „Eitt samfélag fyrir alla“. Skólaverkefni Special Olympics er einn liður í því að vinna að þeim boðskap. Skólar víðs vegar að úr heiminum koma að verkefninu með margbreytilegum hætti. Hólabrekkuskóli og nemendur 7. bekkjar skólans tóku verkefninu opnum örmum og voru fyrsti skólinn til að taka þátt í verkefninu hér á landi með frábærum árangri.

Hólabrekkuskóli í alþjóðlegu skólaverkefni

Hlutverk nemenda var að kynna sér stefnu Special Olympics, styðja íslensku keppendurna og eina af þeim 120 þjóðum sem þátt tóku á Vetrarleikum Special Olympics 2013. Nemendurnir og kennarar árgangsins, þær Unnur María Sólmundardóttir og Kristrún Bragadóttir, létu ekki sitt eftir liggja í þessu verkefni frekar en öðrum. Farið var í heilmikla upplýsingaöflun þar sem nemendur kynntu sér verkefni, íþróttagreinar og þátttökuþjóðir Special Olympics mjög vel. Hópurinn kynntist íslensku keppendunum einnig vel  og studdi við erlent lið sem tók þátt á mótinu.

Júlíus Pálsson að keppa á Special Olympics 2013Margbreytileg verkefni

Special Olympics eru eins og áður segir alþjóðleg samtök og halda úti síðunni http://www.specialolympics.org/. Þar gátu nemendur kynnt sér ógrynni af upplýsingum um verkefni samtakanna á alþjóðlegum vettvangi. Nemendur notuðu því netmiðlana grimmt til þess að afla upplýsinga ásamt því að ræða við íslensku keppendurna, sem að þessu sinni voru þau Júlíus Pálsson, Katrín Guðrún Tryggvadóttir og Þórdís Erlingsdóttir. Íþróttasamband fatlaðra heldur utan um og sér alfarið um verkefni Special Olympics á Íslandi. Guðbjört Erlendsdóttir fór sem þjálfari en höfundur þessarar greinar fór sem liðsstjóri íslenska liðsins.

Staðið fyrir fjáröflun

Sjöundi bekkur Hólabrekkuskóla aðstoðaði keppendur einnig með fjáröflun. Haldið var bingó fyrir keppendur og staðið var fyrir sölu á sælgæti til styrktar ferðasjóði þeirra. Áhugi nemendanna var mikill og til að mynda áttu þeir sjálfir frumkvæði að því að halda dansleik í skólanum til styrktar  Special Olympics á Íslandi og sáu sjálfir nær alfarið um skipulagningu og framkvæmd á því verkefni.


Katrín Guðrún Tryggvadóttir og Þórdís Erlingsdóttir á Special Olympics 2013


Studdu við lið Jamaíka

Tilgangur verkefnisins var ekki síst sá að nemendur fengju að kynnast annarri menningu og fylgjast með því hvernig staðið er að verkefnum Special Olympics erlendis. Nemendur ákváðu að styðja við lið Jamaíka sem sendi í fyrsta sinn tvo keppendur þrátt fyrir að eiga ekki skautahöll í landinu. Nemendurnir kynntu sér land og þjóð, menningu, tónlist og sögu en fengu nokkuð frjálsar hendur þar sem áhugi þeirra og metnaður fyrir verkefninu var mikill. Fréttir af gengi keppenda voru svo birtar á fésbókarsíðu verkefnisins Skólaverkefni Special Olympics.  

Þórdís Erlingsdóttir á Special Olympics 2013


Ávinningur er mikill

Að verkefninu og leikunum loknum stendur eftir heill árgangur barna sem eru upplýst um málefni þroskaskertra á Íslandi. Þau hafa kynnt sér málefni og hugmyndafræði Special Olympics og vita fyrir hvað samtökin standa. Þeim finnst sjálfsagt að styðja við einstaklinga sem tengjast þeim ekki persónulegum böndum án þess að ætlast til nokkurs í staðinn. En umfram allt eru þau opinská og upplýst um ólíkar þarfir í margbreytilegu samfélagi.

Sveinn Áki Lúðvíksson formaður Íþróttasambands Fatlaðra ásamt Katrínu og Þórdísi að afhenda viðurkenningar til

Íþróttasamband fatlaðra og keppendur nýttu tækifærið á íþróttahátíð skólans og veittu skólanum, kennurum og nemendum viðurkenningu fyrir óeigingjarnt starf í þágu skólaverkefnisins. Sveinn Áki Lúðvíksson formaður Íþróttasambands Fatlaðra ásamt Katrínu og Þórdísi afhentu viðurkenningar.

 

Höfundur: Helga Olsen, skautaþjálfari skautadeildar Asparinna og kennari í Hólabrekkuskóla.Keppnisdans Júlíusar Pálssonar sem lenti í 4. sæti á 1. stigi.

Keppnisdans Þórdísar Erlingsdóttur sem lenti í 1. sæti og Katrínar Guðrúnu Tryggvadóttur sem lenti í 2. sæti í einstaklingskeppni á 2. stigi.


Keppnisdans Þórdísar Erlingsdóttur og Guðrúnar Tryggvadóttur í parakeppni. Þær hlutu gullverðlaun í 1. stigi.