Þekkingarmiðstöð Sjálfsbjargar - Hjálpartækjasýning

Anddyri Þekkingarmiðstöðvarinnar
Anddyri Þekkingarmiðstöðvarinnar

Markmiðið með stofnun Þekkingarmiðstöðvar Sjálfsbjargar var að skapa greiðan aðgang að hagnýtum upplýsingum sem nýtast hreyfihömluðu fólki á einn eða annan hátt, hvort sem hreyfihömlunin er tímabundin eða varanleg. Áður hafði fólk þurft að leita víða til að finna upplýsingar um réttindi og þjónustu. Nú er hagnýtum upplýsingum um flest allt sem gagnast fötluðu fólki í daglegu lífi safnað á einn stað og sparar það fólki því tíma og orku sem annars færi í leitina.

Fyrir hverja er þjónustan?

Þeir sem leita til miðstöðvarinnar eru fatlað fólk, aðstandendur þeirra, fagfólk, stofnanir og fyrirtæki sem þurfa upplýsingar, fræðslu eða námskeið er tengjast hreyfihömluðu fólki. Með opnun miðstöðvarinnar var stigið stórt skref í að auka aðgengi fatlaðs fólks að upplýsingum.

Heimasíða Þekkingarmiðstöðvarinnar geymir mikið magn upplýsinga og má þar nefna upplýsingar um aðgengi, reynslu fólks af gistingu innanlands og erlendis, þjónustu sveitarfélaganna og hjálpartæki. Fólk er hvatt til að miðla af reynslu sinni t.d. af ferðalögum innanlands, þannig nýtist reynsla eins aðila öllum fjöldanum. Á vefnum má einnig finna þau námskeið sem eru framundan og tengjast á einn eða annan hátt daglegu lífi hreyfihamlaðs fólks. Þeir sem hafa góðar hugmyndir um áhugaverð námskeið eru hvattir til að hafa samband.

Fötluð manneskja á lágu þriggja dekkja hjóli og auglýsing um að Hjálpartækjasýningin sé 7. og 8. júní

Hjálpartækjasýning

Þekkingarmiðstöðin verður eins árs þann 8. júní og mun að því tilefni halda hjálpartækjasýningu dagana 7. - 8. júní. Sýningin verður í íþróttahúsinu í Hátúni 14 Reykjavík og ókeypis er inn. Á sýningunni verður hægt að sjá það nýjasta á sviði hjálpartækja, allt frá hagnýtum heimilishjálpartækjum til sérútbúnaðs í bifreiðum. Fólki gefst kostur á að kynna sér og prófa hjálpartækin og getur jafnvel fundið lausnir sem henta vel í hinu daglega lífi. Innflutningsaðilar hjálpartækja og ráðgjafar Sjúkratrygginga Íslands verða á staðnum og því verður hægt að fá greinagóðar upplýsingar hjá þeim. Það er líka alltaf gaman að hitta mann og annan yfir kaffibolla og meðlæti. Starfsfólk Þekkingarmiðstöðvarinnar verður að sjálfsögðu á staðnum til að kynna starfsemi hennar. Sýningin verður opin frá 10 – 17 báða dagana.  

Eftir að sýningunni lýkur ætti fólk að vera meðvitaðra um þær leiðir sem hægt er að fara og hvert það á að leita upplýsinga, þannig að það hafi  betri forsendur til að velja úr þeim möguleikum sem í boði eru. Með sýningu sem þessari gegnir Þekkingarmiðstöð Sjálfsbjargar því hlutverki sínu að miðla upplýsingum til fólks á hlutlausan hátt.

Starfsmenn Þekkingarmiðstöðvarinnar

Hafðu samband við okkur

Þjónusta Þekkingarmiðstöðvarinnar er gjaldfrjáls og námskeiðsgjöldum er haldið í lágmarki. Opnunartími miðstöðvarinnar er frá kl. 10-16 alla virka daga. Allir eru velkomnir í Hátún 12 og alltaf er heitt á könnunni. Ef fólk á ekki heimangengt er einnig hægt að hafa samband í gegnum netspjallið á heimasíðunni www.thekkingarmidstod.is eða hringja í síma 5 500 118. Miðstöðin er einnig á Facebook og Twitter og er hægt að líka við okkur eða fylgjast með okkur þar. 

Við hvetjum alla til að kynna sér þjónustu Þekkingarmiðstöðvar Sjálfsbjargar og láta aðra vita af henni.

Hlökkum til að sjá ykkur,
Starfsfólk Þekkingarmiðstöðvar SjálfsbjargarÝmsir tenglar: