Verkefni nýrrar ríkisstjórnar

Lilja Þorgeirsdóttir framkvæmdastjóri ÖBÍ
Lilja Þorgeirsdóttir framkvæmdastjóri ÖBÍ


Í kosningabaráttunni voru kjör öryrkja og eldri borgara talsvert í umræðunni og loforð gefin um að bæta kjör þeirra þar sem þeir hafi þurft að þola hlutfallslega meiri kjaraskerðingar en aðrir hópar í samfélaginu frá efnahagshruni. Nú er komin ný ríkisstjórn og er hún boðin velkomin til starfa. Forsætisráðherra hefur lýst því yfir að standa skuli við gefin loforð um að leiðrétta þær skerðingar sem öryrkjar og ellilífeyrisþegar urðu fyrir í tíð fyrri ríkisstjórnar. Í kvöldfréttum RÚV þann 25. maí sl. sagði forsætisráðherra að strax á sumarþingi muni leiðréttingar á tekjutengingum og réttindaskerðingum lífeyrisþega sem tóku gildi 1. júlí 2009 verða að veruleika. Því ber að fagna og við treystum því að skerðingarnar verði leiðréttar í heild sinni afturvirkt eins og lofað var en ekki að hluta til eins og lesa má í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.

Hækkun bóta nauðsynleg

Fleiri brýn hagsmunamál bíða úrlausnar fyrir hina nýju ríkisstjórn sem snerta kjaramál lífeyrisþega. Eitt af því mikilvægasta er að greiðslur almannatrygginga hækki verulega. Minnt er á að í aðdraganda kosninganna svaraði Framsóknarflokkurinn spurningum kjarahóps ÖBÍ á þá leið að brýnasta viðfangsefnið væri að hækka lífeyrisgreiðslur til aldraðra og öryrkja vegna kjaraskerðinga og kjaragliðnunar sem þeir hafa orðið fyrir á krepputímum. Mikilvægt er að það loforð standi, því frá 1. janúar 2009 til janúar 2013 hafa bætur hvorki náð að halda í við verðlagshækkanir, almenna launaþróun né hækkun lægstu launa. Þessi þróun leiddi til þess að meðaltekjur öryrkja hækkuðu einungis um 4,7% á þeim tíma á meðan launavísitala hækkaði um 23,5% og neysluvísitala um 20,5%. Þá þarf að hækka ýmis tekjuviðmið og frítekjumörk sem hafa verið fryst frá 2009 og hafa valdið því m.a. að sífellt færri fá ákveðna uppbótaflokka. Í fréttum RÚV þann 27. maí sl. staðfesti félagsmálaráðherra að kjör öryrkja og eldri borgara verða bætt. Skerðingarnar frá júlí 2009 verði afnumdar og bætur hækkaðar á kjörtímabilinu. Þá er gert ráð fyrir að leggja til fjármagn til að vinna að breytingum á almannatryggingakerfinu.

Endurskoða þarf lagafrumvarp um breytingar á almannatryggingakerfinu

Annað brýnt hagsmunamál sem ÖBÍ leggur áherslu á er nauðsyn þess að endurskoða lagafrumvarp um breytingar á almannatryggingakerfinu sem fyrrum velferðarráðherra lagði fram á Alþingi í mars sl. (Frumvarp til laga um lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegan stuðning. Þingskjal 1116 - 636. mál.) Frumvarpið varðar ellilífeyrisþega að mestu en snertir jafnframt örorkulífeyrisþega talsvert. Gert er ráð fyrir að öryrkjar verði fyrir enn meiri breytingum síðar hliðstæðum þeim sem ellilífeyrisþegar verða fyrir en mögulega með öðrum áherslum. Frumvarpið er mjög umfangsmikið og flókið og því getur verið erfitt að átta sig á þeim breytingum sem þar koma fram án haldbærrar þekkingar á málaflokknum. Við yfirferð þess kom ýmislegt í ljós sem breytir og/eða skerðir réttindi lífeyrisþega sem ÖBÍ taldi nauðsynlegt að skoða nánar og gera athugasemdir við. ÖBÍ sendi því fyrst inn umsögn þar sem greint var frá helstu viðbrögðum bandalagsins við frumvarpinu í heild en skilaði ítarlegri umsögn síðar. 

Í kosningabaráttunni kom fram í máli þáverandi velferðarráðherra að staða lífeyrisþega væri mun betri ef frumvarpið hefði náð fram að ganga og sú ríkisstjórn sem tæki við stjórnartaumunum var hvött til að flýta afgreiðslu frumvarpsins. ÖBÍ er ekki sammála þeim málflutningi því ef lagafrumvarpið verður samþykkt óbreytt telur ÖBÍ það ekki til hagsbóta fyrir lífeyrisþega þegar á heildina er litið. Það er ekki gert ráð fyrir að leiðrétta skerðingar en þess í stað að festa þær í sessi og draga enn frekar úr réttindum með auknum tekjutengingum og afnámi frítekjumarka sem gengur í berhögg við áherslur bandalagsins. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar kemur fram að fyrirliggjandi áform um breytingar á almannatryggingakerfinu verða endurmetin. ÖBÍ treystir því að stjórnvöld endurskoði málið á ný með sjónarmið bandalagsins í huga.

Velferðarmálin njóti forgangs

Forsætisráðherra hefur lýst því yfir að velferðarmálin munu njóta forgangs og á móti verður sparað annars staðar í ríkisrekstrinum. ÖBÍ bindur vonir við að þau orð standi enda er hér um sjálfsögð mannréttindi að ræða.

Lilja Þorgeirsdóttir, framkvæmdastjóri ÖBÍ

Ýmsir Tenglar:

Tengdar fréttir:

Greinar í vefriti ÖBÍ um kjaramál:

Ályktanir aðalfundar ÖBÍ 2012 um: