Efndir nýrrar stjórnar

Guðmundur Magnússon, formaður ÖBÍ
Guðmundur Magnússon, formaður ÖBÍ

Það er alveg ljóst að ef hin nýja ríkisstjórn ætlar að láta taka mark á sér, verður hún að taka sig á og koma með raunhæfar tillögur eftir allar þær væntingar sem hún hefur byggt upp.

Kosningaloforð

Í tengslum við kosningar til Alþingis í vor hélt Öryrkjabandalag Íslands tvo fundi með framboðunum, annan um mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF) og hinn um framfærslu öryrkja á Íslandi. Framboðin fengu öll spurningar til að svara skriflega og voru þau æði samhljóma. SRFF skyldi lögfestur, í það minnsta fullgiltur strax og lögfestur sem fyrst. Skerðingarnar frá  2009 skyldu afturkallaðar strax.

Nú bregður svo við að komið er fram frumvarp sem afturkallar tvær af sex skerðingum sem gerðar voru á kjörum öryrkja með lögum sem tóku gildi 1. júlí 2009. Það er mjög mikilvægt að leiðrétta þessar skerðingar og hvað varðar öryrkja er hér um grundvallarréttindi að ræða, sem eru þau að aldrei megi skerða grunnlífeyri lífeyrisþega með lífeyrissjóðsgreiðslum. Það er í samræmi við samkomulag ríkis og verkalýðsfélaga frá því að skylduaðild að lífeyrissjóðum var tekin upp hér á landi. Afturköllun skerðinganna kemur til með að hafa áhrif á mjög fámennan hóp öryrkja, en heldur fjölmennari hóp eldri borgara, enda eru þeir mun fleiri og hafa að jafnaði hærri greiðslur úr lífeyrissjóðum.

Það sem Öryrkjabandalagið gerir alvarlegastar athugasemdir við er að ekkert er rætt um hvenær og hvernig hinar fjórar skerðingarnar frá 1. júlí 2009 verða leiðréttar. Frá 1. janúar 2009 fram til mars 2013 hefur lágmarkstekjutrygging launafólks hækkað um 47.000 krónur en framfærsluviðmið almannatrygginga um 28.269 krónur (báðar upphæðir fyrir skatt). Á sama tíma hafa meðaltekjur öryrkja hækkað um 4,7% (einnig fyrir skatt).

Skerðingar á kjörum lífeyrisþega

Í góðærinu svokallaða var ekki hægt að hækka lífeyri almannatrygginga, þar sem „það myndi þýða svo mikla þenslu í samfélaginu“! Þegar fjármálakreppan skall svo á var sjálfsagt að byrja á að skerða kjör lífeyrisþega og taka úr sambandi lagagrein sem átti að tryggja að lífeyrir héldi í við launaþróun, eða að minnsta kosti við verðlagsvísitölu.

Það er margt sem setið hefur á hakanum hjá stjórnvöldum sem gera stöðu lífeyrisþega enn verri. Má þar nefna að frítekjumörk öryrkja hafa ekki hækkað frá 2009 og tekjuviðmið í reglugerðum að mestu verið óbreytt frá 2009 og jafnvel lengur. Þetta getur þýtt að þær örlitlu hækkanir sem þó hafa orðið skerða réttindi annars staðar þannig að fólk verður t.d. að  greiða mun meira fyrir þjálfun, lyf og lækniskostnað en sem nemur hækkuninni.

Er mikilvægt fyrir stjórnvöld að standa við kosningaloforðin?

Hér hefur verið leikinn ljótur leikur. Fyrir kosningar var stórum hópi kjósenda lofað gulli og grænum skógum, þ.e. þeim sem minnst hafa milli handanna og hafa mátt þola verulegar kjaraskerðingar frá efnahagshruni (öryrkjar og eldriborgarar reka líka heimili). En þegar á að efna loforðin þá er ekki svo mikilvægt að standa við þau, enda ekki um hóp að ræða sem greiðir milljónir í kosningasjóði flokkanna, eða hvað?

Öryrkjabandalagið skorar á ríkisstjórnina að taka sig nú á og leiðrétta kjör lífeyrisþega og sýna þannig í verki að hún sé ríkisstjórn allra landsmanna.

Guðmundur Magnússon, formaður Öryrkjabandalagsins