Fær ekki heimilisuppbót vegna hjúskaparstöðu

Einar Sigfússon
Einar Sigfússon

Einar Sigfússon, áður öryrki en nú ellilífeyrisþegi, er einn margra landsmanna sem nær ekki endum saman um hver mánaðarmót og safnar því upp skuldum sem hann sér ekki fram á að geta borgað. Einar býr á sveitabænum Efri – Skálateigi 2 rétt fyrir innan Neskaupsstað og hefur gert alla sína tíð. Eiginkona Einars býr á Akureyri þar sem hún er í endurþjálfun eftir alvarleg veikindi sem hún lenti í fyrir fjórum og hálfu ári. Hún þarf á mikilli aðstoð að halda sem Einar getur ekki veitt henni þar sem hann er sjálfur hjartasjúklingur og nær ógöngufær vegna hrörnunar og á hún ekki afturkvæmt á heimili þeirra í Fjarðarbyggð. Einar hefur því búið einn síðastliðin fjögur og hálft ár og án aðstoðar. 

Fékk synjun um heimilisuppbót

Fyrir rúmum þremur og hálfu ári var kona Einars komin með annað lögheimili og sótti hann þá um heimilisuppbót til Tryggingastofnunar ríksins (TR) sem fólk á rétt á samkvæmt lögum sem er einhleypingar, er eitt um heimilisrekstur og nýtur ekki fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögun við aðra um húsnæðisstöðu eða fæðiskostnað. Einar uppfyllir öll þessi skilyrði nema þau að vera einhleypingur. Hjúskaparstaða Einars í þjóðskránni er skráð sem hjónaband án samvistar. TR synjaði því umsókn Einars á þeim forsendum að hann væri kvæntur maður. Einar segir að sér finnist það harður kostur að fólk þurfi að skilja til þess að geta framfleytt sér ef annar aðilinn veikist og telur að um gróft mannréttindabrot sé að ræða.

Kærði niðurstöðurnar

Einar kærði ákvörðun TR til þáverandi heilbrigðisráðherra en kæran var framsend til úrskurðarnefndar almannatrygginga. Úrskurðarnefndin staðfesti ákvörðun TR um hálfu ári seinna. Segir nefndin m.a. í úrskurði sínum að „skilgreining á einhleypingi samkvæmt íslenskri orðabók (Edda, 2002) hafi verið á þann veg að um sé að ræða ógiftan eða ókvæntan mann.“ Kærandi sé því ekki einhleypingur og þrátt fyrir að hjónin eigi ekki sameiginlegt lögheimili breyti það samt ekki þeirri staðreynd að þau séu skráð í hjónaband og komi sú staðreynd í veg fyrir að kærandi uppfylli skilyrði 8. gr. laga um félagslega aðstoð nr. 99/2007.

Í framhaldi þessara niðurstaðna sendi Einar inn kvörtun til Tryggva Gunnarssonar umboðsmanns Alþingis í desember 2010. Niðurstöður umboðsmanns í málinu voru þær að úrskurður nefndarinnar væri byggður á réttum lagagrundvelli og sagðist hann ekki geta gert athugasemd við að úrskurðarnefnd hafi „lagt til grundvallar í málinu þann almenna málskilning að með einhleypingi sé í lagaákvæðinu átt við einstakling sem hvorki er í sambúð, staðfestri samvist né hjúskap.“

Einar hafði í kvörtun sinni bent á að samkvæmt reglugerð nr. 595/1997 um heimilisuppbót, sérstaka heimilisuppbót og frekari bætur samkvæmt 9. og 10. grein laga nr. 118/1993 væri ákvæði í 6. gr. þess efnis að vistaðist maki elli- eða örorkulífeyrisþega til frambúðar á stofnun væri heimilt að greiða makanum sem heima býr heimilisuppbót. Tryggvi segir í svarbréfi sínu til Einars: „Af gögnum málsins verður ráðið að eiginkona yðar hafi flutt til Akureyrar og leigt íbúð þar og verið ekið þaðan í þjálfun … með þetta í huga átti ákvæðið ekki við í máli yðar.“ 

Ástæður þess að Einar fær ekki heimilsuppbót

Þegar allt kemur til alls þá eru ástæður þess að Einar fær ekki heimilisuppbót sem gæti hjálpað honum við að ná endum saman þær að í fyrsta lagi er hann kvæntur og í öðru lagi vegna þess að kona Einars ákvað að leigja sér íbúð og fá þá þjónustu og aðstoð sem hún þarf á að halda heim og láta aka sér í þjálfun í staðinn fyrir að búa á stofnun. Einar telur að um gróflega mismunun og mannréttindabrot sé að ræða. Hann segir matargjafir vina og vandamanna hafa bjargað því að hann hafi ekki verið hrakinn af heimili sínu. Hann bendir á að samkvæmt stjórnarskránni skuli öllum veitt framfærsla til að geta framfleytt sér.

Ekki einn í þessari stöðu

Einar er aðeins einn margra landsmanna sem eru í þeirri stöðu að ná ekki endum saman og leita réttar síns til þess að geta lifað sómasamlegu lífi. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um það að verulegir gallar eru á kerfinu og lögum landsins ef kvæntum manni er synjað um heimilisuppbót sem ókvæntur maður í nákvæmlega sömu stöðu fær. Eða að maður sem fær heimilisuppbót vegna þess að kona hans er til frambúðar vistuð á stofnun á meðan maður sem á konu sem kýs að fá aðstoðina heim (án þess þó að geta búið með eiginmanninum) fær ekki sömu greiðslu.

Heimilisuppbót vegna langvarandi fjarveru maka sökum veikinda eða fötlunar

Öryrkjabandalagið hefur farið fram á það að ákvæði um heimild til að veita elli- og örorkulífeyrisþegum heimilisuppbót sem búa einir vegna vistunar maka til frambúðar á stofnun verði víkkað út þannig að það nái einnig til lífeyrisþega sem búa og halda einir heimili vegna fjarveru maka, sökum langvarandi veikinda eða fötlunar maka. Umboðsmaður Alþingis sér einnig ákveðinn aðstöðumun milli þessara tveggja hópa, eins og fram kemur í áliti hans í máli nr. 6250/2010 (vefslóð)[1]: „Umboðsmaður ákvað hins vegar að rita velferðarráðherra bréf og koma þeirri ábendingu á framfæri að gildandi fyrirkomulag fæli í sér ákveðinn aðstöðumun á milli annars vegar einstaklings sem býr heima og á maka sem er vistaður til frambúðar á stofnun og hins vegar einstaklings sem á maka sem þarf að dvelja um lengri tíma og jafnvel varanlega í öðru sveitarfélagi vegna veikinda þar sem hann sækir endurhæfingu og þjálfun.”

 

  • Ljóð eftir Einar 

Sómamaðurinn


Af sómamanni síst færð hnekki,

settu hann við hliðina á þér.

Knúsaðu en kremdu hann ekki,

kysstu ef að svo til ber.

 

Fólk er yfirleitt gott í grunn

en glepst til verri hátta

og mörg svo sál í sinni þunn

að sér ekki vel til átta.

 

Ríkisstjórn vor til sóma er sein

og sýnist flest gott bannað

er þjarma að okkur þjóðarmein

þjösnast hún eitthvað annað.


Höfundur ljóðs: Einar Sigfússon

 

 [1] http://www.umbodsmadur.is/ViewCase.aspx?Key=1546&skoda=mal