Ellen Calmon nýr formaður ÖBÍ

Ellen J Calmon formaður ÖBÍ
Ellen J Calmon formaður ÖBÍ

Ellen  Calmon var kjörin formaður Öryrkjabandalagsins þann 19. október síðastliðinn. Áður gegndi hún starfi varaformanns sem hún var kosin í á aðalfundi ÖBÍ 2012. Hún er menntaður grunnskólakennari, er með diplómagráðu í opinberri stjórnsýslu og stundar meistaranám í opinberri stjórnsýslu í dag. Ellen starfaði áður sem framkvæmdastjóri ADHD samtakanna en hefur einnig starfað við opinbera stjórnsýslu hjá Reykjavíkurborg sem verkefnisstjóri og ritari borgarstjóra,  fræðslu- og menningarfulltrúi í Seltjarnarnesbæ, kennari og flugfreyja.

Ellen er í sambúð með Karl Johan Tegelblom múrara og flugvirkjanema og saman eiga þau soninn Felix Hugo sem verður þriggja ára í júlí. Fyrstu árin sín bjó Ellen í Vesturbænum en fluttist síðar í Breiðholtið og bjó þar öll uppvaxtarár sín ásamt foreldrum sínum og yngri systur Katrínu Rós Calmon. Faðir Ellen heitir Eric Paul Calmon og er ættaður frá Perpignan í Suður- Frakklandi. Hann er matreiðslumeistari að mennt og rak fyrirtækið Íslenskt- franskt eldhús lengst af en starfar nú sem yfirmaður mötuneytis í Vatnsendaskóla í Kópavogi. Móðir Ellen heitir Guðbjörg Hulda Árnadóttir og er alin upp í Reykjavík. Hún starfar sem stuðningsfulltrúi í Fellaskóla. Þar sem Ellen á ættir að rekja til Frakklands og Johan sambýlismaður hennar kemur frá Stokkhólmi þá nýta þau gjarnan fríin sín til að heimsækja vini og ættingja í Svíþjóð eða Frakklandi.

Áherslur Ellenar

Í starfi sínu fyrir bandalagið segist Ellen vilja leggja áherslu á þátttöku ÖBÍ í umræðum um málefni aðildarfélaga bandalagsins. Hún telur mikilvægt að samfélagið skilji og styðji við málefni aðildarfélaganna þannig að hægt sé að búa öllum betra samfélag.

Einnig segist Ellen ætla að leggja áherslu á að kynna Sáttmála sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks fyrir almenningi og segir hún vinnu við þá kynningu þegar vera hafna. Þá segir hún að farið verði í almennt kynningarátak um málefni aðildarfélaga bandalagsins með ímyndavinnu sem þegar sé hafin og muni afrakstur þeirrar vinnu líta dagsins ljós á fyrsta fjórðungi ársins.  Ýmis málefni segir hún vera brýn og jafnvel brýnni en áður eins og t.d. húsnæðismálin. Þá vill Ellen leggja áherslu á allan þann fjölda barna og ungmenna sem hún segir skipa stærstan sess í mörgum af aðildarfélögum bandalagsins og vill hún gjarnan að bandalagið taki meira tillit til þeirra hópa í starfinu. Menntamálin segir hún vera varanlegustu endurhæfinguna og því sé mikilvægt að fólk með skerta starfsgetu, fatlaðir og öryrkjar fái tækifæri til menntunar. Að lokum segir Ellen kjaramálin vera eitthvað sem ávallt þurfi að vinna að.

Hér fyrir neðan má sjá viðtal við Ellen.

Viðtal við Ellen Calmon, formann ÖBÍ