Niðurstöður rannsóknar á búsetu fatlaðs fólks og þjónustu sveitarfélaga

Málþingsgestur með niðurstöður rannóknarinnar í hendi
Málþingsgestur með niðurstöður rannóknarinnar í hendi
Öryrkjabandalag Íslands fékk Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands og Rannsóknarsetur í fötlunarfræðum til að vinna rannsókn á búsetu fatlaðs fólks og þjónustu sveitarfélaga. Markmið rannsóknarinnar var að kanna aðstæður og reynslu íbúa sveitarféalganna sem eru fatlaðir eða öryrkjar og leita m.a. svara við því hvaða þættir hafa einkum áhrif á það hvar fatlað fólk kýs að búa og hvort og þá hvaða þjónustu sveitarfélaga það nýtir sér. Rannsóknin kannaði viðhorf fatlaðra, sveitarstjórnarmanna og almennings.
 

Mynd af ráðstefnugestum, tekið yfir salinnNiðurstöður rannsóknarinnar voru kynntar á fjölmennu málþingi 7. febrúar síðastliðinn. 

Samantekt helstu niðurstaðna skýrslunnar 

Skýrslan sjálf er væntanleg á komandi vikum þar sem enn ítarlegri upplýsingar munu koma fram. Meðal niðurstaðna í stuttri samantekt á helstu niðurstöðum má finna að:

  • Aðeins um 20% fatlaðs fólks nýtur þjónustu frá sveitarfélögunum, 78% segist ekki fá þjónustu, þar af töldu 40% sig þurfa á slíkri þjónustu að halda.
  • Þátttakendur voru beðnir að lýsa fjárhagslegri afkomu heimilis síns. Ríflega helmingur svarenda taldi það vera mjög eða frekar erfitt að láta enda ná saman.
  • Tæplega helmingur þátttakenda sagðist ekki vera í vinnu námi eða dagþjónustu þegar spurt var hvað þeir gerðu á daginn. Um 20% sögðust vera í launaðri vinnu án stuðnings, um 12% í endurhæfingu og um 9% sögðust vera í skóla.
  • Íslendingar reynast neikvæðari gagnvart atvinnuþátttöku fólks með geðsjúkdóma eða þroskahömlun heldur en þátttöku blindra og heyrnarlausra. Fólk er almennt jákvæðast gagnvart atvinnuþátttöku hreyfihamlaðra.
  • Konur voru líklegri en karlar til þess að vera sáttar við atvinnuþátttöku fatlaðra.

Einn af fyrirlesurum á málþinginu í pontuMestir fordómar gagnvart geðsjúkum og þroskaskertum

„Það sem er mest áberandi er neikvætt viðhorf til þeirra sem eru með geðraskanir,“ segir Guðbjörg Andrea Jónsdóttir félagsfræðingur í viðtali við Fréttablaðið 10. febrúar. Hún segir niðurstöðuna benda til þess að mestir fordómar í samfélaginu séu gagnvart geðsjúkum og þroskaskertum. 

Rannveig TraustadóttirÍ sömu rannsókn var könnuð virkni fatlaðs fólks og öryrkja. Reyndist 

tæplega helmingur þátttakenda vera óvirkur, það er án atvinnu, ekki í dagþjónustu og ekki í atvinnuleit. „Við sjáum að yfir áttatíu prósent fólks með meðfæddar skerðingar eru í skipulegri virkni. Aðrir skerðingarhópar eru mun síður í skipulegri virkni yfir daginn,“ segir Rannveig Traustadóttir, forstöðumaður rannsóknarseturs í fötlunarfræðum í sama viðtali. Rúmlega fjörutíu prósent fólks með geðsjúkdóma og sextíu prósent með stoðkerfissjúkdóma reyndust ekkert hafa við að vera á daginn. „Það er mikilvægt að leita ástæðna þess að svona stórir hópar hafa ekkert við að vera yfir daginn eða að kanna hvað þessir hópar eru að gera,“ segir Rannveig.  

Viljum skapa hundrað ný störf

Áður en niðurstöður rannsóknarinnar lágu fyrir hóf Öryrkjabandalagið samtal við Vinnumálastofnun og félagsmálaráðherra um að skapa hundrað ný störf fyrir fólk með skerta starfsgetu.

Ellen Calmon, framkvæmdastjóri ADHD samtakannaEllen Calmon, formaður ÖBÍ, bendir á að rannsóknin leiði jafnframt í ljós að munur var á viðhorfum starfsfólks sveitarfélaga og kjörinna fulltrúa hvort fatlað fólk þurfi á meiri þjónustu að halda.

„Starfsfólkið var líklegra til þess að telja ýmislegt upp á vanta, en kjörnu fulltrúarnir töldu að ýmsum markmiðum hefði verið náð. Þetta segir okkur kannski að það vanti þekkingu á málaflokknum. Ef til vill þurfum við að fara af stað með fræðslu fyrir sveitastjórnir um sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðra og fleira," segir Ellen í frétt Fréttablaðsins, hún telur að hægt verði að nýta niðurstöður rannsóknarinnar í þágu samfélagsins alls.


Sjá fréttir á RÚV  7. febrúar.
Viðtal við Rannveigu Traustadóttur í Fréttablaðinu, 10. febrúar
Viðtal við Ellen og Guðbjörgu í þættinum Í bítið, 10. febrúar.