Rittúlkun

Þórný Björk Jakobsdóttir
Þórný Björk Jakobsdóttir

Rittúlkun er fyrir alla þá sem eiga erfitt með að heyra það sem fram fer á opinberum stöðum og almennum viðburðum. Alls staðar þar sem fólk kemur saman og þarf eða langar til að heyra það sem fram fer. 

Orðanotkun

Þau hugtök sem notuð eru varðandi heyrnarleysi eru heyrnarlaus, döff og heyrnarskertur. Heyrandi sem hafa misst heyrn og eru með íslensku sem móðurmál tala almennt um sjálfa sig sem heyrnarskerta og þá sem hafa táknmál sem móðurmál sem heyrnarlausa. Tilfellið er að margir heyrnarskertir heyra mun verr en þeir sem skilgreindir eru heyrnarlausir. Hugtökin eru því oft mjög villandi hvað varðar getu til að heyra. Heyrnarlausir sem eru með táknmál sem móðurmál tala um sig sem döff og þá sem eru með íslensku sem móðurmál sem heyrnarskerta. Ég mun fylgja þeirri orðanotkun í greininni.

Rittúlkun

Rittúlkun fer þannig fram að rittúlkurinn situr við hlið þess sem heyrir ekki og vélritar allt sem fram fer, bæði það sem sagt er og umhverfishljóð, ef þau hafa áhrif á aðstæður. Ef fleiri en einn þurfa á rittúlkun að halda eins og á stórum fundum, ráðstefnum og slíkum viðburðum er rittúlkuninni varpað upp á tjald.

Rittúlkun er ekki ný af nálinni, hún hófst á Íslandi um 1994 og hóf undirrituð störf sem rittúlkur það ár. Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra (SHH) var stofnuð 1990 því döff þurftu á túlkaþjónustu að halda þegar talað væri við þá eða málefni þeirra væru til umfjöllunar svo að þeir gætu sjálfir haft áhrif á ákvarðanir sem vörðuðu þá. Upp úr þessu fóru þeir að mennta sig því nú höfðu þeir aðgengi að skólum.

Fyrirtækið Hraðar hendur

Árið 2000 hætti SHH að bjóða upp á rittúlkun og þurfa allir þeir sem vilja nýta sér þjónustu SHH að kunna táknmál. Reyndar sinnir SHH einnig daufblindratúlkun eftir þeim tjáskiptaleiðum sem þeir daufblindu sjálfir kjósa. Heyrnarskertir hafa því nánast ekki fengið þjónustu frá Samskiptamiðstöð heyrnarskertra frá þeim tíma. Á svipuðum tíma var stofnað fyrirtæki sem nefnist Hraðar hendur og voru stofnaðilar þrír, Sigrún Edda Theódórsdóttir sem sinnir táknmálstúlkun, Þórný Björk Jakobsdóttir sem sinnir rittúlkun og Anna Guðlaug Gunnarsdóttir sem sinnir táknmálskennslu. Allar starfa þær sjálfstætt en eru með sameiginlegt nafn.

Rittúlkun tiltölulega ósýnileg obinberlega

Það sem gerir það að verkum að rittúlkun er nánast óþekkt fyrirbæri er vöntun á fjármagni opinberra aðila. Þeir greiða einungis fyrir rittúlkun í menntakerfinu, dómskerfinu og heilbrigðiskerfinu. Rittúlkun á öðrum sviðum þurfa viðskiptavinir sjálfir að greiða, sem er mismunun. Á SHH er til svokallaður Þorgerðarsjóður sem notaður er til að greiða fyrir túlkun í félagslegum aðstæðum og geta heyrnarskertir sem nota rittúlk ekki sótt fjármagn í þann sjóð. Í kringum 2011 var beðið um að fá greitt úr þeim sjóði vegna jarðarfarar. Viðkomandi missti náinn ættingja og vildi vita hvað fram færi í kirkjunni en ekki fékkst fjármagn úr sjóðnum en hins vegar komu táknmálstúlkar fyrir gesti sem gátu nýtt sér það. Ættinginn varð að gera sér það að góðu að sitja í þögninni. Nú hefur Biskupsstofa sem áður greiddi einungis í sjóð SHH greitt í sjóð vegna kirkjulegra athafna sem geymdur er hjá Heyrnarhjálp.

Vegna þessara aðstæðna hefur rittúlkun verið tiltölulega ósýnileg opinberlega en með tilkomu textunar á beinum útsendingum á RÚV verður vonandi breyting þar á.

Valið þarf að vera til staðar

Í dag er það þannig að döff eru í ríkari mæli farnir að nýta sér rittúlkun, aðallega í háskóla. Sum fög eru þess eðlis að rittúlkun hentar betur en táknmálstúlkun, en það er einnig einstaklingsbundið. Valið þarf að vera til staðar og í boði fyrir alla. Í Þjóðleikhúsinu í Noregi geta heyrnarskertir til dæmis fengið lítinn skjá þegar þeir mæta þar sem allur texti er fyrirfram innsettur og spilast eftir því sem leikritinu vindur fram.

Menntun rittúlka og táknmálstúlka

Umræða hefur verið um hvort rittúlkun sé í raun túlkun, hvort það sé ekki bara ritað mál og þar af leiðandi eigi menntun rittúlka ekki að vera á háskólastigi. Ég hef sjálf velt því fyrir mér á hvaða skólastigi rittúlkun á heima, það eru kostir og gallar við öll skólastig. Ég hef oft heyrt að rittúlkun sé óæðra form túlkunar en táknmálstúlkun og því eigi það ekki samleið, en sem lærður táknmálstúlkur er ég því algerlega ósammála. Mitt mat er að rittúlkar eigi að fá mikið af sömu kennslu og táknmálstúlkar, íslensku, siðfræði, framkomu í túlkaaðstæðum, grunn í táknmáli o.fl. og að því leyti á þetta heima saman. Einnig hefur það aukist að döff nýti sér rittúlkun í ákveðnum aðstæðum og þá er betra að samræmi sé milli túlkaforma. Því allt snýst þetta um viðskiptavininn og að hann fái sem besta þjónustu.

Þórný Björk Jakobsdóttir

rittúlkur og táknmálstúlkur