Áskorun til stjórnvalda

ÖBÍ leggur mikla áherslu á að samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF) verði fullgiltur sem allra fyrst. SRFF er leiðarvísir að því hvernig tryggja skal fötluðu fólki mannréttindi og tækifæri til jafns við aðra í lífinu og gera því þannig kleift að vera virkir þátttakendur í samfélaginu. Samningurinn markar tímamót í allri mannréttinda- og frelsisbaráttu fatlaðs fólks. Samkvæmt framkvæmdaáætlun um málefni fatlaðs fólks átti að leggja fram frumvarp á vorþingi Alþingis 2013 til fullgildingar samningsins en það hefur ekki enn verið gert.

Á heimasíðu ÖBÍ (www.obi.is) er að finna áskorun til stjórnvalda um að fullgilda samninginn eigi síðar en á haustþingi 2015. ÖBÍ hvetur alla til að skrifa undir áskorunina. Samningurinn hefur tekið gildi í 151 ríki. Fjögur Evrópulönd eiga eftir að fullgilda hann, Ísland, Finnland, Írland og Holland. Ætlum við að verða síðust Evrópuríkja?

Um samninginn 

Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks ásamt valfrjálsri bókun var undirritaður fyrir hönd íslenska ríkisins 30. mars 2007. Í samningnum er útfært á nákvæman hátt til hvaða aðgerða stjórnvöld skuli grípa þannig að mannréttindi fatlaðs fólks séu tryggð á sama hátt og annarra. Með undirskrift skuldbinda íslensk stjórnvöld sig til þess að virða þau réttindi sem bundin eru í samningnum og að aðhafast ekkert sem gengur í berhögg við hann. Samningurinn er sérstakur að því leyti að hann var saminn í miklu samráði við grasrótina, en það hefur ekki verið reyndin með aðra mannréttindasáttmála. Mikil sátt og samstaða hefur ríkt um samninginn og kom það meðal annars fram við opnun hans en þá var hann undirritaður af meira en 80 ríkjum.

Ný nálgun

Samningurinn leggur upp með nýja nálgun í baráttu fatlaðs fólks fyrir réttindum sínum. Hér er um þróun að ræða sem víkur frá hjálpar eða ölmusu sjónarmiði til mannréttinda, en fyrrnefndu hugtökin hafa verið ríkjandi um árabil í málefnum fatlaðs fólks. Þessi nýja nálgun kemur fram í markmiði samningsins sem er að stuðla að því að fatlað fólk njóti allra mannréttinda og mannfrelsis til fulls og jafns við aðra. Skilgreining á fötlun samkvæmt samningnum byggir einnig á öðru sjónarmiði en því sem hefur verið ríkjandi í samfélaginu, en þar er litið til félagslegrar sýnar á fötlun. Í samningnum segir að fötlun sé breytingum undirorpin og að rekja megi hana til víxlverkunar milli skerðingar einstaklings, umhverfishindrana og viðhorfa gagnvart fötluðu fólki í samfélaginu. Bent er á að þessi atriði koma í veg fyrir fulla og virka þátttöku fatlaðs fólks í samfélaginu á jafnréttisgrundvelli. Samningurinn segir til um hvernig framkvæmd og eftirlit bæði innanlands og utan eigi að fara fram og er það nýnæmi að mannréttindasamningar Sameinuðu þjóðanna segi til um slíkt.