Ég átti svartan hund

Foríðumynd á bókinni ég átti svartan hund, maður situr á stól við vegg og skuggi hans er hundur
Forsíðumynd bókarinnar Ég átti svartan hund

Alþjóðlega metsölubókin Ég átti svartan hund sem Geðhjálp gaf út á íslensku í síðustu viku fjallar um þunglyndi og áhrif þess á líf fólks og upplifun. Geðhjálp bauð til málþings um þunglyndi í tilefni útgáfunnar og var ástralski rithöfundurinn og myndlistarmaðurinn Matthew Johnstone sem skrifaði og myndskreytti bókina heiðursgestur á málþinginu. 

Bókin á vafalaust erindi við marga en Alþjóða heilbrigðismálastofnunin (WHO) hefur gefið út að 1 af hverjum 15 Evrópubúum þjáist af þunglyndi og hlutfallið fari upp í 4 af hverjum 15 þegar allar gerðir þunglyndis og kvíða séu taldar með. Að jafnaði þjást 350 milljónir manna af þunglyndi í heiminum öllum. Ein milljón manna er talin taka líf sitt í tengslum við þunglyndi á hverju einasta ári. Þunglyndi fer sífellt vaxandi og stefnir í að verða annar útbreiddasti heilsufarsvandi í heiminum árið 2020.

Mynd úr bókinni af alls konar fólki með alls konar stærði af hundum í kringum sigMyndræn bók með lýsandi teikningum

Michael Johnstone þjáðist sjálfur lengi af þunglyndi en óttaðist að tala um það af hræðslu við fordæmingu annarra. Hryðjuverkaárásirnar 11. september 2001 í Bandaríkjunum breyttu viðhorfi hans til lífsins og ákvað hann þá að vinna í sínum málum. Bókin er stutt með litlum texta en með afskaplega lýsandi teikningum sem eru útfærðar á skemmtilegan hátt með einlægni en einnig húmor og von. Matthew segir sjálfur um bókina: 


Matthew að undirrita bókina sína á ráðstefnu Geðhjálpar„Fremur en að búa til sjálfshjálparbók lagði ég upp með að hanna í þessari bók sjónræna lýsingu á glímunni við þunglyndi. Ég er hvorki sálfræðingur, geðlæknir né annars konar sérfræðingur á þessu sviði. Mín eina aðkoma er að eiga að baki þá erfiðu reynslu að hafa þjáðst af þessum skelfilega sjúkdómi - Svarta hundinum. Hér er hann gerður að eins konar sjónrænum sendiherra þessa sjúkdóms. Svarti hundurinn er alltumlykjandi og illgjarn óvinur sem gegnsýrir gjörsamlega allt, líkt og dropi af bleki í vatnsglasi. Ég vona að þú getir deilt bókinni með maka þínum, foreldrum, systkinum, vinum og jafnvel læknum og öðrum meðferðaraðilum. Hún er sjónrænt verkfæri sem getur hjálpað þér að tjá þig um það sem þú eða einhverjir sem þú þekkir gangið í gegnum.“

Matthew varð heimsfrægur fyrir bókina en hún hefur verið gefin út í tuttugu löndum á þrjátíu tungumálum. Þegar hafa selst 200 eintök af bókinni hérlendis og er hún komin á metsölulista Eymundsson. Hjá Eymundsson er hægt að kaupa bókina, Iðu og í Máli og menningu á 2.990 kr. en einnig er hún fáanlega hjá Geðhjálp á 2.000 kr. 

Gesti á ráðstefnunni Svari hundurinnMargmennt á málþingi Geðhjálpar

Málþingið sem Geðhjálp stóð fyrir þann 6. maí síðastliðinn í tilefni af útgáfu bókarinnar var haldið á Hótel Reykjavík Natura og fylltu hvorki meira né minna en 260 manns salinn. Málþingið byrjaði á því að Hrannar Jónsson formaður Geðhjálpar hélt erindi sem bar heitið „Í föruneyti Svarta hundsins“ en Hrannar skrifar jafnframt inngagnsorðin í íslenskri þýðingu á bókinni. Kara Ásdís Kristinsdóttir verkefnisstjóri hjá Geðhjálp hélt þá erindið „Í feluleik með Svarta hundinum“. Hrannar og Kara sögðu frá persónulegri reynslu sinni af þunglyndi en Kara fæddist í karlkyns líkama og hefur gengið í gegnum kynleiðréttingarferli. Þá hélt Matthew að lokum erindi sitt um lífsreynslu sína af því að berjast við þunglyndi, sigurgönguna upp á við og tilurð bókarinnar. 

Anna Gunnhildur framkvæmdastýra Geðhjálpar á pontu að flyta ljóð

Málþingið endaði á sérlega ánægjulegum nótum þar sem Anna Gunnhildur Ólafsdóttir framkvæmdarstjóri Geðhjálpar, sem var fundarstjóri á málþinginu, las upp falleg ljóð og opnaði formlega nýjan vef Geðhjálpar. Tónlistarkonan Magga Stína steig svo á stokk í lokin og söng nokkur vel valin lög eftir Megas. 
Umsagnir 

Afskaplega vel er látið af bókinni en hér eru nokkrar umsagnir:

  • Frábær bók sem ég get ekki lofað nógsamlega. Bókin lýsir af miklu innsæi og næmi líðan þeirra sem þjást af þunglyndi. Með einföldum en áhrifaríkum texta og myndum er dregin upp skýr mynd af þeim vágesti sem þunglyndi er, á sama tíma og verkið gefur von og vísar veginn til bata. Þessi bók ætti að vera til á hverju heimili.“              
            Páll Matthíasson, geðlæknir, forstjóri Landspítala-Háskólasjúkrahúss.

  • „Lítil bók um stórt málefni. Svarti hundurinn er magnaður, því að skilaboðin eru svo einföld og skýr og hitta beint í mark. Svarti hundurinn ætti að vera til á hverju heimili því að hægt er að nota hann sem verkfæri til sjálfshjálpar og ekki síður til að auka skilning samferðarmanna á hegðun og líðan sem oft er svo óskiljanleg.“
           Elín Ebba Ásmundsdóttir, iðjuþjálfi.

  • „Ég átti svartan hund setur fram flókin fræði á yndislega einfaldan hátt. Myndirnar jafngilda mörg þúsund orða texta. Venjulega fyllist maður þunglyndi við að lesa bækur um efnið. Þessi bók stekkur þunglyndinu á brott með skemmtilegri framsetningu. Hún fræði og læknar.“
           Óttar Guðmundsson, geðlæknir. 

Gagnlegar vefsíður: