Jafn réttur á vinnumarkaði

Frá kröfugöngunni 1. maí, hópur fólks gengur saman með borða sem á stendur atvinna fyrir alla! Tryggjum  öllu fólki jafan rétt á atvinnumarkaði
Kröfuganga 1. maí 2015

Þann 1. maí síðastliðinn tók Öryrkjabandalag Íslands (ÖBÍ) þátt í kröfugöngu á hátíðisdegi verkalýðsins og fylkti félagsfólk ÖBÍ sér á bak við kröfu samtakanna um jafnan rétt á vinnumarkaði. Krafan um atvinnu fyrir alla er krafa um jöfn tækifæri fatlaðs fólks og örorkulífeyrisþega til atvinnuþátttöku með viðeigandi aðlögun og fjárhagslegum hvata. Þetta var megininntak boðskaps ÖBÍ í göngunni og er það í samræmi við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem ÖBÍ berst fyrir að verði fullgiltur eigi síðar en á haustþingi 2015. 

Ellen Calmon formaður ÖBÍ og Halldór Sævar varaformaður í göngunniOf fá hlutastörf og lítill sveigjanleiki

Í óformlegri könnun sem ÖBÍ gerði síðastliðið vor kom í ljós að fá hlutastörf með hæfilegum sveigjanleika og aðlögun voru í boði fyrir fatlað fólk og fólk með skerta starfsgetu. Hægt væri að bæta úr því með fjölgun hlutastarfa og auknum sveigjanleika á vinnutíma. Þá er nauðsynlegt að komið verði á löggjöf um bann við mismunun á vinnumarkaði á grundvelli fötlunar til að tryggja rétt fatlaðs fólks á vinnumarkaði þannig að það þurfi ekki að óttast að missa starf vegna fötlunar.

Fólk í göngunniÚtilokun frá þátttöku á vinnumarkaði

Mikill meirihluti örorkulífeyrisþega vill vinna eins og fram kemur í ýmsum rannsóknum. Hins vegar eru eingöngu rúm 30% þeirra með einhverjar atvinnutekjur. Aðspurðir telja þeir helstu hindranir fyrir atvinnuþátttöku fyrst og fremst tengjast hinum ýmsu þáttum vinnumarkaðarins. Næst koma miklar tekjutengingar almannatrygginga og heilsuleysi eða fötlun. Það er því stór hópur fólks á Íslandi sem upplifir að hann sé útilokaður frá þátttöku á vinnumarkaði.

Lítil barn í göngunni með buff ÖBÍ sem á stendur atvinna fyrir allaÁtaksverkefnið „Virkjum hæfileikana - alla hæfileikana“ 

Frá október 2014 hefur ÖBÍ unnið að átaksverkefni í samvinnu við Vinnumálastofnun og Landssamtökin Þroskahjálp þar sem stofnanir á vegum ríkis og sveitarfélaga voru hvattar til að ráða fólk með skerta starfsgetu. Síðustu mánuði hafa fulltrúar verkefnisins afhent um 300 ráðuneytum, ríkisfyrirtækjum og opinberum stofnunum handbrotinn fugl úr origami pappír. Gripurinn er merki verkefnisins en með afhendingu gripsins hvetja Vinnumálastofnun, ÖBÍ og Þroskahjálp viðkomandi aðila til að taka þátt í að auka atvinnutækifæri fólks með skerta starfsgetu. Því miður hafa einungis innan við 10 störf borist af tilstuðlan þessa verkefnis.

Fólk í göngunniFramfærsla skal tryggð

Þá er einnig mikilvægt að geta þess að í hverju samfélagi er og verður ávallt hópur fólks sem getur ekki og mun aldrei geta stundað vinnu. Þessum hópi samfélagsins sem og öðrum örorkulífeyrisþegum skal ávallt tryggð framfærsla sem er í takti við dæmigerða framfærslu hvers tíma og er í dag ríflega 300.000 krónur.

Lógó-mynd sem á stendur skorum á stjórnvöldÁskorun til stjórnvalda

ÖBÍ leggur mikla áherslu á að Samningur SÞ um réttindi fatlaðs fólks verði fullgiltur og lögfestur. Meðal réttinda sem eru tryggð í samningnum er réttur til framfærslu, annarrar félagslegrar aðstoðar og réttur til vinnu á vinnumarkaði án aðgreiningar. Á heimasíðu ÖBÍ www.obi.is er að finna áskorun til stjórnvalda um að innleiða Samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks. ÖBÍ hvetur alla til að skrifa undir áskorunina. Samningurinn hefur tekið gildi í 151 ríki. Fjögur Evrópulönd eiga eftir að innleiða hann, Ísland, Finnland, Írland og Holland. Ætlum við að verða síðust Evrópuríkja?

Áskorun á heimasíðu ÖBÍ 


Ýmsar greinar