Viðunandi framfærsla og virk þátttaka

Ellen Calmon formaður ÖBÍ í pontu að opna fréttamannafundinn
Ellen Calmon, Sigríður Ingólfsdóttir og Sigurjón Sveinsson


Á fréttamannafundi Öryrkjabandalagsins (ÖBÍ) þann 22. apríl hjá Hringsjá náms- og starfsendurhæfingu, var nýútkomin skýrsla ÖBÍ "Virkt samfélag" kynnt. Í skýrslunni er að finna tillögur ÖBÍ að heildstæðu kerfi starfsgetumats og framfærslu á grundvelli þess. Upphaf skýrslunnar má rekja til haustsins 2013 þegar Eygló Harðardóttir félags- og tryggingamálaráðherra skipaði nefnd um endurskoðun laga um almannatryggingar. Verkefni nefndarinnar var annars vegar að fjalla um kerfi starfsgetumats sem taki við af kerfi örorkumats og sveigjanleg starfslok. Hins vegar var verkefni nefndarinnar að fjalla um fjárhæðir lífeyrisgreiðslna til aldraðra og öryrkja.

Öryrkjabandalag Íslands (ÖBÍ) ákvað að vera leiðandi í þessari vinnu og setti af stað vinnuhóp til að kortleggja hugmyndir um starfsgetumat.

Uppfylla þarf skilyrði áður en innleiðing getur hafist

Í skýrslunni kemur fram að uppfylla þurfi nokkur skilyrði áður en innleiðing á starfsgetumati getur hafist. Fyrst þarf að lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Í öðru lagi þarf að samþykkja lög sem banna mismunun (m.a. á vinnumarkaði) og í þriðja lagi að tryggja fjölbreytt úrval hlutastarfa og meiri sveigjanleika á vinnumarkaði sem nýtist fólki með skerta starfsgetu.

Nemendur Hringjsjár sem voru á fréttamannafundinumStofnanakerfi stokkað upp

Í skýrslunni er lagt til að Tryggingastofnun ríkisins, Sjúkratryggingar Íslands og Vinnumálastofnun verði sameinaðar í eina stofnun, Vinnu- og velferðarstofnun (VVS) til að samþætta hlutverk þeirra. Ennfremur er lagt til að ný stofnun, Miðstöð starfsgetu og endurhæfingar (MSE) verði sett á laggirnar og hún hafi umsjón með og beri ábyrgð á framkæmd endurhæfingar- og starfsgetumats. Þannig verði aðgreint á milli mats og réttinda. Einnig er lagt til að allt ferlið lúti stjórnsýslulögum og allar ákvarðanir kæranlegar.

Áheyrandi í sal á fréttamannafundinumNýtt kerfi þarf að byggja á hvata

Kerfi starfsgetumats skal byggja á fjárhagslegum hvata til atvinnuþátttöku og bættu aðgengi fólks með skerta starfsgetu að vinnumarkaði. Einnig þarf að skapa aukinn hvata vinnuveitenda til að ráða fólk með skerta starfsgetu í vinnu. Jafnframt skuli litið til ábyrgðar stjórnvalda að skapa umhverfi sem sé hvetjandi bæði fyrir vinnuveitendur og einstaklinga. Fólki með skerta starfsgetu þarf að standa öflug stoðþjónusta til boða þeim að kostnaðarlausu til að auka virkni sína í samfélaginu.

Breytingar á greiðsluflokkum lífeyris

Í núverandi kerfi getur 75% örorkumat veitt rétt til fullra greiðslna. Mat upp á 50-74% örorku veitir lítinn sem engan rétt (örorkustyrk) og lægra mat veitir engan rétt. Þetta hefur talið óréttlátt og því er lögð til ný skipting sem ætlað er að vera hvetjandi og á sama tíma stuðla að því að einstaklingar falla ekki algerlega af greiðslum ef staða þeirra batnar að einhverju leiti.

Einföldun lífeyriskerfisins og hækkun lágmarkslífeyris

Lagðar eru fram tillögur um einföldun lífeyriskerfisins, hækkun lágmarksviðmiðs og að dregið verði verulegu úr tekjutengingum. VVS tryggi öllum viðunandi framfærslu, en það verður svo stofnunarinnar að sækja greiðslur sem aðrir aðilar eiga að greiða. Upphæð lágmarksviðmiðs í skýrslunni byggir á útreikningi kjaragliðnunar en ofan á lágmarksviðmið bætast síðan aðrir greiðsluflokkar.

Nánari upplýsingar veitir Ellen Calmon formaður ÖBÍ í síma 694 7864.