Búum við í mannréttindasamfélagi?

Ellen Calmon formaður ÖBÍ
Ellen Calmon formaður ÖBÍ
Í ályktun aðalstjórnar ÖBÍ frá 27. maí 2015 var gerð sú krafa að lífeyrir almannatrygginga hækki að lágmarki í samræmi við krónutöluhækkun lægstu launa í yfirstandandi kjarasamningagerð. Lágmarkslaun (lágmarkstekjutrygging í dagvinnu) voru hækkuð um 31.000 kr. þann 1. maí síðastliðinn og eiga að hækka um 15.000 kr. á næsta ári, eða samtals um 46.000 kr. [1]. 

Í frumvarpi til fjárlaga 2016 kemur fram að lífeyrir almannatrygginga eigi að hækka um 9,4% næstu áramót. Það er hækkun upp á rúm 18.000 - 22.000 kr. (fyrir skatt) fyrir lífeyrisþega með óskertar greiðslur. Aðrir lífeyrisþegar fá minna, en vegna mikilla tekjutenginga er fátítt að fólk fái óskertar greiðslur.

Lágmarkslaun munu því hækka rúmlega helmingi meira en lífeyrir almannatrygginga auk þess sem hækkun lágmarkslauna kemur átta mánuðum fyrr til framkvæmda en hækkun lífeyris. Skilaboðin frá stjórnvöldum eru að lífeyrisþegar, sem fæstar krónur hafa, geta beðið með þrengri sultaról. Finnst þér það í lagi?

Boðuð hækkun er talsvert undir væntingum, kemur seint og óásættanlegt er að hún fylgi ekki hækkun lágmarkslauna. Því er ljóst að lífeyrisþegar munu ekki fá nauðsynlega kjarabót samkvæmt fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi.

Skýlaus mismunun

Framfærsluviðmið TR fyrir elli-, örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega er vel undir lágmarkslaunum en lágmarkslaun eru í dag um 245.000 kr. Framfærsluviðmið TR er í dag rúmar 193 þús kr., útborgað rúmar 172 þús kr.[2] Mikill meirihluti eða ríflega 70% lífeyrisþega fá ekki greidda svokallaða heimilisuppbót og er því eðlilegra að bera hækkun lágmarkslauna saman við hækkun framfærsluviðmiðs án heimilisuppbótar. Við hjá ÖBÍ lítum svo á að örorkulífeyrisþegum eigi að vera tryggð framfærsla í takti við dæmigert neysluviðmið velferðarráðuneytisins, að viðbættum húsnæðiskostnaði.

Staða launþega og lífeyrisþega er um margt ólík. Launþegar eru oftast á lágmarkslaunum í mjög stuttan tíma. Áætlað er að einungis um 1% þeirra séu á lágmarkslaunum. Launþegar hækka í launum með auknum starfsaldri, menntun og lífaldri auk þess sem ýmsir aðrir þættir hafa áhrif á launahækkun. Þeir verða auk þess ekki fyrir tekjulækkun við að fara í sambúð, ganga í hjónaband eða að búa með öðrum fullorðnum einstaklingi. Lífeyrir almannatrygginga er hins vegar framfærsla fólks um lengri tíma, oft árum og áratugum saman. Örorkulífeyrisþegi verður fyrir kjaraskerðingu búi stálpað barn þess á heimilinu sem er 18 ára eða eldra. Í flestum íslenskum fjölskyldum búa börnin heima þar til framhaldsskóla og jafnvel háskólanámi lýkur, án þess að það hafi bein áhrif á tekjur foreldra þeirra. Finnst þér þetta fjölskylduvænt? 

En hvernig hefur þróunin verið frá því núverandi ríkisstjórn tók við?

Á árunum 2014 og 2015 hækkaði framfærsluviðmið TR samtals um 12.193 kr. og lágmarkslaun um 41.000 kr. Ef við bætum við fyrirhuguðum hækkunum fyrir árið 2016, þá munu lágmarkslaun hækka um 56.000 kr. á meðan framfærsluviðmið almannatrygginga hækkar um rúmar 30.000 kr. Svipuð þróun varð árin 2008 til 2013 eins og fram kemur í skýrslu sem Talnakönnun ehf[3] gerði fyrir ÖBÍ. Telur þú þessa hækkun duga svo fólk geti lifað mannsæmandi lífi á Íslandi í dag? 

Bifreiðastyrkur skorinn niður

Í frumvarpi til fjárlaga 2016 eru framlög í formi styrkja til bílamála fatlaðs fólks skorin niður um 140 milljónir króna á meðan hækka hefði þurft framlögin um 210 milljónir króna. Að eiga bifreið er í mörgum tilfellum mikilvægasta leiðin fyrir fatlað fólk til þess að geta tekið virkan þátt í samfélaginu. Þá kemst fólk leiðar sinnar, er ekki upp á aðra komið og þarf ekki að reiða sig á eina ferð á dag með Ferðaþjónustu fatlaðra. Margt hreyfihamlað fólk getur ekki keyrt óbreyttan bíl heldur þarf að sérútbúa bílana með búnaði sem hæfir hverjum og einum. Eðli málsins samkvæmt fylgir þessu ákveðinn kostnaður og er því gríðarlega mikilvægt að fatlað fólk fái styrki til að standa undir þeim kostnaði. Ríksstjórnin talar fyrir aukinni þátttöku fatlaðs fólks í samfélaginu sem er vel, en sýnir að sama skapi ótrúlega skammsýni í fjárlagafrumvarpinu sem nú liggur fyrir þar sem segir að skera skuli niður styrki vegna bifreiðakostnaðar til fatlaðs fólks um 140 milljónir króna. Finnst þér það klókt?

Að ofangreindu skrifuðu þá hvet ég ríkisstjórnina til að horfa til mannréttinda í fjárlagagerð og endurskoða frumvarpið þannig að verulegar breytingar verði á við aðra umræðu.

Ellen Calmon, formaður ÖBÍ


[1] Skv. kjarasamningi SA og Starfsgreinasambandsins.
[2] Á öðrum ársfjórðungi 2015 voru 34% örorkulífeyrisþega með heildartekjur við eða undir framfærsluviðmiðum TR.  Framfærsluviðmið með heimilisuppbót árið 2015 er 225.070 kr.
[3] Þróun bóta öryrkja 2008-2013: Samanburður við  helstu vísitölur. Talnakönnun ehf. http://www.obi.is/utgafa/skyrslur/