Framkvæmd SRFF innan Evrópusambandsins

Sigurjón Unnar Sveinsson, lögfræðingur ÖBÍ
Sigurjón Sveinsson, lögfræðingur ÖBÍ

Markmið ráðstefnunnar var að tryggja rétta framkvæmd samningsins og fulla innleiðingu hans. Evrópusambandið staðfesti samninginn með formlegum hætti þann 23. desember 2010 og varð þar með fyrsta svæðisbundna samstarfsstofnunin til þess að gerast aðili að alþjóðasamningi. Í dag hafa 156 ríki fullgilt samninginn en aðeins fimm Evrópuríki eiga það eftir; Mónakó, Holland, Írland, Finnland og Ísland. 

Fyrir fundinn lá skýrsla sem Evrópusambandið hafði sent nefnd Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Þeirri var svarað með svokölluðum skuggaskýrslum, m.a. frá samtökum fatlaðs fólks, sem sendar voru til nefndarinnar. Nokkrum dögum fyrir fundinn kom svokallaður listi álitamála (e. list of issues) nefndinni. Á þeim lista tók hún saman þau álitamál sem þyrfti að skoða frekar innan Evrópusambandsins og fá svara við. Umræður á fundinum tóku að stórum hluta mið af þeim álitamálum sem þar voru nefnd. Fundafyrirkomulagið var með þeim hætti að þátttakendur deildu reynslu sinni með það að leiðarljósi að vinna að lausnum á sameiginlegum áskorunum. 

Hagræðingarráðstafanir hafi seinkað mannréttindum

Meðal þeirra sem kynntu skuggaskýrslu sína á ráðstefnunni var Donata Vivanti frá EDF.Hún var mjög ákveðin í gagnrýni sinni á hagræðingarráðstafanir ríkjanna í kjölfar efnahagsniðursveiflunnar. Hún sagði slíkar ráðstafanir hafa gengið lengra en nauðsynlegt hefði verið og þær hafi seinkað því að mannréttindi fatlaðs fólks næðust. Þá sagðist hún vilja sjá nýja heildræna löggjöf um réttindi fatlaðs fólks sem bannar mismunun á öllum sviðumjafnréttislöggjöf og nýja heildræna aðgengislöggjöf. Flest, ef ekki öll aðildarríkin sagði hún þurfa að laga löggjöf sína í samræmi við 12. gr. samningsins, um gerhæfi einstaklinga (e. legal capacity). Catherine Naughton frá EDF kynnti einnig lykilatriði úr skuggaskýrslu EDF. Hún nefndi að framkvæmdin væri ekki að fullu í samræmi við 3. mgr. 4. gr. samningsins, það er að samráð við hagsmunaaðila væri ekki unnið á einhverjum föstum grunni. Þá vanti heildar aðgengislöggjöf og heildar jafnréttislöggjöf sem nær yfir öll svið. Hún nefndi einig mikilvægi þess að hugtakanotkun samningsins nái yfir alla texta.  Ferðafrelsi væri aðgengismál. Fjármögnun verkefna verður að vera í samræmi við samninginn og ótækt er að ESB skuli byggja óaðgengileg mannvirki. Hún undirstrikaði mikilvægi þess að samþætta starf ESB við stöðu og réttindi fatlaðra kvenna og barna. Sérstaklega varðand löggjöf og stefnumótunarvinnu. Um eftirlit skv. 33. gr. er áskorun.

Aðgengi að upplýsingum þarf að tryggja

Frá ítölsku hagstofunni var mættur Roberta Crialesi sem fjallaði um tölfræðivinnslu á landsvísu út frá sinni stofnun. Ein helsta áskorunin sem þau standa frammi fyrir eru mismunandi skilgreiningar á fötlunarhugtakinu. Leiðarstefin sem þau vinna eftir eru: Aðgengi að upplýsingum þarf að tryggja og upplýsingarnar þarf að tryggja á ákveðnu formi. Þá sagði Crialesi að þau væru að vinna að bæði sínum eigin tölfræðivísum og nýjum vísum sem væri áskorun á landsvísu sem og alþjóðaleg og bendi á mikilvægi þess að hafa virkt eftirlit.

Réttindi nýja nálgunin

Dimitros Skempes frá Háskólanum í Lucerne fjallaði um hlutverk hins borgaralega samfélags. Hann benti á að réttindin hafi ekki verið á brennidepli þegar fyrst var unnið að tölfræðisöfnun tengt fötlun. Nálgunin hafi meira verið á einstaklingsbundna þætti og virkni einstaklingsins. Skempes sagði hlutverk hins borgaralega samfélags, þar á meðal fræðimanna og samtaka fatlaðs fólks, vera m.a. að brjóta þetta upp og sagði að í dag væri nálgunin orðin önnur, þ.e. meira réttindatengd. Hann nefndi einnig að grunnurinn að því að geta farsælast væri ávallt að byggja tilmæli á þekkingu.

Mannréttindabrot innan Evrópu

Oana Girlescu frá MDAC, (Mental Disability Advocacy Center) hélt fyrirlestur um búsetuúrræði, sem fjármögnuð hafa verið af uppbyggingarsjóðum Evrópusambandsins. Sýndar voru myndir af börnum hlekkjuðum við rúm sín. Í máli Andor Urmos yfirmanns uppbyggingarsjóðanna kom fram að slík fjármögnun, sem gengur gegn samningnum hafi orðið til þess að reglum og framkvæmd uppbyggingarsjóðanna hafi verið breytt til að tryggja að eftir samningnum væri farið.  

Mín upplifun - lokaorð

Fyrir fundinn átti ég ekki endilega von á því að hann myndi hreyfa við mér,frekar átti ég von á þurrum og jafnvel leiðinlegum fundi, enda verður Evrópusambandið seint þekkt fyrir að halda skemmtifundi. Þó verð ég að segja að þegar ég gekk af fundinum átti ég svolítið erfitt með að greina afar sérstaka tilfinningu sem barst um í mér, með svolítinn kökk í hálsinum en samt brosandi. Ég held að kökkurinn hafi komið til vegna þess að maður sá þarna myndir af grimmum mannréttindabrotum sem hafa verið fjármögnuð af uppbyggingarsjóðum Evrópusambandsins. Brosið kom vegna þess að hlutirnir virtust á réttri leið, þ.e. allavega ekki sama stöðnunin í mannréttindamálum fatlaðs fólks eins og á Íslandi. Einnig virtist enginn feluleikur vera í gangi og allir með einbeittan vilja til þess að gera hlutina eins vel og hægt er.

Ráðstefnan undirstrikaði það að samningurinn verður sterkt tæki til þess að koma á raunverulegu jafnrétti. Markmiðið um jafnrétti allra er eitthvað sem við eigum að láta okkur öll varða. Ráðstefnan veitti einnig góða innsýn í ferilinn sem fer af stað eftir fullgildingu samningsins hér á landi. Þegar ríkisvaldið verður búið að skrifa sínar skýrslur um framkvæmd samningsins munum við í ÖBÍ, væntanlega í samstarfi við fleiri aðila, skrifa skuggaskýrslu um stöðuna hér á landi. Við megum alveg byrja strax á því að byrja að safna í sarpinn, því samningurinn verður fullgiltur innan skamms. Það er ekki eftir neinu að bíða.

Sigurjón Unnar Sveinsson, lögfræðingur hjá ÖBÍ