Hvatningarverðlaun ÖBÍ 2016

Verðlaunahafar í Hörpu í desember 2016.
Verðlaunahafar í Hörpu í desember 2016.

Hvatningarverðlaun Öryrkjabandalags Íslands voru veitt við hátíðlega athöfn í tíunda sinn á alþjóðadegi fatlaðs fólks, 3. desember síðastliðinn, í Hörpu. Tilgangur verðlaunanna er að varpa ljósi á þá sem hafa með jákvæðum hætti stuðlað að einu samfélagi fyrir alla. Þau eru veitt í þremur flokkum, flokki einstaklinga, flokki fyrirtækja eða stofnana og flokknum umfjöllun eða kynning.

Verndari verðlaunanna er Hr. Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands. Hann gat ekki verið viðstaddur hátíðina að þessu sinni. Í kveðju til gesta sagði hann að hvatningarverðlaunin hefðu falið í sér brýn og hugsjónarík skilaboð og heiðrað frumherja og brautryðjendur á fallegan hátt, fólk sem hefði gert samfélagið betra.

Í ávarpi sínu á verðlaunafhendingunni sagði Ellen Calmon, formaður ÖBÍ, að árið 2016 hefði verið merkilegt í sögu mannréttindabaráttu fatlaðs fólks á Íslandi, því Alþingi fullgilti samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF).

Við athöfnina afhenti ÖBÍ einnig styrki til þess íþróttafólks sem keppti á Ólympíumóti fatlaðs fólks sem haldið var í Brasilíu í september. Ólympíufararnir voru  Helgi Sveinsson spjótkastari, Jón Margeir Sverrisson sundmaður, Sonja Sigurðardóttir sundkona, Thelma Björg Björnsdóttir sundkona og Þorsteinn Halldórsson bogfimimaður og fékk hvert þeirra 200.000 króna styrk frá ÖBÍ.

Í flokki umfjöllunar eða kynningar fékk femíníska hreyfingin Tabú verðlaunin fyrir fræðslu og markvissa umfjöllun um stöðu fatlaðs fólks í samfélaginu og að beina sjónum sínum að margþættri mismunun gagnvart fötluðu fólki.

Freyja Haraldsdóttir, ein talskona Tabú, segir að hreyfingin beini sjónum sínum að margþættri mismunun gegn fötluðu fólki. Hún sé sprottin af baráttukrafti kvenna, sem hafa ekki einungis upplifað misrétti á grundvelli fötlunar og kyngervis, heldur einnig mögulega kynhneigðar, kynþáttar og aldurs svo eitthvað sé nefnt.

„Tabú er hreyfing sem stuðlar að öruggu rými og skapar vettvang fyrir fatlað fólk þar sem það getur sagt sögu sína, deilt sameiginlegri reynslu og haft áhrif á samfélagið án þess að upplifa fordæmingu, hatur og ofbeldi,“ segir Freyja. „Við viðurkennum að ofbeldi er hversdagslegur veruleiki fatlaðs fólks og vinnum gegn því og styðjum alla til þess að rjúfa þögnina og tala um það sem ekki má.“

Freyja segir verðlaunin hvatningu fyrir Tabú og um leið áminningu um verðmæti þeirrar vinnu sem hreyfingin leggi á sig í mannréttindabaráttu fatlaðs fólks. Erfitt sé að segja til um hvert stefnan sé tekin til frambúðar því starfsemi Tabú reiði sig á tilfallandi styrki og mikla sjálfboðavinnu.

„Við munum fyrst og fremst leggja okkur fram um að vera vettvangur þar sem fatlað fólk, einkum konur og transfólk, kemur saman til þess að deila þekkingu og reynslu, rjúfa þögnina og stuðla að samfélagsumbótum,“ segir Freyja. Hægt er að fylgjast með á www.tabu.is, einnig á Facebook og Twitter undir myllumerkinu #tabufem.

Í flokki einstaklinga fékk Friðrik Sigurðsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Þroskahjálpar, verðlaun fyrir störf sín í þágu fólks með þroskahömlun og aðstandendur þeirra. Friðrik hefur unnið mikið frumkvöðlastarf í málefnum fatlaðs fólks og verið óþreytandi í hugsjónastarfi sínu fyrir mannréttindum og sýnileika fatlaðs fólks.

 „Ég býst við að litið hafi verið til þess meðal annars við ákvörðun dómnefndar,“ segir Friðrik. „Um ævistarf mitt er að ræða. En það er ef til vill erfitt að átta sig á hvað það er sérstaklega sem dómnefndin hefur talið viðurkenningarvert.“

Frá árinu 1994 til 2015 gegndi Friðrik stöðu framkvæmdastjóra Landssamtakanna Þroskahjálpar. Í störfum sínum þar stóð hann meðal annars að verkefnum þar sem lögð var áhersla á að fólk með þroskahömlun sé sjálft þátttakendur í hagsmunabaráttu sinni og þátttaka þeirra sé með þeim hætti að eftir því sé tekið.  „Ég hef verið svo lánsamur að vera í samstarfi við gott fólk til að koma á laggirnar nokkrum verkefnum  af þessum toga,“ segir Friðrik. „Þrjú þeirra hafa m.a. hlotið Hvatningarverðlaun ÖBÍ.“

Þar á meðal er listahátíðin List án landamæra sem á upphaf sitt til Evrópuárs fatlaðs fólks árið 2003. Slík hátíð hefur verið árlegur viðburður síðan þá og var fyrsta hátíðin jafnframt tengd 10 ára afmæli Átaks, sem er félag fólks með þroskahömlun. Þroskahjálp hefur verið virkur þátttakandi í þessari hátíð frá upphafi.

Þá hefur Friðrik tekið þátt í verkefninu Sendiherrar samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Landssamtökin Þroskahjálp tóku þá ákvörðun þegar samningurinn var undirritaður að gera það sem í þeirra valdi stæði til að samningurinn væri verkfæri fyrir fatlað fólk sem það sjálft gæti beitt. Með styrk frá Evrópusambandinu og í samvinnu við Fjölmennt stóðu samtökin að fræðslu til sjö einstaklinga um hugmyndafræði og ákveðnar greinar samningsins. Sendiherrar eru ennþá að störfum og hafa ferðast víða og kynnt samninginn fyrir fjölda fatlaðs fólks og einnig starfsmönnum sem aðstoða fatlað fólk, embættismönnum og fleirum.

Þriðja verðlaunaverkefnið segir Friðrik sé gerð þáttanna Með okkar augum. „Hugmyndin gekk út á að fólk með þroskahömlun gerði sjónvarpsþætti með blönduðu efni til sýningar. Verkefnið byrjaði á námskeiði við Kvikmyndaskólann undir stjórn Elínar Sveinsdóttur, sem frá upphafi hefur verið framleiðandi þáttanna. Til að gera langa sögu stutta þá hafa nú verið sýndar 6 þáttaraðir hjá RÚV, alls 36 þættir. Þeir hafa fengið einróma lof, mikið áhorf og margvíslegar viðurkenningar og hafa margoft verið tilnefndir til Eddu verðlauna.“

Friðrik segir ánægjulegt að fá viðurkenningu fyrir störf sín frá hagmunasamtökum skjólstæðinga sinna. „Það styrkir mann í þeirri trú að það sem maður hafi lagt til og haft að leiðarljósi hafi fallið einhverjum í geð, þó allt orki tvímælis þá gert er.“

Hvað varðar áframhaldandi starf og hvernig viðurkenningin nýtist  honum þá segir Friðrik að hann sé þar staddur á lífsleiðinni að farið sé að hægjast um hjá honum eftir langt starf. Þegar hann hóf störf fyrir rúmum 43 árum hafi gilt lög um fávitastofnanir. Margt hafi breyst til batnaðar í þjónustu og viðhorfum til fatlaðs fólks síðan þá. Ef til vill sé tilgangur hvatningarverðlauna ekki síður sá að hvetja aðra til dáða en þann sem verðlaunin hlýtur. Framundan sé barátta fyrir því að allt fatlað fólk hljóti viðurkenningu sem hluti af margbreytileika hvers samfélags, fólk sem búi við sömu lífskjör og gæði og aðrir.   

Í flokki fyrirtækja og stofnana fékk Dagsól, sem rekur verslunina Next, verðlaun fyrir metnaðarfulla starfsmannastefnu sem felur meðal annars í sér að ráða fólk með skerta starfsgetu. Um 20% starfsmanna fyrirtækisins eru með skerta starfsgetu. Þá er aðgengið í verslun Next til fyrirmyndar.

Guðmunda Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Next, segir að vinnustefna fyrir tækisins feli það í sér að vinnustaðurinn sé opinn. Hægt sé að gefa fólki tækifæri til að vinna í versluninni ef það geti það og vilji – þó svo að það sé bara hluta úr degi þá vilji fyrirtækið reyna að púsla því saman.

„Það hefur tekist hjá okkur ágætlega í lagarestörfum í samstarfi við félag heyrnarskertra,“ segir Guðmunda. „Það samstarf er mjög gott.“

Guðmunda segir að þessi stefna hafi haft góð áhrif á rekstur fyrirtækisins þar sem þetta fyrirkomulag henti versluninni og lagerstarfinu mjög vel. „Við teljum líka að starfsfólk verslunarinnar verði jákvæðara í garð annarra og beri virðingu fyrir samstarsfólki sínu á breiðari grunni en annars.“

Guðmunda segir að þessari stefnu verði haldið áfram. Hvatningarverðlaun ÖBÍ hafi mjög jákvæða þýðingu fyrir fyrirtækið og stjórnendur hafi fundið fyrir því að fólk sé mjög ánægt með hana.