Kjör örorkulífeyrisþega til umræðu á Alþingi

Nærmynd af Alþingishúsinu. Sparigrís og reiknivél.
Umræður um kjör örorkulífeyrisþega á Alþingi.

Kjör örorkulífeyrisþega voru til umræðu á þingfundi á Alþingi 1. febrúar síðastliðinn. Oddný G. Harðardóttir, formaður þingflokks Samfylkingarinnar, óskaði eftir umræðunni til að fá fram áherslur og stefnu nýrrar ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Besta flokksins og Viðreisnar og þá hvernig og hvort bæta ætti kjör öryrkja á kjörtímabilinu. Þá vildi hún kanna hvort ráðast ætti í kerfisbreytingar á örorkulífeyri.

Oddný sagði það staðreynd að kjör örorkulífeyrisþega hefðu ekki batnað í sama hlutaflli og annarra á Íslandi. Þá hefði ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks aukið vægi sérstöku framfærsluuppbótarinnar og þar með krónu-á-móti-krónu skerðingarinnar. Hún spurði Þorstein Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra og þingmann Viðreisnar, hvort hann hyggðist beita sér fyrir því að atvinnuletjandi skerðingum yrði breytt?

Þá ræddi Oddný þá stefnu nýrrar stjórnar að taka upp starfsgetumat og spurði hvort ráðherra muni í því sambandi kynna sér vandlega reynslu annarra landa af slíku. Vék hún sérstaklega að Bretlandi þar sem rannsóknir sýndu að reynslan hefði verið slæm og taldi um leið rétt að horfa til Noregs þar sem framkvæmd starfsgetumatsins hefði gengið eitthvað betur.

Félagsmálaráðherra svaraði því til að fyrir dyrum stæði endurskoðun á bótafyrirkomulagi örorkubóta og skerðingum með sama hætti og gert hafi verið gagnvart öldruðum. Það yrði vonandi með einföldun þar sem um samræmda skerðingu tekna yrði að ræða. Því yrði lokið sem fyrst.

Þá sagði Þorsteinn það ofarlega á forgangslista ríkisstjórnarinnar að taka upp og innleiða starfsgetumat. Hann sagði að glímt væri við örorkuvanda. Þar sem hlutfall fólks á aldrinum 16-60 ára með örorkulífeyri hefði farið úr u.þ.b. 3% upp í 9% á þremur áratugum. Þetta snúi ekki bara að kostnaði almannatrygginga heldur fyrst og fremst að lífsgæðum fólks og tækifærum sem standi því til boða.

„Þess vegna leggjum við stóraukna áherslu á starfsgetumat og í framhaldi af því starfsendurhæfingu,“ sagði Þorsteinn. Hann sagði að horfa þyrfti til þess hvernig tekist hefði til í endurhæfingu í gegnum Virk, sem hefði náð ágætis árangri. Við endurskoðun laganna þurfi að skoða hvernig ná megi betur utan um málið því sum tilvik séu þyngri en önnur og það þurfi að veita meiri stuðning þegar komi að því að fólk ljúki starfsendurhæfingu og leiti að starfi eða fari í nám. Þá þurfi að horfa til sálfræði- og geðheilbrigðisþjónustunnar bæði í grunn- og menntaskólum.

Steinunn Þóra Árnadóttir, þingkona Vinstri grænna, sagði að auðvitað væri gott að líta til getu fólks fremur en vangetu en ekki megi láta orð afvegaleiða fólk. „Þess vegna er mikilvægt þegar talað erum breytingar og jafnvel einföldun á almenna tryggingakerfinu, og þá er oft talað um það að taka upp starfsgetumat, að það verði aldrei til þess að grunnnetið í velferðarkerfinu verði einfaldlega svo gisið að fólk falli á milli möskvanna.“

Teitur Björn Einarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði að kaupmáttur öryrkja hefði vaxið jafnt og þétt síðustu ár þökk sé m.a. aukinni hagsæld og stjórn ríkisfjármála. Þá væri starfsgetumat að öllum líkindum árangursríkari leið en núgildandi örorkumat til að stuðla að því að fólk komist aftur inn á vinnumarkaðinn hafi það staðið utan hans um tíma.

Halldóra Mogensen, þingkona Pírata, sagði að svo virtist sem starfsgetumat hefði það að markmiði að fækka öryrkjum frekar en að hjálpa þeim. „Og hefur sú stefna verið tengd við aukna sjálfsmorðstíðni og aukna notkun þunglyndislyfja í þeim löndum þar sem þetta hefur verið prófað,“ sagði Halldóra.

Eygló Harðardóttir, þingkona Framsóknarflokksins og fyrrverandi félagsmálaráðherra, spurði núverandi félagsmálaráðherra hvað innleiðing starfsgetumats og breytingar á lífeyri öryrkja komi til með að kosta? Þá spurði hún hver yrði staða þeirra sem væru fyrir í kerfinu og síða þeirra sem kæmu nýir inn í það?

Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna, segir að breytingar sem gerðar voru á lögum um „Menn völdu ódýrustu en um leið mjög gallaða leið í báðum tilvikum til að láta það heita svo að þróun lægstu launa væri elt uppi, 280.000 krónurnar, en það eru eins og kunnugt er aðeins þeir aldraðir sem búa einir og fá fulla heimilisuppbót sem ná þessu marki og í tilviki öryrkjanna var nánast öll hækkunin tekin í gegnum hækkun á framfærslutryggingu gegnum lögin um félagslega aðstoð sem aftur skerðist króna á móti krónu fyrir tekjur,“ sagði Steingrímur.

Félags- og janfréttismálaráðherra sagði í seinni ræðu sinni að afskaplega óheppilegt væri að viðhalda krónu-á-móti-krónu skerðingu þegar verið væri að hvetja til aukinnar virkni og aukinnar atvinnuþátttöku. Það þurfi að endurskoða.

Við þurfum líka að horfa til þess hvernig við styðjum við lágtekjuhópa, óháð því hvaðan tekjur þeirra koma, að við séum ekki með ranga hvata þar heldur þegar kemur að spurningum um kostnað,“ sagði Þorsteinn. Hann sagði einnnig að það væri vitað að kerfið yrði kostnaðarsamt. Það væri talið í milljörðum að fara í gegnum endurbætur.

„Við höfum í nýrri ríkisstjórn einvörðungu lagt fram nýja ríkisfjármálastefnu, krónur og aurar eru ekki komin fram enn þá, en við höfum talað mjög skýrt um að við munum forgangsraða ríkisútgjöldum í þágu heilbrigðiskerfis og velferðarkerfis. Þetta er liður í því og við munum tryggja að þarna fáist nauðsynlegt fjármagn,“ sagði Þorsteinn.

Oddný G. Harðardóttir, málshefjandi í umræðunni, sagði að helstu ástæður örorku væru stoðkerfisvandi og geðræn vandamál. Það hefur komið fram í málflutningi Ellenar Calmon, formanns ÖBÍ.

Oddný sagði örorkulífeyrisþega búa við flókið almannatryggingakerfi, lágan lífeyri og í sumum tilvikum niðurlægingu og skömm. Sé alvara í þeim málflutningi að grípa til að gerða til að fækka fólki með örorkumat eigi að stuðla að auknum jöfnuði í samfélaginu.

„Ég er því ánægð með þá hugsun hæstvirts ráðherra að fjárfesta eigi í málaflokknum, vona að sú verði raunin og að við munum öll græða á að bæta kjör öryrkja,“ sagði Oddný.