Evrópuþingið tekur afstöðu til langþráðrar aðgengislöggjafar

Frá mótmælum í Brussel. Mynd: Facebook síða EDF
Frá mótmælum í Brussel. Mynd: Facebook síða EDF

Samtök fatlaðs fólks í Evrópu hafa um langt skeið barist fyrir því að aðgengismál verði fest í evrópulöggjöf með sérstökum lagabálki.

Evrópuþingið fjallar í september næstkomandi um lagatillögu sem hefur það að markmiði að tryggja fólki sem býr við skerta líkamlega, andlega eða félagslega færni sama aðgengi og aðrir njóta að vörum og þjónustu á innri markaði Evrópusambandsins. Þannig fái fólk með hreyfihömlun og sjón- eða heyrnarskerðingu sams konar aðgengi og annað fólk. Lagatillagan er nefnd European Accessibility Act.

Sérfræðingar EFTA-ríkjanna í samstarfinu um Evrópska efnahagssvæðið – þar á meðal frá Íslandi – fylgjast með umræðunni um málið enda líklegt að aðgengistilskipunin falli undir gildissvið EES-samningsins.

Fyrri hluta þessa árs var tilskipunin til umræðu í Ráðherraráði ESB og einnig á Evrópuþinginu. Það var síðan 25. apríl síðastliðinn að Evrópuþingsnefnd um innri markað ESB, sem hefur það verkefni að gera drög að lagafrumvarpinu, samþykkti skýrslu um niðurstöðuna. Evrópusamtök heyrnarlausra – EUD – gagnrýndu þá skýrslu harðlega og sögðu skýra hættu á að útvötnuð niðurstaða yrði fest í Evrópulög. Tilskipun sem hefði enga raunhæfa þýðingu fyrir 80 milljónir fatlaðs fólks í Evrópu auk fólks með annars konar skerðingar og aldraða.

EUD bendir á að nýju lagadrögin takmarki aðgengiskröfur fyrir hljóð- og myndþjónustu aðeins við vefsíður og smáforrit í snjallsíma. Þá er búið að fjarlægja skilgreiningar á „fólki með hömlur í athöfnum“ og „algilda hönnun“ og undanskilja smáfyrirtæki frá skyldum um að bjóða aðgengilega vöru og þjónustu. Auk þessa sé neytendum ekki gert mögulegt að skila vöru sem reynist ekki aðgengileg.

European Disability Forum – EDF, sem eru Evrópusamtök fatlaðs fólks, efndu til mótmæla við Evrópuþingið í Brussel í júní síðastliðnum. Tilgangur fjöldafundarins var að sannfæra Evrópuþingmenn um að breyta lagatillögunni, European Accessibility Act, þannig að hún væri skýrari og sterkari en tillögur gera ráð fyrir. Mótmælendur héldu aðgerðum sínum áfram inni á fundi hjá nefnd Evrópuþingsins um innri markað ESB og vildu þar ræða beint við þá þingmenn sem hefðu útvatnað lagatillögurnar. Það bar ekki áþreifanlegan árangur.

EDF hefur bent á að lengi hafi verið barist fyrir evrópulöggjöf í aðgengismálum. Hún muni hafa áhrif víða og á ýmis konar þjónustu. Skýrar reglur verði um hvernig hraðbankar verði gerðir aðgengilegri fyrir alla, hvernig aðgengi að almenningssamgöngum skuli bæta og einnig hversu aðgengilegar opinberar byggingar eigi að vera.

Mótmælendur við Evrópuþingið í júní sögðu í viðtölum við Euronews og fleiri fréttaveitur að vonir stæðu til að nýja löggjöfin yrði í samræmi við 9. grein í Samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, SRFF, sem felur í sér skuldbindingar um að veita öllum borgurum aðgengi að vörum og þjónustu. Öll aðildarríki ESB, nema Írland, hafa fullgilt þennan hluta SRFF.

Danski Evrópuþingmaðurinn Morten Løkkegaard er einn af höfundum skýrslunnar umdeildu. Hann segist raunsær í afstöðu sinni. „Ég er mjög vel meðvitaður um að okkur mun ekki takast að tryggja fullkomið aðgengi á einni nóttu,“ sagði Løkkegaard. „Ég er hins vegar sannfærður um að við séum á réttri leið.“

Í fréttabréfi EDF sem sent er til aðildarfélaga þess, þar á meðal ÖBÍ, er lögð áhersla á að Evrópuþingið ætli að ræða nýju aðgengislögin miðvikudaginn 13. september næstkomandi og greiða síðan atkvæði um það degi síðar, fimmtudaginn 14. september. Þingið gæti þá samþykkt skýrsluna, gert breytingar á henni og síðan samþykkt eða þá hafnað henni alfarið.

EDF hefur gert breytingatillögur við frumvarpið þar sem skilgreindar eru ítrustu kröfur. Þar á meðal eru:

  • Bindandi ákvæði um manngerð svæði (byggingar og mannvirki)
  • Öll fyrirtæki, þar með talið smærri og meðalstór, verði skuldbundin til að tryggja aðgengi.
  • Öll samgönguþjónusta tryggi aðgengi umfram gildandi löggjöf.

Í fréttabréfi EDF og á vef samtakanna er hægt að nálgast beinagrind að bréfi sem hægt er að senda Evrópuþingmönnum til að benda á þessar kröfur og mikilvægi aðgengislöggjafar þannig að þeir taki með upplýstum hætti þátt í umræðunni á Evrópuþinginu í september.

ÖBÍ hafði í þessum mánuði samband við Sameiginlegu EES nefndina (EEA Joint Committee) og fékk þær upplýsingar hjá fulltrúa EFTA (Fríverslunarsamtökum Evrópu, sem Ísland tilheyrir) að málið væri til meðferðar hjá vinnuhópi EFTA (The EFTA Working Group on Gender Equality, Anti-Discriminaton and Family Policy). Hópurinn hefur það verkefni að leggja mat á aðgengislöggjöfina í samræmi við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið (ESB).

Öryrkjabandalag Íslands fylgist með málinu og birtir frekari fréttir af framgangi þess.