Heimildarmyndir um blindu, einhverfu og réttindabaráttu fatlaðs fólks

Úr myndinni Notes on Blindness.
Úr myndinni Notes on Blindness.

Kvikmyndin I, Daniel Blake eftir breska leikstjórann Ken Loach hefur vakið mikið umtal víða um heim vegna raunsannrar umfjöllunar um starfsgetumat og bótakerfið í Bretlandi. Myndin var sýnd á Stockfish-kvikmyndahátíðinni í Reykjavík í byrjun mars á þessu ári og síðan í almennum sýningum í Bíóparadís. Myndin átti erindi við félagsfólk í aðildarfélögum ÖBÍ sökum þess að umfjöllunarefnið snertir í mörgum tilvikum reynsluheim þess og daglegt líf. Fjöldamargar kvikmyndir eru framleiddar víða um heim sem eiga erindi við félaga í öllum aðildarfélögum okkar, sem eru 41 talsins. Hér eru nýlegar myndir sem eiga raunar erindi við alla.

Notes on Blindness (2016)

Heimildarmyndin Notes on Blindness frá árinu 2016 eftir þá Peter Middleton og James Spinney fjallar um það þegar rithöfundurinn og guðfræðingurinn John M. Hull (1935-2015) varð blindur árið 1983. Hull var þá rétt að verða faðir, en sonur hans kom í heiminn skömmu síðar. Til þess að átta sig betur á því umróti sem varð á lífi hans við þetta fór hann að halda dagbók á kasettum. Þær voru gefnar út árið 1990. Taugalæknirinn og rithöfundurinn Oliver Sacks lýsti því sem meistaraverki, nákvæmum, djúpum og fallegum lýsingum á blindu.

Þrjár útgáfur eru til af myndinni:

  • Venjuleg útgáfa.
  • Með sjónlýsingu á ensku. Hægt er að velja á milli sjónlýsandans Louise Fryer og breska leikarans Stephen Mangan (Green Wing, Episodes).
  • Með aukinni hljóðrás með viðbótarfrásögn frá John M. Hull sjálfum og eiginkonu hans Marilyn. Þessi útgáfa er með aukinni hljóðhönnun og meiri tónlist. Henni er ætlað að kalla fram upplifun og hughrif án þess að þörf sé á sérstakri sjónlýsingu.

Hægt er að kaupa myndina á DVD/Blu-Ray eða streyma henni hér.

Life, Animated (2016)

Myndin er eftir bandaríska leikstjórann Roger Ross Williams. Hún byggir á bókinni Life, Animated: A Story of Sidekicks, Heroes and Autism eftir blaðamanninn Ron Suskind. Þar segir hann sögu sonar síns Owen Suskind sem er einhverfur. Rakið er hvernig hann lærði að eiga samskipti við fólk og umheiminn í gegnum Disney teiknimyndir. Myndin segir söguna frá sjónarhorni Owens á meðan bókin segir hana frá sjónarhorni föður hans.

Owen var geindur með einhverfu þegar hann var þriggja ára. Smátt og smátt hætti hann að tjá sig við fólk og varð alveg þögull. Foreldrar hans misstu nær alla von um að geta átt nokkru sinni þýðingarmikil samskipti við hann. Þegar aðdáun Owens á Disney teiknimyndum varð ljós kom einnig á daginn að hann gat notað myndirnar – persónur og texta – til að tjá tilfinningar sínar og vilja og þannig var hægt að ná honum út úr skelinni.

Myndin var tilnefnd til Óskarsverðlauna sem besta heimildarmyndin en fékk ekki verðlaunin.

Defiant Lives (2017)

Áströlsk heimildarmynd eftir Söruh Barton sem fjallar um uppgang þeirra hreyfinga sem berjast fyrir réttindum fatlaðs fólks í Ástralíu, Bandaríkjunum og Bretlandi. Í myndinni er fjallað um hvernig aðgerðarsinnar um allan heim hafi hjálpað til við að frelsa fólk með því að losa það út af stofnunum. Þá hafi þessir hópar skilgreint umræðuna með öðrum hætti og horft á fordóma út frá samfélaginu sem heild frekar heldur en sem vandamál einstaklinga. Í myndinni er mikið af áður óbirtu efni úr myndasöfnum af réttindabaráttu fatlaðs fólks í löndunum þremur. Myndin var frumsýnd á Kvikmyndahátíðinni í Sydney í Ástralíu þann 12. júní síðastliðinn. Hægt er að nálgast upplýsingar um sýningar á myndinni hér https://defiantlives.com/cinema-screenings/ ásamt því að óska má eftir sýningum, en verið er að skipuleggja alþjóðlega dreifingu á myndinni.