Skip to main content
Frétt

Jafnréttisdagar í Háskóla Íslands

By 1. október 2018No Comments

Jafnréttisdagar hófust í dag með athöfn á Háskólatorgi í Háskóla Íslands. Jafnréttisdagarnir standa frá 1.-5. október.

Starfsemi Öryrkjabandalags Íslands var kynnt við setninguna auk þess sem fleiri aðilar sem vinna að jafnréttismálum um allt samfélagið kynntu sína starfsemi einnig.

ÖBÍ er þakklátt fyrir að fá þetta tækifæri til að kynna starfsemi sína í þessu samhengi, enda gríðarlega mikilvægt að auka vitund fólks um jafnrétti á breiðari grundvelli en í almennri umræðu, þ.e. jafnréttis milli fatlaðs fólks og ófatlaðs. 

Þórdís Viborg, verkefnisstjóri hjá ÖBÍ og Ingimar Karl Helgason, samskiptastjóri ÖBÍ, kynntu starfsemi bandalagsins fyrir gestum og gangandi á Háskólatorgi. Vakin var sérstök athygli á jafnréttismálunum, auk þess sem starfsemi ÖBÍ var kynnt almennt sem og helstu baráttumál.

Fjölmargir viðburðir eru á dagskrá Jafnréttisdaga og snúa sumir þeirra sérstaklega að því að fatlað fólk njóti jafnréttis á við aðra.

Fötlun í háskólasamfélaginu: Menning, undirokun og andóf er dagskrá á vegum Rannsóknarseturs í fötlunarfræðum sem haldin verður á miðvikudag kl. 12-13.

Jafnrétti til náms? Upplifun nemenda með sértæka námsörðugleika er dagskrá á vegum Jafnréttisnefndar Stúdentaráðs HÍ og Hugrúnar – geðfræðslufélags og verður haldin á miðvikudag kl. 16-17:30.

Getur þú gert allt sem þú vilt? er dagskrá á vegum diplómanáms fyrir fólk með þroskahömlun sem haldin verður á föstudag. 

Þá mun Rósa María Hjörvar, formaður málefnahóps ÖBÍ um kjaramál og doktorsnemi við Háskóla Íslands, halda erindi undir yfirskriftinni Fatlaðir starfsmenn Háskóla Íslands. Gleymdur hópur? en erindið verður flutt í hádeginu á föstudag, 12-12:30 í Gimli í Háskóla Íslands.

Öryrkjabandalag Íslands hvetur öll sem geta til að kynna sér og taka þátt í dagskrá Jafnréttisdaganna.

Hér að neðan má svo sjá nokkrar myndir sem teknar voru af gestum á kynningarbás ÖBÍ við setningu Jafnréttisdaganna og Jóni Atla Benediktssyni, rektor HÍ, sem setti dagana formlega.

 

Jafnréttisdagar 3

Jón Atli Benediktsson, rektor HÍ, setur Jafnréttisdaga.

Jafnréttisdagar 8

Gestir og gangandi drógu spil úr Skerðingu, ömurlegu spili fyrir alla fjölskyldunna og freistuðu þar með ógæfunnar.

jafnrettisdagar7.jpg

jafnrettisdagar9.jpg

jafnrettisdagar4.jpg