Skip to main content
Frétt

„Skertar bætur fram á grafarbakka“

By 16. nóvember 2018No Comments
Öryrkjar sem hafa búið í löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins fá mun hærra hlutfall örorkulífeyris á Íslandi en þeir sem hafa búið í öðrum EES-löndum. Þeir sem fá skertar bætur á unga aldri vegna búsetu í útlöndum sitja uppi með skerðinguna ævilangt. Þetta kemur fram í umfjöllun Spegilsins á Rúv, sem hefur fjallað ítarlega um búsetuskerðingarnar sem ÖBÍ hefur barist gegn. 
Umboðsmaður Alþingis birti í sumar álit sem er áfellisdómur yfir aðferðum Tryggingastofnunar Ríkisins í þessum málum. Hér á eftir fer önnur umfjöllun Spegilsins, en hér er til viðtals Sigríður Hanna Ingólfsdóttir, félagsráðgjafi á skrifstofu ÖBÍ.
 

Saga Jóhönnu

Við sögðum sögu Jóhönnu Þorsteinsdóttur í Speglinum í gær. Hún er nú 29 ára, býr í Danmörku, er að ljúka námi í rennismíði og hefur náð bata. Hún veiktist og glímdi við geðræn vandamál þegar hún var 18 ára og bjó í Danmörku. Þar var hún í fimm ár en flutti til Íslands 2010. Hún fékk 75% örorkumat og sótti um örorkulífeyri. Vegna áranna fimm í Danmörku fékk hún fyrst úrskurð um að hún ætti rétt á um 47% af fullum bótum. Hún sótti um að fá bætur frá 2011 en ekki aðeins frá 2013. Það varð til þess að prósentutala féll niður í 21 prósent. Málið snýst um að reikna út búsetuhlutfall. Dvölin í Danmörku hefur áhrif á búsetuhlutfallið og hugsunin er væntanlega sú, að gert er ráð fyrir að viðkomandi fái líka einhverjar bætur frá því landi sem hann bjó í. Það átti ekki við um Jóhönnu. 

Fá ekkert frá fyrra búsetulandi

Sigríður Hanna Ingólfsdóttir, félagsráðgjafi hjá Öryrkjabandalaginu, vísar í svar félagsmálaráðherra í fyrra við fyrirspurn Steinunnar Þóru Árnadóttur, þingmanns Vinstri grænna, um þetta. 

„Þar kemur fram að 88% örorkulífeyrisþega sem hafa verið búsettir löndum innan EES, eru með hlutfallslegar greiðslur. Þeir eru ekki að fá neitt frá fyrra búsetulandi,“ segir Sigríður Hanna.

Það að 88% fái engar bætur frá fyrra búsetulandi getur verið vegna þess að reglur um örorkubætur séu allt öðru vísi en hér á landi. Í Danmörku eru t.d. engar örorkubætur fyrir þá sem eru yngri en 40 ára. Þeir verða að minnsta kosti að dvelja í landinu og taka þátt í úrræðum eða meðferð. 

Greiðslur skerða bætur

En 12 prósent þeirra sem búa við skert búsetuhlutfall fá einhverjar bætur frá fyrra búsetulandi. Þær geta komið í bakið á öryrkjum því stundum eru þær reiknaðar sem tekjur og dregnar frá skertum bótum hér heima. Sigríður Hanna segir að það sé ekki algilt. Dæmi séu um að fólk fái grunnlífeyrisbætur annars staðar á Norðurlöndunum. Öðru máli gegni um ýmis önnur lönd.

„Þá eru þær greiðslur sem fólk fær að utan skilgreindar sem lífeyrissjóðstekjur. Þær koma því inn með skerðingum, þannig að fólk er jafnvel að lenda í krónu á móti krónu skerðingu.“ Hún nefnir dæmi um örorkulífeyri frá Póllandi upp á 5 þúsund krónur sem skerði greiðslurnar á Íslandi um 5 þúsund krónur. „Þær greiðslur hjálpa fólki ekki neitt.“

Sá sem kemur frá BNA í betri stöðu

Við höfum aðeins talað um þá sem hafa búið í einhverju landi á Evrópska efnahagssvæðinu og sækja um bætur hér á landi. Við tókum dæmi um mann sem sem hefur búið í 10 ár í t.d. Danmörku og önnur tíu ár á Íslandi frá 16 ára aldri. Hann fær fyrsta örorkumat 36 ára. Reikniaðferð Tryggingastofnunar gefur honum tæplega 64% búsetuhlutfall eða með öðrum orðum, hann fær 64% af fullum bótum. Dæmið lítur hins vegar allt öðru vísi og betur út fyrir sama mann ef hann hefði búið 10 ár utan EES, segjum í Bandaríkjunum, og önnur 10 ár á Íslandi. Þá er reiknað á annan hátt. Lögð eru saman 31 ár fram að 67 ára aldri og 10 ár sem hann hefur búið á Íslandi. Alls 41 ár. Niðurstaðan er að búsetuhlutfalli er 102,5% og hann fær fullar örorkubætur en ekki 36% skerðingu eins og í dæmi þess sem bjó áður í EES-landi. Er eðlilegt að ósamræmi sé á aðferðum við að reikna út búsetuhlutfall?

„Þarna er EES-samningurinn sem ætti í raun að auka réttindi þeirra sem fara á milli landa. Hann er túlkaður þannig og beitt þannig að hann skerðir réttindi manna, sem getur ekki talist eðlilegt,“ segir Sigríður Hanna.

Lögheimili skiptir máli

Allir geta orðið öryrkjar hvenær sem er á lífsleiðinni. Fólk sem fer til náms í löndum innan EES, getur haft í huga að í öllum löndum nema á Norðurlöndunum er hægt að halda lögheimili á Íslandi á meðan það er í námi. Þeir sem sleppa því að skrá lögheimili sitt ytra fá fullt hús í búsetumatinu.

„Þetta gerir það að verkum að ef fólk fer til náms á Norðurlöndunum, flytur lögheimilið þangað og flytur svo aftur heim og veikist fljótlega, hefur það minni rétt. Þá lendir þessi hópur í búsetuskerðingu.“

Endanlegur dómur

Öryrki á ungum aldri sem lendir í því, ef svo má að orði komast, að hafa búið í öðru EES-landi og fengið skert búsetuhlutfall og þar af leiðandi skertar bætur, virðist ekki bara halda þessu hlutfalli fram til 67 ára aldurs, þegar hann eða hún verður löggiltur ellilífeyrisþegi, heldur hreinlega alla leið til grafar.

„Það er alveg sama þó að þú búir á Íslandi frá og með þeim tíma og þú færð örorkumatið til 67 ára aldurs og jafnvel lengur, þá hækkar örorkumatið ekkert við það að búa á Íslandi. Þú ávinnur þér engan frekari rétt með búsetunni á Íslandi. Samkvæmt svörum sem við fengum frá Tryggingastofnun þá breytist það ekki heldur við 67 ára aldur. Stofnunin reiknar áfram ellilífeyrinn út frá sama hlutfalli og örorkulífeyrinn,“ segir Sigríður Hanna.

Þannig að segja má að upphaflegt búsetumat sé endanlegur dómur? „Já, fólk er í rauninni bara fest í ákveðnu búsetuhlutfalli. Og það er alveg sama hvað það býr lengi eftir að það fær örorkumatið. Búsetuhlutfallið er alltaf óbreytt. Það teljum við vera mjög ósanngjarnt.“ Og eftir 67 ára aldur. „Einnig þá.“