Skip to main content
RéttarkerfiUmsögn

Þolendamiðuð heildarendurskoðun hegningarlaga. 207. mál.

By 8. apríl 2022september 27th, 2022No Comments

Nefndasvið Alþingis
Allsherjar- og menntamálanefnd
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík

Reykjavík, 8. apríl 2022

Efni: Umsögn Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ) um tillögu til þingsályktunar, um þolendamiðaða heildarendurskoðun hegningarlaga.

ÖBÍ lýsir stuðningi við þingsályktunartillöguna sem hér er til umsagnar og vill koma eftirfarandi á framfæri.

Ísland fullgilti samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks árið 2016 (hér eftir skammstafað SRFF) og jafnframt hafa stjórnvöld lýst því yfir að lögfesta eigi samninginn. ÖBÍ áréttar mikilvægi þess að samningurinn sé hafður til hliðsjónar í hvívetna við heildarendurskoðun hegningarlaga. Fatlað fólk er í sérstökum áhættu-hópi sem þolendur ofbeldis og meiri líkur eru á að fatlað fólk verði fyrir ofbeldi.

Mikilvægt er að í endurskoðuninni verði litið til ofbeldis gagnvart fötluðum konum og stúlkum sem eru sérstaklega varnarlausar og ávarpaðar í 6. gr. SRFF.

Á bls. 4-5 í þingsályktunartillögunni (Tilgangur hegningarlaga og markmið með endurskoðun) kemur fram að að ný hugmyndafræði hefur rutt sér til rúms sem nefnd hefur verið „uppbyggileg réttvísi.“ ÖBÍ tekur undir að horft verði í auknum mæli til þeirra úrræða sem hugmyndafræðin felur í sér við endurskoðun hegningarlaga.

Mikilvægt er að viðeigandi aðlögun sé viðhöfð í öllu ferlinu, frá fyrstu snertingu til loka máls. Að fatlað fólk hafi aðgang á að réttinum til jafns við aðra skv. 5. gr. SRFF.

Ekkert um okkur án okkar.

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ
Bára Brynjólfsdóttir, lögfræðingur ÖBÍ