Skip to main content
Umsögn

Fjárlög 2023 – umsögn ÖBÍ

By 7. október 2022október 31st, 2022No Comments

„ÖBÍ hefur myndað sér afstöðu til allra mála sem viðkoma málaflokki fatlaðs fólks, og er tilbúið að ræða málefni sem tengjast kjaramálum, atvinnumálum, menntamálum, málefnum barna, heilbrigðismálum, aðgengismálum, húsnæðismálum og NPA, ásamt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, nýrri mannréttindastofnun og réttindagæslu fatlaðs fólks.“

 

Nefndarsvið Alþingis
Austurstræti 8-10
101 Reykjavík

Reykjavík, 7. október 2022 

Umsögn ÖBÍ réttindasamtaka vegna fjárlaga fyrir árið 2023.

 Að þessu sinni tekur ÖBÍ fyrir tvær megináherslur í sinni umsögn sem varða annarsvegar  kjör og atvinnumál fatlaðs fólks og hinsvegar heilbrigðismál og endurhæfingu. Gerð er grein fyrir áherslum í öðrum flokkum í sérstakri greinargerð. 

Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar 2022-2026 kemur fram:  „Aðgerðir sem miða að því að auka tekjur lægri tekjuhópa og þeirra verst settu eru líklegri til að skila sér hratt og örugglega út í hagkerfið”. ÖBÍ hefur bent á að margfeldisáhrif af hverri krónu á hagkerfið sem rennur til örorkulífeyristaka eru umtalsverð, því til viðbótar fær ríkið skatttekjur af þessum sömu tekjum. Af hverjum 100 krónum sem varið er til hækkunar örorkulífeyris, skila um 50 krónur sér aftur í ríkissjóð.  

Örorkulífeyrir, atvinnumál og tekjuskerðingar.

Tillögurnar eru þrjár:  .

A. Hækkun örorkulífeyris um 10% 

ÖBÍ leggur til að örorkulífeyrir verði hækkaður um 10% þann 1. janúar 2023 í stað 6% eins og áætlað er í drögum fjárlagafrumvarps. Sú hækkun ætti að stemma stigu við áætlaðri verðbólgu og jafnvel bæta örlítið um betur. Æskilegt er að tekjutrygging og grunnlífeyrir verði sérstaklega hækkaður til viðbótar. Fólk á erfitt með að framfleyta sér á lágmarkslaunum í dag en fötluðu fólki er ætlað að lifa af á um 25% lægri fjárhæð

  • Óskertur örorkulífeyrir til einstaklings sem fékk örorkumat 40 ára er 301.029 kr. á mán 
  • Atvinnuleysisbætur eru 313.729 kr. á mánuði. 
  • Lágmarkslaun eru 378.500 kr. á mánuði. 
  • Óskertur örorkulífeyrir er enn tugþúsundum lægri en lágmarkslaun í landinu.  
  • Nær helmingur örorkulífeyristaka hefur lægri heildartekjur en sem nemur lágmarkslaunum. 

B. Tekjuskerðingum frá fyrstu krónu verði hætt 

ÖBÍ leggur til að tekin verði út tekjuskerðing frá fyrstu krónu vegna skattskyldra tekna til að hvetja til atvinnuþátttöku og bæta kjör þeirra sem hafa litlar tekjur aðrar en greiðslur almannatrygginga.  

C.  Frítekjumark hækkað upp í 200.000 kr. á mánuði

ÖBÍ leggur til að frítekjumark vegna atvinnutekna örorkulífeyris verði hækkað upp í 200.000 kr. á mánuði eins og hjá ellilífeyristökum. Frítekjumark örorku-/grunnlífeyris verði hækkað samsvarandi til að koma í veg fyrir að “krónufalls” áhrif komi aftur inn í kerfið. Það skýtur skökku við að yngri hópar sem eru að stofna fjölskyldu, koma sér upp húsnæði og mennta sig skuli sitja eftir með 14 ára gömul viðmið.  

Samkvæmt lögum1 eiga bætur almannatrygginga að taka mið af launaþróun, þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs.  Í fjárlagafrumvarpinu er horft fram hjá launaþróun á þeirri forsendu að ekki séu „fleiri kjarasamningshækkanir fyrirliggjandi á yfirstandandi kjarasamningstímabili.“2 Ljóst er að fjölmargir kjarasamningar eru lausir og allar líkur á að samið verði um launahækkanir á árinu. Kjaragliðnun lífeyris hefur viðgengist í áratugi sökum þess að árlegar breytingar lífeyris í fjárlögum eru ákvarðaðar út frá forsendum sem ekki stóðust og hafa almennt ekki verið leiðréttar. Það virðist einnig eiga við um fjárlagafrumvarp ársins 2023.  

ÖBÍ bendir á að í fjárlagafrumvarpinu er ýmist gefið upp að ársverðbólga 2022 verði 7,5% fyrir útgjaldahlið  en 7,7% fyrir tekjuhlið frumvarpsins, þessar forsendur byggja á talsverðri lækkun verðbólgu síðustu þrjá mánuði ársins. Greiningaraðilar spá hins vegar að ársverðbólga á árinu 2022 verði yfir 8%.  

Til að heilbrigðisþjónusta sé aðgengileg og skilvirk þarf rétt þjónusta að vera í boði á réttum tíma á réttum stað og veitt af réttum aðila. Nauðsynlegt er að kostnaður vegna heilbrigðisþjónustu sé viðráðanlegur öllum.  

 

Heilbrigðismál – endurhæfing. 

Tillögurnar eru þrjár:

A. Stjórnvöld auki fjárheimildir vegna endurhæfingar- og heilbrigðisþjónustu.  

ÖBÍ leggur til að stjórnvöld styðji betur við nauðsynlega þjónustu með afdráttarlausum hætti og tryggi fjármagn svo fullnægjandi endurhæfingarúrræði séu til staðar.

2. Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) fái fjárheimild til að semja við fagstéttir í heilbrigðisþjónustu. 

ÖBÍ leggur til að SÍ verði tryggðar nægar fjárheimildir til að semja við fagstéttir í heilbrigðisþjónustu þannig að aðgengi allra að þjónustu verði tryggt.

3. Fjárframlag til geðheilbrigðisþjónustu verið aukið.  

ÖBÍ leggur til að 400 m.kr. fjárframlag til geðheilbrigðismála verði óbreytt og til viðbótar komi 400 m.kr. fjárframlag til að auka geðheilbrigðisþjónustu innan heilsugæslunnar.

Á sama tíma og áform eru um að lengja greiðslutímabil endurhæfingarlífeyris úr þremur árum í fimm ár frá 1. janúar 2023, og aukna áherslu á endurhæfingu, er fjármagn til endurhæfingarlífeyris lækkað um 1200 m.kr. og fjárheimild til endurhæfingarþjónustu lækkuð um 329,4 m.kr. frá fjárlögum 2022. Hluti af lækkuninni (131,4 m.kr) er aðhaldskrafa á málaflokkinn. Þegar yfirlýst markmið stjórnarvalda er að auka áherslu á endurhæfingu og draga úr nýgengi örorku þá skýtur það skökku við að lækka fjárheimildir vegna endurhæfingarþjónustu og setja aðhaldskröfu á málaflokkinn.  

Geðheilbrigðisþjónusta er mikilvægur þáttur þegar kemur að endurhæfingu og því afar brýnt að gert verði ráð fyrir fjárframlagi annars vegar til heilsugæslunnar og hins vegar annarrar geðheilbrigðisþjónustu. 

Í frumvarpinu kemur fram að auknar fjárheimildir séu í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar um að lækka greiðsluþátttöku með áherslu á viðkvæma hópa. ÖBÍ fagnar því, en bendir á að að fjárhæðir eru í engu samræmi við það fjármagn sem þarf til að markmiði um að lækka greiðsluþátttöku viðkvæmra hópa náist. Brýnt er að leysa vandann sem samningsleysi við sérgreinalækna og sjúkraþjálfara hefur valdið og fjármagna greiðsluþátttöku vegna sjálfstætt starfandi sálfræðinga. Aukin sálfræðiþjónusta sparar ríkinu ómælt fé til lengri tíma. 

Aðrir flokkar. 

ÖBÍ hefur myndað sér afstöðu til allra mála sem viðkoma málaflokki fatlaðs fólks, og er tilbúið að ræða málefni sem tengjast kjaramálum, atvinnumálum, menntamálum, málefnum barna, heilbrigðismálum, aðgengismálum, húsnæðismálum og NPA, ásamt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, nýrri mannréttindastofnun og réttindagæslu fatlaðs fólks. Afstöðu ÖBÍ til framangreindra mála má sjá HÉR 

Ekkert um okkur án okkar 

Þuríður Harpa Sigurðardóttir
formaður ÖBÍ 

Bergþór Heimir Þórðarson
varaformaður ÖBÍ

Bára Brynjólfsdóttir
lögfræðingur ÖBÍ    

Sigríður Hanna Ingólfsdóttir
félagsráðgjafi ÖBÍ

Sunna Elvira Þorkelsdóttir
lögfræðingur ÖBÍ 

 

 


Fylgiskjal 1 – Skýringar 

 

A.

Boðuð 6% hækkun lífeyris almannatrygginga er byggð á spá Hagstofunnar um 4,9% verðbólgu á árinu 2023, er verulega vanáætluð en eins og fram kemur í fjárlagafrumvarpi 2022 eru meiri líkur á því að verðbólgu sé vanspáð en að henni sé ofspáð.3 Ársverðbólga í september 2022 er 9,3%. Því þarf verðbólga að hjaðna hratt og stöðugt ef hún á ekki að verða hærri en 4,9% á næsta ári. 

Í krónutölum er 6% hækkun örorku- og endurhæfingarlífeyris til einstaklings með óskertar greiðslur almannatrygginga á bilinu 17 þúsund til 20 þúsund kr. á mánuði (án heimilisuppbótar). Til ráðstöfunar verða óskertar greiðslur á bilinu 275.000 kr. til 294.000 kr. á mánuði að teknu tilliti til boðaðrar 8,8% hækkunar persónuafsláttar.  

Áhrif verðbólgu bitna verst á lágtekjufólki, sem ver stærstum hluta ráðstöfunartekna til að greiða fyrir húsnæði og nauðsynjar s.s. matvæli.  Húsnæðiskostnaður, til dæmis húsaleiga og lán hafa hækkað í takt við vísitölu neysluverðs eins og matvæli. Þær hækkanir eru umfram hækkanir örorkulífeyris ársins.   

Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir 0,5% kaupmáttaraukningu, sem í krónutölum nær ekki 2000 kr. á mánuði fyrir örorku- og endurhæfingarlífeyristaka með hæstu tekjurnar frá TR.  

 

B

Í frumvarpinu kemur fram að stuðla eigi að auknum fjölbreytileika og fjölga tækifærum á vinnumarkaði fyrir fólk með skerta starfsgetu, með tilraunaverkefnum sem eiga að greiða fyrir ráðningum. Það kemur heim og saman við áherslur stjórnarsáttmálans og stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um fjölgun sveigjanlegra hlutastarfa. Hins vegar eru engin sjáanleg merki um að draga eigi úr tekjutengingum í þessu fjárlagafrumvarpi, en þær eru forsenda þess að fatlað fólk hætti sér út á vinnumarkaðinn hafi það tækifæri og getu til. Frítekjumörk fyrir örorku- og endurhæfingarlífeyristaka hafa verið óbreytt í 14 ár. Það er hart að ungt fólk sitji eftir með tekjuskerðingar og frítekjumörk sem hafa ekki hækkað í 14 ár. Engu fjármagni er bætt við fyrir helstu verkefni og markmið málaflokksins 27.1 og 27.2.   

Til viðbótar við kjaragliðnun milli örorkulífeyris og lágmarkslauna þurfa lífeyristakar að þola fordæmalausar tekjuskerðingar4 sem gera það að verkum að tekjur annars staðar ná ekki að bæta fjárhagslega stöðu þeirra, eða einungis að mjög litlu leyti.  

Í núverandi kerfi er ávinningur af atvinnutekjum lítill eða jafnvel enginn. Greiðsluflokkurinn sérstök uppbót örorkulífeyrisþega (undir 27.2) skerðist frá fyrstu krónu vegna allra skattskyldra tekna og er skerðingarhlutfallið 65% af tekjum fyrir skatt.   

 

C. 

Frítekjumark atvinnutekna örorkulífeyristaka hefur ekki hækkað síðan 2009 og er enn 109.600 kr.  

 


Sjá nánar um málið á vef Alþingis