Skip to main content

Aðalfundir

Þau sem eiga rétt til setu á aðalfundum ÖBÍ réttindasamtaka eru tilnefnd af aðildarfélögunum ÖBÍ. Sjá nánari upplýsingar um regluverk aðalfunda í 3. kafla, (10. til 17. grein) í Lög ÖBÍ

Fundargerðir

Aðalfundur 2023

Fundargerð aðalfundar ÖBÍ réttindasamtaka haldinn á Grand hóteli, Sigtúni 28, Reykjavík, 6. október 2022, kl. 16:00-19:00, og 7. október 2023, kl. 10:00-17:00.

Ávarp formanns, fundarsetning

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ, setti fundinn kl. 16:02 og bauð fundargesti í sal sem og á Zoom hjartanlega velkomna. Flestir fundarmanna voru í sal. Fjarfundarkerfi og rafrænt kosningakerfi hafa gefist vel og því var ákveðið að nota þau áfram.

Formaður þakkaði fyrir magnaðan tíma síðastliðin 6 ár sem formaður. Á þessum tíma hafa orðið miklar breytingar, mikil barátta er að baki og hafa myndast fjölmörg tækifæri fyrir félaga réttindasamtaka ÖBÍ. Fatlað fólk verður þó fyrir misrétti og mismunun á hverjum degi. Formaður var þakklát fyrir baráttuna, traustið og sagðist vera reynslunni ríkari. Hún horfði björtum augum til framtíðar og sagðist hlakka til að fylgjast með baráttu og sigrum bandalagsins.

Formaður lagði til að Eyvindur Elí Albertsson og Helga Vala Helgadóttir yrðu fundarstjórar og var það samþykkt. Formaður lagði til að Helga Guðmundsdóttir og Ragnheiður Ásta Sigurðardóttir rituðu fundargerð og var það samþykkt. Þá bauð formaður fundarstjórum að taka við fundinum.

Fundarstjórar þökkuðu traustið, buðu gesti velkomna og kynntu dagskrá fundarins (fskj. nr. 1). Fundarstjóri tilkynnti að samkvæmt venju væri fulltrúum málefnahópa, stjórnar og hreyfinga ÖBÍ boðið að sitja fundinn sem áheyrnarfulltrúar.

Almenn fundarstörf

Skýrsla stjórnar (1)

Formaður flutti skýrslu stjórnar (fskj. nr. 2 – Ársskýrsla ÖBÍ 2023 til 2024. Skýrsla formanns og stjórnar, bls. 8-34) og sagði meðal annars frá eftirfarandi atriðum:

Á árinu voru reglulegir fundir með félags- og vinnumarkaðsráðherra, þingmönnum og sveitarstjórnarfólki og almennt var mikið samráð við stjórnvöld til dæmis þegar kom að því að skipa fulltrúa í vinnuhópa. Lögð var áhersla á að taka pláss og að ÖBÍ væri sýnilegt. ÖBÍ sendi yfir 100 umsagnir um hin ýmsu lög og álit til ráðuneytis og stofnana. Eitt stærsta verkefnið á sviði samráðs þetta starfsárið var í kringum Landsáætlun í málefnum fatlaðs fólks til ársins 2030 að ógleymdri þátttöku ÖBÍ í vinnuhópum vegna stöðu Íslands í tengslum við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.

Áfram var haldið með heildarendurskoðun á almannatryggingakerfinu á starfsárinu og náðust þó nokkur skref í baráttunni. TR greiddi út eingreiðslu á árinu sem var hugarfóstur ÖBÍ. Eingreiðslan var ekki sú fyrsta sem TR hefur greitt út en engu að síður var hún afar mikilvæg. Örorkulífeyrir var hækkaður í janúar og júní 2023 um samtals 10% og er þetta annað árið í röð sem ÖBÍ nær fram hækkun á lífeyri. Þessi hækkun kemur þó ekki til af góðu en hún var viðbragð stjórnvalda við vaxandi verðbólgu. Eftir áralanga baráttu var frítekjumarkið einnig hækkað úr 109.600 kr. í 200.000 kr. en því miður náðist ekki að hækka framfærsluuppbótina.

Farið var í hringferð með ráðherra og Þroskahjálp um landið vorið 2023. Lögð var áhersla á að vera sýnileg í fjölmiðlum og hafa þættirnir „Dagur í lífi“ á RÚV fengið góðar viðtökur. Þar að auki hefur verið unnið að mörgum árangursríkum samstarfsverkefnum sem miða að því að bæta aðgengi og viðmót í garð fatlaðs fólks. Til dæmis má nefna verkefni varðandi aðgengisfulltrúa í sveitarfélögum sem hófst sumarið 2021 í samstarfi við ríkið og Samband íslenskra sveitarfélaga. Ennfremur verkefnið „Gott aðgengi í ferðaþjónustu“ sem komst á gott skrið á árinu. Annað samstarfsverkefni er samstarf aðgengishóps ÖBÍ við Arkitektafélag Íslands, Félag íslenskra landslagsarkitekta, Félag húsgagna- og innanhússarkitekta (FHI), Byggingafræðingafélag Íslands (BFÍ) og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) vorið 2022 um upplýsingagjöf um algilda hönnun. Einnig á ÖBÍ í góðu samstarfi við Virk starfsendurhæfingarsjóð varðandi ungt fatlað fólk og atvinnuleit, en samstarfið gengur út á að veita ungmennum aðstoð við atvinnuleit. Eftir mikinn þrýsting frá ÖBÍ féllst Reykjavíkurborg á að falla frá ólögmætri gjaldtöku í bílastæðahúsum en borgin hafði rukkað handhafa stæðiskorta fyrir hreyfihamlaða. Enn er unnið að því að tryggja að þessi lög séu virt á einkareknum bílastæðum um land allt.

Stjórnvöld sömdu loksins við sérgreinalækna eftir langvarandi samningsleysi og áralangan þrýsting ÖBÍ. Tók nýi samningurinn gildi þann 1. september 2023. Enn á þó eftir að semja við sjúkraþjálfara og hvetur ÖBÍ til þess að sálfræðiþjónusta verði einnig gjaldfrjáls.

Barátta fyrir bættri stöðu fatlaðs fólks er kjarninn í starfsemi ÖBÍ. Árangurinn byggir á því að ÖBÍ nái eyrum yfirvalda og skilningi og samstöðu samfélagsins. Til þess að svo verði þarf að koma sjónarmiðum bandalagsins á framfæri á margvíslegan hátt, jafnt á götum úti sem og í dómssal. Alls voru fimmtán dómsmál í gangi á vegum ÖBÍ réttindasamtaka í lok starfsársins, þau elstu frá árinu 2019. Eitt helsta leiðarstefið í starfsemi ÖBÍ er samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF) og er afar mikilvægt að stjórnvöld, þingheimur og samfélagið allt öðlist skilning á mikilvægi þess að lögfesta samninginn eins fljótt og auðið er.

Kannanir og rannsóknir voru unnar á starfsárinu til að mæla stöðu fatlaðs fólks á Íslandi og viðhorf almennings í málaflokknum. Niðurstöðurnar vöktu jafnan þó nokkra athygli og hafa leitt til aukins samtals og aðgerða í málaflokknum.

Félagsvísindastofnun HÍ vann rannsókn fyrir ÖBÍ um stöðu fatlaðs fólks á húsnæðismarkaði og í ljós kom að 58% öryrkja búa í eigin húsnæði samanborið við 74% allra fullorðinna á Íslandi. Þá eru 29% öryrkja á leigumarkaði miðað við 13% allra fullorðinna á landinu. Niðurstöðurnar sýna að staða fólks sem býr í leiguhúsnæði er almennt verri, það greiðir hærra hlutfall tekna í rekstur, hefur meiri áhyggjur af kostnaði og er líklegra til þess að lenda í vanskilum.

Gallup vann könnun um viðhorf Íslendinga til kjara öryrkja og voru niðurstöðurnar afar skýrar. Landanum fannst kjörin vera frekar slæm og taldi afar brýnt að bæta kjör örorkulífeyrisþega.

Félagsvísindastofnun gerði einnig könnun um útgjöld til heilbrigðismála. Stór hluti fólks með 75% örorku frestar því að fara til læknis, sjúkraþjálfara og að leysa út lyf. Staðan er því sú að umtalsverður hópur býr við verulega kostnaðarbyrði vegna útgjalda til heilbrigðismála. Þar er staða yngra fólks, einstæðinga, lágtekjufólks og fatlaðs fólks verst.

VSÓ ráðgjöf vann skýrslu fyrir ÖBÍ um ástand stoppistöðva Strætó á landsbyggðinni. Í ljós kom að slæmt aðgengi var að flestum biðstöðvum og mikið verk að vinna í þeim málum.

Ákveðið var að endurtaka könnun um stöðu fatlaðs fólks á Íslandi sem Varða rannsóknarmiðstöð vinnumarkaðarins gerði fyrir ÖBÍ 2021. Leitað var til TR um aðstoð við að koma könnuninni á framfæri við viðskiptavini TR sem heyra undir málaflokkinn og hefur samvinna milli TR og Vörðu um hvernig staðið skuli að málum verið góð. Með þessu samstarfi eru töluvert meiri líkur á að betri gögn fáist um stöðu fatlaðs fólks á Íslandi.

Að lokum upplýsti formaður að Hugarfar, eitt aðildarfélaga ÖBÍ, hefði sjálfkrafa sagt sig úr bandalaginu þar sem það hefði ekki skilað inn lögbundnum gögnum síðustu 4 ár.

Fundarstjóri bauð umræður um skýrslu stjórnar en engar urðu.

Reikningar bandalagsins (2)

Íris Ólafsdóttir frá PwC fór yfir reikninga bandalagsins fyrir árið 2022 (fskj. nr. 3).

Rekstrartekjur ársins 2022 voru tæplega 1.084 milljónir í stað tæplega 1.140 milljónir árið 2021. Rekstrargjöld hækkuðu milli ára og námu tæplega 520 milljónum árið 2021 samanborið við 440,1 milljón árið áður. Rekstrarafkoma fyrir fjármunatekjur og -gjöld var 564,1 milljón, en var 698,9 milljónir árið 2021. Rekstrarafkoma að meðtöldum fjármunatekjum og veittum styrkjum, var jákvæð um 145,4 milljónir, en var jákvæð um 256,3 milljónir árið 2021.

Efnahagshluti reikningsins hækkaði töluvert á milli ára. Varanlegir fastafjármunir voru 552 milljónir árið 2022 samanborið við 303 milljónir árið áður og jukust langtímakröfur úr tæplega 223 milljónum árið 2021 í tæplega 239 milljónir árið 2022. Þar var fyrst og fremst um að ræða bundnar innistæður. Fastafjármunir samtals voru því 791 milljón árið 2022 í stað 526 milljóna árið áður. Veltufjármunir lækkuðu milli ára og voru 430,8 milljónir árið 2022 í stað 604,4 milljóna árið 2021. Eignir voru því samtals tæplega 1.222 milljónir árið 2022 í stað 1.130 milljóna árið áður.

Eigið fé og skuldir skiptast í óráðstafað eigið fé, sem var 1.088 milljónir 2022 í stað 942 milljóna árið áður, og skuldir, sem voru samtals 134 milljónir 2021 í stað 188 milljóna árið 2021. Helsta skýring á lækkun skammtímaskulda milli ára er vegna ógreiddra framlaga og styrkja sem og skuldir við tengda aðila.

Handbært fé í árslok 2022 var því 332 milljónir, í stað 394,7 milljóna árið áður.

Vísaði endurskoðandi í greinargóðar skýringar í ársreikningi á blaðsíðu 11-20 til frekari glöggvunar.

Fundarstjóri opnaði fyrir umræður um reikninga ÖBÍ. Til svara voru gjaldkeri ÖBÍ, Jón Heiðar Jónsson, og framkvæmdastjóri ÖBÍ, Eva Þengilsdóttir.

Eva Þengilsdóttir, framkvæmdastjóri, sagði frá því að bandalagið væri fjárhagslega vel statt og tengist það meðal annars mikilli aukningu á rekstri fasteignar. Ráðist var í gagngerar endurbætur og breytingar á húsnæðinu haustið 2022 með tilliti til aðgengismála. Hagstæðir samningar náðust við góða verktaka og hafa framkvæmdirnar gengið framar vonum og tímaáætlanir staðist. Lögð er áhersla á að húsnæðið í heild verði aðgengilegt fyrir alla.

Engar umræður né fyrirspurnir voru varðandi reikninga bandalagsins og bar fundarstjóri reikninginn upp til atkvæða. Ársreikningur ÖBÍ 2023 var samþykktur samhljóða. 

Skýrslur fastra málefnahópa (3)

Skýrslur málefnahópa ÖBÍ voru birtar í Ársskýrslu ÖBÍ 2022-2023 sem var dreift á fundinum (fskj. nr. 2, bls. 35-42). Atli Þór Þorvaldsson sagði frá starfi málefnahópanna og kynnti fundarstjóri formenn þeirra:

  1. Aðgengishópur (Bergur Þorri Benjamínsson, formaður)
  2. Atvinnu- og menntahópur (Hrönn Stefánsdóttir, formaður)
  3. Barnamálahópur (Sif Hauksdóttir, starfandi formaður)
  4. Heilbrigðishópur (Vilhjálmur Hjálmarsson, formaður)
  5. Húsnæðishópur (María Pétursdóttir, formaður)
  6. Kjarahópur (Atli Þór Þorvaldsson, formaður)

Í kjölfarið kynntu nokkrir formenn hópanna stuttlega það helsta úr starfinu á síðasta starfsári.

María Pétursdóttir, formaður húsnæðishópsins, vakti athygli á málþingi á vegum hópsins sem áætlað er að halda þann 23. október 2023 varðandi rannsókn og skýrslu Félagsvísindastofnunar HÍ um húsnæðismál og fatlað fólk.

Bergur Þorri Benjamínsson, formaður aðgengishópsins, bað fundargesti um að senda hópnum ábendingar um gjaldtöku á bílastæðum. Ennfremur sagði hann frá því að umfangsmikil endurskoðun á byggingarreglugerð stæði yfir. Markmiðið væri að einfalda reglugerðina og ætlar hópurinn að reyna að standa vörð um hagsmuni fatlaðs fólks í þeirri vinnu.

Vilhjálmur Hjálmarsson, formaður heilbrigðishópsins, sagði frá því að hópurinn fékk Félagsvísindastofnun HÍ til þess að gera stóra rannsókn, sem var birt í maí 2023, varðandi kostnað einstaklinga við heilbrigðisþjónustu. Sláandi var að fatlað fólk frestar því að fara til læknis, sjúkraþjálfara og leysa út lyf vegna of hás kostnaðar. Ákveðið hefur verið að endurtaka viðlíka könnun í framtíðinni. Á árinu sömdu stjórnvöld við sérgreinalækna og nú standa yfir samningar við sjúkraþjálfara. Því miður er enn ósamið við sálfræðinga. Næsta verkefni hópsins er endurskoðun á löggjöf um hjálpartæki.

Fundarstjóri bauð umræður um starf málefnahópa.

Þuríður Harpa, formaður, hvatti aðildarfélögin til þátttöku í könnun Vörðu á högum fatlaðs fólks. Slík könnun er mikilvæg, það er að ná til fatlaðs fólks og fá upplýsingar um hagi þess. Áhugavert verður að bera saman niðurstöður könnunarinnar við síðustu könnun frá árinu 2021. Til að ná til sem flestra stendur yfir samtal ÖBÍ og TR um að TR sendi könnunina út til allra lífeyrisþega. Valfrjálsir spurningalistar verða sendir út á íslensku, ensku og pólsku. Umræður sköpuðust um framkvæmd könnunarinnar í tengslum við fólk með heilabilun og ætlar Þuríður að hafa samband við Vörðu og TR varðandi lausn á því. Ennfremur kom ábending úr sal um að aðildarfélögin sendi félagsmönnum sínum tölvupóst og hvetji til þátttöku í könnuninni.

Skýrslur fyrirtækja (4)

Skýrslur fyrirtækja lágu frammi (fskj. nr. 2, bls. 43-48) og ársreikninga fyrirtækja má sjá í fylgiskjölum 4 a-d. Starfsemi tveggja fyrirtækja var kynnt. Að öðru leyti var boðið upp á umræður um skýrslurnar.

Örtækni (a)

Jónas Páll Jakobsson, framkvæmdastjóri Örtækni, kynnti starfsemina og breytingar síðastliðinna 2ja ára. Markmið Örtækni er að veita fólki með skerta starfsgetu þjálfun til starfa á almennum vinnumarkaði eða framtíðarstarfa hjá fyrirtækinu. Hjá Örtækni starfa 26 manns í tveimur deildum, annars vegar á rafeindaverkstæði og hins vegar í ræstingu. Ræstingadeildin sér um ræstingar í Hátúni fyrir Brynju leigufélag og Skógarhlíð 14. Helstu verkefni á rafeindaverkstæði er samsetning á flóknum rafeindabúnaði sem og sérsmíði og samsetning á ýmsum gerðum kapla. Viðskiptavinir Örtækni eru mörg af framsæknustu tækni- og iðnfyrirtækjum á Íslandi en einn elsti og helsti samstarfsaðili er Vaki fiskeldiskerfi. Einnig má nefna íslenskt frumkvöðlafyrirtæki, Faradice, sem Örtækni framleiðir bílahleðslustöðvar fyrir. Hleðslustöðvarnar eru sérhannaðar fyrir íslenskar aðstæður.

Töluverðar umbætur voru gerðar á húsnæði Örtækni í Hátúni árið 2022 sem mælst hafa vel fyrir. Ný ásýnd vörumerkis var kynnt í upphafi árs 2022 og í kjölfarið var markaðsefni og heimasíða uppfærð. Vörumerkið er lýsandi fyrir starfsemi Örtækni þar sem hlutir, lausnir og fólk er tengt saman, hlutum er komið á hreyfingu og kveikt á hugmyndum.

Fundarstjóri bauð upp á spurningar, Jónas var til svara en engar fyrirspurnir bárust.

Fjölmennt (b)

Helga Gísladóttir, forstöðumaður Fjölmenntar, kynnti starfsemina. Fjölmennt er sjálfseignarstofnun í eigu ÖBÍ og Þroskahjálpar og var stofnuð árið 2002 með samruna nokkurra eldri stofnana. Fjölmennt er á fjárlögum og er með þjónustusamning við félags- og vinnumarkaðsráðuneyti. Hjá Fjölmennt starfa 20 manns í 16 stöðugildum. Tvær deildir eru starfræktar í Reykjavík, símenntunardeild og ráðgjafadeild. Þriðja deildin sinnti námi fyrir fólk með geðrænar áskoranir frá árinu 2003-2022, en hún var lögð niður þar sem námið mætti ekki væntingum þeirra sem það stunduðu. Mikið samstarf er við símenntunarstöðvar á landsbyggðinni sem halda úti námi fyrir markhóp Fjölmenntar.

Markhópur Fjölmenntar er fatlað fólk 20 ára og eldra, en elsti nemandinn er 84 ára gamall. Meginmarkmiðið er að fötluðu fólki bjóðist fjölbreytt símenntun í formi náms og námskeiða að loknu formlegu námi í skólakerfinu. 200 manns stunda nám hjá Fjölmennt og býðst þeim afar fjölbreytt námskeið. Lögð er áhersla á litla námshópa, einstaklingsmiðaða kennslu auk samstarfs við heimili. Flest námskeiðin eru kennd einu sinni í viku og eru námskeiðsgjöld og námsskeiðsstaðir fjölbreyttir. Því miður hefur orðið mikill niðurskurður á síðustu árum vegna verðbólgu og verðlagshækkana og því hefur námskeiðsframboð minnkað.

Síðustu ár hafa stjórnvöld breytt lögum um framhaldsfræðslu og aukið áherslu á náms- og starfstækifæri fyrir fatlað fólk. Ekki er nóg að auka eingöngu tækifæri í háskólanámi eða atvinnunámi, einnig þarf að huga að tækifærum varðandi tómstundatengt nám. Þar sem meirihluti fatlaðs fólks hefur ekki tækifæri til að stunda tómstundatengt nám leggur Fjölmennt mikla áherslu á slíkt nám, til dæmis kór, matreiðslunámskeið og margt fleira.

Fundarstjóri bauð upp á spurningar, Helga var til svara. Spurt var um aðsókn í námið með tilliti til biðlista. Helga svaraði því til að mjög mikil ásókn væri í námið. Námskeiðin hefðu verið stytt til að koma fleiri nemendum að. Allir komast að sem sækja um á réttum tíma.

Íslensk getspá (c)

Bergur Þorri Benjamínsson, fulltrúi ÖBÍ í stjórn Íslenskrar getspár, var til svara, engar fyrirspurnir bárust.

TMF- Tölvumiðstöð (d)

Sigrún Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri TMF, var til svara, engar fyrirspurnir bárust.

Hringsjá (e)

Helga Eysteinsdóttir, forstöðumaður Hringsjár, var til svara, engar fyrirspurnir bárust.

Brynja leigufélag ses. (f) 

Guðbrandur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Brynju, var til svara, engar fyrirspurnir bárust.

Stefna og starfsáætlun stefnuþings (5)

Fundarstjórar tilkynntu að þessi liður yrði ekki tekinn fyrir þar sem stefnuþing var ekki haldið árið 2023. Næsta stefnuþing verður haldið vorið 2024.

Ákvörðun aðildargjalda (6)

Fundarstjóri kynnti framkomna tillögu frá stjórn ÖBÍ um að aðildargjöld ÖBÍ yrðu óbreytt fyrir árið 2023, 0 kr. (sjá fskj. nr. 5).

Fundarstjóri bar tillöguna upp til atkvæða og var hún samþykkt einróma.

Þóknun fyrir stjórnarsetu (7)

Fundarstjóri tók til afgreiðslu tillögu frá stjórn ÖBÍ um þóknun fyrir stjórnarsetu, svohljóðandi (sjá fskj. nr. 6):

Lagt er til að fyrirkomulag við greiðslu þóknunar fyrir fundarsetu fyrir fulltrúa í stjórn ÖBÍ verði óbreytt frá fyrra starfsári:

  • Stjórnarmenn ÖBÍ og varamenn fá greiddar 7 einingar fyrir hvern setinn stjórnarfund sem er allt að 2,5 klst. langur. 2 einingar eru fyrir undirbúning fundar og 5 einingar fyrir sjálfan fundinn. Ef forföll eru tilkynnt eru greiddar 2 einingar fyrir undirbúning fundar.
  • Fyrir hverja klst. umfram það er greidd ein eining.
  • Upphæð þóknunar tekur mið af ákvörðun þóknananefndar ríkisins.

Fundarstjóri boðaði til kosninga. Tillagan var samþykkt, einn sat hjá. 

Kl. 17:38 frestaði fundarstjóri fundi til kl. 10 laugardaginn 7. október 2023.

Laugardagur 7. október 2023 – fundi framhaldið

Fundarstjóri hóf fund að nýju kl. 10:10. Vilhjálmur Hjálmarsson óskaði eftir leyfi til að ávarpa fundinn og því bar fundarstjóri upp dagskrártillögu. Greidd voru atkvæði og var tillagan samþykkt samhljóma. Í kjölfarið ávarpaði Vilhjálmur Hjálmarsson fundinn (fskj. 27) og minnti á mikilvægi lýðræðis. Mikilvægt er að aðildarfélög haldi aðalfund árlega þannig að umboð stjórna félaganna sé uppfært reglulega. Sérstaklega er mikilvægt að fulltrúar sem gefa kost á sér hafi hlotið kosningu á til þess bærum aðalfundi hvers félags.

Kosningar í stjórn

Fundarstjóri bauð Alberti Ingasyni, fulltrúa kjörnefndar, að koma upp og segja frá starfi nefndarinnar. Albert greindi frá því að kjörnefnd hefði óskað eftir framboðum eins og lög gera ráð fyrir. Því miður bárust ekki næg framboð í öll embætti og því fór meiri orka hjá nefndinni en vanalega í að manna þau. Albert hvatti stjórn ÖBÍ og aðildarfélög til þess að hafa þetta í huga og hvetja sitt fólk til þátttöku. Að því loknu var fyrirkomulag kosninganna kynnt og rafræn prufukosning framkvæmd.

Yfirlit yfir aðalfundarfulltrúa var sent út í fundargögnum og liggur á borðum fundarmanna í sal (fskj. nr. 7) ásamt yfirliti yfir framboð (fskj. nr. 8).

Formaður (8)

Í framboði voru Alma Ýr Ingólfsdóttir, Sjálfsbjörg Ish. og Rósa María Hjörvar, Blindrafélaginu (fskj. nr. 9 a-b). Fundarstjórar buðu frambjóðendum að kynna sig. Greidd voru atkvæði.

Áður en niðurstaða kosninga var kynnt þakkaði Eva Þengilsdóttir, framkvæmdastjóri ÖBÍ, fyrir sína hönd og annarra starfsmanna, Þuríði Hörpu, fráfarandi formanni, fyrir frábært samstarf og óskaði henni gæfu og gengis í komandi verkefnum. Þuríður Harpa þakkaði fyrir sig og tók sérstaklega fram að án alls fólksins innan ÖBÍ væri ekki búið að ná þeim góða árangri sem nú hefur náðst.

Atkvæðin voru 114 og skiptust svo:

  • Alma Ýr Ingólfsdóttir, Sjálfsbjörg lsh., 57 atkvæði (50%)
  • Rósa María Hjörvar, Blindrafélaginu, 56 atkvæði (49,12%)
  • Auð atkvæði 1 (0,88%)

Alma Ýr, nýkjörinn formaður, kom upp í pontu, þakkaði félagsmönnum kærlega fyrir stuðninginn og traustið og kvaðst hlakka verulega til komandi tveggja ára.

Varaformaður (9) (kosið 2024)

Gjaldkeri (10) (kosið 2024)

Formenn fastra málefnahópa (11)

Fundarstjóri bauð frambjóðendum að kynna sig (fskj. nr. 10-15).

Aðgengishópur Bergur Þorri Benjamínsson, SEM samtökunum

Atvinnu- og menntahópur Hrönn Stefánsdóttir, Gigtarfélagi Íslands

Barnamálahópur Sif Hauksdóttir, Astma- og ofnæmisfélagi Íslands

Heilbrigðishópur Vilhjálmur Hjálmarsson, ADHD samtökunum

Húsnæðishópur María Pétursdóttir, MS félagi Íslands

Kjarahópur Sigríður Halla Magnúsdóttir, Endósamtökunum

Þar sem engin mótframboð bárust á fundinum voru ofantaldir aðilar sjálfkjörnir.

Stjórnarmenn (12)

Fundarstjóri kynnti kosningu þriggja stjórnarmanna til tveggja ára. Þrír höfðu boðið sig fram innan tilskilins frests (fskj. nr. 16 a-c). Þrjú framboð frá Höllu B. Þorkelsson, Heyrnarhjálp, Ólafi Jóhanni Borgþórssyni, Parkinsonsamtökunum og Margréti Lilju Aðalsteinsdóttur, Sjálfsbjörg lsh. bárust eftir að fresti lauk og voru þau borin undir samþykki fundarins. Framboðin voru samþykkt einróma.

Frambjóðendur kynntu sig. Greidd voru atkvæði og skiptust þau á eftirfarandi hátt:

  • Frímann Sigurnýasson, Vífli, 20 atkvæði (6,41%)
  • Ingi Hans Ágústsson, HIV Íslandi 26 atkvæði (8,33%)
  • María M.B. Olsen, Gigtarfélagi Íslands, 73 atkvæði (23,4%)
  • Halla B. Þorkelsson, Heyrnarhjálp, 52 atkvæði (16,67%)
  • Margrét Lilja Aðalsteinsdóttir, Sjálfsbjörg Ish., 77 atkvæði (24,68%)
  • Ólafur Jóhann Borgþórsson, Parkinsonsamtökunum, 63 atkvæði (20,19%)

Þessi hlutu kosningu til setu í stjórn ÖBÍ 2023-2025:

  • Margrét Lilja Aðalsteinsdóttir
  • María M.B. Olsen og
  • Ólafur Jóhann Borgþórsson.

Varamenn (13)(Kosið 2024)

Sigríður Halla Magnúsdóttir sat í stjórn sem varamaður 2022-2024. Þar sem hún var kosin formaður kjarahóps (liður 11) þurfti að kjósa 1 varamann til eins árs (2023-2024) í hennar stað. Öllum fulltrúum var gefinn kostur á að bjóða sig fram. Þeir sem ekki náðu kjöri sem aðalmenn gáfu kost á sér sem varamenn:

  • Frímann Sigurnýasson, Vífli, 14 atkvæði (12,39%)
  • Ingi Hans Ágústsson, HIV Íslandi, 19 atkvæði (16,81%)
  • Halla B. Þorkelsson, Heyrnarhjálp, 79 atkvæði (69,91%)

Niðurstaða kosninganna var sú að Halla B. Þorkelsson var kosin varamaður til eins árs.

Aðrar kosningar til tveggja ára (2023-2025)

Kjörnefnd (14)

Fimm buðu sig fram sem aðalmenn í kjörnefnd (fskj. nr. 17 a-e) og tveir sem varamenn (fskj. nr. 18 a-b)

  • Dóra Ingvadóttir, Gigtarfélagi Íslands
  • Drífa Ósk Sumarliðadóttir, Spoex
  • Edda Svavarsdóttir, CCU samtökunum
  • Einar Þór Jónsson, HIV Íslandi
  • Sigrún Birgisdóttir, Einhverfusamtökunum

Varamenn:

  • Alvar Óskarsson, MS félagi Íslands
  • Helga Guðrún Loftsdóttir, Nýrnafélaginu

Allir frambjóðendur voru sjálfkjörnir þar sem frekari framboð bárust ekki.

Laganefnd (15)

Fimm buðu sig fram til aðalmanna (fskj. nr. 19 a-e) og tveir til varamanna (fskj. nr. 20 a-b). Eitt framboð til varamanns, Sigurður Þ. Helgason, Hjartaheillum, barst eftir að frestur rann út.  og var framboðið samþykkt einróma. Aðalmenn voru sjálfkjörnir.

  • Herbert Snorrason, ADHD samtökunum
  • Ragnar Davíðsson, Ný rödd
  • Salóme H. Gunnarsdóttir, Parkinsonsamtökunum
  • Svavar G. Jónsson, HIV Íslandi
  • Þórður Höskuldsson, Ás styrktarfélagi

Kosið var um varamenn og var niðurstaða kosninganna eftirfarandi:

  • Dagbjört Anna Gunnarsdóttir, MS félagi Íslands, 76 atkvæði (42,22%)
  • Gísli Jónasson, MND á Íslandi, 56 atkvæði (31,11%)
  • Sigurður Þ. Helgason, Hjartaheillum, 40 atkvæði (22,22%)

Dagbjört Anna Gunnarsdóttir og Gísli Jónasson voru réttkjörin sem varamenn kjörnefndar.

Skoðunarmenn reikninga og varamenn (16)

Tveir buðu sig fram til aðalmanna (fskj. nr. 21 a-b) og tveir til varamanna (fskj. nr. 22 a-b).

  • Berglind Ólafsdóttir, MS félagi Íslands
  • Karen Ösp Friðriksdóttir, Endósamtökunum

Varamenn:

  • Guðmundur Rafn Bjarnason, Blindrafélaginu
  • Ólafur Dýrmundsson, Stómasamtökum Íslands

Ekki bárust fleiri framboð og voru ofantaldir aðilar sjálfkjörnir.

Lagabreytingar, aðildarumsóknir, ályktanir, önnur mál

Lagabreytingar (17)

Teknar voru til afgreiðslu tillögur laganefndar til breytinga á lögum ÖBÍ (sjá lög ÖBÍ í fskj. nr. 23 og lagabreytingar í fskj. nr. 24 a-b).

Formaður laganefndar, Herbert Snorrason, gerði grein fyrir störfum og niðurstöðum nefndarinnar. Miklar umræður urðu um lögin í nefndinni en á endanum var ákveðið að leggja fram tvær lagabreytingatillögur.

Formaður laganefndar kynnti 1. tillögu, sem er í tveimur liðum um skýrara ákvæði um skyldur aðildarfélaga (fskj. nr. 24 a), sem er breyting á 6. gr. um réttindi og skyldur aðildarfélaga og 10. gr. um aðalfundarfulltrúa.

1. liður. Í stað 2. mgr. 6.gr. kemur eftirfarandi:

Aðildarfélögum ber skylda til að:

  1. Uppfylla kröfur 4.gr. um aðildarskilyrði svo lengi sem aðildin varir.
  2. Heimila trúnaðarmanni aðgang að félagaskrá.
  3. Skila ársskýrslu, staðfestum ársreikningi, lista yfir stjórnarmenn og þá sem skipa trúnaðarstöður, og lögum félagsins, hafi þeim verið breytt, í síðasta lagi sex vikum fyrir aðalfund.
  4. Greiða aðildargjöld í samræmi við ákvörðun aðalfundar.

Eftirfarandi breytingartillaga (fskj. 28) barst frá Fríðu Bragadóttur, Diabetes Íslandi á punkti 3:

Skila ársskýrslu, ársreikningi samþykktum á aðalfundi félagsins, lista yfir stjórnarmenn og þá sem skipa trúnaðarstöður, og lögum félagsins, hafi þeim verið breytt, í síðasta lagi sex vikum fyrir aðalfund.

Fundarstjóri bauð umræður en engar urðu. Formaður laganefndar gerði tillöguna að sinni og því var upphaflega tillagan borin upp með áorðnum breytingum. Samþykkt.

2. liður. Í 4. mgr. 10. gr. falla út orðin „Aðildarfélög skulu í síðasta lagi sex vikum fyrir aðalfund skila ársskýrslu, staðfestum ársreikningi og lögum, hafi þeim verið breytt, til stjórnar. Félagaskrá skal yfirfarin í samræmi við ákvæði 5. gr.“

Ekki urðu umræður um tillöguna og var hún samþykkt.

Formaður laganefndar kynnti 2. tillögu, um lengd tímamörk í kjörin embætti sem er breyting á 12. gr. laga ÖBÍ um kjörgengi og atkvæðagreiðslur. (fskj. nr. 24 b)

  1. Í stað orðanna „þrjú heil kjörtímabil“ skal koma „fjögur heil kjörtímabil“.
  2. Í stað orðanna „þriggja heilla tímabila, þ.e. alls að hámarki 7 ár“ skal koma „fjögurra heilla tímabila, þ.e. alls að hámarki 9 ár“.

Fundarstjóri bauð umræður um tillöguna og sköpuðust miklar umræður um hana. Vangaveltur voru um hvort að kjörtímabil stjórnsýslu skiptu máli í réttindasamtökum. Ennfremur voru umræður um hvort lenging kjörtímabils væri af hinu góða og hvort að sólarlagsákvæði væru þá óþörf. Bent var á að gott væri að samþykkja tillöguna líkt og önnur nágrannalönd og Evrópusamtök hafa gert.

Frávísunartillaga (fskj. 29) barst frá Ægi Lúðvíkssyni, MND félaginu. Frávísunartillagan var felld og kosið var um tillögu laganefndar með handauppréttingu. Lagabreytingar þarfnast samþykkis að minnsta kosti ¾ hluta greiddra atkvæða og þar sem niðurstaðan var óskýr var orðið við beiðni um rafræna kosningu, sem fór svo:

  • 68 sögðu já, samþykki eða 63,55%
  • 34 sögðu nei, hafna eða 31,78%
  • 5 tóku ekki afstöðu eða 4,67%

Tillaga laganefndar var felld.

Kosið var um lögin í heild sinni með áorðnum breytingum. Samþykkt samhljóða.

Aðildarumsóknir (18)

Ein aðildarumsókn barst frá SUM – samtökum um áhrif umhverfis á heilsu (fskj. nr. 25 a-g). Formaður ÖBÍ kynnti umsóknina, sagði að stjórn ÖBÍ hefði farið yfir þau gögn sem skilað var inn og taldi enga annmarka á því að umsóknin yrði tekin fyrir á aðalfundi. Umsókn barst frá SUM fyrir nokkrum árum en var hafnað þar sem félagið uppfyllti ekki skilyrði ÖBÍ. Nú hafa öll skilyrði verið uppfyllt og því leggur stjórn ÖBÍ umsókn SUM fyrir aðalfund.

Fram kom í umræðum að SUM væri sjúklingafélag og að samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismála-stofnuninni (WHO) teljist mygla til sjúkdóma. Miklar umræður sköpuðust, meðal annars um hvers konar fötlun félagar SUM glíma við og hvort að félagið eigi erindi í ÖBÍ. Bent var á að því miður leiði mygla oft til örorku og því séu einhverjir félagsmenn í SUM öryrkjar, en ekki allir. Oft sé um að ræða dulda öryrkja og ungt fólk.

Niðurstaða kosninga um aðild SUM að Öryrkjabandalaginu fór svo:

  • 83 sögðu já, samþykki eða 79,81%
  • 14 sögðu nei, hafna eða 13,46%
  • 7 tóku ekki afstöðu eða 6,73%

Aðild SUM að ÖBÍ var samþykkt með meirihluta atkvæða.

Ályktanir aðalfundar (19)

Ein ályktun barst fyrir fundinn og kynnti formaður ÖBÍ hana (fskj. nr. 26). Ályktunin er svohljóðandi:

Ályktun aðalfundar Öryrkjabandalags Íslands 2023

Aðalfundur ÖBÍ hvetur ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur til að bregðast með afgerandi hætti við vaxandi fátækt fatlaðs fólks og hækka örorkulífeyri um 12,4% án tafar.

Matarkarfan hefur nú hækkað um 12,4%, húsnæðiskostnaður eykst stöðugt og hækkanir á lífeyri ná varla að halda í við verðbólgu, hvað þá meira. Þau tekjulægstu í íslensku samfélagi verja stærstum hluta tekna sinna í nauðsynjar, miklum mun stærri en aðrir hópar. Það er því hófsöm krafa ÖBÍ réttindasamtaka að lífeyrir verði hækkaður um þessi sömu 12,4%.

Verðbólga ársins er nú 8% en ekki 5,6% eins og fjárlagafrumvarp þessa árs gerði ráð fyrir. Kjarasamningar eru framundan og því allar líkur á að verðbólga haldist há næsta ár og standist ekki verðbólguspá þá sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu upp á 4,9%.

Ríkisstjórnin er minnt á eigin stjórnarsáttmála, en í honum segir: „Afkoma örorkulífeyrisþega verður áfram bætt með það að markmiði að bæta sérstaklega kjör þeirra sem lakast standa“. Aðalfundur ÖBÍ krefst þess að stjórnvöld standi við orð sín og tekjulægsti hópur samfélagsins fái lífsnauðsynlega kjarabót.

Fundarstjóri bauð umræður um ályktunina en engar urðu.

Gengið var til kosninga og ályktunin samþykkt samhljóða.

Önnur mál (20)

A  Rósa María Hjörvar formannsframbjóðandi þakkaði stuðninginn og góða kosningabaráttu. Óskaði hún Ölmu Ýr alls hins besta sem og félagsmönnum til hamingju með nýjan formann.

Svavar Kjarrval, Einhverfusamtökunum sagði frá næsta verkefni samtakanna, sem er að fara yfir sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og greina hvaða þýðingu hann hefur fyrir einhverft fólk. Hvatti hann önnur aðildarfélög til að gera slíkt hið sama.

C  Bergur Þorri Benjamínsson, Sjálfsbjörg lsh. talaði um mikilvægi þess að félagar og aðildarfélög ræði við sínar sveitarstjórnir og hvetji til þess að sáttmáli Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verði lögfestur sem fyrst.

D  Helga Jóhanna Hallgrímsdóttir, Nýrnafélaginu velti upp hvort ætti að breyta orðinu örorkuþegi í lífeyrisþegi. Þuríður Harpa þakkaði ábendinguna og nefndi að til væru fjöldamörg orð yfir lífeyrisþega á borð við lífeyristaka.

E  Fulltrúar þökkuðu fráfarandi formanni fyrir frábær störf og stýrði Sveinn Guðmundsson, SÍBS, salnum í ferfalt bravó hróp.

F   Nýkjörinn formaður, Alma Ýr þakkaði fundarmönnum aftur fyrir traustið. Þakkaði hún einnig Rósu Maríu fyrir góða kosningabaráttu og kvaðst myndu sakna Þuríðar Hörpu.

Fundarstjórar þökkuðu fyrir sig og afhentu fráfarandi formanni ÖBÍ fundinn.

Fundarlok

Fráfarandi formaður, Þuríður Harpa þakkaði aðalfundarfulltrúum fyrir fundarsetuna og bauð nýtt fólk hjartanlega velkomið til starfa. Um leið þakkaði hún fráfarandi stjórnarmönnum fyrir vel unnin störf, óskaði þeim velfarnaðar og kvaðst hlakka til að sjá þau áfram í baráttunni.

Þuríður þakkaði sérstaklega fyrir allar kveðjurnar í dag sem og góða nærveru og samstarf síðastliðin 6 ár. Hún óskaði Ölmu Ýr hjartanlega til hamingju með formannskjörið og óskaði henni sem og öðrum fundargestum alls hins besta á komandi starfsárum.

Formaður sleit fundi klukkan 14:32.

Fylgiskjöl:

  1. Dagskrá aðalfundar ÖBÍ 6. og 7. október 2023
  2. Ársskýrsla ÖBÍ 2022 til 2023, hlekkur: Ársskýrslur – ÖBI (obi.is)
  3. Ársreikningur ÖBÍ 2022
  4. Ársreikningar fyrirtækja 2022
  5. a) Brynja leigufélag ses.
  6. b) Örtækni
  7. c) Hringsjá
  8. d) Fjölmennt
  9. Ákvörðun aðildargjalda
  10. Þóknun fyrir stjórnarsetu
  11. Listi yfir aðalfundarfulltrúa aðildarfélaga ÖBÍ
  12. Yfirlit yfir framboð til embætta 2023
  13. a) til b) Kynningar frambjóðenda til formanns (2)
  14. Kynning frambjóðanda til formanns aðgengishóps (1)
  15. Kynning frambjóðanda til formanns atvinnu- og menntahóps (1)
  16. Kynning frambjóðanda til formanns barnamálahóps (1)
  17. Kynning frambjóðanda til formanns heilbrigðishóps (1)
  18. Kynning frambjóðanda til formanns húsnæðishóps (1)
  19. Kynning frambjóðanda til formanns kjarahóps (1)
  20. a) til c) Kynningar frambjóðenda til stjórnar (3)
  21. a) til e) Kynningar frambjóðenda til kjörnefndar (5)
  22. a) til b) Kynningar frambjóðenda til varamanna kjörnefndar (2)
  23. a) til e) Kynningar frambjóðenda til laganefndar (5)
  24. a) til b) Kynningar frambjóðenda til varamanna laganefndar (2)
  25. a) til b) Kynningar frambjóðenda til skoðunarmanna reikninga (2)
  26. a) til b) Kynningar frambjóðenda til varaskoðunarmanna reikninga (2)
  27. Lög Öryrkjabandalags Íslands samþykkt 8. október 2022
  28. a) til b) Lagabreytingatillögur laganefndar (2)
  29. a) til g) Aðildarumsókn SUM – Samtaka um áhrif umhverfis á heilsu
  30. Ályktun aðalfundar ÖBÍ
  31. Athugasemd í tengslum við kosningar
  32. Breytingartillaga við 1. tillögu laganefndar
  33. Frávísunartillaga á 2. tillögu laganefndar

(Kynningum frambjóðenda er raðað eftir stafrófsröð ef framboð eru fleiri en eitt.)

Aðalfundur 2022

Fundargerð aðalfundar ÖBÍ réttindasamtaka

haldinn á Grand hóteli, Sigtúni 28, Reykjavík, 7. október 2022, kl. 16:00-19:00, og 8. október 2022, kl. 10:00-17:00.

Ávarp formanns, fundarsetning

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ, setti fundinn kl. 16:07 og bauð fundargesti í sal sem og á Zoom hjartanlega velkomna. Flestir fundarmanna voru í sal. Fjarfundarkerfi og rafrænt kosningakerfi hafa gefist vel og því var ákveðið að nota þau áfram.

Formaður sagði að margt væri framundan eftir annasamt ár. Ásýnd ÖBÍ hefur tekið breytingum og var nýtt merki tekið í notkun í september 2022. Þessar breytingar voru ákveðnar í framhaldi af niðurstöðu stefnuþings ÖBÍ 2021 og 2022.

Formaður lagði til að Eyvindur Elí Albertsson og Margrét Kristmannsdóttir yrðu fundarstjórar og var það samþykkt. Formaður lagði til að Helga Guðmundsdóttir og Ragnheiður Ásta Sigurðardóttir rituðu fundargerð og var það samþykkt. Þá bauð formaður fundarstjórum að taka við fundinum.

Fundarstjórar þökkuðu traustið, buðu gesti velkomna og kynntu dagskrá fundarins (fskj. nr. 1). Fundarstjóri tilkynnti að samkvæmt venju væri fulltrúum málefnahópa, stjórnar og hreyfinga ÖBÍ boðið að sitja fundinn sem áheyrnarfulltrúar.

 

Almenn fundarstörf

Skýrsla stjórnar (1)

Formaður flutti skýrslu stjórnar (fskj. nr. 2 – Ársskýrsla ÖBÍ 2021 til 2022. Skýrsla formanns og stjórnar, bls. 9-37) og sagði meðal annars frá eftirfarandi atriðum:

Á árinu tók við ný ríkisstjórn og nýir ráðherrar, nýjar sveitarstjórnir og nýtt sveitarstjórnarfólk. Í félagsmálaráðuneytið kom nýr ráðherra, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, sem er annt um hag fatlaðs fólks. ÖBÍ hefur verið í góðu sambandi og stöðugu samráði við nýja ríkisstjórn sem hefur skilað góðum árangri. ÖBÍ vinnur stöðugt að réttlátara samfélagi fyrir fatlað fólk og á árinu gerðist heilmargt í þeim málum. Sem dæmi má nefna að ráðast á í heildarendurskoðun á almannatryggingakerfinu. Formaður hvatti forystumenn og talsmenn aðildarfélaganna að láta í sér heyra, vera hugrakka og krefjast réttlætis.

Í nóvember 2021 hófust umræður ÖBÍ við UMFÍ um kaup á 25% hlut þeirra í Sigtúni 42 og var gengið frá kaupunum í febrúar 2022. Um er að ræða góða fjárfestingu og á sama tíma mikilvægt skref fyrir sambandið. Eftir kaupin á ÖBÍ 75% í fasteigninni. Nokkur aðildarfélög ÖBÍ munu koma inn í húsið með sína starfsemi. Með þessu má segja að Sigtúnið verður miðstöð mannréttinda fatlaðs fólks.

Á árinu hélt ÖBÍ áfram að vinna með nýja stefnu sem var samþykkt á aðalfundi árið 2021. Stefnan byggist á níu meginmarkmiðum sem öll eiga að stuðla að langtíma umbótum og jákvæðum breytingum. Áherslurnar eru leiðbeinandi í starfi málefnahópa og aðildarfélaga.

Nýtt merki ÖBÍ réttindasamtaka var hannað, ný ímynd og nýr vefur. Þetta var allt saman hluti af endurmörkun ÖBÍ. Nýtt merki ÖBÍ er sterkt, einfalt og nútímalegt og vísar til þess að 15% mannkyns er fatlað fólk auk þess sem fjólublái liturinn tengist alþjóðlegum lit fatlaðs fólks.

Það er samtökum eins og ÖBÍ afar mikilvægt að vel takist til að virkja stjórnvöld, bæði ríki og sveitarfélög eða einstaka stofnanir til að viðhafa merkingarbært samráð. Það er einnig í anda samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF). Á starfsárinu fundaði ÖBÍ með fjölmörgum frambjóðendum til Alþingis, frambjóðendum til sveitarstjórna og átti fjölda samtala og funda með einstaka þingmönnum og ráðherrum um málefni sem kröfðust aðgerða til að fatlað fólk eigi líf til jafns við aðra. Kjaramálin báru þar hæst en einnig aðgengismál, atvinnumál, heilbrigðismál, húsnæðismál og málefni barna.

Í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga stóð ÖBÍ fyrir fundaherferð um landið ásamt Þroskahjálp. Haldnir voru um 20 fundir í stærstu sveitarfélögunum í öllum landshlutum þar sem fulltrúum allra flokka ásamt almenningi var boðið að mæta og málefni fatlaðs fólks rædd. Niðurstöður nýrrar Gallup könnunar sem ÖBÍ lét framkvæma um nærþjónustu sveitarfélaga 2022 voru kynntar. Afar áhugavert var að niðurstöður könnunarinnar voru þær að flestir svarendur vilja færa þjónustuna aftur til ríkisins. Svarendur töldu að sveitarfélögin leggðu of litla áherslu á málaflokkinn og að nauðsynlegt væri að samræma þjónustuna á milli sveitarfélaga. Á fundunum voru aðgengismál og húsnæðismál mikið rædd. Þessi áhersla endurspeglast í könnuninni þar sem svarendur vilja að sveitarfélögin auki framboð húsnæðis á viðráðanlegu verði.

ÖBÍ þrýsti á eingreiðslu frá ríkinu til örorkulífeyrisþega sem var samþykkt og greidd út í desember 2021. Þessi eingreiðsla var fyrst greidd út í desember 2019 en það er áfangasigur að hafa náð henni fram undanfarin ár. Þar að auki var árleg hækkun örokulífeyris hærri en venjulega, í stað 3,5% var hækkun upp í 5,6% sem var framkvæmd í tveimur skrefum. Hækkunin er hluti af aðgerðum ríkisstjórnarinnar auk þess sem hún er merki um að málflutningur ÖBÍ nái eyrum stjórnvalda.

Reglugerð um heimilisuppbót var breytt þannig að nú getur barn búið í foreldrahúsum og verið í skóla til 26 ára aldurs án þess að foreldrar missi heimilisuppbót. Önnur kjarabót var hækkun SÍ í greiðsluþátttöku vegna almennra tannlækninga fatlaðs fólks og aldraðra úr 57% í 63%. Þar að auki fékk SÍ auknar heimildir til þess að styrkja kaup á hjálpartækum fyrir fötluð börn með tvö heimili þannig að þau geti átt vís hjálpartæki á báðum heimilum.

Undanfarin ár hafa örorkulífeyrisþegar þurft að prenta sjálfir út örorkuskírteini þar sem TR gerir það ekki lengur. Á árinu náðist samkomulag við nýjan forstjóra TR og ráðherra þess efnis að TR muni aftur gefa út örorkuskírteini í hefðbundinni kortastærð. Síðar á árinu er fyrirhugað að örorkuskírteinin verði einnig stafræn og til notkunar í snjallsímum. Þetta hefur verið mikið baráttumál hjá ÖBÍ og ánægjulegt að þetta hafi komist í gegn.

Á árinu unnust þrjú mál fyrir dómstólum og þó nokkur önnur eru í undirbúningi. Þessi dómsmál eru fordæmisgefandi og hafa mikla þýðingu fyrir fjölda fólks. Þau mál sem unnust í Hæstarétti voru m.a. búsetuskerðing á sérstakri uppbót og NPA.

Að lokum sagði formaður að bandalagið hefði barist af krafti í rúm 60 ár fyrir réttindum fatlaðs fólks. SRFF mun færa okkur nær því að eiga líf til jafns við aðra. Formaður þakkaði stjórn og aðildarfélögum kærlega fyrir samstarfið á árinu.

Fundarstjóri bauð umræður en engar urðu.

Formaður veitti formanni Blindravinafélags Íslands, Helgu Eysteinsdóttur, viðurkenningu fyrir einstakt ævistarf fyrir hönd ÖBÍ. Blindravinafélagið hefur eingöngu haft tvo formenn frá upphafi þess og hefur Helga, sem er nú komin yfir áttrætt, verið viðloðandi félagið frá því að hún var 14 ára gömul.

 

Ársreikningur ÖBÍ (2)

Íris Ólafsdóttir frá PwC fór yfir reikninga bandalagsins fyrir árið 2021 (fskj. nr. 3).

Rekstrartekjur ársins 2021 voru rúmlega 1.139 milljónir í stað rúmlega 921,5 milljónir árið 2020.

Rekstrargjöld ársins 2021 hækkuðu milli ára og námu tæplega 441 milljónum árið 2021 samanborið við 322,1 milljón árið áður.

Rekstrarafkoma ársins 2021 fyrir fjármunatekjur og -gjöld var 698,9 milljónir, en var 599,4 milljónir árið 2020.

Rekstrarafkoma ársins 2021, að meðtöldum fjármunatekjum og veittum styrkjum jukust töluvert milli ára, var jákvæð um 256,3 milljónir, en var jákvæð um 78 milljónir árið 2020.

Efnahagshluti reikningsins hækkaði töluvert á milli ára. Varanlegir fastafjármunir voru 303 milljónir árið 2021 samanborið við 309,6 milljónir árið áður og jukust langtímakröfur úr 214 milljónum árið 2020 í tæplega 223 milljónir árið 2021. Þar var fyrst og fremst um að ræða bundnar innistæður.

Fastafjármunir samtals voru því 527 milljónir 2021 í stað 523 milljóna árið áður.

Veltufjármunir voru 0 kr. árið 2021 í stað 2,7 milljóna 2020 og voru eignir því samtals 1.130 milljónir árið 2021 í stað 798 milljóna 2020.

Eigið fé og skuldir voru samtals 1.130 milljónir árið 2021 í stað 798 milljóna árið áður. Það skiptist í óráðstafað eigið fé, sem var 942 milljónir 2021 í stað 686 milljóna árið áður, og skuldir, sem voru samtals 188 milljónir 2021 í stað 112 milljónir árið 2020. Helsta skýring á hækkun skammtímaskulda milli ára er vegna ógreiddra framlaga og styrkja sem og skuldir við tengda aðila.

Handbært fé í árslok 2021 var því 394,7 milljónir, í stað 175,6 milljóna árið áður.

Vísaði endurskoðandi í greinargóðar skýringar í ársreikningi á blaðsíðu 11-19 til frekari glöggvunar.

Fundarstjóri opnaði fyrir umræður um reikninga ÖBÍ. Til svara voru gjaldkeri ÖBÍ, Jón Heiðar Jónsson, og framkvæmdastjóri ÖBÍ, Eva Þengilsdóttir.

Ein fyrirspurn barst varðandi hækkun á rekstrarkostnaði fasteigna og skrifstofu. Framkvæmdastjóri svaraði því að hækkun á rekstrarkostnaði fasteignar mætti rekja til framkvæmda í kjallara í Sigtúni og hækkun á rekstrarkostnaði skrifstofu væri vegna meiri starfsemi á árinu 2021 heldur en árið áður.

Frekari umræður og fyrirspurnir voru ekki og bar fundarstjóri reikninginn upp til atkvæða. Ársreikningur ÖBÍ 2021 var samþykktur samhljóða. 

 

Skýrslur fastra málefnahópa (3)

Skýrslur málefnahópa ÖBÍ voru birtar í Ársskýrslu ÖBÍ 2021-2022 sem var dreift á fundinum (fskj. nr. 2, bls. 40-45). Formenn málefnahópa komu upp og klöppuðu fundargestir fyrir þeim og starfi málefnahópanna.

 

Skýrslur fyrirtækja (4)

TMF- Tölvumiðstöð (a)

Rúnar Björn Herrera stjórnarformaður, var til svara, engar fyrirspurnir bárust.

Örtækni (b)

Jónas Páll Jakobsson, framkvæmdastjóri ÖBÍ, forfallaðist því miður. Fulltrúar voru beðnir um að senda honum tölvupóst ef að einhverjar fyrirspurnir væru.

Fjölmennt (c)

Helga Gísladóttir, forstöðumaður ÖBÍ, var til svara, engar fyrirspurnir bárust.

Íslensk getspá (d)

Bergur Þorri Benjamínsson, fulltrúi ÖBÍ í stjórn Íslenskrar getspár, var til svara, engar fyrirspurnir bárust.

Hringsjá (e)

Helga Eysteinsdóttir, forstöðumaður Hringsjár, flutti framsögu og kynnti m.a. stefnumótunarvinnu Hringsjár síðasta ár. Undir forystu Hrannar Pétursdóttur stefnumótunarsérfræðings var gerð úttekt á starfi Hringsjár. Hrönn safnaði gögnum og talaði við fyrrverandi og núverandi nemendur, þjónustukaupa, samstarfsaðila og fulltrúa aðildarfélaga ÖBÍ. Skemmst er frá því að segja að allir voru mjög ánægðir með námið og þótti mjög vel að því staðið. Hringsjá mun halda áfram að sinna sínum helsta markhóp, sem er fólk 18 ára og eldra, sem hefur verið frá vinnumarkaði eða námi vegna slysa, veikinda, félagslegra örðugleika eða annarra áfalla. Vilji er til þess að halda í þá sérstöðu að ekki sé nauðsynlegt að klára ákveðna áfanga til að útskrifast úr náminu. Áhugi er á að bjóða upp á fleiri námsbrautir, en húsnæðið í Hátúni setur starfseminni ákveðnar skorður þar sem það er löngu sprungið. Því stendur yfir leit að hentugra húsnæði þar sem starfsemin rúmast öll á einum stað. Markmið starfsemi Hringsjár er að styðja nemendur til að láta drauma sína rætast og auka lífsgæði þeirra.

Ein fyrirspurn barst varðandi nemendafjölda á 1. önn og hversu marga nemendur væri hægt að taka inn. Helga svaraði því til að hægt væri að taka inn að hámarki 25 nemendur sem skýrist að mestu leyti vegna húsnæðisskorts.

Brynja leigufélag ses. (f) 

Guðbrandur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Brynju, flutti framsögu og fjallaði m.a. um rekstur Brynju og þau verkefni sem Brynja sinnir. Brynja er sjálfseignarstofnun í atvinnurekstri með sterkan efnahag og eignasafn upp á ríflega 850 íbúðir. Tilgangur félagsins er einfaldur, að kaupa, eiga og reka íbúðarhúsnæði fyrir öryrkja. Lögð er áhersla á hagkvæmt leiguverð.

Fasteignasafnið er verðmætasti hluti eignasafns Brynju og nam það 31 milljarði króna í lok árs 2021. Eigið fé félagsins var 24 milljarðar í lok árs 2021, sem er góður vitnisburður um að haldið hafi verið vel á spöðunum.

Ný stjórn Brynju hefur skilgreint breyttar áherslur varðandi uppbyggingu á eignasafni félagsins og er stefnt á stækkun þess, það er kaup á um 320 íbúðum á næstu 5 árum og er áhersla lögð á að nýta stofnframlög ríkis og sveitarfélaga til uppbyggingarinnar. Til að tryggja fyrirsjáanleika í rekstrinum hefur Brynja gert stefnumarkandi samkomulag við verktaka og óhagnaðardrifin leigufélög og langtímaleigusamninga við sveitarfélög. Það skilar meiri fyrirsjáanleika varðandi kaup og afhendingu íbúða auk þess að tryggja félagslega blöndun.

Helstu áskoranir í rekstri Brynju eru:

  • Opnun biðlista, gera ráð fyrir miklum fjölda fólks sem mun skrá sig á biðlista fyrir leiguíbúðum.
  • Miklar hækkanir á fasteignamarkaði, sem er drifinn áfram af lágum vöxtum og mikilli umframeftirspurn.
  • Aukin verðbólga.
  • Verðtryggðir vextir.

Fundarstjóri bauð umræður. Þó nokkrar fyrirspurnir bárust, flestar varðandi fjölgun íbúða á komandi árum, fjármögnun á þeim og leiguverð. Áhyggjur voru hvort leiguverð hækki samhliða fjölgun íbúða á lánum. Framkvæmdastjóri svaraði því til að leigusamningar og leiguverð hefur ekki hækkað samhliða kaupum á nýjum íbúðum og því þyrfti ekki að hafa áhyggjur af hækkun leiguverðs. Einnig var spurt út í hvort kæmi til greina að frysta leiguverð hjá Brynju og sýna fordæmi fyrir önnur leigufélög. Framkvæmdastjóri svaraði því til að það hefði komið til umræðu og þyrfti að skoða betur og gera á mjög hóflegan hátt. Loks var spurt hvort það verði stuðningur til breytinga hjá núverandi leigjendum Brynju ef þeir lenda í óvæntum aðstæðum. Framkvæmdastjóri svaraði því til að notast er við svokallað bráðaúrræði, þ.e. tímabundið húsnæðisúrræði á meðan fólk vinnur úr sínum málum.

 

Stefna og starfsáætlun stefnuþings (5)

Vegna covid náðist ekki að halda stefnuþing árið 2020. Stefnuþing var því haldið 2021 og til að ná aftur réttum takti var eins dags stefnuþing haldið 1. apríl 2022. Næsta stefnuþing verður haldið árið 2024. Lögð var fram tillaga stefnuþings til aðalfundar (fskj. nr. 15) og hljóðar hún svo:

Gildistími framtíðarsýnar og meginmarkmiða verði til ársins 2030.

Fundarstjóri bauð upp á umræður um tillöguna. Engar urðu þannig að gengið var til kosninga. Tillagan var samþykkt samhljóða.

 

Ákvörðun aðildargjalda (6)

Fundarstjóri kynnti framkomna tillögu frá stjórn ÖBÍ um að aðildargjöld ÖBÍ yrðu óbreytt fyrir árið 2023, 0 kr. (sjá fskj. nr. 5).

Fundarstjóri tilkynnti jafnframt að ef engin mótmæli væru liti fundarstjóri svo á að tillagan væri samþykkt. Engin mótmæli voru og telst því tillagan samþykkt samhljóða.

 

Þóknun fyrir stjórnarsetu (7)

Fundarstjóri tók til afgreiðslu tillögu frá stjórn ÖBÍ um þóknun fyrir stjórnarsetu, svohljóðandi (sjá fskj. nr. 6):

Lagt er til að fyrirkomulag við greiðslu þóknunar fyrir fundarsetu fyrir fulltrúa í stjórn ÖBÍ verði óbreytt frá fyrra starfsári:

  • Stjórnarmenn ÖBÍ og varamenn fá greiddar 7 einingar fyrir hvern setinn stjórnarfund sem er allt að 2,5 klst. langur. 2 einingar eru fyrir undirbúning fundar og 5 einingar fyrir sjálfan fundinn. Ef forföll eru tilkynnt eru greiddar 2 einingar fyrir undirbúning fundar.
  • Fyrir hverja klst. umfram það er greidd ein eining.
  • Upphæð þóknunar tekur mið af ákvörðun þóknananefndar ríkisins.

Fundarstjóri boðaði til kosninga. Tillagan var samþykkt samhljóða.

Kl. 18:45 frestaði fundarstjóri fundi til kl. 10 laugardaginn 8. október 2022.

 

Laugardagur 8. október 2022 – fundi framhaldið


Fundarstjóri hóf fund að nýju kl. 10:12.

Kosningar í stjórn

Fundarstjóri bauð Alberti Ingasyni, fulltrúa kjörnefndar, að koma upp og segja frá starfi nefndarinnar.

Yfirlit yfir aðalfundarfulltrúa var sent út í fundargögnum og liggur á borðum fundarmanna í sal (fskj. nr. 7) ásamt yfirliti yfir framboð (fskj. nr. 8).

Formaður (8)

Kosið verður 2023.

Varaformaður (9)

Bergþór Heimi Þórðarson, ADHD samtökunum gaf kost á sér í embættið (fskj. nr. 9). Ekki bárust fleiri framboð og því var Bergþór sjálfkjörinn varaformaður ÖBÍ.

Gjaldkeri (10)

Jón Heiðar Jónsson, Sjálfsbjörg lsh. gaf kost á sér í embættið (fskj. nr. 10). Ekki bárust fleiri framboð og því var Jón Heiðar sjálfkjörinn gjaldkeri ÖBÍ.

Formenn fastra málefnahópa (11)

Kosið verður 2023.

Stjórnarmenn (12)

Fundarstjóri kynnti kosningu sjö stjórnarmanna til tveggja ára. Átta höfðu boðið sig fram innan tilskilins frests (fskj. nr. 11 a-h).

Frambjóðendur kynntu sig. Greidd voru atkvæði og skiptust þau á eftirfarandi hátt:

  • Eiður Welding, CP félaginu (79%)
  • Fríða Bragadóttir, Samtök sykursjúkra (74,2%)
  • Guðni Sigmundsson, Sjálfsbjörg lsh. (44,4%)
  • Guðrún Barbara Tryggvadóttir, Nýrnafélaginu (77,4%)
  • Ingibjörg Snjólaug Snorra Hagalín, MS félagi Íslands (62,9%)
  • María Óskarsdóttir, Sjálfsbjörg lsh. (42,7%)
  • Sigþór Unnsteinn Hallfreðsson, Blindrafélaginu (77,4%)
  • Snævar Ívarsson, Félagi lesblindra á Íslandi (69,4%)

Þessi hlutu kosningu til setu í stjórn ÖBÍ 2022-2024:

Eiður Welding, Guðrún Barbara Tryggvadóttir, Sigþór Hallfreðsson, Fríða Bragadóttir, Snævar Ívarsson, Ingibjörg Hagalín og Guðni Sigmundsson.

Varamenn (13)

Fundarstjóri kynnti kosningu þriggja varamanna til tveggja ára. Þrír höfðu boðið sig fram innan tilskilins frests (fskj. nr. 12 a-c). Eitt framboð til viðbótar barst á fundinum og samþykkti fundurinn framboðið samhljóða.

Frambjóðendur kynntu sig. Greidd voru atkvæði og skiptust þau á eftirfarandi hátt:

  • Erla Hlynsdóttir, Tourette-samtökunum (28,31%)
  • María Óskarsdóttir, Sjálfsbjörg Ish. (18,15%)
  • Óskar Guðmundsson, Einhverfusamtökunum (20,92%)
  • Sigríður Halla Magnúsdóttir, Samtökum um endómetríósu (32,31%)

Þessi hlutu kosningu til setu sem varamenn í stjórn ÖBÍ 2022-2024:

  • Sigríður Halla Magnúsdóttir, Erla Hlynsdóttir og Óskar Guðmundsson.

Aðrar kosningar til tveggja ára (kosið 2023)

Kjörnefnd (14)

Laganefnd (15)

Skoðunarmenn reikninga og varamenn (16)

 

Lagabreytingar, aðildarumsóknir, ályktanir, önnur mál

Lagabreytingar (17)

Teknar voru til afgreiðslu tillögur laganefndar til breytinga á lögum ÖBÍ (sjá lög ÖBÍ í fskj. nr. 13 og lagabreytingar í fskj. nr. 14 a-d).

Formaður laganefndar, Herbert Snorrason, kvaddi sér hljóðs og gerði grein fyrir störfum og niðurstöðum nefndarinnar. Tilgangur lagabreytinga í ár var að koma í veg fyrir misskilning og samræma lög ÖBÍ lögum um félög til almannaheilla.

Fundarstjóri útskýrði fyrirkomulag kosninga. Hver liður yrði borinn upp til kosninga og í framhaldinu yrði tillagan í heild borin upp til samþykktar. Einfaldur meirihluti réði úrslitum.

Formaður laganefndar kynnti 1. tillögu, sem er breyting á orðalagi í tengslum við lög um félög til almannaheilla (fskj. nr. 14a).

Breyting á 9. grein um aðalfund:

a) Í stað heitisins „Almennt ákvæði“ mun greinin heita „Fundarboðun og aðalfundur“.

b) Orðin „að lágmarki“ bætast inn í 3. málslið.

c) 3. og síðasti málsliður færast framar og verða að 1. og 2. málslið.

d) Við greinina bætist nýr 3. málsliður „Fari fundur fram að hluta eða alfarið um fjarfundarbúnað skal þess getið í fundarboði. Þá skal þess einnig getið ef aðrar reglur gilda um þátttakendur á fjarfundi en um þá sem eru á staðnum.“

e) Setningin „Stjórn boðar til fundarins og skal hann boðaður með a.m.k. tveggja mánaða fyrirvara með bréfi til allra aðildarfélaga.“ verður „Stjórn boðar til fundarins með a.m.k. tveggja mánaða fyrirvara með sannanlegum hætti.“

Fundarstjóri bauð upp á umræður um lagabreytingartillögu. Ein fyrirspurn barst varðandi þátttakendur á fjarfundi og nokkrar umræður urðu um hana. Í kjölfarið lagði Ragnheiður Ríkharðsdóttir formaður Alzheimersamtakanna fram skriflega breytingartillögu á 4. málslið (fskj. 18). Setningin „Þá skal þess einnig getið ef aðrar reglur gilda um þátttakendur á fjarfundi en um þá sem eru á staðnum.“ verði:

„Þess skal jafnframt getið verði tjáningarfrelsi þeirra sem þannig taka þátt takmarkað á einhvern hátt.“

Fundarstjóri bauð umræður um breytingatillöguna en engar urðu. Gengið var til atkvæða. Breytingartillagan var samþykkt samhljóða.

Fundarstjóri bauð umræður um lagabreytinguna með áorðnum breytingum. Einn fundargesta lýsti yfir óánægju sinni með tillöguna og kvað hana ýta undir mismunun. Gengið var til kosninga og var tillagan samþykkt með þorra atkvæða.

9. gr. hljóðar svo eftir samþykktina:

  1. gr. Fundarboðun og aðalfundur

Fundur er lögmætur sé löglega til hans boðað og að lágmarki helmingur boðaðra fundargesta viðstaddur. Fundarstað og fundartíma skal tilgreina í fundarboði. Fari fundur fram að hluta eða alfarið um fjarfundarbúnað skal þess getið í fundarboði. Þess skal jafnframt getið verði tjáningarfrelsi þeirra sem þannig taka þátt takmarkað á einhvern hátt.

Aðalfundur fer með æðsta vald í málefnum bandalagsins. Fundinn skal halda í október ár hvert. Stjórn boðar til fundarins með a.m.k. tveggja mánaða fyrirvara með sannanlegum hætti.

Formaður laganefndar kynnti 2. tillögu í 3 liðum sem ætlað er að lagfæra orðalag í tengslum við lög um félög til almannaheilla (fskj. nr. 14b)

1. liður. Breyting á 2. málsgrein 14. greinar um lagabreytingar.

     Hlutfallið „⅔“ breytist í „¾“.

2. liður. Breyting á 1. málsgrein 17. greinar um aukaaðalfund.

     Orðið „þriðjungur“ í 2.málslið verður „tíundi hluti“.

1. liður. Breyting á 28. grein um slit bandalagsins.

     Hlutfallið „⅔“ breytist í „¾“.

Fundarstjóri bauð umræður um tillöguna en engar urðu. Tillagan var samþykkt samhljóða.

Formaður laganefndar kynnti 3. tillögu, í 3 liðum, sem ætlað er að lagfæra orðalag í tengslum við lög um félög til almannaheilla.

1. liður. Breyting á 2. málsgrein 6. greinar um réttindi og skyldur aðildarfélaga.

     Orðið „sbr. 25. gr.“ fellur niður.

2. liður. Breyting á heiti og viðbót við 25. grein um tekjur bandalagsins.

a) Við bætast orðin „“og ráðstöfun þeirra“.

b) Eftirfarandi texti kemur nýr inn sem 1. málsgrein „Reglulegar tekjur bandalagsins koma frá tengdum atvinnurekstri sem stuðlar að markmiðum bandalagsins, Íslenskri getspá, útleigu húsnæðis og aðildargjöldum.“

c) Orðið „og“ fellur út í 1. málslið og kemur „.“ í staðinn.

d) Síðasta setning núgildandi málsgreinar fellur út „Aðalfundur ákveður aðildargjöld félaganna.“

Fundarstjóri opnaði fyrir spurningar og umræður varðandi tillögu 3. Nokkrar fyrirspurnir bárust sem formaður laganefndar svaraði. Gengið var til kosninga og tillagan samþykkt samhljóða.

Formaður laganefndar kynnti 4. tillögu, í 3 liðum, sem unnin var að beiðni stjórnar ÖBÍ.

1. liður. Breyting á 1. málslið 1. og 3. málsgreinar 18. greinar A um kosningu og hlutverk stjórnar.

a)  Orðið „fimm“ í 1. málslið 1. málsgreinar breytist í „sex“.

b) Orðið „ellefu“ í 1. málslið 1. málsgreinar breytist í „tíu“.

c) Orðið „fjóra“ í 1. málslið 3. málsgreinar breytist í „þrjá“.

2. liður.Breyting á 1. málslið 1. málsgreinar 23. greinar um málefnahópa.

    • Orðið „fimm“ í 1. málslið 1. málsgreinar breytist í „sex“.

3. liður.Tímabundið ákvæði bætist við 23. grein um málefnahópa.

    • Ákvæðið hljóðar svo: „Þar til formaður sjötta málefnahópsins hefur verið kosinn á aðalfundi eftir almennum ákvæðum laganna skal hann hafa sömu stöðu í stjórn ÖBÍ og starfandi formaður fasts málefnahóps.“

Fundarstjóri bauð umræður um tillöguna en engar urðu. Gengið var til kosninga og lagabreytingin var samþykkt samhljóða.

Gengið var til kosninga um lögin í heild sinni með áorðnum breytingum. Lögin voru samþykkt samhljóða.

Aðildarumsóknir (18)

Engar aðildarumsóknir lágu fyrir.

Ályktanir aðalfundar (19)

Ein ályktun barst fyrir fundinn og kynnti formaður ÖBÍ hana (fskj. nr. 16). Ályktunin er svohljóðandi:

Ályktun aðalfundar Öryrkjabandalags Íslands 2022

Aðalfundur ÖBÍ lýsir þungum áhyggjum af vaxandi framfærsluvanda fatlaðs fólks og skorar á stjórnvöld að hækka örorkulífeyri, draga úr skerðingum vegna atvinnuþátttöku og hækka tekju- og eignamörk.

Lágtekjuvandi fatlaðs fólks hefur lengi verið ærinn, en í verðbólgu sem nú geisar er staðan orðin grafalvarleg. Lífeyrir er allt of lágur og hvati til atvinnuþátttöku lítill. Brotið er á mannréttindum fatlaðs fólks, sem býr við algjöran framfærsluvanda. Það sést meðal annars á því að fatlað fólk er nú 42% þeirra sem leita til Umboðsmanns skuldara og hefur fjölgað hratt í þeim hópi frá 2019.

Við krefjumst þess að það sem út af hefur borið síðustu áratugi verði leiðrétt. Ríkisstjórnin segir í stjórnarsáttmálanum að endurskoða eigi málefni fatlaðs fólks með það að markmiði að bæta lífskjör þess og lífsgæði, afkomu og möguleika til atvinnuþátttöku. Þetta eru falleg orð en nú þarf aðgerðir sem bæta stöðuna strax 

– fatlað fólk getur ekki beðið lengur!

ÖRLÖGIN eru í ykkar höndum stjórnvöld

Fundarstjóri bauð umræður um ályktunina. Ein ábending barst þess efnis að inn í tillöguna vantaði einstæða foreldra á örorkulífeyri.

Gengið var til kosninga og ályktunin samþykkt samhljóða.

 

Önnur mál (20)

A

Bergþór Heimir Þórðarson varaformaður lagði fram tillögu um nýjan fastan málefnahóp ÖBÍ (fskj. nr. 17).

Tillaga um nýjan fastan málefnahóp ÖBÍ fyrir aðalfund 2022:

Á þessum aðalfundi var tillaga til lagabreytingar um að fjölga föstum málefnahópum ÖBÍ úr fimm hópum í sex samþykkt.

Af því tilefni er hér með lagt til að málefnahópur um málefni barna sem skipaður var sem tímabundinn málefnahópur af stjórn verði gerður að föstum málefnahópi.

Fundarstjóri bauð umræður um tillöguna. Fyrirspurnir bárust varðandi mönnun hópsins og hvort að breyta þyrfti ályktun stefnuþings í kjölfarið á samþykkt tillögunnar. Bergþór svaraði því til að málefnahópurinn væri fullmannaður og kæmi skýrt fram í ályktun stefnuþings.

Tillagan var borin upp og samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta.

B

Jóhann Guðvarðarson frá Gigtarfélaginu bað um orðið og óskaði nýkjörnum stjórnarmönnum til hamingju með kjörið. Benti hann á að ræða þyrfti lyfjaskort í landinu innan stjórnar ÖBÍ.

C

Dóra Ingvadóttir frá Gigtarfélaginu greindi frá því að ekki væri skýrt fyrir aðildarfélögin hverjir gætu átt aðild að ÖBÍ og hvernig hægt væri að ganga í ÖBÍ. Nauðsynlegt væri að setja skýran ramma um hvernig eigi að afgreiða aðildarumsóknir.

D

Áslaug Ýr Hjartardóttir frá Fjólu vildi vekja athygli á því að sumir fundarmenn væru blindir, heyrnarlausir eða með aðra fötlun sem gerði það að verkum að þeir þyrftu meiri tíma til að ná því sem fram færi. Mikilvægt væri að flýta sér ekki á aðalfundi.

E

Snævar Ívarsson frá Félagi lesblindra benti á mikilvægi almennilegs háborðs þannig að það sæist vel hver væri í púlti. Þuríður Harpa Sigurðardóttir formaður svaraði og sagði að á þessum fundi hefði verið ákveðið að hafa ekki háborð á palli. Á næsta aðalfundi verður pallur.

Fundarstjórar þökkuðu fyrir sig og afhentu formanni ÖBÍ, Þuríði Hörpu Sigurðardóttur, fundinn.

Fundarlok

Formaður þakkaði aðalfundarfulltrúum fyrir fundarsetuna og bauð nýtt fólk hjartanlega velkomið til starfa. Um leið þakkaði hún fráfarandi stjórnarmönnum fyrir vel unnin störf og óskaði þeim velfarnaðar og kvaðst hlakka til að sjá þau áfram í baráttunni. Þá þakkaði formaður fundarstjórum og fundarriturum fyrir góð störf sem og starfsfólki ÖBÍ. Að lokum hvatti hún félaga til þess að vera stórhuga, leiða breytingar, vera breytingin og halda áfram góðum störfum.

Formaður sleit fundi kl. 12:47.


Fylgiskjöl:

1. Dagskrá aðalfundar ÖBÍ 7. og 8. október 2022

2. Ársskýrsla ÖBÍ 2021 til 2022

3. Ársreikningur ÖBÍ 2021

4. Ársreikningur fyrirtækja 2021

a) Brynja Hússjóður Öryrkjabandalagsins

b) Örtækni

c) Hringsjá

d) Fjölmennt

5. Ákvörðun aðildargjalda

6. Þóknun fyrir stjórnarsetu

7. Listi yfir aðalfundarfulltrúa aðildarfélaga ÖBÍ

8. Yfirlit yfir framboð til embætta 2022

9. Kynning frambjóðanda til varaformanns (1)

10. Kynning frambjóðanda til gjaldkera (1)

11. a) til h) Kynningar frambjóðenda til stjórnar (8)

12. a) til c) Kynningar frambjóðenda til varamanna stjórnar (3)

13. Lög Öryrkjabandalags Íslands samþykkt 16. október 2021

14. a) til d) Lagabreytingatillögur laganefndar (4)

15. Tillaga stefnuþings til aðalfundar ÖBÍ 2022

16. Ályktun aðalfundar ÖBÍ 2022

17. Tillaga um 6. fasta málefnahóp ÖBÍ

18. Tillaga Ragnheiðar Ríkharðsdóttur um breytingu á 9. gr. laga ÖBÍ

(Kynningum frambjóðenda er raðað eftir stafrófsröð ef framboð eru fleiri en eitt)

Aðalfundur 2021

Fundargerð

Fundargerð aðalfundar Öryrkjabandalags Íslands, haldinn á Hilton Reykjavík Nordica 15. október 2021, kl. 16:00-19:00, og 16. október 2021, kl. 10:00-17:00.

Ávarp formanns, fundarsetning

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ, setti fundinn kl. 16:05 og bauð fundargesti í sal sem og á Zoom hjartanlega velkomna. Formaður brýndi fyrir gestum að huga vel að sóttvörnum vegna Covid-19.

Á síðasta aðalfundi árið 2020 var í fyrsta sinn kosið með rafrænu kosningakerfi sem gekk vonum framar og því var ákveðið að nota það einnig í ár.

Á starfsárinu var ráðist í mikla stefnumótun hjá bandalaginu og einnig var unnin greining á virkni á skipulagi skrifstofu ÖBÍ og tillögur gerðar um breytingar. Lilja Þorgeirsdóttir framkvæmdastjóri ÖBÍ til síðustu 13 ára var kvödd og við starfi hennar tók Eva Þengilsdóttir.

Formaður lagði til að Eyvindur Elí Albertsson og Ríkey Jóna Eiríksdóttir yrðu fundarstjórar og var það samþykkt. Formaður lagði til að Helga Guðmundsdóttir og Ragnheiður Ásta Sigurðardóttir rituðu fundargerð og var það samþykkt. Þá bauð formaður fundarstjórum að taka við fundinum.

Fundarstjórar þökkuðu traustið, buðu gesti velkomna og kynntu dagskrá fundarins (fskj. nr. 1). Fundarstjóri tilkynnti að samkvæmt venju væri fulltrúum málefnahópa, stjórnar og hreyfinga ÖBÍ boðið að sitja fundinn sem áheyrnarfulltrúar.

Almenn fundarstörf

Skýrsla stjórnar (1)

Formaður flutti skýrslu stjórnar (fskj. nr. 2 – Ársskýrsla ÖBÍ 2020 til 2021. Skýrsla formanns og stjórnar, bls. 9-35) og sagði meðal annars frá eftirfarandi atriðum:

Heimsfaraldur Covid 19 setti mark sitt á starf bandalagsins á þessu ári líkt og á árinu 2020. Segja mætti að aðlögunarhæfni gæti verið orð ársins, að minnsta kosti hvað varðar starfsemi ÖBÍ. ÖBÍ leitaði allra leiða til þess að halda baráttumálum þess hátt á lofti og nýtti til þess ýmsa miðla, auglýsti, skrifaði, talaði og hélt fjarfundi. Þau málefni sem hæst báru á starfsári bandalagsins voru kjaramál, aðgengismál og geðheilbrigðismál.

Bandalagið varð 60 ára á árinu. Heimsfaraldurinn kom í veg fyrir hátíðarhöld á sjálfan afmælisdaginn 5. maí en ÖBÍ minntist þó dagsins á áberandi hátt. Fjórblöðungur ÖBÍ, þar sem athyglinni var beint að því hve miklir eftirbátar við Íslendingar erum hinum Norðurlandaþjóðunum í velferðarmálum, fylgdi Fréttablaðinu og barst inn um lúgur landsmanna 8. maí. Þó nokkur umræða skapaðist í kjölfarið á þessum bæklingi ásamt skýrslu Stefáns Ólafssonar um íslenska lífeyriskerfið í samanburði við hin norrænu kerfin. Þann 5. september var haldinn afmælisfögnuður. Forseti Íslands var heiðursgestur og Sif Holst, varaformaður dönsku systursamtaka ÖBÍ, hélt fyrirlestur. Veittar voru 18 viðurkenningar til baráttufélaga sem unnið hafa fyrir bandalagið í áratug eða meira. Guðríður Ólafs Ólafíudóttir fékk heiðursviðurkenningu fyrir langt og mikilvægt starf í þágu fatlaðs fólks.

Í tíð síðustu ríkisstjórnar gerðist það að örorkulífeyrir varð lægri en atvinnuleysisbætur og munar nú tæpum 50.000 kr. ÖBÍ lagði áherslu á hækkun örorkulífeyris í öllum samskiptum við stjórnvöld og hækkun frítekjumarks vegna atvinnutekna, sem sagt að verulega yrði dregið úr skerðingum vegna tekna öryrkja. Þar að auki kallaði ÖBÍ eftir tímasettri áætlun frá stjórnvöldum um hækkun örorkulífeyris til jafns við lágmarkslaun.

Stór áfangi náðist þegar örorku- og endurhæfingargreiðslur hækkuðu 1. janúar 2021 hjá rétt um 7.800 manns um 8.000 kr. umfram vísitöluhækkun. Strax og ríkisstjórnin hafði kynnt aðgerðir sínar um hækkun örorku- og endurhæfingarlífeyris til þeirra sem engar aðrar tekjur hafa var ljóst að þrýsta þyrfti á að tekjuviðmið yrðu hækkuð í kjölfarið til að hækkanirnar hyrfu ekki í vasa sveitarfélaganna. ÖBÍ, ASÍ og BSRB leiddu saman hesta sína og vöktu athygli stjórnvalda á þessu. Þetta leiddi til þess að við lokaafgreiðslu fjárlaga var samþykkt að hækka húsnæðisbætur um 250 milljónir. Auk þess var um 100 milljón kr. tímabundin hækkun framlags til húsnæðisbóta samþykkt. Þetta þýddi að hækkun örorkulífeyris eftir áramót hafði ekki þau kveðjuverkandi áhrif að lækka húsaleigubætur eða sérstakar húsaleigubætur. Ómetanlegt er að hafa stuðning launahreyfingarinnar í kjarabaráttunni.

Á árinu var farið í mótun á heildarstefnu fyrir ÖBÍ. Ráðgjafafyrirtækið Arcur sá um stefnuþing ÖBÍ og stefnumótunina en vinnunni lauk með kynningu fyrir stjórn ÖBÍ í ágúst. Stefnan var unnin í víðtæku samráði við aðildarfélög og fulltrúa í málefnahópum ÖBÍ ásamt stjórn. Undir lokin var unnin greining á virkni og skipulagi skrifstofu ÖBÍ og tillögur gerðar um breytingar.

Tillaga stefnuþings og niðurstaða vinnu ráðgjafa er að stefna ÖBÍ verði byggð upp í kringum níu meginmarkmið: Skilvirk heilbrigðisþjónusta, öflug atvinnuþátttaka, nám fyrir alla, gott aðgengi, sjálfsögð réttindi, góð lífskjör, merkingarbært samráð, sterk jákvæð ímynd og víðtæk þátttaka. Hvert og eitt þessara meginmarkmiða á að stuðla að langtíma umbótum og jákvæðum breytingum. Á grunni hvers meginmarkmiðs eru kynntar áherslur stefnunnar sem varða götuna fram á við í sértækum málefnum. Áherslurnar eiga að geta stutt við og veitt leiðsögn um fjölmörg verkefni bæði á vettvangi málefnahópa en einnig til verkefna innan aðildarfélaga.

Aðgengismál fengu talsverða athygli í samfélaginu, bæði hjá stjórnmálamönnum og almenningi. Í maí 2021 undirrituðu formaður ÖBÍ, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, félags- og barnamálaráðherra og formaður og framkvæmdastjóri Sambands sveitarfélaga samkomulag um stórátak um úrbætur í aðgengismálum fyrir fatlað fólk. Í kjölfarið réð ÖBÍ verkefnisstjóra til starfa sem er tengiliður aðgengisfulltrúa sveitarfélaganna og mun vinna með þeim að áríðandi verkefnum. Verkefnið er tímabundið til loka ársins 2022 og verður metið í lokin hvort því verði haldið áfram. Meðal verkefna sem unnið hefur verið að eru endurbætur á strætóbiðstöðvum og eins var sett upp hjólastólalyfta á Bessastöðum.

ÖBÍ lagði sérstaka áherslu á geðheilbrigðismál á starfsárinu og hefur þrýst mjög á innleiðingu og fjármögnun á sálfræðiþjónustu. Í ljósi þess að andleg veikindi hrjá um 40% af ungu fólki þá er það fjárfesting til framtíðar að niðurgreiða sálfræðiþjónustu fyrir ungt fólk. ÖBÍ vakti athygli á málinu með greinaskrifum og auglýsingaherferð.

ÖBÍ vakti einnig athygli á því að þegar börn fatlaðs fólks ná 18 ára aldri og eru ekki í skóla fellur heimilisuppbót niður og því neyðast margir til að reka börn sín að heiman. Ráðherra breytti þessari reglugerð þannig að börn mega nú búa heima til 25 ára aldurs án þess að sú búseta hafi áhrif á heimilisuppbót foreldris, séu þau í fullu námi. ÖBÍ vinnur að því breyta þessu þannig að orðalagið fullt nám verði fellt úr reglugerðinni.

Stærstu áfangasigrarnir í hagsmunabaráttunni virðast ekki nást nema með atbeina dómstóla. Fjöldi mála er annaðhvort í undirbúningi til málshöfðunar eða nú þegar í meðförum dómstóla.

Vorið 2021 var samið við Vörðu rannsóknastofnun vinnumarkaðarins um að gera spurningakönnun um fjárhagsstöðu fatlaðs fólks, heilsu þess, líðan og þátttöku á vinnumarkaði. Mikilvægt er að meta stöðu öryrkja og þeirra sem þiggja örorkustyrk eða endurhæfingarlífeyri.

Að lokum sagði formaður frá því að ljóst væri að baráttan mun halda áfram þar sem fjölmörg hagsmunamál bíða úrlausnar. Hún þakkaði starfsmönnum, aðildarfélögum og málefnahópum fyrir góð störf á árinu og hvatti alla til þess að „vera breytingin“.

Fundarstjóri bauð umræður um skýrslu stjórnar og nokkrar fyrirspurnir og ábendingar bárust meðal annars í sambandi við aðgengismál og dómsmál. Ennfremur var bent á að alzheimer sjúklingar falla oft á milli sveitarfélaganna og félagslega kerfisins. Spurt var hvort það væri fötlun að greinast með heilabilun og hvort ÖBÍ sjái fyrir sér að þessi hópur falli undir bandalagið? Formaður taldi ljóst að alzheimer væri fötlun og alzheimer sjúklingar ættu klárlega heima hjá ÖBÍ.

Ársreikningur ÖBÍ (2)

Bryndís Björk Guðjónsdóttir, endurskoðandi frá PwC ehf., kynnti ársreikning ÖBÍ fyrir árið 2020 (fskj. nr. 3 – Ársreikningur ÖBÍ 2020).

Það var álit endurskoðanda að reikningurinn gæfi glögga mynd af afkomu félagsins á árinu, efnahag og breytingum á haldbæru fé í árslok 2020. Ársreikningurinn var áritaður án fyrirvara af endurskoðanda og skoðunarmönnum.

Endurskoðandi fór yfir helstu meginatriði ársreikningsins:

Rekstrartekjur ársins 2020 voru 921,5 milljónir í stað rúmlega 706 milljónir árið 2019.

Rekstrargjöld ársins 2020 voru svipuð og árið áður, eða 322,1 milljónir 2019 í stað 322,2 milljónir árið 2018.

Rekstrarafkoma ársins 2020 fyrir fjármunatekjur og -gjöld var 599,4 milljónir, en var tæplega 384 milljónir árið 2019

Rekstrarafkoma ársins 2020, að meðtöldum fjármunatekjum og veittum styrkjum, var jákvæð um 78 milljónir, í stað ríflega 4,6 milljóna halla árið áður.

Efnahagshluti reikningsins breyttist ekki mikið á milli ára. Varanlegir fastafjármunir voru 309,6 milljónir 2020 samanborið við 317,5 milljónir árið áður og jukust langtímakröfur úr 207 milljónum árið 2019 í 214 milljónir árið 2020. Þar var fyrst og fremst um að ræða bundnar innistæður.

Fastafjármunir samtals voru því 523 milljónir 2020 í stað 525 milljóna árið áður.

Veltufjármunir voru 275 milljónir 2020 í stað 304 milljóna 2019 og voru eignir því samtals 798 milljónir árið 2020, í stað 829 milljóna 2019.

Eigið fé og skuldir voru samtals 798 milljónir árið 2020 í stað 829 milljóna árið áður. Það skiptist í óráðstafað eigið fé, sem var 686 milljónir 2020 í stað 608 milljóna árið áður, og skuldir, sem voru samtals 112 milljónir 2020 í stað 221 milljón árið 2019. Helsta skýring á lækkun skulda milli ára er lækkun skammtímaskulda vegna þess að í lok árs 2019 var ekki búið að gera upp við Brynju hússjóð en uppgjörið 2020 við Brynju fór fram fyrir árslok.

Handbært fé í árslok 2020 var því 175,6 milljónir, í stað 227,6 milljóna árið áður.

Vísaði endurskoðandi í greinargóðar skýringar í ársreikningi á blaðsíðu 11-20 til frekari glöggvunar.

Fundarstjóri opnaði fyrir umræður um reikninga ÖBÍ. Til svara voru gjaldkeri ÖBÍ, Jón Heiðar Jónsson, og framkvæmdastjóri ÖBÍ, Eva Þengilsdóttir.

Jón Heiðar Jónsson gjaldkeri sagði að Covid hefði m.a. haft áhrif á það að rekstrargjöld hafa sveiflast til. Kostnaður vegna aðkeyptrar þjónustu og rannsókna hefur hækkað á meðan kostnaður vegna funda, ráðstefna, auglýsinga og kynninga lækkaði.

Frekari umræður og fyrirspurnir voru ekki og bar fundarstjóri reikninginn upp til atkvæða. Ársreikningur ÖBÍ 2020 var samþykktur samhljóða.

Skýrslur fastra málefnahópa (3)

Skýrslur málefnahópa ÖBÍ voru birtar í Ársskýrslu ÖBÍ 2020-2021 sem var dreift á fundinum (fskj. nr. 2, bls. 40-46 og 67). Formenn málefnahópa kynntu sig og klöppuðu fundargestir fyrir þeim og starfi málefnahópanna.

Skýrslur fyrirtækja (4)

Skýrslur fyrirtækja lágu frammi (fskj. nr. 2, bls. 49-54) og ársreikninga fyrirtækja má sjá í fylgiskjölum 4a-4d. Fundarstjóri bauð umræður um skýrslurnar.

BRYNJA, hússjóður Öryrkjabandalagsins (a)

Flóki Ásgeirsson staðgengill formanns stjórnar Brynju var til svara. Nokkrar fyrirspurnir bárust. Spurt var um málarekstur Brynju við Reykjavíkurborg og svaraði Flóki því til að dómsmál væri rekið á milli þessara aðila og að niðurstöðu væri að vænta á næstu vikum.Bent var á að skv. ársreikningi Brynju sést að mikil aukning hefur verið í óráðstöfuðu eigin fé Brynju. Er það hlutverk Brynju að safna hagnaði fremur en að kaupa íbúðir? Flóki svaraði því að það sé svo sannarlega hlutverk Brynju að fjárfesta í íbúðum en það ferli sé hins vegar langt og tímafrekt. Uppsöfnun hefur orðið en stefnt er að því að fjárfesta í íbúðarhúsnæði fyrir þá hópa sem þurfa. Mikilvægt er að hafa í huga að Brynja getur ekki keypt hvaða húsnæði sem er, huga þarf að aðgengismálum, staðsetningu og mörgu fleiru.

Að lokum barst fyrirspurn frá íbúa í Hátúni hvort fyrirhugað væri að halda íbúafund á milli Brynju húsfélags og íbúa Hátúns. Flóki mun koma ábendingunni áleiðis.

Örtækni (b)

Þorsteinn Jóhannsson, framkvæmdastjóri, var til svara, ein fyrirspurn barst varðandi framlög Vinnumálastofnunar (VMST) til Örtækni og hvort að fjölgun hefði orðið á störfum á vegum Örtækni. Þorsteinn svaraði því til að gert hefur verið samkomulag á milli VMST og sveitarfélaganna. Samkomulagið er mjög óljóst sem gerir það að verkum að mikil togstreita er á milli þessara aðila. Framlög til Örtækni hafa verið þau sömu síðustu 6 árin.

Þuríður Harpa, formaður, þakkaði Þorsteini sérstaklega fyrir mjög vel unnin störf í gengum langan og farsælan starfsferil (28 ár) og óskaði honum alls hins besta um ókomna tíð.

Hringsjá (c)

Helga Eysteinsdóttir, forstöðumaður, var til svara, en engar fyrirspurnir bárust.

TMF – Tölvumiðstöð (d)

Rúnar Björn Herrera, stjórnarformaður, var til svara, en engar fyrirspurnir bárust.

Fjölmennt (e)

Helga Gísladóttir, forstöðumaður, var til svara, en engar fyrirspurnir bárust.

Íslensk getspá (f)

Bergur Þorri Benjamínsson, fulltrúi ÖBÍ í stjórn ÍG, var til svara, en engar fyrirspurnir bárust.

Stefna og starfsáætlun stefnuþings (5)

Á árinu var farið í mótun á heildarstefnu fyrir ÖBÍ og sá ráðgjafafyrirtækið Arcur um stefnumótunina og stefnuþing ÖBÍ, sem haldið var í apríl 2021. Vinnunni lauk með kynningu á stefnu fyrir stjórn ÖBÍ í ágúst. Stefnan var unnin í víðtæku samráði við aðildarfélög og fulltrúa í málefnahópum ÖBÍ ásamt stjórn. (Stefnuskjal ÖBÍ var sent út til fundarfulltrúa fyrir fundinn, fskj. nr. 20.)

Arnar Pálsson, ráðgjafi hjá Arcur, sagði frá vinnu stefnuþings, sem að þessu sinni var rafrænt vegna Covid. Lögð var fram framtíðarsýn ÖBÍ og tillögur að áherslum og markmiðum bandalagsins til næstu ára. Næstu skref eru að málefnahóparnir noti þessa framtíðarsýn og áherslur í starfi sínu.

Framtíðarsýn ÖBÍ er að standa vörð um réttindi fatlaðra einstaklinga og aðstandenda þeirra í kraftmiklu samstarfi við stjórnvöld og aðra hagsmunaaðila. Stefna ÖBÍ 2020-2022 er byggð upp i kringum níu meginmarkmið:

  1. Skilvirk heilbrigðisþjónusta
  2. Öflug atvinnuþátttaka
  3. Nám fyrir alla
  4. Gott aðgengi
  5. Sjálfsögð réttindi
  6. Góð lífskjör
  7. Merkingarbært samráð
  8. Sterk jákvæð ímynd
  9. Víðtæk þáttaka

Leiðarstef þessara meginmarkmiða er líf til jafns til aðra. Þau hafa verið tengd við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun sem og Samning Sameinuðu þjóðanna um fatlað fólk. Á stefnuþingi 2021 voru 6 forgangsáherslur samþykktar út frá þessum 9 meginmarkmiðum og munu málefnahóparnir vinna eftir þeim og hjálpa til við að velja réttu verkefnin og ná markmiðunum.

Fundarstjóri bauð upp á fyrirspurnir og umræður en engar urðu.

Gengið var til kosninga um áherslur stefnuþings. 101 (99%) samþykkti áherslurnar.

Á stefnuþingi var kosið um hvaða málefnahópar eigi að vera fastir málefnahópar bandalagsins næstu árin. Tillagan er eftirfarandi:
  1. Málefnahópur um heilbrigðismál
  2. Málefnahópur um kjaramál
  3. Málefnahópur um húsnæðismál
  4. Málefnahópur um málefni barna
  5. Málefnahópur um aðgengismál

Breytingartillaga barst frá stjórn ÖBÍ og hljóðar hún svo:

Stjórn ÖBÍ leggur til að tillögu stefnuþings um fasta málefnahópa næstu ára verði breytt þannig að málefnahópur um atvinnu- og menntamál verði áfram fastur málefnahópur í stað þess að tímabundinn málefnahópur um málefni barna verði gerður að föstum málefnahópi.

Fastir málefnahópar verða því:
  1. Málefnahópur um heilbrigðismál
  2. Málefnahópur um kjaramál
  3. Málefnahópur um húsnæðismál
  4. Málefnahópur um atvinnu- og menntamál
  5. Málefnahópur um aðgengismál

Fundarstjóri bauð uppá umræður um tillögurnar. Líflegar umræður urðu og spurt var af hverju málefnahópur um málefni barna ætti ekki að vera fastur. Formaður svaraði því til að ÖBÍ vildi leggja áherslu á fullorðið fólk þar sem meginþorri félagsmanna væru fullorðið fólk. Varaformaður bætti við að hópurinn muni starfa áfram þótt hann verði ekki fastur málefnahópur.

Gengið var til kosninga um breytingartillögu stjórnar. 82 samþykktu eða 85,42% fundarmanna og 9 sögðu nei eða 9,38%. Breytingartillagan telst því samþykkt.

Því næst var tillagan um það hverjir fastir málefnahópar ÖBÍ eigi að vera á næstu árum borin fram aftur með áorðnum breytingum. Fundarstjóri bauð umræður en engar urðu. Gengið var til kosninga og var tillagan samþykkt með afgerandi meirihluta atkvæða (91%).

Ákvörðun aðildargjalda (6)

Fundarstjóri kynnti framkomna tillögu frá stjórn ÖBÍ um að aðildargjöld ÖBÍ yrðu óbreytt, 0 kr. (sjá fskj. nr. 5).

Fundarstjóri tilkynnti jafnframt að ef engin mótmæli væru liti fundarstjóri svo á að tillagan væri samþykkt. Engin mótmæli voru og telst því tillagan samþykkt.

Þóknun fyrir stjórnarsetu (7)

Fundarstjóri tók til afgreiðslu tillögu frá stjórn ÖBÍ um þóknun fyrir stjórnarsetu, svohljóðandi (sjá fskj. nr. 6):

Lagt er til að fyrirkomulag við greiðslu þóknunar fyrir fundarsetu fyrir fulltrúa í stjórn ÖBÍ verði eftirfarandi:

  • Stjórnarmenn ÖBÍ og varamenn fá greiddar 7 einingar fyrir hvern setinn stjórnarfund sem er allt að 2,5 klst. langur. 2 einingar eru fyrir undirbúning fundar og 5 einingar fyrir sjálfan fundinn. Ef forföll eru tilkynnt eru greiddar 2 einingar fyrir undirbúning fundar.
  • Fyrir hverja klst. umfram það er greidd ein eining.
  • Upphæð þóknunar tekur mið af ákvörðun þóknananefndar ríkisins sem er 2.502 kr. á hverja einingu, miðað við apríl 2020.

Fundarstjóri bauð umræður. Ein fyrirspurn barst varðandi einingakerfið á bak við tillöguna. Framkvæmdastjóri svaraði og útskýrði hugmyndina að baki einingakerfisins. Tillagan var samþykkt með þorra atkvæða.

Kl. 18:44 frestaði fundarstjóri fundi til kl. 10 laugardaginn 16. október 2021.

 

Laugardagur 16. október 2021 – fundi framhaldið

Fundarstjóri hóf fund að nýju kl. 10:12.

Kosningar í stjórn

Yfirlit yfir aðalfundarfulltrúa var sent út í fundargögnum og liggur á borðum fundarmanna í sal (fskj. nr. 7) ásamt yfirliti yfir framboð (fskj. nr. 8).

Formaður kjörnefndar Jón Þorkelsson greindi frá starfi nefndarinnar. Starfið gekk vel og náðist að finna fólk í öll laus embætti.

Formaður (8)

Þuríður Harpa Sigurðardóttir frá Sjálfsbjörg lsh. gaf kost á sér til næstu 2ja ára (fskj. nr. 9). Ekki bárust fleiri framboð til formanns og var Þuríður Harpa því sjálfkjörin sem formaður Öryrkjabandalags Íslands.

Varaformaður (9)

Kosið verður 2022.

Gjaldkeri (10)

Kosið verður 2022.

Formenn fastra málefnahópa (11)

Kosið var um formenn fastra málefnahópa sem samþykktir voru undir lið 5 (fskj. nr. 10-13).

Málefnahópur um aðgengismál: Bergur Þorri Benjamínsson frá Sjálfsbjörg lsh. var einn í framboði og var því sjálfkjörinn sem formaður málefnahóps um aðgengismál.

Málefnahópur um atvinnu-og menntamál: Hrönn Stefánsdóttir frá Gigtarfélagi Íslands var ein í framboði og var því sjálfkjörin sem formaður málefnahóps um atvinnu- og menntamál.

Málefnahópur um heilbrigðismál: Vilhjálmur Hjálmarsson frá ADHD samtökunum var einn í framboði og var því sjálfkjörinn sem formaður málefnahóps um heilbrigðismál.

Málefnahópur um kjaramál: Atli Þór Þorvaldsson frá Parkinsonsamtökunum var einn í framboði og var því sjálfkjörinn sem formaður málefnahóps um kjaramál.

Málefnahópur um húsnæðismál: María Pétursdóttir frá MS félagi Íslands var ein í framboði og var því sjálfkjörin sem formaður málefnahóps um húsnæðismál.

Stjórnarmenn (12)

Fundarstjóri kynnti kosningu fjögurra stjórnarmanna til tveggja ára. Sjö höfðu boðið sig fram innan tilskilins frests (fskj. nr. 14 a-g).

Frambjóðendur kynntu sig. Greidd voru atkvæði og skiptust þau á eftirfarandi hátt:

  • Hjördís Ýrr Skúladóttir, MS félagi Íslands, 85 atkvæði (21,85%)
  • Albert Ingason, SPOEX, 70 atkvæði (17,99%)
  • María M.B. Olsen, Gigtarfélagi Íslands, 56 atkvæði (14,4%)
  • Fríða Rún Þórðardóttir, Astma- og ofnæmisfélagi Íslands, 55 atkvæði (14,14%)
  • Guðrún Barbara Tryggvadóttir, Nýrnafélaginu, 55 atkvæði (14,14%)
  • María Óskarsdóttir, Sjálfsbjörg lsh., 37 atkvæði (9,51%)
  • Frímann Sigurnýasson, Vífli, 31 atkvæði (7,97%)

Þar sem Fríða Rún og Guðrún Barbara hlutu jafnmörg atkvæði þurfti að skera úr um hvor fær sætið. Samkvæmt lögum ÖBÍ skal hlutkesti ráða, nema tillaga komi fram um annað. Fundurinn vildi kjósa og var niðurstaða kosninganna sú að Fríða Rún Þórðardóttir hlaut kosningu (53%) og var því kjörin stjórnarmaður.

Þessi hlutu kosningu til setu í stjórn ÖBÍ 2021-2023: Albert Ingason, Fríða Rún Þórðardóttir, Hjördís Ýrr Skúladóttir og María M.B. Olsen.

Varamenn (13)

Engin framboð til varamanna bárust fyrir fundinn. 2 sæti voru laus og bauð fundarstjóri áhugasömum fundarmönnum 5 mínútur til að skila inn framboðum á fundinum.

4 framboð bárust og skiptust atkvæðin á eftirfarandi hátt:

  • Frímann Sigurnýasson, Vífli, 37, atkvæði (18,5%)
  • Guðrún Barbara Tryggvadóttir, Nýrnafélaginu, 92 atkvæði (46%)
  • Herbert Snorrason, ADHD samtökunum, 32 atkvæði (16%)
  • María Óskarsdóttir, Sjálfsbjörg lsh., 39 atkvæði (19,5%)

Niðurstaða kosninganna var sú að Guðrún Barbara Tryggvadóttir og María Óskarsdóttir hlutu kosningu sem varamenn til næstu tveggja ára.

Aðrar kosningar til tveggja ára

Kjörnefnd (14)

Fimm buðu sig fram í embætti aðalmanna í kjörnefnd (fskj. nr. 15 a-g):

  • Albert Ingason, SPOEX
  • Dagný Erna Lárusdóttir, Astma- og ofnæmisfélagi Íslands
  • Jón Þorkelsson, Stómasamtökum Íslands
  • Sigurbjörg Ármannsdóttir, MS félagi Íslands
  • Sigrún Birgisdóttir, Einhverfusamtökunum

Tveir buðu sig fram til embættis varamanna í kjörnefnd:

  • Dóra Ingvadóttir, Gigtarfélagi Íslands
  • Einar Þór Jónsson, HIV Íslandi.

Ekki bárust fleiri framboð í kjörnefnd og voru því áðurnefndir aðilar sjálfkjörnir.

Laganefnd (15)

Sex framboð bárust til aðalmanna í laganefnd (fskj. nr. 16 a-f). Greidd voru atkvæði og skiptust þau á eftirfarandi hátt:

  • Herbert Snorrason, ADHD samtökunum, 62 atkvæði ( 14,76%)
  • Jóhann Guðvarðarson, Gigtarfélagi Íslands, 76 atkvæði (18,1%)
  • María Óskarsdóttir, Sjálfsbjörg Ish., 68 atkvæði (16,19%)
  • Ólafur Árnason, Parkinsonsamtökunum, 51 atkvæði (12,14%)
  • Ragnar Davíðsson, Nýrri rödd, 78 atkvæði (18,57%)
  • Sævar Guðjónsson, Heilaheillum, 83 atkvæði (19,76%)

Niðurstaða kosninganna var sú að Herbert Snorrason, Jóhann Guðvarðarson, María Óskarsdóttir, Ragnar Davíðsson og Sævar Guðjónsson hlutu kosningu sem aðalmenn í laganefnd til næstu tveggja ára.

Fimm framboð bárust til varamanna í laganefnd. Greidd voru atkvæði og skiptust þau á eftirfarandi hátt:

  • María Pétursdóttir, MS félaginu, 36 atkvæði (18,56%)
  • Ólafur Árnason, Parkinsonsamtökunum, 20 atkvæði (10,31%)
  • Ásta Þórdís Skjalddal, Sjálfbjörg lsh., 52 atkvæði ( 26,8%)
  • Eiður Welding, CP á Íslandi, 40 atkvæði (20,62%)
  • Sigurður Helgason, Hjartaheillum, 46 atkvæði (23,71%)

Niðurstaða kosninganna var sú að Ásta Þórdís Skjalddal og Sigurður Helgason náðu kjöri sem varamenn í laganefnd til næstu tveggja ára.

Skoðunarmenn reikninga og varamenn (16)

Tvö framboð bárust til skoðunarmanna reikninga (fskj. nr. 17 a-b):

  • Árni Sverrisson, Alzheimersamtökunum á Íslandi
  • Ingveldur Jónsdóttir, MS félagi Íslands

Tvö framboð bárust til varamanna skoðunarmanna reikninga:

  • Grétar Pétur Geirsson, Sjálfsbjörg lsh.
  • Guðmundur Rafn Bjarnason, Blindrafélaginu

Ekki bárust fleiri framboð og voru áðurnefndir aðilar því sjálfkjörnir.

Lagabreytingar, aðildarumsóknir, ályktanir, önnur mál

Lagabreytingar (17)

Teknar voru til afgreiðslu tillögur til breytinga á lögum ÖBÍ sem borist höfðu laganefnd fyrir aðalfund (sjá lög ÖBÍ í fskj. nr. 18 og lagabreytingar í fskj. nr. 19 a-c).

Formaður laganefndar, Bergþór Heimir Þórðarson, kvaddi sér hljóðs og gerði grein fyrir störfum og niðurstöðum nefndarinnar. Í byrjun starfsársins ákvað laganefnd að leggja áherslu á lagfæringar og einföldun á lögum bandalagsins og eru lagabreytingarnar afurð þeirrar vinnu. Laganefnd fór einnig yfir lögin með tilliti til áhrifa stefnumótunarvinnunnar.

Fundarstjóri útskýrði fyrirkomulag kosninga. Hver liður verður borinn upp til kosninga, síðan verður tillagan í heild borin upp til samþykktar. Einfaldur meirihluti ræður úrslitum.

Formaður laganefndar kynnti 1. tillögu, sem er tiltekt á lögum í 8 liðum (fskj. nr. 19a). Tilgangur tillögunnar er tiltekt í félagslögum ÖBÍ. Tillögunni er meðal annars ætlað að fella á brott úreltar greinar, samræma orðalag og innleiða fyrstu skref til samræmingar við ný lög um félög til almannaheilla.

1.liður. Breyting á 7. grein um úrsögn úr bandalaginu:
a. Orðin „meira en“ falla úr greininni.

b. Bráðabirgðaákvæði greinarinnar fellur brott.

Tillagan var samþykkt með miklum meirihluta atkvæða.

2.liður. Breyting á 8. grein um brottvikningu félags:

Í stað orðanna „atkvæðisbærra aðalfundarfulltrúa“ í 2.málslið greinarinnar kemur „greiddra atkvæða“.

Fyrirspurn barst varðandi ⅔ regluna og hvort að ekki væri ákvæði í lögunum sem fjallar um kosningar og hvernig þær skulu fara fram. Formaður laganefndar svaraði því til að hvergi væri skilgreint á einum stað hvað aukinn meirihluti er.

Tillagan var samþykkt með afgerandi meirihluta atkvæða.

3. liður. Breyting á 12. grein um kjörgengi og atkvæðagreiðslur:

Á undan orðunum „aðal- og varafulltrúar“ í 2. málslið, 1. málsgreinar kemur orðið „lögráða“.

Fundinum barst breytingartillaga frá Svavari Kjarrval varðandi 3. lið lagabreytingartillögunnar og lagði Svavar til að eftirfarandi málsliður myndi bætast aftan við 1. mgr. 12. gr:

Framangreind krafa um lögræði á ekki við um kjörgengi í laganefnd og kjörnefnd.

Fundarstjóri óskaði eftir stuðningsmanni við tillögu Svavars sem barst. Óskuðu fundargestir eftir skýringu á tillögu laganefndar sem og breytingartillögu Svavars. Nokkrar umræður urðu um málið. Ástæða tillögu laganefndar er sú að lög bandalagsins séu í samræmi við lög um félög til almannaheilla. Ástæða tillögu Svavars er að bæði laganefnd og kjörnefnd eru vinnuhópar og hafa ekkert lagalegt vald.

Gengið var til atkvæðagreiðslu um breytingartillögu Svavars og var hún samþykkt með 53% greiddra atkvæða.

Kosið var um tillöguna í heild sinni með áorðnum breytingum og var hún samþykkt með meirihluta atkvæða (77,78%).

4. liður. Breyting á 13. grein um framboð í trúnaðarstöður og hlutverk kjörnefndar:
a. Í stað orðanna „einum mánuði“ í 2. málslið, 1. gr. kemur „fjórum vikum“.

b. Aftan við 2. málslið, 4. mgr. á eftir orðinu „aðalfundar“ bætist við „með ⅔ hluta greiddra atkvæða“.

Fundinum barst breytingartillaga frá Höllu Þorkelsdóttur:

Í stað „með að minnsta kosti ⅔ hluta greiddra atkvæða“ komi „með meirihluta greiddra atkvæða“.

Umræður voru um tillögurnar áður en gengið var til atkvæða. Breytingartillagan var samþykkt með 61,29% greiddra atkvæða.

Kosið var um tillöguna í heild sinni með áorðnum breytingum og var hún samþykkt með meirihluta atkvæða (82,65%).

5. liður. Breyting á 14. grein um lagabreytingar:

Í stað orðanna „atkvæðisbærra aðalfundarfulltrúa“ í 2. mgr. 14. gr. kemur „hluta greiddra atkvæða“.

Tillagan var samþykkt með afgerandi meirihluta atkvæða (95,7%).

6. liður. Breyting á 15. grein um ályktanir aðalfundar:
a. Orðin „í síðasta lagi fjórum vikum“ í 1. málsl. 1. mgr. falla brott.
b. Í stað orðanna „eigi síðar en tveimur vikum“ í 2. málsl. 1. mgr. kemur „eins fljótt og kostur er“.

c. 2. mgr. orðast svo: „Tillögum sem berast eftir að fundur er hafinn er hægt að koma á dagskrá aðalfundar með samþykki a.m.k. 2/3 greiddra atkvæða.“

Tillagan var samþykkt með afgerandi meirihluta atkvæða (96,81%).

7. liður. Breyting á 28. grein um slit bandalagsins:

Í stað orðanna „atkvæðisbærra aðalfundarfulltrúa“ í 2. málslið 28. greinar kemur „greiddra atkvæða“.

Tillagan var samþykkt með afgerandi meirihluta atkvæða (96,84%).

8. liður. Breyting á bráðabirgðaákvæði um kosningu stjórnarmanna:
a. Orðin „um kosningu stjórnarmanna“ falla brott úr fyrirsögn ákvæðisins.
b. 1. og 2. málsgrein bráðabirgðaákvæðisins falla brott.
c. 3. málsgrein orðist svo: „Tímabil það sem nefnt er í 4. mgr. 12. gr. gildir frá aðalfundi 2015 hvað varðar stjórnarsetu skv. 18. gr. A.“

d. 4. málsgrein orðist svo: „Tímabil þau sem nefnd eru í 4. mgr. 12. gr. og 2. mgr. 23. gr. gilda að öðru leyti frá aðalfundi 2017.“

Tillagan var samþykkt með afgerandi meirihluta atkvæða (95,74%).

Gengið var til kosninga um 1. tillögu lagabreytinga í heild sinni og var tillagan samþykkt með afgerandi meirihluta atkvæða (97,75%).

Formaður laganefndar kynnti 2. tillögu, í 2 liðum, sem ætlað er að bæta úr vanköntum í lögum ÖBÍ sem flækja óþarflega rekstur skrifstofu bandalagsins (fskj. nr. 19b).

Fundarstjóri lagði til að kosið væri um 2. tillögu í heild sinni (1. og 2. lið saman) til að spara tíma en mótmæli bárust úr sal. Því var kosið um hvorn lið fyrir sig.

1. liður. Breyting á 4. mgr. 18. gr. A um stjórn:

Á eftir 3. málsl. 4. mgr. bætist nýr málsliður við sem orðast svo: „Meirihluti stjórnar ritar firma félagsins“.

Tillagan var samþykkt með afgerandi meirihluta atkvæða (97,85%).

2. liður. Breyting á 20. grein um framkvæmdastjóra:

Orðin „sem háðir eru samþykki stjórnar“ í lok síðasta málsliðar greinarinnar falla brott.

Tillagan var samþykkt með afgerandi meirihluta atkvæða (93,81%).

Gengið var til kosninga um 2. tillögu lagabreytinga í heild sinni og var tillagan samþykkt með afgerandi meirihluta atkvæða (94,62%).

Formaður laganefndar kynnti 3. tillögu, í 2 liðum, sem ætlað er að stytta og einfalda 23. gr. um málefnahópa. Í þess stað kemur skylda stjórnar að setja reglur um hópana (fskj. nr. 19c).

1. liður. Breyting á 23. grein um málefnahópa:

a. Í stað orðanna „einn formann málefnahóps“ í 5. málsl. 1. mgr. 23. gr kemur „tvo formenn málefnahópa kjörna á aðalfundi“.

Fundarstjóri opnaði fyrir spurningar og umræður varðandi 1. lið a í tillögu 3. Nokkrar umræður urðu um fjöldatakmörkun á fjölda formanna málefnahópa hvers aðildarfélags. Í kjölfarið barst breytingartillaga:

  • Setningin „Hvert félag getur átt mest tvo formenn málefnahópa kjörna á aðalfundi á hverjum tíma“ myndi detta út.

Mótmæli bárust úr sal og var tillagan dregin tilbaka.

b. 2. mgr. 23. gr. fellur brott.

c. Allt sem kemur á eftir orðunum „Hann tekur einnig sæti formanns málefnahópsins í stjórn“ í 3. mgr. 23. gr fellur brott.

Breytingartillaga barst úr sal um að fella út c lið, þ.e.: „Hann tekur einnig sæti formanns málefnahópsins í stjórn“. Fundarstjóri óskaði eftir stuðningsmanni við tillöguna sem fékkst. Gengið var til kosninga og var breytingartillagan samþykkt með 68,42% greiddra atkvæða.

d. 4. mgr. 23. gr. fellur brott.

e. Við greinina bætist ný málsgrein svohljóðandi: „Stjórn skal setja reglur um málefnahópa, t.d. um skipan þeirra, fjölda fulltrúa, lengd setu og skýrslugjöf, sbr. 27. gr. laganna. Stjórn hefur heimild til að skipa tímabundna málefnahópa og skulu reglurnar einnig ná yfir þá hópa.“

Kosið var um 1. lið í heild sinni með áorðnum breytingum og var tillagan samþykkt með afgerandi meirihluta atkvæða (90,22%).

2. liður. Breyting á bráðabirgðaákvæði um kosningu stjórnarmanna:

Orðin „og 2. mgr. 23. gr.“ í 4. málsgrein falla brott.

Tillagan var samþykkt með afgerandi meirihluta atkvæða (90,43%).

Gengið var til kosninga um 3. tillögu lagabreytinga í heild sinni og var tillagan samþykkt með afgerandi meirihluta atkvæða (92,39%).

Að endingu var gengið til kosninga og kosið um lögin í heild sinni með áorðnum breytingum. Lögin voru samþykkt með afgerandi meirihluta atkvæða (95,7%).

Bergþór þakkaði fráfarandi laganefnd fyrir samvinnuna og óskaði nýrri stjórn laganefndar velfarnaðar í komandi starfi.

Aðildarumsóknir (18)

Engar aðildarumsóknir lágu fyrir.

Ályktanir aðalfundar (19)

Engar ályktanir bárust innan tilskilins frests, en tvær ályktanir bárust fyrir fundinn á tilskyldum tíma og óskaði fundarstjóri leyfis fundarins til að taka ályktanirnar fyrir og var það samþykkt með afgerandi meirihluta atkvæða (84,62%).

Formaður ÖBÍ, Þuríður Harpa Sigurðardóttir, kynnti fyrri ályktunina, (fskj. nr. 21) svohljóðandi:

Ályktun aðalfundar Öryrkjabandalags Íslands 2021

Aðalfundur Öryrkjabandalagsins skorar á þingmenn að sýna hugrekki og dug til að rétta hlut fatlaðs fólks.

Stór hluti fatlaðs fólks býr við efnislegan skort, þ.e. fátækt, sem opinberaðist þjóðinni í rannsókn Vörðu í haust.

Fram til þessa hefur skort mjög á pólitískan vilja til að takast á við vandamálið. Lengur verður ekki beðið, staðan er grafalvarleg og algerlega óviðunandi.

Það sæmir okkur ekki sem þjóð að sitja lengur með hendur í skauti.

Við erum tilbúin, hvað með ykkur?

Ekkert um okkur án okkar!

Fundarstjóri bauð umræður um ályktunina. Ein fyrirspurn barst varðandi hversu hátt hlutfall fatlaðs fólks býr við efnislegan skort. Þuríður svaraði að hlutfallið væri um það bil 35%.

Gengið var til kosninga og ályktunin samþykkt með afgerandi meirihluta atkvæða (95,74%).

Formaður kynnti seinni ályktunina (fskj. nr. 22), svohljóðandi:

Ályktun aðalfundar Öryrkjabandalags Íslands 2021

Ríkið lögfesti tafarlaust samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og valkvæðan viðauka við samninginn.

Aðalfundur ÖBÍ krefst þess að samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verði lögfestur um leið og Alþingi kemur saman á 152. löggjafarþingi 2021.

Samningurinn kveður á um grundvallarmannréttindi fatlaðs fólks í heiminum. Réttindin sem felast í skjalinu hafa þó enn ekki verið tryggð hér á landi enda gerist það ekki fyrr en samningurinn hefur verið lögfestur. Þangað til á fatlað fólk á Íslandi ekki þau réttindi sem felast í samningnum. Þessu hafa íslenskir dómstólar slegið föstu, nú síðast með dómi Landsréttar 7. október sl. þar sem borgari átti ekki rétt til notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar (NPA) þrátt fyrir ákvæði samningsins, einkum 19. gr. hans.

Íslenska ríkið hefði átt að klára lögfestingu samningsins fyrir mörgum árum síðan. Ef íslenska ríkið hefur raunverulegan vilja til þess að tryggja fötluðu fólki jafnan rétt og jöfn tækifæri óháð fötlun verður að lögfesta samninginn án frekari tafa.

Ekkert um okkur án okkar!

Fundarstjóri bauð umræður um ályktunina en enginn tók til máls.

Gengið var til kosninga og var ályktunin samþykkt með afgerandi meirihluta (96,77%).

Önnur mál (20)

A

Eiður Welding frá CP félaginu hvatti aðildarfélög ÖBÍ til þess að styrkja ungmennastarf sitt og benti á að enginn gæti tjáð sig um málefni barna án þess að vera í virku samstarfi við þau.

B

Einn fundargesta þakkaði fyrir frábæran fund og benti á að margir fundargesta tilheyri einnig hópi eldri borgara. Hann hvatti alla til þess að berjast fyrir réttindum beggja hópa. Einnig talaði hann um mikilvægi þess að minna TR og SÍ á að borga allt sem þessir hópar eiga rétt á.

C

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ, vakti athygli á því að 3 formenn málefnahópa létu nú af störfum vegna sólarlagsákvæðis og bauð þau velkomin í pontu. Þökkuðu þau meðlimum málefnahópanna fyrir gott og gefandi starf og hvöttu sem flesta til þess að taka þátt í vinnu málefnahópanna.

Þá þökkuðu fundarstjórar fyrir sig og afhentu formanni ÖBÍ, Þuríði Hörpu Sigurðardóttur, fundinn.

Fundarlok

Formaður þakkaði aðalfundarfulltrúum fyrir fundarsetuna og bauð nýtt fólk hjartanlega velkomið til starfa. Um leið þakkaði hún fráfarandi stjórnarmönnum fyrir vel unnin störf og óskaði þeim velfarnaðar og kvaðst hlakka til að sjá þau áfram í baráttunni. Hún þakkaði einnig traustið fyrir að kjósa sig aftur sem formann. Þá þakkaði formaður fundarstjórum og fundarriturum fyrir góð störf, sem og starfsfólki ÖBÍ.

Formaður sleit fundi kl. 16:33.


Fylgiskjöl:

  1. Dagskrá aðalfundar ÖBÍ 15. og 16. október 2021
  2. Ársskýrsla ÖBÍ 2020 til 2021
  3. Ársreikningur ÖBÍ 2020
  4. Ársreikningur fyrirtækja 2020
  5. a) Brynja Hússjóður Öryrkjabandalagsins
  6. b) Örtækni
  7. c) Hringsjá
  8. d) Fjölmennt
  9. Ákvörðun aðildargjalda
  10. Þóknun fyrir stjórnarsetu
  11. Listi yfir aðalfundarfulltrúa aðildarfélaga ÖBÍ
  12. Yfirlit yfir framboð til embætta 2021
  13. Kynning frambjóðanda til formanns (1)
  14. Kynning frambjóðanda til formanns málefnahóps um aðgengismál (1)
  15. Kynning frambjóðanda til formanns málefnahóps um atvinnu- og menntamál (1)
  16. Kynning frambjóðanda til formanns málefnahóps um heilbrigðismál (1)
  17. Kynning frambjóðanda til formanns málefnahóps um kjaramál (1)
  18. a) til g) Kynningar frambjóðenda til stjórnar (7)
  19. a) til g) Kynningar frambjóðenda til kjörnefndar (7)
  20. a) til f) Kynningar frambjóðenda til laganefndar (6)
  21. a) til b) Kynningar frambjóðenda til skoðunarmanna reikninga (2)
  22. Lög Öryrkjabandalags Íslands samþykkt 3. október 2020
  23. a) til c) Lagabreytingatillögur laganefndar (3)
  24. Stefnuskjal ÖBÍ
  25. Ályktun aðalfundar ÖBÍ 2021, áskorun á þingmenn
  26. Ályktun aðalfundar ÖBÍ 2021, lögfesting SRFF

(Kynningum frambjóðenda er raðað eftir stafrófsröð ef framboð eru fleiri en eitt)

Aðalfundur 2020

Hlusta

Fundargerð

Ávarp formanns, fundarsetning

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ, setti fundinn kl. 16:07 og bauð fundarmenn velkomna. Formaður sagði frá breyttu fundarformi í ljósi samkomutakmarkana og sóttvarna. Hluti aðalfundarfulltrúa var í sal og hluti tók þátt í gegnum Zoom.

Formaður lagði til að Eyvindur Elí Albertsson og Rósa María Hjörvar yrðu fundarstjórar og var það samþykkt. Formaður lagði til að Aðalheiður Rúnarsdóttir og Ragnheiður Ásta Sigurðardóttir rituðu fundargerð og var það samþykkt. Þá bauð formaður fundarstjórum að taka við fundinum.

Fundarstjórar þökkuðu traustið, buðu gesti velkomna og kynntu dagskrá fundarins (fskj. nr. 1). Fundarstjóri tilkynnti að samkvæmt venju sætu fundinn áheyrnarfulltrúi Kvennahreyfingar ÖBÍ, Karen Anna Erlingsdóttir, og áheyrnarfulltrúi Ungliðahreyfingar ÖBÍ, Margét Lilja Aðalsteinsdóttir.

Almenn fundarstörf

Skýrsla stjórnar (1)

Formaður flutti skýrslu stjórnar (fskj. nr. 2 – Ársskýrsla ÖBÍ 2019 til 2020. Skýrsla formanns og stjórnar, bls. 9-31) og sagði meðal annars frá eftirfarandi atriðum:

Skýrslan og starf sambandsins litast af Covid sem hefur tekið yfir líf okkar allra. Fyrirhugað var að halda stóran borgarafund, málþing og funda með alþingismönnum og sveitarfélögum. En svo kom Covid og fundir færðust úr fundarsölum yfir á eldhúsborðið. Stefnuþingi var frestað fram á næsta ár. ÖBÍ var í góðum samskiptum við stjórnvöld, bæði ríki og sveitarfélög og sendi stjórnvöldum vikulega skýrslu um hvaða áhrif ástandið hafði á okkar fólk.

Á síðasta aðalfundi var hleypt af stokkunum auglýsingaherferðinni „Þér er ekki boðið“. Herferðin hófst með áberandi sjónvarpsauglýsingu en einnig voru miklar auglýsingar á samfélagsmiðlum. Þá er hafinn undirbúningur að sjónvarpsþáttaröð „Dagur í lífi“ sem stefnt er að verði sýnd á RÚV haustið 2021 ef Covid leyfir. Rafræn kröfuspjöld vegna rafrænnar kröfugöngu sem málefnahóparnir stóðu fyrir í tilefni af 1. maí fengu einnig góða dreifingu á samfélagsmiðlum.

Á árinu hefur verið afar gott samstarf á milli ÖBÍ og verkalýðshreyfingarinnar enda margar sameiginlegar áherslur í baráttunni. Þann 19. maí skrifuðu fjögur heildarsamtök launafólks (ASÍ, BSRB, BHM og KÍ) undir yfirlýsingu og kröfu ÖBÍ um að hagur öryrkja yrði bættur öllum til hagsbóta. Þarna fékk ÖBÍ góðan liðsstyrk í baráttunni en innan þessara fjögurra heildarsamtaka eru um 180.000 einstaklingar.

Mikill tími ÖBÍ fór í að skrifa umsagnir um fjáraukalög og berjast fyrir hækkun grunnlífeyris. Fulltrúar ÖBÍ fóru auk þess á fundi fjárlaganefndar og félagsmálanefndar til þess að fylgja umsögnunum eftir.  Öll vinnan skilaði því að í desember 2019 greiddi TR eingreiðslu að upphæð 10.000 kr. til þeirra örorkulífeyrisþega sem fá desemberuppbót. Sami hópur fékk svo aðra eingreiðslu í júní 2020 að upphæð 20.000 kr. Báðar þessar eingreiðslur voru skattfrjálsar til þess að koma í veg fyrir skerðingar.

Þrátt fyrir erfitt ár gerðist ýmislegt gott líka. Framganga velferðarsviðs Reykjavíkurborgar var aðdáunarverð í Covid faraldrinum. ÖBÍ vann dómsmál gegn TR vegna búsetuskerðingar þeirra sem eru eða hafa verið búsettir erlendis. Sálfræðiþjónusta verður niðurgreidd skv. samþykkt Alþingis. Hækkun varð á styrkjum til kaupa á sérútbúnum bílum.

Á árinu voru haldnir reglulegir samráðsfundir við TR. TR viðurkenndi að hafa reiknað einstaklinga út skv. rangrireiknireglu í búsetumálum. Enn er samt sama reikniregla notuð við útreikninga og ÖBÍ vinnur að því að því verði breytt. Margir örorkulífeyrisþegar fengu endurkröfu frá TR þegar Reykjavíkurborg framfylgdi dómi Hæstaréttar og greiddi öllum þeim sem áttu rétt á því húsaleigubætur. Vegna stöðugrar vinnu ÖBÍ féllst TR á að skoða mál hvers og eins.

Formaður lagði áherslu á að rödd ÖBÍ væri sterk og greinilegt er að á hana er hlustað. Því væri afar mikilvægt að tala öll einum rómi. Vefsíða og samfélagsmiðlar sambandsins eru mikilvægir hlekkir í fréttaflutningi. Facebooksíða ÖBÍ er með um 9000 fylgjendur sem margir hverjir eru afar virkir.

Málefnahópar bandalagsinseru orðnir 7 talsins, fimm fastir hópar og tveir tímabundnir. Málefnahóparnir eru afar mikilvægir þrýstihópar og starf þeirra er grundvöllur málefnavinnu ÖBÍ. Mikið hefur verið að gera hjá hópunum og öll eru baráttumálin brýn.

ÖBÍ tekur virkan þátt í erlendu samstarfi, bæði norrænu og evrópsku. Starfsárið 2019-2020 fór Ísland með formennsku í HNR sem er samstarfsvettvangur heildarsamtaka fatlaðs fólks á Norðurlöndunum. Þrír fundir voru haldnir á árinu, einn í Stokkhólmi og tveir í gegnum Teams fjarfundabúnað. Á dagskrá fyrsta fundarins var staða fatlaðs fólks á vinnumarkaði en síðari tveir fundirnir voru helgaðir Covid og áhrifum faraldursins á fatlað fólk. Fulltrúar ÖBÍ tóku einnig þátt í fundum á vegum RNSF (ráðgefandi og stefnumarkandi ráð varðandi málefni fatlaðs fólks fyrir norrænu ráðherranefndina) og EDF (Evrópusamtök fatlaðs fólks).

Tveir formannafundir voru haldnir á árinu. Sá fyrri var haldinn 12. september 2019 en sá seinni 21. janúar 2020.

Formaður fór einnig yfir hvað væri framundan. Haustið 2021 verður kosið til Alþingis. Á kosningaári harðnar baráttan óneitanlega og þá sem aldrei fyrr er mikilvægt að standa saman.

Fundarstjóri bauð umræður um skýrslu stjórnar, en enginn kvaddi sér hljóðs.

Ársreikningur ÖBÍ (2)

Bryndís Björk Guðjónsdóttir, endurskoðandi frá PwC ehf., kynnti ársreikning ÖBÍ fyrir árið 2019 (fskj. nr. 3 – Ársreikningur ÖBÍ 2019). Endurskoðandi vakti athygli á athugasemd um Covid-19 í skýrslu stjórnar. Ekki var búist við að veiran mundi hafa áhrif á fjárhagsstöðu ÖBÍ.

Það var álit endurskoðanda að reikningurinn gæfi glögga mynd af afkomu félagsins á árinu, efnahag og breytingum á haldbæru fé í árslok 2019. Ársreikningurinn var áritaður án fyrirvara af endurskoðanda og skoðunarmönnum.

Endurskoðandi fór yfir helstu meginatriði ársreikningsins.

Rekstrartekjur ársins 2019 voru 706 milljónir í stað rúmlega 661 milljón árið 2018.

Rekstrargjöld ársins 2019 voru einnig hærri en árið áður, eða 322 milljónir 2019 í stað 281 milljóna 2018.

Rekstrarafkoma ársins 2019 fyrir fjármunatekjur og -gjöld var 384 milljónir, en 380 milljónir 2018.

Rekstrarafkoma ársins 2019, að meðtöldum fjármunatekjum og veittum styrkjum, var neikvæð um ríflega 4,5 milljónir, í stað tæplega 39 milljóna hagnaðar árið áður. Þar munaði mest um tæplega 400 milljónir í veitt framlög og styrki árið 2019 í stað ríflega 352 milljóna árið áður.

Efnahagshluti reikningsins breyttist ekki mikið á milli ára.  Varanlegir fastafjármunir voru 318 milljónir 2019 samanborið við 321 milljón árið áður og jukust langtímakröfur úr 200 milljónum árið 2018 í 207 milljónir árið 2019. Þar var fyrst og fremst um að ræða bundnar innistæður.

Fastafjármunir samtals voru því 525 milljónir 2019 í stað 524 milljóna árið áður. Veltufjármunir voru 304 milljónir 2019 í stað 285 milljóna 2018 og voru eignir því samtals 829 milljónir árið 2019, í stað 809 milljóna 2018.

Eigið fé og skuldir voru samtals 829 milljónir 2019 í stað 809 milljóna árið áður. Það skiptist í óráðstafað eigið fé, sem var 608 milljónir 2019 í stað 613 milljóna árið áður, og skuldir, sem voru samtals 221 milljón 2019 í stað 196 milljóna 2018.

Rekstrarafkoma ársins 2019 var neikvæð um 4,6 milljónir. Skýrðist það helst af því að haldbært fé frá rekstri í árslok 2019 var tíu milljónir, í stað 147 milljóna árið áður. Helsta skýring þessarar miklu breytingar var talsverð skammtímaskuld vegna ógreidds styrks til Brynju hússjóðs.

Handbært fé í árslok 2019 var því 228 milljónir, í stað 227 milljóna árið áður.

Vísaði endurskoðandi í skýringar í ársreikningi á blaðsíðu 10-16 til frekari glöggvunar.

Fundarstjóri opnaði fyrir umræður um reikninga ÖBÍ. Til svara voru gjaldkeri ÖBÍ, Bergur Þorri Benjamínsson, og framkvæmdastjóri ÖBÍ, Lilja Þorgeirsdóttir.

Framkvæmdarstjóri ÖBÍ, Lilja Þorgeirsdóttir, sagði tekjur ársins 2019 hafa verið góðar, hærri en gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun. Sagði hún tekjur nær alfarið frá Íslenskri getspá, en að leigutekjur standi undir meginþunga kostnaðar af rekstri fasteignar ÖBÍ. Framkvæmdarstjóri sagði ráðstöfun tekna vera ákvörðun stjórnar og að fjármagni væri ráðstafað til aðildarfélaga ÖBÍ, Brynju hússjóðs og reksturs ÖBÍ. Þá væru greiddir styrkir til fyrirtækja sem ÖBÍ er aðili að og innlent hjálparstarf.

Gjaldkeri ÖBÍ, Bergur Þorri Benjamínsson, færði fundinum þau gleðitíðindi að á fundi sínum þann 29. september 2020 samþykkti stjórn Íslenskrar getspár að greiða út aukagreiðslu upp á 300 milljónir til eignaraðila. Minnti Bergur á að ÖBÍ eigi 40% í Íslenskri getspá.

Frekari umræður og fyrirspurnir voru ekki og bar fundarstjóri reikninginn upp til atkvæða. Ársreikningur ÖBÍ 2019 var samþykktur með öllum greiddum atkvæðum.

Skýrslur fastra málefnahópa (3)

Skýrslur málefnahópa ÖBÍ voru birtar í Ársskýrslu ÖBÍ 2019-2020 sem var dreift á fundinum (fskj. nr. 2, bls. 34-39).

Málefnahópur um aðgengismál (a)

Ingveldur Jónsdóttir frá MS félagi Íslands, formaður hópsins, sagði frá starfi hópsins og þakkaði þeim sem sátu í hópnum gott samstarf .

Ásamt Ingveldi voru í hópnum Birna Einarsdóttir frá Gigtarfélagi Íslands, Ingólfur Már Magnússon frá Heyrnarhjálp, Jón Heiðar Jónsson frá Sjálfsbjörg lsh., Lilja Sveinsdóttir frá Blindrafélaginu, Margrét Lilja Arnheiðardóttir frá Sjálfsbjörg lsh. og Sigurjón Einarsson frá Fjólu, sem einnig var varaformaður. Formaður þakkaði starfsmanni hópsins, Stefáni Vilbergssyni, fyrir einstaklega gott samstarf og aðstoð.

Fundarstjóri bauð umræður en engar urðu.

Málefnahópur um atvinnu- og menntamál (b)

Áslaug Ýr Hjartardóttir, Fjólu, var starfandi formaður hópsins frá desember 2019 og fór yfir starf hópsins. Hún hrósaði hópnum fyrir vel unnin störf og sagði mjög gott að vinna með honum.

Með Áslaugu Ýr störfuðu í hópnum Brynhildur Arthúrsdóttir frá Laufi, Elma Finnbogadóttir frá Blindrafélaginu, Hrannar Björn Arnarsson frá ADHD samtökunum, Hrönn Stefánsdóttir frá Gigtarfélagi Íslands, og Vilborg Jónsdóttir frá Parkinsonsamtökunum. Sigurður Jón Ólafsson frá Stómasamtökum Íslands og Sylviane Lecoultre frá Geðhjálp voru varamenn. Starfsmaður hópsins var Þórdís Viborg.

Fundarstjóri bauð umræður en engar urðu.

Málefnahópur um heilbrigðismál (c)

Emil Thóroddsen frá Gigtarfélagi Íslands, formaður hópsins, gerði grein fyrir starfi hópsins á starfsárinu.

Ásamt honum voru í hópnum Fríða Rún Þórðardóttir frá Astma- og ofnæmisfélagi Íslands, Guðbjörg Kristín Eiríksdóttir frá Sjálfsbjörg lsh., Guðni Sigurmundsson frá Sjálfsbjörg lsh., Karl Þorsteinsson frá Ás styrktarfélagi, Sigríður Jóhannsdóttir frá Samtökum sykursjúkra og Vilhjálmur Hjálmarsson frá ADHD samtökunum. Stefán Vilbergsson var starfsmaður hópsins.

Fundarstjóri bauð umræður en enginn kvaddi sér hljóðs.

Málefnahópur um kjaramál (d)

Bergþór Heimir Þórðarson frá Geðhjálp, formaður hópsins, sagði frá starfi hópsins.

Ásamt honum störfuðu í hópnum Atli Þór Þorvaldsson frá Parkinsonsamtökunum, sem var varaformaður, Dóra Ingvadóttir frá Gigtarfélagi Íslands, Elín Ýr Hafdísardóttir frá Fjólu, Elva Dögg Hafberg Gunnarsdóttir frá Tourette-samtökunum á Íslandi, Frímann Sigurnýasson frá Vífli og Unnur Hrefna Jóhannsdóttir frá Laufi. Varamenn hópsins voru Geirdís Hanna Kristjánsdóttir frá Geðhjálp og Valgerður Hermannsdóttir frá Hjartaheillum. Sigríður Hanna Ingólfsdóttir var starfsmaður hópsins.

Fundarstjóri bauð umræður en engar urðu.

Málefnahópur um sjálfstætt líf (e)

Rúnar Björn Herrera frá SEM samtökunum, formaður hópsins, sagði frá starfi hans.

Með honum áttu sæti í hópnum Bergþór G. Böðvarsson frá Geðhjálp, Eliona Gjecaj frá Blindrafélaginu, Elín Ýr Arnar Hafdísardóttir frá Blindrafélaginu, Eyþór Kamban Þrastarson frá Blindrafélaginu, Megan Lee Smith frá Sjálfsbjörg lsh. og Snædís Rán Hjartardóttir frá Fjólu. Starfsmaður hópsins var Sigurjón Unnar Sveinsson og Katrín Oddsdóttir.

Rúnar Björn sagði frá starfi hópsins. Engar fyrirspurnir bárust.

Málefnahópur um málefni barna (f)

Elín Hoe Hinríksdóttir frá ADHD samtökunum, formaður hópsins sagði frá starfi hans.

Með henni í hópnum voru Fríða Bragadóttir frá Samtökum sykursjúkra / Laufi, Hjalti Sigurðsson frá Blindrafélaginu, Jóna Kristín Gunnarsdóttir frá ADHD samtökunum, Sif Hauksdóttir frá Astma- og ofnæmisfélagi Íslands, Sigrún Birgisdóttir frá Einhverfusamtökunum og Sunna Brá Stefánsdóttir frá Gigtarfélagi Íslands. Varamaður var Margrét Vala Marteinsdóttir frá Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra. Starfsmaður hópsins var Þórdís Viborg.

Spurt var hvort ungmenni eða barn ætti sæti í hópnum. Elín sagði svo ekki vera en að eitt sæti væri laust í hópnum og hvatti hún aðildarfélögin til að tilnefna ungmenni sem fulltrúa í hópinn.

Málefnahópur um húsnæðismál (g)

María Pétursdóttir frá MS félagi Íslands var formaður hópsins og sagði frá starfi hans.

Með henni í hópnum sátu Guðmundur Rafn Bjarnason frá Blindrafélaginu, María Magdalena Birgisdóttir Olsen frá Gigtarfélaginu, María Óskarsdóttir frá Sjálfsbjörg lsh., Olgeir Jón Þórisson frá Einhverfusamtökunum sem var varaformaður hópsins, Stefán Benediktsson frá Heyrnarhjálp, Steinar Björgvinsson frá Blindrafélaginu. Frímann Sigurnýasson frá Vífli og Karen Anna Erlingsdóttir frá Gigtarfélaginu voru til vara. Valdís Ösp Árnadóttir var starfmaður hópsins.

Spurt var hvort hópurinn hafi skoðað umhverfismál í tengslum við húsnæði. María sagði svo vera og að hópurinn hafi rætt um að setja spurningar þar að lútandi inn í könnun um húsnæði, umhverfi og aðgengi.

Skýrslur fyrirtækja (4)

Skýrslur fyrirtækja lágu frammi (fskj. nr. 2, bls. 42-47) og ársreikninga fyrirtækja má sjá í fylgiskjölum 4a-4d. Fundarstjóri bauð umræður um skýrslurnar.

BRYNJA, hússjóður Öryrkjabandalagsins (a)

Emil Thóroddsen, stjórnarmaður hjá Brynju hússjóði, var til svara. Spurt var hvort stjórn sjóðsins sæi tækifæri til að stækka eignasafn sjóðsins. Sagði Emil stöðuna ekki góða, að lokað hafi verið fyrir umsóknir í rúmt ár og ekki væri fyrirséð að opnað yrði aftur í bráð, en í kringum 500 væru á biðlista. Sagði hann alltaf væri vel tekið á móti hugmyndum um úrræði til úrbóta. Óvenju margar íbúðir voru keyptar á árinu.

Örtækni (b)

Þorsteinn Jóhannsson, framkvæmdastjóri, var til svara en engar fyrirspurnir bárust.

Hringsjá (c)

Lilja Þorgeirsdóttir, framkvæmdastjóri ÖBÍ, var til svara. Spurt var um vangreidd opinber gjöld á ársreikningi. Lilja sagði það alvanalegt, opinber gjöld séu ekki greidd fyrr en í janúar og því sé ekki um skuld að ræða.

TMF- Tölvumiðstöð (d)

Sigrún Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri, var til svara en engar fyrirspurnir bárust.

Fjölmennt (e)

Halldór Sævar Guðbergsson, varaformaður ÖBÍ, var til svara, en engar fyrirspurnir bárust.

Íslensk getspá (f)

Bergur Þorri Benjamínsson, fulltrúi ÖBÍ í stjórn Íslenskrar getspár, var til svara, en engar fyrirspurnir bárust.

Stefnuþing: Stefna og starfsáætlun (5)

Formaður sagði frá því að fjórða Stefnuþingi ÖBÍ, sem fram átti að fara í mars 2020, hafi verið frestað vegna samkomutakmarkana vegna Covid-19 og að áætlað væri að halda þingið 9. og 10. apríl 2021.

Aðildargjöld, ákvörðun (6)

Fundarstjóri kynnti framkomna tillögu frá stjórn ÖBÍ um að aðildargjöld ÖBÍ yrðu óbreytt, 0 kr. (sjá fskj. nr. 5).

Spurt var um forsendur tillögunnar og ástæðu þess að engin aðildargjöld væru greidd. Lilja Þorgeirsdóttir, framkvæmdastjóri, svaraði. Í 6. gr. laga ÖBÍ segir að aðildarfélög skuli greiða aðildargjöld í samræmi við ákvörðun aðalfundar. Áður en Íslensk  getspá var stofnuð og ÖBÍ fór að fá þaðan reglubundnar tekjur var rekstur ÖBÍ fjármagnaður með greiðslu þessara aðildargjalda. Í dag er ekki þörf á að greiðslu þessara gjalda en vegna laga ÖBÍ er þessi tillaga afgreidd árlega.

Þá var tillagan tekin til atkvæða og hún samþykkt með 106 atkvæðum gegn fjórum, einn sat hjá.

Stjórnarseta, þóknun (7)

Fundarstjóri tók til afgreiðslu tillögu frá stjórn ÖBÍ um þóknun fyrir stjórnarsetu, svohljóðandi (sjá fskj. nr. 6):

Lagt er til að fyrirkomulag við greiðslu þóknunar fyrir fundarsetu fyrir fulltrúa í stjórn ÖBÍ verði eftirfarandi:

• Stjórnarmenn ÖBÍ og varamenn fá greiddar 7 einingar fyrir hvern setinn stjórnarfund sem er allt að 2,5 klst. langur. 2 einingar eru fyrir undirbúning fundar og 5 einingar fyrir sjálfan fundinn. Ef forföll eru tilkynnt eru greiddar 2 einingar fyrir undirbúning fundar.

• Fyrir hverja klst. umfram það er greidd ein eining.

• Upphæð þóknunar tekur mið af ákvörðun þóknananefndar ríkisins sem er
2.502 kr. á hverja einingu, miðað við apríl 2020.

Fundarstjóri bauð umræður. Spurt var um einingakerfið og útskýrði framkvæmdastjóri ÖBÍ hugmyndina að baki því.

Greidd voru atkvæði um tillöguna, sem var samþykkt með þorra atkvæða, einn var á móti og fimm sátu hjá.

Kl. 19:00 frestaði fundarstjóri fundi til kl. 10 laugardaginn 3. október 2020.


Laugardagur 3. október 2020 – fundi framhaldið

Fundarstjóri hóf fund að nýju kl. 10:22.

Kosningar í stjórn

Fundarstjóri tilkynnti að 130 fulltrúar væru skráðir inn í kosningakerfi fundarins (sjá lista yfir aðalfundarfulltrúa í fskj. nr. 7), þar af væru 54 á Zoom. Yfirlit yfir framboð til stjórnar var í fundargögnum (sjá fskj. nr. 8). Kynningar á frambjóðendum lágu frammi og má sjá þær í fylgiskjölum (sjá fskj. nr. 9-13b).

Jón Þorkelsson, formaður kjörnefndar, sagði frá starfi nefndarinnar. Ólíkt fyrri árum komu framboð til allra lausra embætta áður en frestur rann út og því var starf nefndarinnar létt. Hrósaði Jón aðilum fyrir vilja til þátttöku í starfi ÖBÍ.

Spurt var hvort ekki væru leyfð framboð á fundinum. Fundarstjóri sagði svo vera, en að meirihluta fundarfulltrúa þyrfti að samþykkja framboðið. Þá var kosið um að leyfa framboð á fundinum. 118 greiddu atkvæði og var samþykkt að leyfa framboð á fundinum með 77 atkvæðum gegn 33, nokkrir sátu hjá.

Formaður (8)

Kosið verður í embætti formanns 2021.

Varaformaður (9)

Fyrir fundinum lá að kjósa varaformann. Einn hafði boðið sig fram innan tilskilins frests, Bergþór Heimir Þórðarson frá Geðhjálp (sjá fskj. nr. 9).

Samþykkt hafði verið að leyfa framboð á fundinum og bauð Gísli Helgason frá Blindravinafélagi Íslands sig fram.

Frambjóðendur kynntu sig. Gengið var til kosninga, 117 greiddu atkvæði sem skiptust þannig:

Bergþór Heimir Þórðarson frá Geðhjálp fékk 84 atkvæði.

Gísli Helgason frá Blindravinafélagi Íslands fékk 33 atkvæði.

Því var Bergþór Heimir frá Geðhjálp réttkjörinn varaformaður ÖBÍ 2020-2022.

Gjaldkeri (10)

Fyrir fundinum lá að kjósa gjaldkera. Einn hafði boðið sig fram fyrir fundinn, Jón Heiðar Jónsson frá Sjálfsbjörg lsh. (sjá fskj. nr. 10)

Ekki komu fram önnur framboð og því var Jón Heiðar sjálfkjörinn í embætti gjaldkera ÖBÍ 2020-2022.

Formenn fastra málefnahópa (11)

Kosið verður um formenn fastra málefnahópa 2021 en fyrir fundinum lá að kjósa formann Málefnahóps um atvinnu- og menntamál til eins ár. Í framboði var Áslaug Ýr Hjartardóttir frá Fjólu (sjá fskj. nr. 11).

Ekki komu fram fleiri framboðog því var Áslaug Ýr sjálfkjörin sem formaður málefnahóps um atvinnu- og menntamál 2020-2021.

Vegna kjörs Berþórs Heimis í embætti varaformanns losnaði formennska í málefnahópi um kjaramál og opnaði fundarstjóri fyrir framboð. Atli Þór Þórðarson frá Parkinsonsamtökunum bauð sig fram.

Fleiri framboð komu ekki og því var Atli Þór sjálfkjörinn í embætti formanns málefnahóps um kjaramál 2020-2021.

Stjórnarmenn (12)

Fundarstjóri kynnti kosningu sjö stjórnarmanna til tveggja ára. Níu höfðu boðið sig fram innan tilskilins frests, (sjá fskj. nr. 12a-i). Þau voru Dóra Ingvadóttir frá Gigtarfélagi Íslands, Elva Dögg Gunnarsdóttir frá Tourette-samtökunum, Fríða Bragadóttir frá Samtökum sykursjúkra, Fríða Rún Þórðardóttir frá Astma- og ofnæmisfélagi Íslands, Ingibjörg Snjólaug Snorra Hagalín frá MS félagi Íslands, Karl Þorsteinsson frá Ás styrktarfélagi, Sigþór U. Hallfreðsson frá Blindrafélaginu, Snævar Ívarsson frá Félagi lesblindra á Íslandi og Þorsteinn Þorsteinsson frá Spoex. Eiður Welding bauð sig fram á fundinum.

Frambjóðendur kynntu sig. Greidd voru atkvæði. Þessi hlutu kosningu til setu í stjórn ÖBÍ 2020-2022:

  • Fríða Bragadóttir frá Samtökum Sykursjúkra fékk 97 atkvæði
  • Sigþór U. Hallfreðsson frá Blindrafélaginu fékk 97 atkvæði
  • Elva Dögg Gunnarsdóttir frá Tourette-samtökunum fékk 94 atkvæði
  • Eiður Welding frá CP félaginu fékk 83 atkvæði
  • Dóra Ingvadóttir frá Gigtarfélaginu fékk 82 atkvæði
  • Snævar Ívarsson frá Félagi lesblindra á Íslandi fékk 82 atkvæði
  • Ingibjörg Snjólaug Snorra Hagalín frá MS félagi Íslands fékk 79 atkvæði

Varamenn (13)

Fundarstjóri kynnti kosningu þriggja varamanna í stjórn til tveggja ára. Tveir höfðu boðið sig fram innan tilskilins frests, (sjá fskj. nr. 13a-b), þau Elín Ýr Hafdísardóttir frá Fjólu og Vilhjálmur Hjálmarsson frá ADHD samtökunum. Fundurinn samþykkti að leyfa jafnframt framboð Fríðu Rúnar Þórðardóttur frá Astma- og ofnæmissamtökunum, Karls Þorsteinssonar frá Ás styrktarfélagi og Þorsteins Þorsteinssonar frá Spoex. Frambjóðendur kynntu sig.

Greidd voru atkvæði. Þessi hlutu kosningu til setu sem varamenn í stjórn ÖBÍ 2020-2022:

  • Elín Ýr Hafdísardóttir frá Fjólu fékk 85 atkvæði
  • Vilhjálmur Hjálmarsson frá ADHD samtökunum fékk 79 atkvæði
  • Fríða Rún Þórðardóttir frá Astma- og ofnæmissamtökunum fékk 70 atkvæði

Formaður kvaddi sér hljóðs. Óskaði hún nýkjörnum fulltrúum til hamingju með kosninguna. Jafnframt þakkaði hún fráfarandi fulltrúum samstarfið. Sagði hún að í fyrsta sinn tæki sólarlagsákvæði laga ÖBÍ gildi. Vegna þess ákvæðis gengu þrír reynslumiklir aðilar úr embættum og færði formaður þeim Halldóri Sævari Guðbergssyni, Bergi Þorra Benjamínssyni og Garðari Sverrissyni blóm með þökkum fyrir vel unnin störf.

Aðrar kosningar til tveggja ára

Kjörnefnd (14)

Kosið verður í kjörnefnd 2021.

Laganefnd (15)

Kosið verður í laganefnd 2021.

Skoðunarmenn reikninga og varamenn (16)

Kosið verður um skoðunarmenn reikninga og varafulltrúa þeirra 2021.

Lagabreytingar, aðildarumsóknir, ályktanir, önnur mál

Lagabreytingar (17)

Teknar voru til afgreiðslu tillögur til breytinga á lögum ÖBÍ sem borist höfðu laganefnd fyrir aðalfund (sjá lög ÖBÍ í fskj. nr. 14).

Formaður laganefndar, Bergþór Heimir Þórðarson, kvaddi sér hljóðs og gerði grein fyrir störfum og niðurstöðum nefndarinnar.

Aðalfundur ÖBÍ 2019 hafði falið laganefnd að kanna tvö atriði; annars vegar hvort meirihluti stjórnar ÖBÍ ætti að vera skipaður fötluðu fólki og hins vegar hvort víkka ætti út kjörgengi aðalfundarfulltrúa, þ.e. hvort varafulltrúar gætu boðið sig fram til ákveðinna embætta.

Nefndin fór yfir lög ÖBÍ með þessi atriði í huga og niðurstöður þeirrar yfirferðar voru kynntar breytingatillögur.

Þá tók fundarstjóri fyrstu lagabreytingartillögu frá laganefnd til afgreiðslu, uppfærða frá því sem kynnt var í fundargögnum.

Formaður laganefndar kynnti uppfærða tillögu um breytingu á 18. grein laga ÖBÍ, að á eftir 1. mgr. 18. gr. A bætist við ný málsgrein, afgreidd í tveimur hlutum, a) og b), svohljóðandi (sjá fskj. nr. 15a):

a)

„Meirihluti stjórnar skal skipaður fötluðu fólki eða aðstandendum fatlaðs fólks sem þarf aðstoð til að tala máli sínu. Með fötlun er vísað til skilnings Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.“

b)

„Formaður skal vera fatlaður einstaklingur eða aðstandandi fatlaðs fólks sem þarf aðstoð til að tala máli sínu.“

Fundarstjóri bauð umræður um tillöguna. Þrettán tóku til máls. Gerð var athugasemd við að kynntri tillögu hafi verið breytt og breytta tillagan tekin til afgreiðslu. Rætt var um hugtakanotkun og skilgreiningar í tengslum við að bæta „foreldrum“ inn í textann eða hvort „aðstandandi“ nái yfir alla þá sem málið varða og mikilvægi þess að orðalag sé ekki opið til túlkunar. Lagt var til að láta þýða 7. álit sérfræðinefndar um SRFF. Nefnt var að mikilvægt væri að andlit ÖBÍ út á við sé fatlaður einstaklingur.

Formaður laganefndar lagði áherslu á þann skilning að fólk sem getur tjáð sig sjálft, með stuðningi aðstoðarmanna og/eða tækja, kemur auðvitað fram fyrir sig sjálft. Fólk verður að meta það sjálft hvort það sé fatlað eða ekki. Taldi hann mjög líklegt að 7. álitið verði þýtt og lýsti þeim vilja sínum að málið verði unnið áfram, jafnvel með vinnustofu eða málþingi. Í tengslum við b-lið komst nefndin að þeirri niðurstöðu að verði varaformaður að taka við af formanni, væri það aldrei lengur en fram að næsta aðalfundi og því þótti laganefnd ekki þörf á því að gera þá kröfu að varaformaður sé fatlaður eða aðstandandi fatlaðs fólks sem þarf aðstoð til að tala máli sínu.

Þá tók fundarstjóri a-lið 1. tillögu til afgreiðslu. Rúnar Björn Herrera lagði til að eftirfarandi yrði tekið út úr tillögunni: „…eða aðstandendum fatlaðs fólks sem þarf aðstoð til að tala  máli sínu.“, Frímann Sigurnýasson studdi. Tillagan var felld, 58 voru á móti og 45 með. Fjórir tóku ekki afstöðu.

Þá voru greidd atkvæði um a-lið eins og hann var kynntur:

„Meirihluti stjórnar skal skipaður fötluðu fólki eða aðstandendum fatlaðs fólks sem þarf aðstoð til að tala máli sínu. Með fötlun er vísað til skilnings Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.“

102 atkvæði voru á fundinum. Tillagan var samþykkt með 75 atkvæðum gegn 24 á móti. Þrír tóku ekki afstöðu.

Þá var b-liður 1. tillögu tekinn til afgreiðsu.

„Formaður skal vera fatlaður einstaklingur eða aðstandandi fatlaðs fólks sem þarf aðstoð til að tala máli sínu.“

Svavar Kjarrval lagði til að orðunum „og varaformaður” yrði skotið inn á eftir „Formaður”. Var það samþykkt með 75 atkvæðum, gegn 24, þrír tóku ekki afstöðu.

Þá voru greidd atkvæði um b-lið 1. tillögu með áorðnum breytingum:

„Formaður og varaformaður skulu vera fatlaðir einstaklingar eða aðstandendur fatlaðs fólks sem þarf aðstoð til að tala máli sínu.“

Var tillagan samþykkt með 64 atkvæðum gegn 27. Fimm tóku ekki afstöðu.

Þá voru greidd atkvæði um 18. gr. með áorðnum breytingum. Var hún samþykkt svohljóðandi með 74 atkvæðum gegn 12, þrír tóku ekki afstöðu:

„Stjórn samanstendur af nítján stjórnarmönnum: formanni, varaformanni, gjaldkera, fimm formönnum fastra málefnahópa og ellefu öðrum stjórnarmönnum. Stjórn er kosin á aðalfundi úr hópi aðalfundarfulltrúa sem boðið hafa sig fram til trúnaðarstarfa skv. 13. gr. Jafnframt skal aðalfundur kjósa þrjá varamenn sem hafa seturétt á stjórnarfundum. Stjórnarmenn sitja í umboði aðalfundar en ekki einstakra aðildarfélaga.

Meirihluti stjórnar skal skipaður fötluðu fólki eða aðstandendum fatlaðs fólks sem þarf aðstoð til að tala máli sínu. Með fötlun er vísað til skilnings Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Formaður og varaformaður skulu vera fatlaðir einstaklingar eða aðstandendur fatlaðs fólks sem þarf aðstoð til að tala máli sínu.

Á oddatöluári skal kjósa formann, formenn fastra málefnahópa og fjóra stjórnarmenn. Á ári sem kemur upp á sléttri tölu skal kjósa varaformann, gjaldkera, sjö stjórnarmenn og þrjá varamenn. Fjöldi atkvæða ræður röð varamanna. Ef kjósa þarf varamann til skemmri tíma en tveggja ára, verður hann síðastur í röð varamanna.

Stjórn fer með æðsta vald bandalagsins á milli aðalfunda. Meginhlutverk stjórnar er að framfylgja lögum og stefnu bandalagsins. Stjórn gerir starfssamning við formann.

Aðalmenn í stjórn geta setið að hámarki í þrjú kjörtímabil samfellt. Seta í formannsembætti er óháð fyrri stjórnarsetu.“

Þá tók fundarstjóri lagabreytingartillögu nr. 2 til afgreiðslu. Formaður laganefndar kynnti tillögu um breytingu á 12. grein laga ÖBÍ, þar sem lagt var til innskot í og viðbót við 1. mgr.  (sjá fskj. nr. 15b) svohljóðandi:

„Inn í setninguna „Fulltrúar aðildarfélaga hafa atkvæðisrétt …” bætast við orðin „sem sitja fundinn” og seinni hluti setningarinnar verður að nýrri setningu: „Allir aðal- og varafulltrúar sinna félaga hafa kjörgengi í öll embætti á aðalfundi að teknu tilliti til uppfylltra skilyrða um kjörgengi.”

Fundarstjóri bauð umræður um tillöguna. Tveir tóku til máls, samþykkir tillögunni, en ítrekuðu vandað orðalag.

Þá voru greidd atkvæði um tillöguna. Var hún samþykkt með 77 atkvæðum gegn tveimur. Fimm tóku ekki afstöðu.

Þá tók fundarstjóri lagabreytingartillögu nr. 3 til afgreiðslu. Formaður laganefndar kynnti tillögu um viðbót, nýja málsgrein 2. mgr, við 13. grein laga ÖBÍ, a (sjá fskj. nr. 15c):

„Ef fulltrúi hættir áður en kjörtímabili lýkur er kosið í það embætti á næsta aðalfundi.“

Fundarstjóri bauð umræður um tillöguna en enginn kvaddi sér hljóðs. Greidd voru atkvæði um tillöguna. Var hún samþykkt samhljóða. Þrír tóku ekki afstöðu.

Þá tók fundarstjóri lagabreytingartillögu nr. 4 til afgreiðslu. Formaður laganefndar kynnti tillögu um breytingu á 12. grein laga ÖBÍ (sjá fskj. nr. 15d), að við hana bætist ný málsgrein:

„Fulltrúar í öllum embættum sem kosið er um á aðalfundi geta setið að hámarki í þrjú heil kjörtímabil samfellt í sama embætti. Hafi einstaklingur verið kosinn á miðju kjörtímabili getur hann klárað það auk þriggja heilla tímabila, þ.e. alls að hámarki 7 ár. Öll hlutverk innan stjórnar, þar með taldir varamenn, teljast sem seta í sama embætti þegar samfelldur tími er reiknaður samkvæmt þessu ákvæði. Seta í formannsembætti ÖBÍ er óháð fyrri stjórnarsetu.“

Jafnframt falla sambærilegar setningar úr 13. gr., 18. gr. Aog 24. gr. og hljóða þær svo:

13. gr. 4. mgr.: „Kjörnefndarmenn geta setið að hámarki í þrjú heil kjörtímabil samfellt.“

18. gr. A. 4. mgr.: „Aðalmenn í stjórn geta setið að hámarki í þrjú kjörtímabil samfellt. Seta í formannsembætti er óháð fyrri stjórnarsetu.“

24. gr. 1. mgr., 2. setning: „Laganefndarmenn geta setið að hámarki í þrjú heil kjörtímabil samfellt.“

Fundarstjóri bauð umræður um tillöguna og tveir tóku til máls. Vildu þeir nánari skýringu á hvernig skilja bæri breytinguna. Greidd voru atkvæði um tillöguna. Var hún samþykkt með 75 atkvæðum gegn fjórum. Tveir tóku ekki afstöðu.

Eftirfarandi lagagreinum var breytt og hljóða þær nú svo:

12. gr.:

„Fulltrúar aðildarfélaga sem sitja fundinn hafa atkvæðisrétt. Allir aðal- og varafulltrúar sinna félaga hafa kjörgengi í öll embætti á aðalfundi að uppfylltum skilyrðum um kjörgengi.

Í öllum málum ræður einfaldur meirihluti, ef ekki er kveðið á um annað í þessum lögum. Atkvæðagreiðslur skulu vera leynilegar, sé þess óskað. Hafi tveir eða fleiri frambjóðendur hlotið jafnmörg atkvæði og röð þeirra skiptir máli ræður hlutkesti, nema tillaga komi fram um annað.

Kjósa má allt að jafnmarga frambjóðendur og þau sæti sem í boði eru hverju sinni.

Fulltrúar í öllum embættum sem kosið er um á aðalfundi geta setið að hámarki í þrjú heil kjörtímabil samfellt í sama embætti. Hafi einstaklingur verið kosinn á miðju kjörtímabili getur hann klárað það auk þriggja heilla tímabila, þ.e. alls að hámarki 7 ár. Öll hlutverk innan stjórnar, þar með taldir varamenn, teljast sem seta í sama embætti þegar samfelldur tími er reiknaður samkvæmt þessu ákvæði. Seta í formannsembætti ÖBÍ er óháð fyrri stjórnarsetu.”

13. gr.:

„Kjörnefnd skal hið minnsta tveimur mánuðum fyrir aðalfund óska eftir framboðum í trúnaðarstöður. Framboð skulu berast kjörnefnd eigi síðar en einum mánuði fyrir aðalfund. Kjörnefnd skal tryggja næg framboð í þau embætti sem kosið er um. Kjörnefnd skal einnig tryggja fjölbreytni framboða með tilliti til jafnræðis milli fötlunarhópa. Jafnframt skal hún líta til annarra atriða sem talin eru skipta máli, svo sem kynja, búsetu og aldurshópa.

Ef fulltrúi hættir áður en kjörtímabili lýkur er kosið í það embætti á næsta aðalfundi.

Kjörnefnd skal senda aðalfundarfulltrúum lista með nöfnum frambjóðenda eigi síðar en tveimur vikum fyrir aðalfund.

Allir frambjóðendur eiga sama rétt á að kynna sig, þ.á.m. á aðalfundi. Berist framboð of seint eru þau háð samþykki aðalfundar.“

18. gr. A:

A. Kosning og hlutverk stjórnar

Stjórn samanstendur af nítján stjórnarmönnum: formanni, varaformanni, gjaldkera, fimm formönnum fastra málefnahópa og ellefu öðrum stjórnarmönnum. Stjórn er kosin á aðalfundi úr hópi aðalfundarfulltrúa sem boðið hafa sig fram til trúnaðarstarfa skv. 13. gr. Jafnframt skal aðalfundur kjósa þrjá varamenn sem hafa seturétt á stjórnarfundum. Stjórnarmenn sitja í umboði aðalfundar en ekki einstakra aðildarfélaga.

Meirihluti stjórnar skal skipaður fötluðu fólki eða aðstandendum fatlaðs fólks sem þarf aðstoð til að tala máli sínu. Með fötlun er vísað til skilnings Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Formaður og varaformaður skulu vera fatlaðir einstaklingar eða aðstandendur fatlaðs fólks sem þarf aðstoð til að tala máli sínu.

Á oddatöluári skal kjósa formann, formenn fastra málefnahópa og fjóra stjórnarmenn. Á ári sem kemur upp á sléttri tölu skal kjósa varaformann, gjaldkera, sjö stjórnarmenn og þrjá varamenn. Fjöldi atkvæða ræður röð varamanna. Ef kjósa þarf varamann til skemmri tíma en tveggja ára, verður hann síðastur í röð varamanna. Stjórn fer með æðsta vald bandalagsins á milli aðalfunda. Meginhlutverk stjórnar er að framfylgja lögum og stefnu bandalagsins. Stjórn gerir starfssamning við formann.

24. gr.:

Innan bandalagsins skal starfa laganefnd. Hún vinnur að lagfæringum og breytingum á lögum ÖBÍ.

Aðildarumsóknir (18)

Engar aðildarumsóknir lágu fyrir.

Ályktanir aðalfundar (19)

Engar ályktanir bárust innan tilskilins frests, en ein ályktun barist fyrir fundinn og fundarstjóri óskaði leyfis fundarins til að taka ályktunina fyrir. Var það samþykkt með 60 atkvæðum gegn sex og sex sátu hjá.

Formaður ÖBÍ, Þuríður Harpa Sigurðardóttir, kynnti ályktun aðalfundar ÖBÍ um kjör örorkulífeyrisþega, svohljóðandi (sjá fskj. nr. 16):

Ályktun aðalfundar Öryrkjabandalags Íslands haldinn 2. og 3. október 2020


Við skilum skömminni til ríkisstjórnarinnar

Í þrjú ár hefur ríkisstjórn Katrínar, Bjarna og Sigurðar Inga ákveðið að auka fátækt fatlaðs og langveiks fólks í stað þess að bæta kjör okkar. Sístækkandi hópur öryrkja býr við sárafátækt. Það veldur aðalfundi  Öryrkjabandalags Íslands miklum vonbrigðum að um áramótin 2020-2021 verði munurinn á örorkulífeyri og  lágmarkslaunum orðinn kr. 86.000.

Frá árinu 2007 hefur bil á milli örorkulífeyris og lágmarkslauna stöðugt breikkað. Í valdatíð núverandi  ríkisstjórnar hefur ekkert verið gert til að bregðast við þessari kjaragliðnun, heldur þvert á móti hefur bilið  breikkað enn meira, þrátt fyrir að ríkisstjórnin segist vinna í anda heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna,  hvar efst á blaði er að útrýma fátækt. Nú þegar Bjarni hefur lagt fram sitt síðasta fjárlagafrumvarp á  kjörtímabilinu er enga breytingu að sjá.

Aðalfundur Öryrkjabandalagsins krefst þess að ríkisstjórnin endurskoði afstöðu sína gagnvart lífskjörum  fatlaðs og langveiks fólks og bæti kjör okkar án tafar. Skömm ríkisstjórnarinnar er að halda okkur í fátækt  og skýla sér á bakvið Covid og slæmt efnahagsástand.

Fátækt er afleiðing skammarlegra pólitískra ákvarðana. Ekkert um okkur án okkar!


Fundarstjóri bauð umræður um ályktunina en enginn tók til máls.

Fundarstjóri bar ályktunina upp til atkvæða og var hún samþykkt með 67 atkvæðum gegn tveimur, sjö sátu hjá.

Önnur mál (20)

A

Gísli Helgason frá Blindravinafélagi Íslands sagði frá þeim tímamótum sem verða 2021 þegar Blindravinafélagið mun sjálfkrafa hætta í bandalaginu, sbr. 7. gr. laga ÖBÍÍ og þetta sé því hans síðasti aðalfundur. Það hafi skipst á skin og skúrir á aðalfundum bandalagsins en hann hafi þroskast mikið á veru sinni hér. Minnti á mikilvægi „Ekkert um okkur án okkar“.

B

Bergþór Heimir Þórðarson þakkaði fyrir traustið til embættis varaformanns. Þakkaði hann einnig fyrir fyrir gott samtal og samvinnu í laganefnd.

Þá þökkuðu fundarstjórar fyrir sig og afhentu formanni ÖBÍ, Þuríði Hörpu Sigurðardóttur, fundinn.

Fundarlok

Formaður þakkaði öllum fyrir fundarsetuna og þolinmæði við nýtt fundarform. Hún þakkaði fráfarandi stjórnarfólki fyrir vel unnin störf og óskaði nýju stjórnarfólki til hamingju með embættin. Þá þakkaði formaður fundarstjórum og fundarriturum fyrir góð störf sem og starfsfólki ÖBÍ.

Formaður sleit fundi kl.16:34

Fylgiskjöl:
1) Dagskrá aðalfundar 2. og 3. október 2020
2) Ársskýrsla Öryrkjabandalags Íslands 2019-2020
3) Ársreikningur ÖBÍ 2019
4) Ársreikningar fyrirtækja
a) BRYNJA hússjóður Öryrkjabandalagsins
b) Örtækni
c) Hringsjá
d) Fjölmennt
5)  Tillaga að aðildargjaldi 2019
6)  Tillaga að þóknun fyrir stjórnarsetu ÖBÍ
7)  Fulltrúar aðildarfélaga ÖBÍ á aðalfundi 2020
8)  Yfirlit yfir framboð til embætta 2020
9)  Kynning frambjóðanda til varaformanns ÖBÍ
10) Kynning frambjóðanda til gjaldkera ÖBÍ
11) Kynning frambjóðanda til formanns málefnahóps um atvinnu- og menntamál
12) Kynning frambjóðenda til stjórnar a-i
13) Kynning frambjóðenda til varamanna a-b
14) Lög Öryrkjabandalags Íslands
15) Lagabreytingartillögur
a) Lagabreytingartillaga nr. 1
b) Breytingartillaga Rúnars Björns Herrera
c) Lagabreytingartillaga nr. 2
d) Breytingartillaga Svavars Kjarrval
e) Lagabreytingartillaga nr. 3
f) Lagabreytingartillaga nr. 4
16) Ályktun aðalfundar ÖBÍ 2020

Aðalfundur 2019

Aðalfundur ÖBÍ 2019

Ávarp formanns – fundarsetning

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ, setti fundinn kl. 16:12 og bauð fundarmenn velkomna. Formaður lagði til að Kolbeinn Óttarsson Proppé og Heiða Björg Hilmisdóttir yrðu fundarstjórar og var það samþykkt með lófataki. Formaður lagði til að Aðalheiður Rúnarsdóttir og Ragnheiður Ásta Sigurðardóttir rituðu fundinn og var það samþykkt. Þá bauð formaður fundarstjórum að taka við fundinum.

Fundarstjórar þökkuðu traustið, buðu gesti velkomna og kynntu dagskrá fundarins (fskj. nr. 1). Fundarstjóri óskaði samþykkis fundarins fyrir setu fulltrúa frá Ás, styrktarfélagi, Hugarfari, Nýrri rödd og Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra, en upplýsingar um þá bárust eftir tilskilinn frest. Var seta þeirra samþykkt.

Fundarstjóri óskaði þá samþykkis fyrir setu fulltrúa úr málefnahópum ÖBÍ. Var það samþykkt og tóku sæti á fundinum María Hauksdóttir fyrir málefnahóp um atvinnu- og menntamál, Guðbjörg Kristín Eiríksdóttir fyrir málefnahóp um heilbrigðismál, Jón Heiðar Jónsson fyrir málefnahóp um aðgengismál, Ingibjörg Snjólaug Snorra Hagalín fyrir málefnahóp um sjálfstætt líf og Svavar Kjarrval úr stjórn ÖBÍ.

Óskað var samþykkis fyrir setu tveggja áheyrnarfulltrúa Kvennahreyfingar ÖBÍ, þær Margéti Lilju Aðalsteinsdóttur og Jenný Pétursdóttur, og eins áheyrnarfulltrúa Ungliðahreyfingar ÖBÍ, Andra Valgeirssonar. Var seta þeirra samþykkt.

Almenn fundarstörf

Skýrsla stjórnar (1)

Formaður flutti skýrslu stjórnar (fskj. nr. 2 – Ársskýrsla Öryrkjabandalags Íslands 2018-2019. Skýrsla formanns og stjórnar, bls. 9-29) og sagði meðal annars frá eftirfarandi atriðum:

Barátta er orð ársins en þrátt fyrir að engir stórir sigrar hafi unnist þá varð ákveðin vitundarvakning meðal verkalýðsfélaga sem var sannarlega sigur. Baráttan heldur því áfram, ÖBÍ vill eiga samtal og samráð við stjórnvöld og hafa áhrif á mál sem varða fatlað og langveikt fólk.

Mikill tími starfsársins fór í kjarabaráttu. Lengi hefur verið unnið að því að fá stjórnvöld til þess að afnema krónu á móti krónu skerðinguna á sérstöku uppbótinni vegna atvinnutekna. Í júní 2019 lagði félags- og barnamálaráðherra fram frumvarp þar sem gefinn var afsláttur af skerðingunni um 35 aura. Í dag er því 65% skerðing í stað 100% áður. Það voru mikil vonbrigði að skerðingin skyldi ekki vera afnumin að fullu  og því ákvað ÖBÍ að höfða dómsmál á hendur stjórnvöldum vegna þessa máls.

Í ár urðu einnig þær ánægjulegu breytingar á lögum um almannatryggingar að TR skuli taka tillit til atvinnutekna mánaðarlega í stað þess að horfa heilt ár aftur í tímann. Ennfremur voru einnig samþykkt lög sem þýða að uppbætur á lífeyri vegna framfærslubyrðar og uppbót vegna reksturs bifreiðar er undanþegin skatti frá 1. janúar 2019. Þarna unnust nokkrir sigrar en svo kom að fjárlögum. Í lok desember 2018 voru fjárlög 2019 samþykkt. Í þessum fjárlögum voru engar hækkanir umfram lögbundnar. Í umræðum á Alþingi ákváðu stjórnvöld svo skyndilega að taka 1,1 milljarð af því sem fyrr hafði verið úthlutað til málaflokks örorku og fatlaðs fólks. ÖBÍ mótmælti þessum fyrirætlunum harðlega. Þegar endurskoðuð fjármálaáætlun var lögð fram, var tillaga um að skerða fyrri tillögu til málaflokksins um 8 milljarða vegna gjaldþrots WOW, loðnubrests og minnkandi ferðamannastraums. Enn á ný mótmælti ÖBÍ kröftuglega og fór það svo að í endanlegri fjármálaáætlun varð 4,5 milljarða lækkun í stað átta áður.

ÖBÍ sendi inn kvörtun til umboðsmanns Alþingis vegna útreiknings TR á skerðingum örorkulífeyris til þeirra sem búið hafa hluta úr ævi erlendis. ÖBÍ taldi að útreikningur TR bryti í bága við íslensk lög og samræmdist ekki EES reglugerð um almanna- tryggingar. Umboðsmaður Alþingis var sammála skilningi ÖBÍ og í desember 2018 viðurkenndi velferðarráðuneytið að TR bæri að fara eftir lögum og endurreikna og greiða upp á það sem vantaði. Um miðjan maí 2019 hóf TR endurreikning á búsetu til þeirra rúmlega 1000 manns sem áttu rétt á leiðréttingu. Stjórnvöld hafa gefið það út að leiðrétt verði fjögur ár aftur í tímann en ÖBÍ krefst þess að TR leiðrétti tíu ár aftur í tímann. Fyrirhugað er að höfða dómsmál í þeirri von um að ná fram leiðréttingu tíu ár aftur í tímann.

Á árinu endurgreiddi Reykjavíkurborg fólki sem leigði hjá Brynju hússjóði og öðrum hagsmunaaðilum sem leigja öryrkjum húsnæði, sérstakar húsaleigubætur aftur í tímann. Þessar bætur lentu í vasa TR vegna þess að litið var á þær sem fjármagnstekjur og því ollu bæturnar skerðingu á lífeyrisgreiðslum. Að mati ÖBÍ er þetta óviðunandi staða og því hefur verið sent erindi til Félagsmálaráðuneytisins þar sem lögð er til lausn á málinu.

Þá kynnti formaður nýja auglýsingaherferð til þess að vekja athygli almennings á kjörum örorkulífeyrisþega. Slagorð herferðarinnar er „Bjóðum betur“. Fyrirhugað er að auglýsingaherferðin verði á öllum helstu samfélagsmiðlum auk sjónvarps, útvarps og blaða.

Formaður fjallaði einnig um greiningarskýrslu KPMG um þróun örorku til ársins 2030 sem var unnin að beiðni félagsmálaráðuneytisins. Þar kemur fram að öryrkjum muni fjölga mikið fram til ársins 2030. ÖBÍ taldi nauðsynlegt að fá álit sérfræðings á skýrslunni og var Kolbeinn Stefánsson hagfræðingur fenginn til þess að vinna greinargerð um fjölgun örorkulífeyrisþega frá árinu 2008 til ársins 2030. Skemmst er frá því að segja að niðurstöður hans eru allt aðrar en KPMG (sjá fskj. nr.2a).

Mikil aukning varð á umfjöllun um ÖBÍ í fjölmiðlum skv. talningu Creditinfo, sem gefur vísbendingu um að fréttaflutningur af málefnum bandalagsins sé markviss og nái athygli. Þá hefur fylgjendum ÖBÍ á Facebook fjölgað um tæp 20% á tímabilinu.

Málefnahópar bandalagsins eru afar mikilvægir og störf þeirra eru grundvöllur að málefnavinnu ÖBÍ. Valinn maður er í hverju rúmi og vinna þeirra er ómetanleg. Aðalfundur 2018 samþykkti að farið yrði í aðgengisátak. Tveir starfsmenn voru ráðnir til hálfs árs, Margrét Lilja Aðalsteinsdóttir og Guðrún Ósk Maríasdóttir. Þær komu í pontu og kynntu átakið.

Fundarstjóri bauð umræður um skýrslu stjórnar. Tveir fundarmenn tóku til máls og þökkuðu fyrir góða skýrslu. Spurt var hvort að aðgengismálum yrði fylgt eftir þar sem úrbóta var þörf? Margrét Lilja Aðalsteinsdóttir svaraði og sagði að málefnahópur um aðgengi myndi fylgja úrbótum eftir. Ennfremur var spurt hvernig hægt væri að beita sér fyrir hækkun á örorkulífeyri? Þuríður Harpa formaður svaraði og sagði að ÖBÍ vonaðist til þess að stjórnvöld myndu standa við þá leiðréttingu sem þau höfðu áður lofað. ÖBÍ hefur leitað liðsinnis verkalýðsfélaganna og vonast formaðurinn til þess að það muni bera árangur.

Ársreikningur ÖBÍ (2)

Guðmundur Snorrason, endurskoðandi frá PwC ehf., kynnti ársreikning ÖBÍ fyrir árið 2018 (fskj. nr. 3 – Ársreikningur 2018). Það var álit endurskoðanda að reikningurinn gæfi glögga mynd af afkomu félagsins á árinu, efnahag og breytingum á haldbæru fé í árslok 2018. Ársreikningurinn var áritaður án fyrirvara af endurskoðanda og skoðunarmönnum. Endurskoðandi vakti athygli á breyttri framsetningu reikninganna, sem var gerð til að leiða fram með skýrari hætti hvað rekstur ÖBÍ tekur til sín án áhrifa frá framlögum frá Íslenskri getspá og styrkjum sem ÖBÍ veitir aðildarfélögum.

  • Heildartekjur ársins 2018 voru 2,2 % hærri en árið 2017, 13,2 milljónir í stað 12,5 árið áður.
  • Rekstrargjöld voru 281 milljón 2018 en 251 milljón 2017.
  • Laun og tengd gjöld hækkuðu á milli ára því laun hækkuðu vegna kjarasamninga, vegna leiðréttingar aftur í tímann og fjölgun starfsmanna um tvö stöðugildi.
  • Fundir, ráðstefnur, auglýsingar og kynningar voru 30 milljónir 2018 á móti rúmlega 33 milljónum árið á undan.
  • Fjármunatekjur ársins 2018 voru 11,5 milljónir, í stað tæplega 10 árið 2017.
  • Rekstrarafkoma fyrir fjármunatekjur var neikvæð upp á 256 milljónir árið 2018 á móti 228 milljónum árið á undan. Framlög frá Íslenskri getspá, sem hækkuðu um 11% á milli ára, komu til móts við neikvæða rekstrarafkomu.
  • Rekstrarafkoma 2018 var tæpar 39 milljónir, í stað ríflega 21,5 milljóna 2017.
  • Fastafjármunir lækkuðu um sjö milljónir á milli ára, að stærstum hluta vegna fasteignar. Aðrar langtímakröfur hækkuðu um átta milljónir og því stóðu fastafjármunir nánast óbreyttir á milli ára, fór úr tæpum 523 milljónum 2017 í tæplega 524 milljónir árið 2018.
  • Eigið fé jókst á milli ára, fór úr 574 milljónum árið 2017 í 613 milljónir árið 2018. Lífeyrisskuldbindingar stóðu nánast í stað á milli ára og skammtímaskuldir jukust úr tæpum 50 milljónum 2017 í tæplega 156 milljónir 2018, vegna ógreiddra framlaga til tengdra aðila um áramót.
  • Heildarniðurstaða efnahagsreiknings var mjög góð um áramót, eignir, eigið fé og skuldir samtals 808,5 milljónir 2018, í stað 664 milljóna 2017.
  • Fundarstjóri opnaði fyrir umræður um reikninga ÖBÍ. Til svara voru gjaldkeri ÖBÍ og framkvæmdastjóri.
  • Framkvæmdarstjóri, Lilja Þorgeirsdóttir, þakkaði yfirferð á ársreikningi. Sagði hún að þegar tekjur aukist eykst svigrúm til styrkja. Rekstrarafgangi 2018 var ráðstafað til Brynju hússjóðs ÖBÍ og í aukastyrki til aðildarfélaga.
  • Fimm fundarmenn tóku til máls. Spurt var hvers vegna starfsmönnum á skrifstofu ÖBÍ fjölgi ört og hvað gerist ef tekjur frá Íslenskri getspá falli niður. Spurt var um lífeyrisskuldbindingar og hvort þær séu ekki uppreiknaðar reglulega og spurt var hvort einhverjir starfsmenn þiggi laun skv. samningum Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar. Gerð var athugasemd við að formenn málefnahópa væru ekki taldir til starfsmanna ÖBÍ og spurt var um hvernig styrkir til félaga séu ákveðnir.
  • Framkvæmdastjóri sagði formenn málefnahópa og gjaldkera ÖBÍ fá þóknun og að þeir væru taldir með sem starfsmenn ÖBÍ. Hægt væri að reka ÖBÍ í eitt ár á þeim sjóðum sem til væru með því að skera niður alla styrki. Lífeyrisskuldbindingar ÖBÍ eru uppreiknaðar reglulega. Um úthlutun styrkja gilda ákveðnar reglur, sem aðildarfélögin geta nálgast hjá framkvæmdastjóra. Aukastyrkir til aðildarfélaga og fyrirtækja eru veittir samkvæmt ákvörðun stjórnar og eru reiknaðir miðað við rétt aðildarfélags til fjölda fulltrúa á aðalfundi ÖBÍ.
  • Gjaldkeri ÖBÍ, Bergur Þorri Benjamínsson, sagði að stærð varasjóðs væri ákvörðun stjórnar hverju sinni. Hann velti upp þeirri spurningu hversu miklum sjóðum ÖBÍ eigi að safna. Gjaldkeri minnti á að einkaleyfi Íslenskrar getspár til reksturs Lottó gildi til 2038 og því sé ekki tímabært að hafa áhyggjur af því að tekjur þaðan falli niður. Þá sagði hann stöðu ÖBÍ vera góða.
  • Varaformaður ÖBÍ, Halldór Sævar Guðbergsson, tók til máls og sagði að breytingar á starfsemi ÖBÍ sem aðalfundur hefur samþykkt kalli á fjölgun starfsmanna skrifstofunnar vegna aukinna verkefna.

Frekari umræður og fyrirspurnir voru ekki og bar fundarstjóri reikninginn upp til atkvæða. Var ársreikningur ÖBÍ 2018 samþykktur samhljóða.

Skýrslur fastra málefnahópa (3)

Skýrslur málefnahópa ÖBÍ voru birtar í Ársskýrslu ÖBÍ 2018-2019 sem var dreift á fundinum, (fskj. nr. 2, bls. 32-37).

Málefnahópur um aðgengismál (a)

Ingveldur Jónsdóttir frá MS félagi Íslands, formaður hópsins, sagði frá starfi hópsins, þakkaði gott samstarf við þá sem sátu í hópnum og starfsmanni hópsins.

Ásamt Ingveldi voru í hópnum Birna Einarsdóttir frá Gigtarfélagi Íslands, Grétar Pétur Geirsson frá Sjálfsbjörg lsh. Ingólfur Már Magnússon frá Heyrnarhjálp, Jón Heiðar Jónsson frá Sjálfsbjörg lsh., Lilja Sveinsdóttir frá Blindrafélaginu, Sara Birgisdóttir frá Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra og Sigurjón Einarsson frá Fjólu, sem einnig var varaformaður. Stefán Vilbergsson var starfsmaður hópsins.

Fundarstjóri bauð umræður en engar urðu.

Málefnahópur um atvinnu- og menntamál (b)

Sævar Pálsson frá Hjartaheillum var formaður hópsins og með honum störfuðu Brynhildur Arthúrsdóttir frá Laufi, Hrönn Stefánsdóttir frá Gigtarfélagi Íslands, María Hauksdóttir frá Blindrafélaginu, Sigríður Fossberg Thorlacius frá Málbjörg, Sigurður Jón Ólafsson frá Stómasamtökum Íslands og Sylviane Lecoultre frá Geðhjálp. Brandur Bjarnason Karlsson frá Sjálfsbjörg lsh., og Hrannar Björn Arnarsson frá ADHD samtökunum voru varamenn. Starfsmaður hópsins var Þórdís Viborg.

Hrönn Stefánsdóttir sagði frá starfi hópsins, í fjarveru formanns, og sýndi myndband sem hópurinn lét gera, um allskonar störf fyrir allskonar fólk. Fundarstjóri bauð umræður en engar urðu.

Málefnahópur um heilbrigðismál (c)

Emil Thóroddsen frá Gigtarfélagi Íslands var formaður og ásamt honum voru í hópnum Fríða Rún Þórðardóttir frá Astma- og ofnæmisfélagi Íslands, Guðbjörg Kristín Eiríksdóttir frá Sjálfsbjörg lsh., Karl Þorsteinsson frá Ás styrktarfélagi, Sigríður Jóhannsdóttir frá Samtökum sykursjúkra, Stefanía G. Kristinsdóttir frá SÍBS og Vilhjálmur Hjálmarsson frá ADHD samtökunum. Varamenn voru Fríða Björk Arnardóttir frá Hjartaheillum og Hannes Þórisson frá Félagi nýrnasjúkra. Stefán Vilbergsson var starfsmaður hópsins.

Formaður gerði góða grein fyrir starfi hópsins sem hélt 18 fundi og tvö málþing á milli aðalfunda. Fundarstjóri bauð umræður enginn kvaddi sér hljóðs.

Málefnahópur um kjaramál (d)

Rósa María Hjörvar frá Blindrafélaginu var formaður og Bergþór Heimir Þórðarson frá Geðhjálp varaformaður. Starfaði hann sem formaður frá því Rósa María fór í veikindaleyfi í maí 2019. Ásamt þeim störfuðu í hópnum Dóra Ingvadóttir frá Gigtarfélagi Íslands, Einar Björnsson frá Geðhjálp, Frímann Sigurnýasson frá SÍBS og Sævar Pálsson og Valgerður Hermannsdóttir frá Hjartaheillum. Varamenn hópsins voru Helga Elínborg Auðunsdóttir frá SÍBS og Snæbjörn Áki Friðriksson frá Málbjörg. Sigríður Hanna Ingólfsdóttir var starfsmaður hópsins.

Hópurinn fundaði 24 sinnum og var starf starfshópa félagsmálaráðherra um breytt almannatryggingakerfi stór þáttur í vinnu hópsins. Fundarstjóri bauð umræður og spurt var hvort ekki þurfi að þrýsta á um að öryrkjar fái fulltrúa í kjarasamninga- nefndir. Bergþór svaraði því játandi.

Málefnahópur um sjálfstætt líf (e)

Rúnar Björn Herrera frá SEM samtökunum var formaður hópsins og með honum áttu sæti í hópnum Arna Sigríður Albertsdóttir frá SEM samtökunum, Bergþór G. Böðvarsson frá Geðhjálp, Elma Finnbogadóttir frá Blindrafélaginu, Freyja Haraldsdóttir frá Tabú, Guðmundur Magnússon frá SEM samtökunum, Snædís Rán Hjartardóttir frá Fjólu og varamenn voru Andri Valgeirsson frá Sjálfsbjörg lsh. og Ingibjörg Snorra Hagalín frá MS félagi Íslands. Starfsmaður hópsins var Sigurjón Unnar Sveinsson.

Rúnar Björn sagði frá starfi hópsins. Sagði hann meðal annars frá því að fjöldi NPA samninga hefur tvöfaldast frá aðalfundi 2018. Hópurinn hefur meðal annars veitt sveitafélögum aðhald við að framfylgja lögum og reglugerð um NPA. Engar fyrirspurnir bárust.

Málefnahópur um málefni barna (f)

Elín Hoe Hinríksdóttir frá ADHD samtökunum var formaður málefnahóps um málefni barna og í hópnum með henni sátu Fríða Bragadóttir frá Samtökum sykursjúkra / Laufi, Halldóra Inga Ingileifsdóttir frá Ás styrktarfélagi, Sif Hauksdóttir frá Astma- og ofnæmisfélagi Íslands, Sigrún Birgisdóttir frá Einhverfusamtökunum og Sunna Brá Stefánsdóttir frá Gigtarfélagi Íslands. Varamenn voru Áslaug Inga Kristinsdóttir frá Geðhjálp og Ragnar Vignir frá ADHD samtökunum. Starfsmaður hópsins var Þórdís Viborg.

Formaður kynnti skýrslu hópsins, sagði frá ungmennaþingi sem hópurinn stóð fyrir og kynnti vinnu við réttindagátt um réttindi barna með fötlun og raskanir, sem verið er að taka saman fyrir hópinn. Elín þakkaði starfsmanni og nefndarmönnum fyrir mjög gott starf.

Fundarstjóri bauð umræður um skýrsluna. Þrír tóku til máls. Spurt var um réttindi barna sem eiga fatlaða foreldra og hvort stefnt sé á að skoða það sérstaklega. Spurt var hvort erlendir foreldrar eigi fulltrúa í málefnahópnum og hvort einhver hópur sé starfandi á vegum Reykjavíkurborgar sem hugi að málefnum fatlaðra barna af erlendum uppruna og foreldra þeirra.

Elín sagði það vera á dagskrá vetrarins að huga að stöðu heilbrigðra barna fatlaðra foreldra. Ennfremur sagði hún að hugað yrði að réttindum erlendra foreldra fatlaðra barna og stefnt væri að því að þýða réttindabækling yfir á önnur tungumál til þess að auðvelda erlendum foreldrum að þekkja réttindi sín.

Skýrslur fyrirtækja (4)

Skýrslur fyrirtækja lágu frammi (fskj. nr. 2, bls. 40-45) og ársreikninga fyrirtækja má sjá í fylgiskjölum 4a-4e. Fundarstjóri bauð umræður um skýrslurnar.

BRYNJA, hússjóður Öryrkjabandalagsins (a)

Garðar Sverrisson, formaður Brynju, var til svara. Spurt var um kaup og sölu íbúða, ástæður þess að engin íbúð hafi verið keypt/byggð 2018 og hvort standi til að bæta úr því 2019. Einnig var spurt hvort eitthvað gangi á biðlista.

Garðar sagði lítið ganga á biðlista. Hann sagði stofnframlög frá ríkisstjórn og styrki hafa verið engin á síðasta ári og þess vegna hafi engar íbúðir verið keyptar.

Örtækni (b)

Þorsteinn Jóhannsson, framkvæmdastjóri, var til svara en engar fyrirspurnir bárust.

Hringsjá (c)

Helga Eysteinsdóttir, forstöðumaður, var til svara en engar fyrirspurnir bárust.

TMF- Tölvumiðstöð (d)

Sigrún Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri, var til svara en engar fyrirspurnir bárust.

Fjölmennt (e)

Helga Gísladóttir, forstöðumaður, var til svara, en engar fyrirspurnir bárust.

Stefnuþing: Stefna og starfsáætlun (5)

Formaður þakkaði málefnahópum og formönnum þeirra fyrir gríðargott starf frá síðasta stefnuþingi. Kynnti formaður fjórða Stefnuþing ÖBÍ, sem fram fer 27. og 28. mars 2020, á Grand Hóteli, þar sem m.a. heimsmarkmið SÞ verða tekin fyrir.

Aðildargjöld, ákvörðun (6)

Fundarstjóri kynnti fram komna tillögu frá stjórn ÖBÍ um að aðildargjöld ÖBÍ yrðu óbreytt, 0 kr. (sjá fskj. nr. 5). Rúnar Björn Herrera kvaddi sér hljóðs fyrir hönd stjórnar SEM samtakanna og lagði fram eftirfarandi tillögu (sjá fskj. nr. 5a):

„Á stjórnarfundi SEM haldin 1. Október 2019 ákvað Stjórn SEM að gera tillögu til aðalfundar ÖBÍ þess efnis að ÖBÍ taki félagsgjöld af félögum innan ÖBÍ og leggur stjórn SEM fram að félagsgjal pr. félaga verði 100 krónur á félagsmann.“

Fundarstjóri bauð umræður um báðar tillögurnar. Ellefu fundarmenn tóku til máls. Í máli þeirra kom fram áminning til aðildarfélaga um að hafa sína félagaskrá í lagi. Fram kom að tillagan væri til að sporna gegn því að aðildarfélögin bólgni út.

Fundarstjóri tók tillögu SEM samtakanna til afgreiðslu. Tillagan var felld með þorra atkvæða gegn fjórum.

Þá var tekin til atkvæða tillaga stjórnar ÖBÍ. Tillagan var samþykkt með þorra atkvæða gegn tveimur og tveir sátu hjá.

Stjórnarseta, þóknun (7)

Fundarstjóri tók til afgreiðslu tillögu frá stjórn ÖBÍ um þóknun fyrir stjórnarsetu, svohljóðandi (sjá fskj. nr. 6):

Lagt er til að fyrirkomulag við greiðslu þóknunar fyrir fundarsetu fyrir fulltrúa í stjórn ÖBÍ verði óbreytt frá fyrra starfsári sem er eftirfarandi:

  • Stjórnarmenn ÖBÍ og varamenn fá greiddar 6 einingar fyrir hvern setinn stjórnarfund sem er allt að 2,5 klst. langur.
  • Fyrir hverja klst. umfram það er greidd ein eining.
  • Upphæð þóknunar tekur mið af ákvörðun þóknananefndar ríkisins sem er
  • 2.308 kr. á hverja einingu, miðað við júní 2019.

Fundarstjóri bauð umræður. Spurt var hvort ekki væri um lága þóknun að ræða. Framkvæmdastjóri útskýrði fyrirkomulag greiðslna.

Greidd voru atkvæði um tillöguna sem var samþykkt með þorra atkvæða, en 10 sátu hjá.

Kl. 19:50 frestaði fundarstjóri fundi til kl. 10 laugardaginn 5. október 2019.

 Laugardagur 5. október 2019 – fundi framhaldið

Fundarstjóri hóf fund að nýju kl. 10:07.

Kosningar í stjórn

Fram fór nafnakall. Mættir voru 119 fulltrúar fyrir 43 aðildarfélög ÖBÍ (sjá fskj. nr. 7). Yfirlit yfir framboð til stjórnar var í fundargögnum (sjá fskj. nr. 8). Kynningar á frambjóðendum lágu frammi og má sjá þær í fylgiskjölum (sjá fskj. nr. 9-17b).

Fundarstjóri lagði til að Páll Hilmarsson, Dóra Guðrún Pálsdóttir og Ólafur Sindri Ólafsson yrðu talningamenn á fundinum. Var það samþykkt samhljóða.

Albert Ingason kvaddi sér hljóðs og sagði frá starfi kjörnefndar í fjarveru formanns hennar, Jóns Þorkelssonar. Þakkaði Albert starfsmanni nefndarinnar fyrir vel unnin störf. Sagði Albert störf nefndarinnar hafa verið meira krefjandi að þessu sinni en oft áður og þess vegna telur kjörnefnd sig knúna til að velta því upp hvort tilefni sé til að stækka þann hóp sem hún hefur úr að velja. Albert kynnti framboð tveggja aðila sem bárust eftir að framboðslisti var prentaður. Það voru framboð Gísla Helgasonar til setu í laganefnd og Ingveldar Jónsdóttur sem varamann við endurskoðun reikninga.

Formaður (8)

Þuríður Harpa Sigurðardóttir var ein í framboði til formanns ÖBÍ (fskj. nr. 9) og því var hún sjálfkjörin í embætti formanns ÖBÍ 2019-2021.

Þuríður Harpa tók til máls og þakkaði fyrir traustið. Hún taldi sitt helsta verkefni vera að berjast gegn kjaragliðnun undanfarinna ára. Halldór Sævar Guðbergsson varaformaður kvaddi sér hljóðs og sagði Þuríði Hörpu hafa komið fullskapaða inn í embætti formanns fyrir tveimur árum og leitt stjórn og skrifstofu áfram af röggsemi og hugmyndaauðgi.

Varaformaður (9)

Kosið verður í embætti varaformanns 2020.

Gjaldkeri (10)

Kosið verður í embætti gjaldkera 2020.

Formenn fastra málefnahópa (11)

Fundarstjóri kynnti að 120 atkvæðabærir fulltrúar væru í salnum.

Fundarstjóri kynnti kosningu í embætti formanns málefnahóps um aðgengismál. Ein var í framboði, Ingveldur Jónsdóttir frá MS félaginu (fskj. nr. 10).

Engin framboð bárust úr sal og því var Ingveldur Jónsdóttir sjálfkjörin formaður málefnahóps um aðgengismál 2019-2021.

Fundarstjóri kynnti kosningu í embætti formanns málefnahóps um atvinnu- og menntamál. Einn var í framboði, Sævar Pálsson frá Hjartaheillum (fskj. nr. 11).

Engin framboð bárust úr sal og var Sævar Pálsson því sjálfkjörinn formaður málefnahóps um atvinnu- og menntamál 2019-2021.

Fundarstjóri kynnti kosningu í embætti formanns málefnahóps um heilbrigðismál. Einn var í framboði, Emil Thóroddsen frá Gigtarfélagi Íslands (fskj. nr. 12).

Engin framboð bárust úr sal og því var Emil Thóroddsen sjálfkjörinn formaður málefnahóps um heilbrigðismál 2019-2021.

Fundarstjóri kynnti kosningu í embætti formanns málefnahóps um kjaramál. Einn var í framboði, Bergþór H. Þórðarson frá Geðhjálp (fskj. nr. 13).

Engin framboð bárust úr sal og því var Bergþór H. Þórðarson sjálfkjörinn formaður málefnahóps um kjaramál 2019-2021.

Fundarstjóri kynnti kosningu í embætti formanns málefnahóps um sjálfstætt líf. Einn var í framboði, Rúnar Björn Herrera frá SEM samtökunum (fskj. nr. 14).

Engin framboð bárust úr sal og því var Rúnar Björn Herrera sjálfkjörinn formaður málefnahóps um sjálfstætt líf 2019-2021.

Stjórnarmenn (12)

Fundarstjóri kynnti kosningu fjögurra stjórnarmanna til tveggja ára. Fjögur höfðu boðið sig fram innan tilskilins frests, þau Elín Hoe Hinriksdóttir frá ADHD samtökunum, Frímann Sigurnýasson frá Vífli, María Óskarsdóttir frá Sjálfsbjörg lsh. og Sylviane Lecoultre frá Geðhjálp (sjá fskj. nr.15a-d). Fundurinn samþykkti að leyfa framboð Gísla Helgasonar frá Blindravinafélaginu. Farið var yfir fyrirkomulag kosninganna. Frambjóðendur kynntu sig.

Greidd voru 120 atkvæði og voru þrír seðlar ógildir. Þessi hlutu kosningu til setu í stjórn ÖBÍ 2019-2021:

  • Elín Hoe Hinriksdóttir með 110 atkvæði.
  • Sylviane Lecoultre með 105 atkvæði.
  • María Óskarsdóttir með 98 atkvæði.
  • Frímann Sigurnýasson með 97 atkvæði.

Aðrar kosningar til tveggja ára

Kjörnefnd (14)

Fundarstjóri kynnti að 122 atkvæðabærir fulltrúar væru í salnum og tók fyrir kosningu fimm fulltrúa í kjörnefnd. Í framboði voru Albert Ingason frá SPOEX, Dagný Erna Lárusdóttir frá Astma- og ofnæmisfélagi Íslands, Jón Þorkelsson frá Stóma- samtökum Íslands, Sigurbjörg Ármannsdóttir frá MS félagi Íslands og Sigurður Rúnar Sigurjónsson frá SÍBS (sjá fskj. nr.16a-e). Engin framboð komu fram á fundinum og því var kjörnefnd sjálfkjörin.

Í framboði tveggja varamanna í kjörnefnd voru Sigrún Birgisdóttir frá Einhverfu- samtökunum og Dóra Ingvadóttir frá Gigtarfélagi Íslands. Engin framboð bárust úr sal og voru þær því sjálfkjörnar.

Laganefnd (15)

Fundarstjóri kynnti kosningu fimm fulltrúa í laganefnd. Innan tilskilins tíma höfðu boðið sig fram Frímann Sigurnýasson frá Vífli, Hrannar Björn Arnarsson frá ADHD samtökunum, Jóhann Guðvarðarson frá Gigtarfélagi Íslands, Sveinn Guðmundsson frá SÍBS og Þorsteinn Fr. Sigurðsson frá Sjálfsbjörg lsf. Þorsteinn dró framboð sitt til baka fyrir fundinn. Fundarstjóri óskaði leyfis fundarins fyrir framboði Helgu Hallgríms- dóttur frá Nýrnafélaginu, Bergþórs H. Þórðarsonar frá Geðhjálp, Maríu Óskarsdóttur frá Sjálfsbjörg lsh. og Gísla Helgasonar frá Blindravinafélagi Íslands. Var það samþykkt. Frambjóðendur kynntu sig.

Fundarstjóri kynnti að 124 fulltrúar væru í salnum með atkvæðisrétt. Gengið var til kosninga fimm fulltrúa í laganefnd og þessi hlutu kosningu:

  • Helga Hallgrímsdóttir með 114 atkvæði.
  • María Óskarsdóttir með 101 atkvæði.
  • Bergþór H. Þórðarson með 97 atkvæði.
  • Hrannar B. Arnarsson með 93 atkvæði.
  • Jóhann Guðvarðarson með 69 atkvæði.

Fundarstjóri kynnti kosningu tveggja varafulltrúa. Edda Svavarsdóttir frá CCU samtökunum og Ragnar Davíðsson frá Nýrri rödd höfðu kynnt framboð sín fyrir aðalfundinn en Ragnar dró framboð sitt til baka. Fundarstjóri óskaði leyfis fundarins fyrir framboðum Rúnars Björns Herrera frá SEM samtökunum, Fjólu Guðmunds- dóttur frá HIV – Íslandi, Gísla Helgasonar frá Blindravinafélaginu og Eyþórs Kamban Þrastarsonar frá Blindrafélagi Íslands. Var það samþykkt. Frambjóðendur kynntu sig og dró Gísli framboð sitt til baka.

Fundarstjóri kynnti fyrirkomulag kosninganna og fundarmenn gengu til atkvæða. Greidd voru 121 atkvæði, einn seðill var auður. Þessi hlutu kosningu sem varafulltrúar í laganefnd:

  • Edda Svavarsdóttir með 64 atkvæði.
  • Rúnar Björn Herrera með 61 atkvæði.

Skoðunarmenn reikninga og varamenn (16)

Fundarstjóri kynnti kosningu tveggja skoðunarmanna reikninga og varafulltrúa þeirra. Í framboði voru Árni Sverrisson frá Alzheimersamtökunum á Íslandi og Guðrún Bergmann Franzdóttir frá Hjartaheillum. Fleiri gáfu ekki kost á sér og því voru þau sjálfkjörin.

Grétar Pétur Geirsson frá Sjálfsbjörg lsh. var í framboði sem varamaður. Fundarstjóri óskaði leyfis fundarins fyrir framboði Guðmundar Rafns Bjarnasonar frá Blindrafélaginu og Ingveldar Jónsdóttur frá MS félagi Íslands og var það samþykkt. Ingveldur dró framboð sitt til baka og því voru Grétar Pétur og Guðmundur Rafn sjálfkjörnir.

Lagabreytingar, aðildarumsóknir, ályktanir, önnur mál

Lagabreytingar (17)

Teknar voru til afgreiðslu tillögur til breytinga á lögum ÖBÍ sem borist höfðu laganefnd fyrir aðalfund (sjá lög ÖBÍ í fskj. nr. 18).

Formaður laganefndar, Dóra Ingvadóttir frá Gigtarfélagi Íslands, gerði grein fyrir störfum nefndarinnar. Í nefndinni sátu, auk formanns, Ingi Hans Ágústsson frá HIV Íslandi, Svavar Kjarrval Lúthersson frá Einhverfusamtökunum, Vilborg Gunnarsdóttir frá Alzheimersamtökunum og Þórir Steingrímsson frá Heilaheillum. Nefndinni höfðu borist þrjár lagabreytingartillögur fyrir aðalfund (sjá fskj. nr. 19-21).

Svavar Kjarrval frá Einhverfusamtökunum kvaddi sér hljóðs og dró áður kynnta breytingartillögu sína til baka (sjá fskj. nr. 20).

Tillaga Guðjóns Sigurðssonar frá MND félagi Íslands var ekki tekin til afgreiðslu, heldur vísað í önnur mál (sjá fskj. nr. 21).

Þá tók fundarstjóri breytingartillögu frá MS félagi Íslands til afgreiðslu. Ingveldur Jónsdóttir kynnti tillöguna um breytingu á 1. mgr. 12. gr. laga ÖBÍ (sjá fskj. nr. 19):

„Aðalfulltrúar aðildarfélaga hafa atkvæðisrétt og eru kjörgengir á aðalfundi. Varafulltrúar aðildarfélaga eru kjörgengir í eftirfarandi embætti: laganefnd, kjörnefnd og skoðunarmenn reikninga.“

Fundarstjóri bauð umræður um tillöguna. Átján tóku til máls. Voru fundarmenn almennt hlynntir breytingartillögunni en töldu hana ekki nægilega skýra, bæði varðandi seturétt varafulltrúa á aðalfundi, atkvæðarétt og framboðsrétt aðalfulltrúa sem forfallast og rétt þeirra þegar varamenn eru kallaðir inn. Hörgull hefur verið á frambjóðendum í þau embætti sem talin eru upp í tillögunni og taka þarf af allan vafa varðandi seturétt og kjörgengi fulltrúa.

Vilhjálmur Hjálmarsson frá ADHD samtökunum lagði fram tvær breytingartillögur, en hvorug var tekin til afgreiðslu.

Gísli Helgason frá Blindravinafélaginu lagði til að tillögu MS félags Íslands yrði vísað frá (sjá fskj. nr. 21a). Var tillagan felld með 42 atkvæðum gegn 32 og 35 sátu hjá.

Dóra Ingvadóttir, formaður laganefndar, lagði til að vísa málinu til laganefndar. Var það samþykkt með þorra atkvæða gegn einu og tveir sátu hjá.

Aðildarumsóknir (18)

Engar aðildarumsóknir lágu fyrir.

Ályktanir aðalfundar (19)

Engar ályktanir bárust innan tilskilins frests, en fjórar ályktanir höfðu borist fyrir fundinn og fundarstjóri óskaði leyfis fundarins til að taka ályktanirnar fyrir. Var það samþykkt samhljóða.

Formaður ÖBÍ, Þuríður Harpa Sigurðardóttir, kynnti aðalályktun fundarins um kjör örorkulífeyrisþega, svohljóðandi (sjá fskj. nr. 22):

Ályktun aðalfundar Öryrkjabandalags Íslands haldinn 4. og 5. október 2019 um kjör örorkulífeyrisþega.

Enn eitt árið eykst gjáin milli örorkulífeyris og lágmarkslauna. Það er ömurlegt að við Íslendingar höfum ákveðið að sumum okkar skuli haldið í sárafátækt lífið á enda. Þó forsætisráðherra vilji ekki biðja fátækt fólk að bíða eftir réttlætinu, bíður það enn. Aðalfundur Öryrkjabandalagsins skorar á þjóðina að beita sér fyrir því að biðinni ljúki nú þegar. Það veit enginn hver þarf næst að reiða sig á smánarlegan örorkulífeyri.

Fundarstjóri bauð umræður um ályktunina. Einn tók til máls og hvatti til samþykktar.

Fundarstjóri bar ályktunina upp til atkvæða og var hún samþykkt samhljóða.

Formaður kynnti ályktun um lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (sjá fskj. nr. 23).

Aðalfundur Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ) hvetur Alþingi til þess að lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks eigi síðar en á haustþingi 2020.

Fundarstjóri bauð umræður. Tveir tóku til máls. Var formaður og stjórn hvött til að eiga samtal við nýkjörinn dómsmálaráðherra. Spurt var hvers vegna tímafrestur væri ekki skemmri.

Fundarstjóri bar ályktunina upp til atkvæða. Var hún samþykkt samhljóða.

Formaður kynnti ályktun um atvinnuþátttöku örorkulífeyrisþega (sjá fskj. nr. 24).

Aðalfundur Öryrkjabandalagsins skorar á ríkisstjórnina að láta af núverandi tekjuskerðingum gagnvart atvinnutekjum öryrkja, sem gera ekkert nema letja til þátttöku á vinnumarkaði, og taka frekar upp jákvæða hvata til að afla tekna. Þannig vinna allir.

Fundarstjóri bauð umræður um ályktunina, en engar urðu.

Fundarstjóri bar ályktunina upp til atkvæða og var hún samþykkt með þorra atkvæða gegn einu.

Formaður kynnti ályktun um mikilvægi mótunar stefnu í endurhæfingarmálum (sjá fskj. nr. 25 ):

Aðalfundur Öryrkjabandalags Íslands, haldinn 4. og 5. október 2019 ályktar um að mikilvægt sé að fólk hafi gott aðgengi að læknisfræðilegri endurhæfingu. Aðalfundurinn krefst þess að heilbrigðisráðherra flýti boðuðu starfi varðandi mótun stefnu í endurhæfingu, án þess þó að gæði þeirrar vinnu skerðist. Skýr stefna í endurhæfingu á að vera það leiðarljós sem notað er við innkaup slíkrar þjónustu. Fundurinn varar við gerræðislegum vinnubrögðum sem nú virðast uppi um kaup á þjónustu sjúkraþjálfara. Mikilvægar kerfisbreytingar verða að vera unnar í samráði við hagsmunaaðila, kröfur og útboðsgögn vel unnin og tími til þess að vinna verkefnið fyrir hendi. Fundurinn skorar á heilbrigðisráðherra að móta stefnuna fyrst og skoða svo kerfisbreytingu í innkaupum og/eða mótun nýrra samskipta þjónustuveitenda og innkaupa á þjónustunni.

Fundarstjóri bauð umræður. Fimm tóku til máls og höfðu athugasemdir við orðalag greinargerðar sem fylgdi með ályktuninni.

Fundarstjóri bar ályktunina upp til atkvæða og var hún samþykkt með þorra atkvæða, tveir sátu hjá.

Önnur mál (20)

A
Fundarstjóri tók til umræðu kynnta tillögu um mat á lögum ÖBÍ frá Guðjóni Sigurðssyni, formanni MND félagsins (sjá fskj. nr. 21 ):

Aðalfundur leggur til að stjórn, í samvinnu við laganefnd bandalagsins, verði falið að meta hvort lög Öryrkjabandalags Íslands standist kröfur samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sbr. álit nefndar Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks nr. 7, kröfur Evrópusamtaka fatlaðs fólks (EDF) og kröfur Evrópusamtaka um sjálfstætt líf ) um meirihlutaþátttöku fatlaðs fólks í stjórnum og ráðum.

Telji stjórn eða laganefnd þörf á því að leggja til breytingar á lögum Öryrkjabandalags Íslands skal hún leggja breytingartillögur sínar fram eigi síðar en í maí 2020 og verða þær síðan lagðar fyrir aðalfund 2020

Ægir fylgdi tillögunni úr hlaði. Hann sagði ekkert í lögum ÖBÍ sem taki á þessu máli og tillagan sé hvatning til laganefndar og stjórnar ÖBÍ að skoða vel sjöunda almenna álit nefndar Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (sjá http://bit.ly/7-alit-sþ) og sýn ENIL á það álit (sjá http://bit.ly/ENIL-um-7-alit-SÞ). Sagði Ægir tillöguflytjendur óska svars við tillögunni.

Fundarstjóri bauð umræður um tillöguna. Sjö tóku til máls. Voru menn almennt fylgjandi tillögunni. Spurt var hvort ekki væri ástæða til að láta þýða álitið til að forðast mistúlkun og ræddu menn ólíkan skilning hugtakanna fötlun og skerðing og nauðsyn þess að skoða málið vel. Jafnframt var þess óskað að laganefnd kannaði umfang skyldunnar sem álitið fjallar um, hvort hún nái umfram stjórnir félaga- samtaka. Rætt var um mikilvægi þess að tryggja meirihluta fatlaðs fólks í stjórnum og spurt hvort lög ÖBÍ endurspegli alþjóðlegar reglur.

Fundarstjóri tók tillöguna til afgreiðslu. Var hún samþykkt með þorra atkvæða og sex sátu hjá.

B

Fundarmenn vöktu athygli á þjónustu Sjúkratrygginga við þá sem þurfa penna fyrir insúlíngjafir og vörur vegna stóma og þvagleggja. Hvatti stjórn aðildarfélögin til að hyggja að þessum málum fyrir sína félagsmenn.

C
Bergþór H. Þórðarson frá Geðhjálp vakti athygli á aðgengi að sálfræðiþjónustu og hvatti fundarmenn til að vera virka í að vekja máls á málefninu hjá þingmönnum.

Halldór Sævar Guðbergsson varaformaður ÖBÍ þakkaði góðan fund og hvatti fundarmenn til að halda baráttunni áfram og krefjast verulegrar hækkunar á grunnbótum. Hann hvatti jafnframt hvert og eitt aðildarfélag til að senda inn umsögn um fjárlagafrumvarpið.

Þá þökkuðu fundarstjórar fyrir sig og afhentu formanni ÖBÍ, Þuríði Hörpu Sigurðardóttur, fundinn.

Fundarlok

Formaður hvatti félögin til að tilnefna fulltrúa inn í málefnahópa ÖBÍ. Þakkaði hún fundarstjórum skelegga og góða fundarstjórn og þakkaði traustið sem henni hefur verið sýnt. Baráttan heldur áfram!

Formaður sleit fundi kl.16:02.

Fylgiskjöl:

1) Dagskrá aðalfundar 4. og 5. október 2019
2) Ársskýrsla Öryrkjabandalags Íslands 2018-2019
a) Fjöldaþróun örorkulífeyrisþega eftir Kolbein H. Stefánsson
3) Ársreikningur ÖBÍ 2018
4) Ársreikningar fyrirtækja
a) BRYNJA hússjóður Öryrkjabandalagsins
b) Örtækni
c) Hringsjá
d) Fjölmennt
5) Tillaga að aðildargjaldi 2019
a) Breytingartillaga frá SEM samtökunum
6) Tillaga að þóknun fyrir stjórnarsetu ÖBÍ
7) Fulltrúar aðildarfélaga ÖBÍ á aðalfundi 2019
8) Yfirlit yfir framboð til embætta 2019
9) Kynning frambjóðanda til formanns ÖBÍ
10) Kynning frambjóðanda til formanns málefnahóps um aðgengismál
11) Kynning frambjóðanda til formanns málefnahóps um atvinnu- og menntamál
12) Kynning frambjóðanda til formanns málefnahóps um heilbrigðismál
13) Kynning frambjóðanda til formanns málefnahóps um kjaramál
14) Kynning frambjóðanda til formanns málefnahóps um sjálfstætt líf
15) Kynning frambjóðenda til stjórnar a-d
16) Kynning frambjóðenda til kjörnefndar a-e
17) Kynning frambjóðenda til laganefndar a-b
18) Lög Öryrkjabandalags Íslands
19) Tillaga stjórnar MS félags Íslands að lagabreytingu
20) Lagabreytingartillaga Svarvars Kjarrval
21) Tillaga Guðjóns Sigurðssonar, MND félagi Íslands
22) Ályktun aðalfundar um kjör örorkulífeyrisþega
23) Ályktun um lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks
24) Ályktun um atvinnuþátttöku örorkulífeyrisþega
25) Ályktun um mikilvægi mótunar stefnu í endurhæfingarmálum

Aðalfundur 2018

Aðalfundur ÖBÍ 2018

Fundargerð aðalfundar Öryrkjabandalags Íslands sem haldinn var á Hilton Reykjavík Nordica í Reykjavík, 5. október 2018, kl. 16:00-20:00, og 6. október 2018, kl. 10:00-17:00.

Ávarp formanns, fundarsetning

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ, setti fundinn kl. 16:09 og bauð fundarmenn velkomna. Formaður lagði til að Sigríður Jónsdóttir og Hafsteinn Pálsson yrðu fundarstjórar og var það samþykkt samhljóða. Formaður lagði til að Aðalheiður Rúnarsdóttir og Ragnheiður Ásta Sigurðardóttir rituðu fundinn og var það samþykkt samhljóða. Þá bauð formaður fundarstjórum að taka við fundinum.
Fundarstjórar þökkuðu traustið, buðu gesti velkomna og kynntu dagskrá fundarins (fskj. nr. 1).
Þá leitaði fundarstjóri samþykkis fundarins fyrir setu fulltrúa aðildarfélaga sem skiluðu upplýsingum utan tilskilins tíma. Þessi félög voru: ADHD samtökin, Alzheimarsamtökin á Íslandi, Ás styrktarfélag, Geðverndarfélag Íslands, Hugarfar, ME félag Íslands, Ný rödd, Parkinsonsamtökin á Íslandi, SEM samtökin, Sjálfsbjörg lsh, Stómasamtök Íslands og Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra. Var seta þeirra samþykkt samhljóða.
Fundarstjóri leitaði þá samþykkis fundarins fyrir setu fólks úr málefnahópum ÖBÍ. Þau voru Guðbjörg Kristín Eiríksdóttir og Stefanía Kristinsdóttir úr málefnahópi um heilbrigðismál, og Guðmundur Magnússon úr málefnahópi um sjálfstætt líf. Var seta þeirra samþykkt samhljóða.
Fundarstjóri bar að endingu undir fundinn að Salóme Mist Kristjánsdóttir frá Kvennahreyfingu ÖBÍ og Steinar Svan Birgisson frá Ungliðahreyfingu ÖBÍ sætu fundinn sem áheyrnarfulltrúar og var það samþykkt samhljóða.

Almenn fundarstörf

Skýrsla stjórnar (1)

Formaður flutti skýrslu stjórnar (fskj. nr. 2 – Ársskýrsla Öryrkjabandalags Íslands 2017-2018. Skýrsla formanns og stjórnar, bls. 9-31) og sagði meðal annars frá eftirfarandi atriðum:
Samstaða, samtal og samráð voru þau orð sem lýstu hvað best starfi ársins. Lögð var mikil áhersla á að kynna bandalagið og baráttu þess fyrir stjórnvöldum. Alþingiskosningar voru haldnar síðustu helgina í október 2017 og í aðdraganda þeirra voru forsvarsmenn stjórnmálaflokkanna spurðir út í málefni fatlaðs fólks og réttindi þeirra. Málefni öryrkja fengu talsvert rými í kosningabaráttunni þökk sé frambjóðendum sem sjálfir voru öryrkjar.
Vorið 2018 voru haldnar sveitarstjórnarkosningar og í aðdraganda þeirra stóð ÖBÍ fyrir fundaherferð þar sem 14 sveitarfélög um allt land voru heimsótt. Fundaherferðin fékk yfirskriftina „Réttur fatlaðs fólks í sveitarfélögum“ en á þessum fundum var farið yfir starfsemi ÖBÍ sem og helstu áherslur bandalagsins. Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF) var einnig kynntur og helstu niðurstöður Gallup könnunar sem ÖBÍ stóð fyrir. Tilgangur könnunarinnar meðal almennings var þríþættur: Að ná fram viðhorfum almennings til ýmissa mála, fá samanburð við viðhorf almennings við eldri kannanir og nýta niðurstöður könnunarinnar í fundaherferðinni fyrir sveitarstjórnarkosningar. Málefnahópar ÖBÍ komu með tillögur að spurningum til að leggja fyrir í könnuninni auk þess sem spurningar úr eldri könnunum voru notaðar. Niðurstöður könnunarinnar sýndu meðal annars að yfirgnæfandi meirihluti kjósenda hugðist greiða atkvæði sitt til framboða sem vildu bæta þjónustu við fatlað fólk í sínu sveitarfélagi. Frekari niðurstöður könnunarinnar voru birtar á vefsíðu og fésbókarsíðu ÖBÍ, sendar fjölmiðlum og miðlað í fundaherferðinni.
Mikil vinna var lögð í að fá stjórnvöld til þess að afnema krónu á móti krónu skerðinguna. Aðgerðarleysi stjórnvalda voru mikil vonbrigði en þessi skerðing er enn við lýði. Þó vannst áfangasigur í baráttunni fyrir hækkun á örorkulífeyri þegar Alþingi samþykkti breytingu á fjárlagafrumvarpi sem gerði það að verkum að tæp 30% örorkulífeyrisþega fá 300.000 kr. á mánuði fyrir skatt í stað 14% áður. Nýja kostnaðarþátttökukerfið í heilbrigðiskerfinu og kostnaðarþátttaka ríkisins í tannlæknakostnaði lífeyrisþega var einnig mikið baráttumál ÖBÍ á síðastastarfsári. Reynslan af nýja kostnaðarþátttökukerfinu sýndi að lífeyrisþegar greiða hlutfallslega meira en áður og kostnaðarþátttaka ríkisins í tannlæknakostnaði lækkaði að raungildi undanfarin ár. ÖBÍ þrýsti mikið á heilbrigðisráðuneytið og Sjúkratryggingar Íslands að leiðrétta þetta fyrir lífeyrisþega og baráttan skilaði árangri í ágúst 2018 þegar gjaldskrá var hækkuð og samið um nýja aðgerðaskrá við Tannlæknafélag Íslands.
Í desember 2017 náðist það í gegn að fá 100 NPA samninga samþykkta í stað 83 áður. Ennfremur samþykkti Alþingi í apríl 2018 ný lög um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Lögin sem voru endurskoðuð og uppfærð eru mikil réttarbót fyrir fatlað fólk. Lögfesting NPA var sérstakt fagnaðarefni og stór áfangi í réttindabaráttu fatlaðs fólks.
Tveir formannafundir voru haldnir á starfsárinu, annar 20. september 2017 og hinn 22. mars 2018. Í apríl 2018 var þriðja stefnuþing bandalagins haldið og tókst vel til. Á þinginu kynntu málefnahópar ÖBÍ þau verkefni sem lagt var til að unnið væri að og þátttakendur þingsins forgangsröðuðu þeim. Málefnahópar bandalagsins voru mjög virkir á tímabilinu og stóðu m.a. fyrir málþingi, ýmsum uppákomum, skrifuðu fjölda greina og umsagnir um lagafrumvörp og þingsályktunartillögur. ÖBÍ tók einnig virkan þátt í alþjóðlegu samstarfi, bæði norrænu og evrópsku á starfsárinu.

Ársreikningur ÖBÍ (2)

Guðmundur Snorrason, endurskoðandi frá PwC ehf., kynnti ársreikning ÖBÍ fyrir árið 2017 (fskj. nr. 3 – Ársreikningur 2017). Það var álit endurskoðanda að reikningurinn gæfi glögga mynd af afkomu félagsins á árinu, efnahag og breytingum á haldbæru fé í árslok 2017. Þá hefði ársreikningur ÖBÍ að geyma nauðsynlegar upplýsingar í samræmi við lög um ársreikninga og gaf skoðunin ekki tilefni til athugasemda. Ársreikningurinn var áritaður án fyrirvara af endurskoðanda og skoðunarmönnum.
Heildartekjur ársins 2017 voru lægri en árið 2016. Skýrðist það af því að tekjur frá Íslenskri getspá lækkuðu úr því að vera tæplega 560 milljónir árið 2016 í tæpar 521 milljón 2017.
Rekstrargjöld án fjármagnsliða 581,5 milljónir 2017 en 636 milljónir 2016. Munurinn skýrist að hluta af því að styrkir og framlög voru lægri, meðal annars vegna þess að tekjur frá Íslenskri getspá voru lægri.
Laun og tengd gjöld hækkuðu á milli ára því lífeyrissjóðsframlag hækkaði, m.a. vegna stjórnarskipta og biðlauna fráfarandi formanns.
Lífeyrisskuldbindingar hækkuðu minna árið 2017 en árið áður vegna minni launabreytinga.
Fundir, ráðstefnur, auglýsingar og kynningar var um 20 milljónum lægri 2017, aðallega vegna kostnaðar við myndbandagerð sem féll til árið 2016 og svo var ekki stefnuþing 2017.
Rekstrarkostnaður hækkaði um rúmar tvær milljónir vegna hækkunar á fasteignagjöldum og viðhalds sem féll til á árinu 2017. Rekstur skrifstofu var nánast óbreyttur á milli ára en ýmiss rekstrarkostnaður hækkaði.
Fjármunatekjur ársins 2017 voru tæpar 10 milljónir, í stað rúmlega 11 árið áður.
Rekstrarafkoma ársins 2017 var því 21.629.377 kr. í plús í stað tæplega 6 milljóna í mínus árið á undan.
Fastafjármunir lækkuðu um tvær milljónir á milli ára, að stærstum hluta vegna fasteignar. Veltufjármunir lækkuðu um sem nemur rúmum 80 milljónum á milli ára, aðallega því framlög frá Íslenskri getspá skiluðu sér ekki fyrr en eftir áramótin, og haldbært fé var sem nemur 55 milljónum minna en árið á undan.
Eigið fé hækkaði á milli ára, fór úr 552 milljónum árið 2016 í tæplega 574 milljónir árið 2017. Munurinn skýrist af jákvæðri rekstrarafkomu ársins 2017.
Lífeyrisskuldbindingar lækkuðu um tæplega milljón á milli ára og skammtímaskuldir fóru úr rúmum 143 milljónum árið 2016 í tæpar 50 milljónir 2017. Lækkun skýrist helst vegna aukaframlaga til aðildarfélaga 2016 sem voru ógreidd um áramót.
Heildarniðurstaða efnahagsreiknings var 664 milljónir 2017, í stað 737 milljóna 2016. Þá lækkaði handbært fé úr 144 milljónum í lok árs 2016 í 88 milljónir 2017.
Fundarstjóri opnaði fyrir umræður um skýrslu stjórnar og fyrirspurnir um reikninga ÖBÍ. Til svara voru formaður, framkvæmdastjóri og gjaldkeri ÖBÍ.
Gjaldkeri ÖBÍ þakkaði endurskoðanda yfirferðina og sagði ÖBÍ standa vel og eiga góðan varasjóð.
Framkvæmdastjóri þakkaði endurskoðanda og sagði að þrátt fyrir minni tekjur en árið 2016 voru tekjur ársins 2017 þær  næsthæstu í sögunni. Einnig minnti framkvæmdastjóri á að helstu tekjur ÖBÍ koma frá Íslenskri getspá, en erfitt sé að áætla um þær og því hefur oft verið farið varlega í fjárhagsáætlunargerð og ef rekstrarafgangur verður í lok árs er styrkjum úthlutað til aðildarfélaga eða fyrirtæki sem ÖBÍ er aðili að.
Fundarmenn lýstu ánægju með ársreikninga ÖBÍ.
Frekari umræður og fyrirspurnir voru ekki og bar fundarstjóri reikninginn upp til atkvæða. Var ársreikningur ÖBÍ 2017 samþykktur samhljóða. Skýrsla stjórnar var sömuleiðis samþykkt samhljóða.

Skýrslur fastra málefnahópa (3)

Skýrslur málefnahópa ÖBÍ voru birtar í Ársskýrslu ÖBÍ 2016-2017 sem var dreift á fundinum, (fskj. nr. 2, bls. 34-38).

Málefnahópur um aðgengismál (a)

Ingveldur Jónsdóttir frá MS félagi Íslands, formaður málefnahóps um aðgengi, sagði frá starfi hópsins og niðurstöðum af Stefnuþingi 2018 (sjá fylgiskjal nr. 5a). Í hópnum sátu, auk formanns: Birna Einarsdóttir frá Gigtarfélagi Íslands, Grétar Pétur Geirsson frá Sjálfsbjörg, Ingólfur Már Magnússon frá Heyrnarhjálp, Jón Heiðar Jónsson frá Sjálfsbjörg lsh., Lilja Sveinsdóttir frá Blindrafélaginu og Sara Birgisdóttir frá Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra. Sigurjón Einarsson frá Fjólu var varamaður hópsins og Stefán Vilbergsson var starfsmaður hópsins.
Ingveldur þakkaði gott samstarf við þá sem sátu í hópnum og starfsmanni hópsins.

Málefnahópur um atvinnu- og menntamál (b)

Guðrún Sæmundsdóttir frá ME félaginu, formaður málefnahóps um atvinnu- og menntamál, kynnti skýrslu hópsins og niðurstöður af Stefnuþingi 2018 (sjá fylgiskjal nr. 5b). Í hópnum voru, auk formanns: María Hauksdóttir frá Blindrafélaginu, Hrönn Stefánsdóttir frá Gigtarfélagi Íslands, Elín Hoe Hinriksdóttir frá ADHD samtökunum, Sylviane Pétursson Lecoultre frá Geðhjálp, Sigríður Fossberg Thorlacius frá Málbjörg og Sigurður Jón Ólafsson frá Stómasamtökum Íslands. Brandur Bjarnason Karlsson frá Sjálfsbjörg lsh. og Brynhildur Arthúrsdóttir frá Laufi voru varamenn hópsins og Þórdís Viborg var starfsmaður hópsins.
Guðrún þakkaði öllum í hópnum og starfsmanni fyrir vel unnin störf. Einnig óskaði hún viðtakandi formanni málefnahópsins velfarnaðar og þakkaði stjórn og starfsfólki ÖBÍ fyrir gott samstarf.

Málefnahópur um heilbrigðismál (c)

Emil Thóroddsen frá Gigtarfélagi Íslands var formaður málefnahóps um heilbrigðismál og kynnti skýrslu hópsins og niðurstöður af Stefnuþingi 2018 (sjá fylgiskjal nr. 5c). Í hópnum störfuðu, auk formanns, Fríða Rún Þórðardóttir frá Astma- og ofnæmisfélagi Íslands, Guðbjörg Kristín Eiríksdóttir frá Sjálfsbjörg lsh., Karl Þorsteinsson frá Ás styrktarfélagi, Sigríður Jóhannsdóttir frá Samtökum sykursjúkra, Stefanía G. Kristinsdóttir frá SÍBS, Vilhjálmur Hjálmarsson frá ADHD samtökunum. Varamenn hópsins voru Fríða Björk Arnardóttir frá Hjartaheill og Hannes Þórisson frá Félagi nýrnasjúkra. Stefán Vilbergsson var starfsmaður hópsins.
Emil þakkaði þeim sem sátu í hópnum frábært starf og hópurinn þakkaði starfmanni fyrir gott samstarf.

Umræður

Fundarstjóri bauð umræður um skýrslur málefnahópa um aðgengismál, atvinnu- og menntamál og heilbrigðismál. Tíu fundarmenn tóku til máls. Kom meðal annars fram hvatning til málefnahóps um aðgengi að skoða aðgengi að náttúru Íslands, ferðamannastöðum og almennt um samgöngumál á landsbyggðinni, t.d. eiga hreyfihamlaðir erfitt með að komast til og frá Keflavíkurflugvelli því flugrútan er óaðgengileg og ferðaþjónusta fatlaðra fer ekki á milli sveitarfélaga. Einnig var spurt hver séu næstu skref til að koma á aðgengiseftirliti. Lagt var til að hópurinn kanni möguleika á að koma á slíku eftirliti. Bent var á að sérmerkt bílastæði fyrir hreyfihamlaða eru af mjög skornum skammti við sjúkrastofnanir, sérstaklega Landsspítala. Vakin var athygli á rafrænu aðgengi sem er mikilvægt fyrir sjónskerta.
Málefnahópur um heilbrigðismál var spurður hvort hann sé að skoða öll hjálpartæki og hvort ekki eigi að hvetja til greiðsluþátttöku í sálfræðiþjónustu. Fram kom að mikilvægt sé að berjast fyrir því að hjálpartæki fylgi einstaklingi, ekki að atvinnurekendur þurfi að skaffa það. Nefnt var að lagabreytingu þurfi til svo að fólk með geðraskanir þurfi ekki að búa við ótta, nauðung og ofbeldi.
Spurt var hvað er gott við núverandi örorkumat og  hvort ÖBÍ geti tekið saman lista yfir hvað er gott og hvað er slæmt við núverandi matskerfi.
Emil Thóroddsen formaður málefnahóps um heilbrigðismál sagði heilbrigðishópinn taka öllum ábendingum. Hann sagði hópinn ávallt nefna mikilvægi niðurgreiðslu sálfræðiþjónustu í hvert sinn sem farið sé á fund ráðamanna. Hann ítrekaði að málefnahóparnir séu ekki til að beita þrýstingi, heldur styðja og styrkja einstaka félög og hagsmunahópa til þess í samráði við þá.
Guðrún Sæmundsdóttir formaður málefnahóps um atvinnu- og menntamál hvatti ungliða til að senda hugmyndir um hvað þurfi að gera og hvað hægt sé að gera í málefnum ungs fólks sem getur ekki sótt vinnu eða skóla sökum aðgengis. Guðrún sagði reynslu nágrannaþjóða af starfsgetumati vera ömurlega og umræða um það sé eldfim og viðkvæm. Guðrún sagðist telja að ÖBÍ verði að móta stefnu í tengslum við starfsgetumat.
Ingveldur Jónsdóttir formaður málefnahóps um aðgengismál sagði að aðgengi úti á landi sé í ólestri, sérstaklega er mikið um malarstíga. Sagði hún skýrt í lögum að fólksflutningabifreiðar eigi að vera aðgengilegar öllum.

Málefnahópur um kjaramál (d)

Rósa María Hjörvar frá Blindrafélaginu, formaður málefnahóps um kjaramál, kynnti skýrslu hópsins og niðurstöður af Stefnuþingi 2018 (sjá fylgiskjal nr. 5d). Í hópnum voru, auk formanns, Dóra Ingvadóttir frá Gigtarfélagi Íslands, Einar Björnsson frá Geðhjálp, Frímann Sigurnýasson og Helga Elínborg Auðunsdóttir frá SÍBS, og Sævar Pálsson og Valgerður Hermannsdóttir frá Hjartaheill. Sigríður Hanna Ingólfsdóttir var starfsmaður hópsins.
Formaður hópsins þakkaði hópnum og formanni ÖBÍ fyrir ánægjulegt samstarf.
Fundarstjóri bauð umræður en engar fyrirspurnir bárust.

Málefnahópur um sjálfstætt líf (e)

Rúnar Björn Herrera frá SEM samtökunum, formaður málefnahóps um sjálfstætt líf, kynnti skýrslu hópsins og niðurstöður af Stefnuþingi 2018 (sjá fylgiskjal nr. 5e). Í hópnum sátu ásamt formanni, Arna Sigríður Albertsdóttir frá SEM samtökunum, Bergþór G. Böðvarsson frá Geðhjálp, Elma Finnbogadóttir frá Blindrafélaginu, Freyja Haraldsdóttir frá Tabú, Guðmundur Magnússon frá SEM samtökunum og Snædís Rán Hjartardóttir frá Heyrnarhjálp. Andri Valgeirsson frá Sjálfsbjörg lsh. var varamaður og Katrín Oddsdóttir var starfsmaður hópsins.
Rúnar Björn þakkaði málefnahópnum góða vinnu og starfmanni hópsins fyrir gott samstarf. Án þeirra væri þetta ekki hægt.
Fundarstjóri bauð umræður um skýrsluna. Tveir fundarmenn tóku til máls og þökkuðu hópnum gott starf. Spurt var hvað skilgreini sjálfstætt líf, er það NPA, hjálpartæki, túlkaþjónusta eða eitthvað annað, því mikið sé rætt um NPA.
Rúnar Björn, formaður hópsins, sagði málefnahópinn hafa valið að einbeita sér að NPA þetta árið þó að verkefnin séu auðvitað ærin.

Málefnahópur um málefni barna (f)

Elín Hoe Hinríksdóttir frá ADHD samtökunum formaður málefnahóps um málefni barna kynnti skýrslu hópsins og niðurstöður af Stefnuþingi 2018 (sjá fylgiskjal nr. 5f). Í hópnum, auk formanns, voru Auðbjörg Sigurðardóttir frá Tourette samtökunum, Fríða Bragadóttir frá Samtökum sykursjúkra og Laufi, Halldóra Inga Ingileifsdóttir frá Ás styrktarfélagi, Ólöf Birna Björnsdóttir frá Geðhjálp, Sunna Brá Stefánsdóttir frá Gigtarfélagi Íslands og Ýr Þórðardóttir frá ADHD samtökunum. Varamenn voru Ragnar Vignir frá ADHD samtökunum og Sigrún Birgisdóttir frá Einhverfusamtökunum og Þórdís Viborg var starfsmaður hópsins.
Formaður hópsins þakkaði starfmanni og nefndarmönnum fyrir mjög gott starf.
Fundarstjóri bauð umræður um skýrsluna. Fjórir fundarmenn tóku til máls og þökkuðu hópnum gott starf. Spurt var hvort verið væri að skoða réttindi ófatlaðra barna, það er barna fatlaðra foreldra. Til dæmis eru ný atriði í lögum um réttindi fatlaðra foreldra við umönnun barna sinna. Spurt var af hverju tímatakmörk væru á starfi hópsins, fjögur ár.
Elín Hoe, formaður hópsins, þakkaði ábendingarnar. Sagði hún hópinn hafa rætt réttindi barna sem eiga fatlaða foreldra og taldi það góða hugmynd að koma því fram á málþingi. Upphaflega var málefnahópurinn skipaður til fjögurra ára til reynslu en starfið hefur sýnt fram á þörf á því að þetta verði fastur málefnahópur.
Halldór Sævar Guðbergsson varaformaður ÖBÍ hrósaði málefnahópunum fyrir gott starf og sagði stjórn stolta af hópunum. Þakkaði formönnum sérstaklega fyrir skýrslur sínar og fundargestum fyrir góðar umræður og þátttöku. Þakkaði hann Guðrúnu Sæmundsdóttur, fráfarandi formanni málefnahóps um atvinnu- og menntamál, fyrir góð störf. Halldór minnti á vefstreymi frá málþingum og opnum fundum á vegum ÖBÍ og hve margir á landsbyggðinni hafa tækifæri til að fylgjast með á þann hátt og nýta sér það.

Skýrslur fyrirtækja (4)

Skýrslur fyrirtækja lágu frammi. (fskj. nr. 2, bls. 30-35). Ársreikningar fyrirtækja eru í fylgiskjölum 4a-4d. Fundarstjóri bauð umræður um hverja skýrslu fyrir sig.

BRYNJA, hússjóður Öryrkjabandalagsins (a)

Garðar Sverrisson, formaður Brynju, var til svara. Þrír fundarmenn tóku til máls. Spurt var um hlutfall sérhæfðs húsnæðis hjá Brynju og hví það lækki á milli ára. Spurt var um fjölda íbúða í Reykjavík og hvort hægt væri að auka hann og efla byggingu íbúða í Reykjavík. Lagt var til að stjórn íhugi að halda málþing um húsnæðismál.
Garðar sagði að um væri að ræða sambýli sem Brynja tók að sér að byggja og leigði svo til ríkisins. Sumum þessara sambýla hefur verið lokað því þau eru ekki í takt við tímann. Stofnframlög voru engin af hálfu stjórnvalda á árinu 2017. Brynja fékk styrki til kaupa á um 20 íbúðum. Mun dýrara er að byggja, kaupa og eiga húsnæði í Reykjavík en nágrannasveitarfélögunum sem leiðir af sér hærra leiguverð.

Örtækni (b)

Þorsteinn Jóhannsson, framkvæmdastjóri, var til svara en engar fyrirspurnir bárust.

Hringsjá (c)

Helga Eysteinsdóttir, forstöðumaður, var til svara en engar fyrirspurnir bárust.

TMF- Tölvumiðstöð (d)

Sigrún Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri, var til svara en engar fyrirspurnir bárust.

Fjölmennt (e)

Ásgerður Hauksdóttir, verkefnastjóri, var til svara en engar fyrirspurnir bárust.

Íslensk getspá (f)

Bergur Þorri Benjamínsson, fulltrúi ÖBÍ í stjórn Íslenskrar getspár, sagði rekstur getspár ganga mjög vel. Bergur Þorri sagði það valda sér hugarangri að á málaskrá dómsmálaráðherra sé frumvarp um að leyfa netspilun. Það geti dregið úr tekjum Íslenskrar getspár. Engar fyrirspurnir bárust.
Kl. 19:39 frestaði fundarstjóri fundi til kl. 10 laugardaginn 6. október 2018.
Laugardagur 6. október 2018 – fundi framhaldið
Fundarstjóri hóf fund að nýju kl. 10:07.

Stefnuþing: Stefna og starfsáætlun (5)

Varaformaður sagði frá Stefnuþingi ÖBÍ sem haldið var 20. og 21. apríl 2018. Þetta var þriðja stefnuþing ÖBÍ og sagði varaformaður að enn væri að komast mynd á framkvæmd þess.

Formaður kynnti tillögur um þau málefni sem verða efst á baugi sex málefnahópa ÖBÍ næstu tvö ár eftir vinnu á Stefnuþingi 2018 (fylgiskjöl 5a-f).

Fundarstjóri opnaði fyrir umræður um tillögur frá stefnuþingi. Tveir tóku til máls og ræddu aðgengi að umhverfi og náttúru og kjaramál.

Fundarstjóri bar tillögurnar upp til atkvæða og voru  þær samþykktar samhljóða.

Aðildargjöld, ákvörðun (6)

Fundarstjóri lagði til að aðildargjöld ÖBÍ yrðu óbreytt, 0 kr., og opnaði fyrir umræður. (sjá fskj. nr. 6)

Arnar Haukur Lárusson frá SEM samtökunum lagði fram breytingartillögu og lagði til að aðildargjöld yrðu hækkuð í kr. 5000 á ári (sjá fylgiskjal nr. 6a).

Fundarstjóri bauð umræður um breytingartillöguna. Sigþór U. Hallfreðsson frá Blindrafélaginu lagði til að vísa breytingatillögunni frá og Halldór Sævar Guðbergsson studdi þá tillögu.

Fundarstjóri bar frávísunartillöguna upp til atkvæða. Var hún samþykkt með öllum greiddum atkvæðum gegn fjórum.

Fundarstjóri bar þá upphaflega tillögu um óbreytt aðildargjöld upp til atkvæði og var hún samþykkt samhljóða.

Stjórnarseta, þóknun (7)

Fundarstjóri kynnti fram komna tillögu frá stjórn ÖBÍ um þóknun fyrir stjórnarsetu svohljóðandi:
„Lagt er til að fyrirkomulag við greiðslu þóknunar fyrir fundarsetu fulltrúa í stjórn ÖBÍ verði óbreytt frá fyrra starfsári sem er eftirfarandi:
  • Stjórnarmenn ÖBÍ og varamenn fá greiddar 6 einingar fyrir hvern setinn stjórnarfund sem er allt að 2,5 klst. langur.
  • Fyrir hverja klst. umfram það er greidd ein eining.
  • Upphæð þóknunar og tekur mið af ákvörðun þóknananefndar ríkisins sem er 2.308 kr. á hverja einingu, miðað við ágúst 2018.”
Fundarstjóri gaf orðið laust en engin umræða varð. Var tillagan samþykkt með öllum greiddum atkvæðum gegn einu.

Kosningar í stjórn

Fram fór nafnakall. Mættir voru fulltrúar fyrir 41 aðildarfélag ÖBÍ (fskj. nr. 5 – Fulltrúar aðildarfélaga, mætingarlisti 6. október 2018). Yfirlit yfir framboð til stjórnar var í fundargögnum (sjá fskj. nr. 6). Kynningar á frambjóðendum lágu frammi og má sjá þær í fylgiskjölum.

Fundarstjóri lagði til að Páll Hilmarsson, Dóra Guðrún Pálsdóttir og Ólafur Sindri Ólafsson yrðu talningamenn á fundinum. Var það samþykkt samhljóða

Albert Ingason kvaddi sér hljóðs í fjarveru formanns kjörnefndar og gerði stuttlega grein fyrir starfi nefndarinnar. Þakkaði hann Þórnýju, starfmanni kjörnefndar, og starfsmönnum ÖBÍ góð störf. Tölvupóstur var sendur aðildarfélögum og óskað eftir framboðum í laus embætti. Framboð bárust í öll laus embætti. Fulltrúum var sendur framboðslisti 20. september 2018. Fyrir mistök var nafni Erlu S. Valtýsdóttur frá Tourette samtökunum ofaukið á listanum og óskaði Albert eftir því að fundarmenn leiðréttu það í gögnum sínum.

Fundarstjóri bauð frambjóðendum að kynna sig en fulltrúar höfðu fengið kynningarblað frambjóðenda með fundargögnum (fylgiskjöl nr. 10, 11, 12a-h).

Fram komu framboð á fundinum, frá Magnúsi Þorgrímssyni frá Hjartaheill og Ólínu Sveinsdóttur frá Parkinsonsamtökunum. Fundarstjóri óskaði samþykkis fundarins fyrir framboðum þeirra og voru þau samþykkt.

Formaður (8)

Kosið verður í embætti fomanns 2019.

Varaformaður (9)

Fundarstjóri kynnti kosningu í embætti varaformanns. Einn var í framboði, Halldór Sævar Guðbergsson frá Blindrafélaginu (fskj. nr. 10).

Engin framboð bárust úr sal og var Halldór Sævar Guðbergsson því sjálfkjörinn varaformaður ÖBÍ 2018-2020.

Gjaldkeri (10)

Fundarstjóri kynnti kosningu í embætti gjaldkera. Einn var í framboði, Bergur Þorri Benjamínsson frá Sjálfsbjörg lsh. (fskj. nr. 11).

Engin framboð bárust úr sal og var Bergur Þorri Benjamínsson því sjálfkjörinn gjaldkeri ÖBÍ 2018-2020.

Formenn fastra málefnahópa (11)

Fundarstjóri kynnti kosningu í embætti formanns málefnahóps um atvinnu- og menntamál til eins ár. Einn var í framboði, Sævar Pálsson frá Hjartaheill (fskj. nr.12).

Engin framboð bárust úr sal og var Sævar Pálsson því sjálfkjörinn formaður málefnahóps um atvinnu- og menntamál 2018-2019.

Stjórnarmenn (12)

Fundarstjóri kynnti kosningu sjö stjórnarmanna. Í framboði voru Dóra Ingvadóttir frá Gigtarfélagi Íslands (fskj. 12a), Einar Þór Jónson frá HIV Íslandi (fskj. 12b), Elva Dögg Hafberg Gunnarsdóttir frá Tourette-samtökunum (fskj. 12c), Fríða Bragadóttir frá Samtökum sykursjúkra (fskj. 12d), Fríða Rún Þórdardóttir frá Astma- og ofnæmisfélagi Íslands (fskj. 12e), Garðar Sverrisson frá MS félagi Íslands (fskj. 12f), Karl Þorsteinsson frá Ás styrktarfélagi (fskj. 12g), Ólína Sveinsdóttir frá Parkinsonsamtökunum, Snævar Ívarsson frá Félagi lesblindra á Íslandi og Þorsteinn Þorsteinsson frá SPOEX (fskj. 12h). Farið var yfir fyrirkomulag kosninganna.
Greidd voru 123 atkvæði (sjá fskj. nr. 12i). Þessi hlutu kosningu til setu í stjórn 2018-2020:
–        Einar Þór Jónsson með 100 atkvæði
–        Fríða Rún Þórðardóttir með 97 atkvæði
–        Elva Dögg Hafberg Gunnarsdóttir með 94 atkvæði
–        Garðar Sverrisson með 92 atkvæði
–        Fríða Bragadóttir með 90 atkvæði
–        Dóra Ingvadóttir með 80 atkvæði
–        Snævar Ívarsson með 76 atkvæði

Varamenn (13)

Fundarstjóri kynnti kosningu þriggja varamanna til tveggja ára. Í framboði voru Karl Þorsteinsson frá Ás styrktarfélagi, Ólína Sveinsdóttir frá Parkinsonsamtökunum, Þorsteinn Þorsteinsson frá SPOEX og Magnús Þorgrímsson frá Hjartaheill.

Greidd voru 116 atkvæði, eitt var ógilt og þrjú auð (fskj. nr. 13). Þessi hlutu kosningu til setu sem varamenn í stjórn 2018-2020:

–        Þorsteinn Þorsteinsson með 87 atkvæði
–        Karl Þorsteinsson með 83 atkvæði
–        Magnús Þorgrímsson með 76 atkvæði

Aðrar kosningar til tveggja ára

Kjörnefnd (14)

Kosið verður í kjörnefnd árið 2019.

Laganefnd (15)

Fundarstjóri kynnti kosningu tveggja fulltrúa í laganefnd til eins árs. Í framboði voru: Vilborg Gunnarsdóttir frá Alzheimersamtökunum á Íslandi og Þórir Steingrímsson frá Heilaheill.

Fundarstjóri óskaði samþykkis fundarins fyrir framboði Gísla Helgasonar til setu í laganefnd. Var það samþykkt.

Greidd voru 115 atkvæði, einn atkvæðaseðill var ógildur og tveir auðir (fskj. nr. 14). Þessi hlutu kosningu til setu í laganefnd til eins árs:

–        Vilborg Gunnarsdóttir með 106 atkvæði
–        Þórir Steingrímsson með 93 atkvæði

Skoðunarmenn reikninga og varamenn (16)

Kosnir verða skoðunarmenn reikninga og varamenn þeirra árið 2019.

Lagabreytingar, aðildarumsóknir, ályktanir, önnur mál

Lagabreytingar (17)

Teknar voru til afgreiðslu fjórar tillögur til breytinga á lögum ÖBÍ sem borist höfðu laganefnd fyrir aðalfund. Lög ÖBÍ má sjá í fylgiskjali nr. 13.
Formaður laganefndar, Dóra Ingvadóttir, kvaddi sér hljóðs og fór yfir starf nefndarinnar. Í nefndinni sátu, ásamt formanni, Guðný Linda Óladóttir frá Samtökum lungnasjúklinga, en hún féll frá í apríl 2018, Þröstur Emilsson frá ADHD samtökunum, sem hætti störfum fyrir ÖBÍ í júní 2018, Ingi Hans Ágústsson frá HIV Íslandi, og Svavar Kjarrval frá Einhverfusamtökunum. Nefndin vann vel strax frá aðalfundi 2017 með dyggri aðstoð Aðalsteins Sigurðssonar lögmanns. Formaður, Ingi Hans og Svavar lögðu lokahönd á tillögur nefndarinnar.
Formaður kynnti fjórar lagabreytingartillögur frá laganefnd ÖBÍ (sjá fskj. nr. 14):
1. tillaga um breytingar á 16. gr. Framhaldsaðalfundur (sjá fskj. nr. 14, bls. 2),
2. tillaga um breytingar á 18. gr. Stjórn. A. Kosning og hlutverk stjórnar (sjá fskj. 14, bls. 3-6), stafliðir a) – d),
3. tillaga um breytingar á  23. gr. Málefnahópar (sjá fskj. nr. 14, bls. 7),
4. tillaga um breytingu á 11. gr. C. Aðrar kosningar til tveggja ára (sjá fskj. nr. 14, bls. 8.).
Þá tók fundarstjóri 1. tillögu til afgreiðslu, tillögu til breytingar á 16. grein laganna. Tillagan var orðalagsbreyting, þar sem lagt var til að orðin „upphaflegan aðalfund“ í 1. mgr. falli brott og í stað komi „frestun fundar“ og af því leiði að í stað orðanna „á upphaflegum aðalfundi“ í 3. mgr. komi orðin „hinum frestaða fundi“.
Ægir Lúðvíksson frá MND félaginu lagði til viðbót, „að seturétt á framhaldsaðalfundi eiga þeir sem sátu fundinn þegar honum var frestað, með nafnakalli“.
Vilhjálmur Hjálmarsson frá ADHD félaginu studdi tillögu Ægis og ítrekaði seturétt einungis þeirra sem voru á fundinum þegar honum var frestað.
Fundarstjóri ítrekaði að breytingartillögum skyldi skilað skriflega, annað hvort handskrifað eða með tölvupósti á netfangið thorny@obi.is.
Fundarstjóri bar breytingartillögu Ægis upp til atkvæða og var tillagan felld með þorra atkvæða.
Fundarstjóri bar þá upp til atkvæða 1. tillögu frá laganefnd. Var tillagan samþykkt samhljóða. Þá verður ákvæði 16. gr. Framhaldsfundur svohljóðandi (breytingar feitletraðar):
Framhaldsfund er hægt að halda um mál sem ekki tekst að ljúka á aðalfundi. Hann skal haldinn svo fljótt sem verða má þó eigi síðar en fjórum vikum eftir frestun fundar.
Framhaldsaðalfundur getur aðeins fjallað um þau mál, sem voru tilefni þess að fundurinn var boðaður.
Seturétt á framhaldsaðalfundi eiga þeir sem áttu seturétt á hinum frestaða fundi.
Þá tók fundarstjóri 2. tillögu laganefndar, um breytingar á 18. grein laga ÖBÍ, til afgreiðslu. Kynnti fundarstjóri að tillagan væri í fjórum stafliðum, a-d, og lagði fram að hver stafliður tillagnanna yrði afgreiddur sér. Var það samþykkt.
Fundarstjóri bauð þá umræður um staflið a) í 2. breytingatillögu, um fækkun stjórnarmanna. Urðu nokkrar umræður um tillöguna. Til máls tóku þrettán fundarmenn. Ræddu menn skilvirkni, samskipti, upplýsingaflæði og tengsl við grasrótina, heildarskipulag ÖBÍ, formannafundi, málefnahópa og stefnuþing.
Gísli Helgason frá Blindravinafélagi Íslands lagði til að 18. gr. yrði óbreytt og öllum breytingartillögum á henni yrði vísað frá.
Fundarstjóri tók frávísunartillögu Gísla til afgreiðslu og var hún felld með 36 atkvæðum gegn 32.
Því næst bar fundarstjóri upp til atkvæða upphaflega tillögu, staflið a) af 2. breytingartillögu, um fækkun stjórnarmanna. Greidd voru 92 atkvæði, 53 voru með og 39 á móti, og einn sat hjá. Tillagan var felld.
Þá tók fundarstjóri staflið b) af 2. tillögu, um umboð stjórnarmanna, til afgreiðslu. Engar umræður urðu. Var tillagan samþykkt með þorra atkvæða gegn tveimur. Verður 1. mgr. 18. gr. Stjórn, A. Kosningar því svo hljóðandi (viðbót feitletruð):
Stjórn samanstendur af nítján stjórnarmönnun: formanni, varaformanni, gjaldkera, fimm formönnum fastra málefnahópa og ellefu öðrum stjórnarmönnum. Stjórn er kosin á aðalfundi úr hópi aðalfundarfulltrúa sem boðið hafa sig fram til trúnaðarstarfa skv. 13. gr. Jafnframt skal aðalfundur kjósa þrjá varamenn sem hafa seturétt á stjórnarfundum. Stjórnarmenn sitja í umboði aðalfundar en ekki einstakra aðildarfélaga.
Þá tók fundarstjóri starflið c) af 2. tillögu, til afgreiðslu og bauð umræður. Til máls tóku tíu fundarmenn. Menn voru almennt á móti tillögunni.
Eftir umræður bar fundarstjóri staflið c) af 2. breytingatillögu upp til atkvæða. Var tillagan felld með meirihluta atkvæða.
Þá tók fundarstjóri staflið d) í 2. tillögu til afgreiðslu. Urðu nokkrar umræður um tillöguna. Til máls tóku fimm fundarmenn. Menn voru almennt á móti tillögunni.
Þá bar fundarstjóri staflið d) af 2. tillögu upp til atkvæða. Var tillagan felld með þorra atkvæða gegn tveimur.
Fundarstjóri tók þá 3. tillögu, um varaformenn málefnahópa, til afgreiðslu og bauð umræður. Til máls tóku þrír fundarmenn sem ræddu mikilvægi varaformanns ef formaður forfallast.
Eftir umræður bar fundarstjóri 3. tillögu upp til atkvæða og var hún samþykkt samhljóða. Verður 23. gr. því svohljóðandi (ný 3. mgr. feitletruð)
23. gr. Málefnahópar
Innan  bandalagsins  skulu  starfa  fimm  fastir  málefnahópar.  Hlutverk  þeirra  er  að leggja fram  tillögur  í  hagsmunamálum  í  samræmi  við  áherslur  stefnuþings. Aðalfundur ákveður málefni  þeirra  eftir  tillögu  stefnuþings.  Formenn  þeirra  skulu kosnir  á  aðalfundi. Hvert félag  getur  átt  mest  einn  formann  málefnahóps  á  hverjum tíma.
Stjórn  velur  einstaklinga  í  málefnahópa  að  fengnum  tilnefningum  frá aðildarfélögunum. Meðlimir  hvers  málefnahóps  skulu  vera  sjö  að  hámarki  að formanni  meðtöldum.  Stjórn skal  leitast  við  að  gæta  jafnræðis  á  milli  aðildarfélaga  við skipun  í  málefnahópa. Fulltrúar  í  málefnahópum  geta  setið  að  hámarki  í  hverjum  hópi í  þrjú  heil  kjörtímabil samfellt.  Seta  sem  formaður  málefnahóps  er  óháð  fyrri  setu  í málefnahópi.
Málefnahópur skal kjósa sér varaformann. Hverfi formaður málefnahóps úr embætti sínu tekur varaformaður hópsins við sem starfandi formaður fram að næsta aðalfundi. Hann tekur einnig sæti formanns málefnahópsins í stjórn en án atkvæðisréttar. Varamaður í stjórn tekur þá við atkvæðisrétti formanns málefnahópsins. Ákvæði síðasta málsliðar 1. mgr. á ekki við um starfandi formann.
Málefnahópar  skulu  gefa  stjórn  stöðuskýrslu  á  a.m.k.  sex  mánaða  fresti.  Formenn þeirra  skulu  hafa  samráð  sín  á  milli.
Fundarstjóri tók þá 4. tillögu, um varamenn í kjörnefnd og laganefnd, til afgreiðslu og bauð umræður. Enginn kvaddi sér hljóðs og þá bar fundarstjóri tillöguna upp til atkvæða og var hún samþykkt samhljóða. Verður þá 11. gr. C. liður svo hljóðandi (ný 3. mgr. málsgrein feitletruð):
11. gr. Dagskrá aðalfundar
D. Aðrar kosningar til tveggja ára
14. Kosning fimm manna kjörnefndar og tveggja til vara.
15. Kosning fimm manna laganefndar og tveggja til vara.
16. Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga og tveggja til vara.
Þá bar fundarstjóri lög ÖBÍ upp til atkvæða í heild sinni, svo breytt. Voru þau samþykkt með þorra atkvæða gegn einu.

Aðildarumsóknir (18)

Tvær aðildarumsóknir bárust innan tilskilins frests og uppfylltu skilyrði laga ÖBÍ.
Fundarstjóri tók til afgreiðslu umsókn frá Vífli, félagi einstaklinga með kæfisvefn og aðrar svefnháðar öndunartruflanir (sjá fskj. nr. 15).
Framkvæmdastjóri sagði stjórn hafa tekið umsóknina fyrir og staðfest að hún uppfyllti skilyrði laga ÖBÍ. Fundarstjóri bauð umræður og bar að þeim loknum umsóknina upp til atkvæða. Var aðildarumsókn Vífils samþykkt með þorra atkvæða gegn tveimur og sjö sátu hjá.
Fundarstjóri tók til afgreiðslu umsókn frá Samtökum um edómetríósu (sjá fskj. nr. 16).
Framkvæmdastjóri sagði stjórn hafa tekið umsóknina fyrir og staðfest að hún uppfyllti skilyrði laga ÖBÍ. Fundarstjóri bauð umræður og bar svo umsóknina upp til atkvæða. Var aðildarumsókn Samtaka um endómetríósu samþykkt með þorra atkvæða gegn tveimur og fjórir sátu hjá.

Ályktanir aðalfundar (19)

Engar ályktanir bárust framkvæmdastjórn innan tilskilins frests, en sex ályktanir höfðu borist fyrir fundinn og fundarstjóri óskaði leyfis fundarins til að taka ályktanirnar fyrir. Var það samþykkt.

Formaður ÖBÍ, Þuríður Harpa Sigurðardóttir, kynnti aðalályktun fundarins, svo hljóðandi (sjá fskj. nr. 17):

Aðalfundur Öryrkjabandalags Íslands, haldinn 5. og 6. október 2018, krefst þess að Alþingi breyti fjárlagafrumvarpi ársins 2019 og forgangsraði í þágu þeirra sem verst standa í íslensku samfélagi.
Stjórnvöld hafa sýnt á spilin. Nú hefur fjármálaráðherra lagt fram fjárlagafrumvarp fyrir árið 2019. Þar er gert ráð fyrir að greiðslur TR til örorkulífeyrisþegar hækki um 3,4%. Á sama tíma er verðbólguspá 2,9%. Því er raunhækkun ekki nema 0,5% ef spár standast. Enn og aftur bregðast stjórnvöld þeim sem síst skyldi með því að afhenda fötluðu og langveiku fólki raunhækkun upp á 1.200 kr. á mánuði fyrir skatt.
Einstaklingur með óskertan örorkulífeyri hefur einungis 204.000 kr. til ráðstöfunar á mánuði eftir skatt. Þrátt fyrir lengsta hagvaxtarskeið sögunnar hafa örorkulífeyrisþegar ekki fengið leiðréttingu á sínum kjörum eins og aðrir hópar. Þvert á móti er stórum hópi örorkulífeyrisþega haldið í fátæktargildru með lága framfærslu og „krónu á móti krónu skerðingu auk þess sem frítekjumörk hafa verið óbreytt frá hruni.
Almenningur tók á sig kjaraskerðingu í kjölfar hruns árið 2008. Síðan þá hafa aðrir hópar samfélagsins fengið leiðréttingu á kjörum en ekki fatlað og langveikt fólk. Á tímabilinu 2010-2016 hækkaði þingfararkaup um tæp 600.000 kr. á mánuði á meðan örorkulífeyrir TR hækkaði einungis um 60.000 kr.
Það er öllum ljóst að „kjarabætur” upp á 1.200 kr. eins og nú er lagt til er blaut tuska í andlitið sér í lagi þegar haft er í huga að forsætisráðherra hefur í ræðu og riti lagt áherslu á að sporna gegn fátækt og ójöfnuði. Framkvæmdin er allt önnur.
Setjum manngildi ofar auðgildi – Skiljum engan eftir.
Fundarstjóri bauð umræður um ályktunina. Tóku fjórir fundarmenn til máls og voru ánægðir með ályktunina. Kom fram hvatning til að allir standi saman um ályktunina því aldrei áður hafi reynt eins mikið á hana og nú. Lagt var til að nota ályktunina sem tæki í kjarabaráttu öryrkja á fundum með félagsmálaráðherra og verkalýðshreyfingunni. Því var fagnað að stjórn ÖBÍ færi á fund með ráðamönnum og þrýsti á hækkun örorkulífeyris.
Fundarstjóri bar ályktunina upp til atkvæðagreiðslu og var hún samþykkt samhljóða.
Formaður kynnti þá ályktun um aðgengi fyrir alla (sjá fskj. nr. 18):

Aðalfundur Öryrkjabandalags Íslands, haldinn 5. og 6. október 2019 ályktar um mikilvægi þess að aðgengi sé fyrir alla.

Samkvæmt íslenskum lögum og reglugerðum á að gæta þess sérstaklega að aðgangur fatlaðs fólks að manngerðu umhverfi sé til jafns við aðra. Þrátt fyrir skýr ákvæði um algilda hönnun í byggingarreglugerð er enn verið að byggja óaðgengilegt húsnæði og önnur mannvirki. Ábyrgðin liggur hjá hönnuðum, arkitektum, verktökum og byggingafulltrúum sveitarfélaga sem eiga að hafa eftirlit með því að reglum sé framfylgt.
Þjóðin eldist og þörf fyrir aðgengilegt húsnæði og þjónustu mun aukast mikið á komandi árum. Mikill skortur er á aðgengilegu húsnæði, þar sem lítið var hugsað fyrir aðgengi fyrir alla á árum áður sem er höfuðástæða þess að þurft hefur að byggja aðgengilegt húsnæði sérstaklega fyrir fatlað fólk á öllum aldri.
Okkar krafa er að lögum og reglum sé framfylgt þannig að aðgengi sé fyrir alla.
Ekkert um okkur án okkar!
Fundarstjóri bauð umræður. Spurt var um rafrænt aðgengi og aðgang að vefjum.
Fundarstjóri bar ályktunina upp til atkvæða og var hún samþykkt samhljóða. Einn sat hjá.
Formaður kynnti ályktun um atvinnu- og menntamál (sjá fskj. nr. 19).

Aðalfundur Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ), haldinn 5. og 6. október 2018, skorar á stjórnvöld að:

  • Auka atvinnutækifæri fatlaðs fólks með skerta starfsgetu þannig að í boði verði fjölbreyttari störf á vinnumarkaði.
  • Innleiða hvatningakerfi fyrir fyrirtæki og stofnanir til að ráða starfsfólk með skerta starfsgetu.
  • Tryggja viðeigandi aðlögun á vinnumarkaði.
  • Auka námsframboð fyrir ungt fólk með sérþarfir.
  • Koma á fót símenntunar- og starfsmenntunarsjóði fyrir fatlað fólk og fólk með skerta starfsgetu.
Fundarstjóri bauð umræður. Ellefu fundarmenn tóku til máls. Í máli þeirra kom fram mikil andstaða við starfsgetumat og þótti mörgum að sú andstaða þyrfti að birtast í ályktuninni. Vinnumarkaðurinn þarf að breytast til að hægt sé að taka upp starfsgetumat.
Formaður málefnahóps um atvinnu- og menntamál lagði til þá breytingu, að bæta við fyrsta lið og nýjan lið aftast „efla núverandi kerfi örorkumats í stað tilraunakennds starfsgetumats“.
Halldór Sævar Guðbergsson varaformaður lagði til að vísa ályktuninni til stjórnar til umfjöllunar og afgreiðslu.
Fram kom að málefnahópur um atvinnu- og menntamál væri sundraður í málinu og styddu tillögu varaformanns um að vísa ályktuninni til stjórnar ÖBÍ til umræðu og afgreiðslu.
Fundarstjóri bar upp þá tillögu að vísa ályktuninni til stjórnar og var hún samþykkt með þorra atkvæða gegn átta.
Formaður kynnti ályktun um kostnaðarþátttöku í heilbrigðisþjónustu (sjá fskj. 20).

Ályktun aðalfundar Öryrkjabandalags Íslands, haldinn 5. og 6. október 2019 ályktar um kostnaðarþátttöku í heilbrigðisþjónustu.

Í ljósi skýrra loforða ríkisstjórnarinnar um að draga úr kostnaði sjúklinga í heilbrigðiskerfinu ályktar aðalfundur Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ) að lagðar verði fram frekari áætlanir um það hvar það eigi að gerast og hvenær.
Þegar hafa verið stigin fyrstu skref varðandi tannheilsu lífeyrisþega, en fátt annað liggur fyrir. Öryrkjabandalag Íslands leggur áherslu á eftirfarandi:
  • Samningur um tannlæknakostnað lífeyrisþega verði fullfjármagnaður á árinu 2019 þannig að ríkið greiði 75% af kostnaði.
  • Kostnaðarþátttaka í heilbrigðisþjónustu verði leiðrétt á árinu 2019 þannig að lífeyrisþegar greiði ekki meira en þriðjung af kostnaði almennra notenda.
  • Lækka þarf kostnað sjúkratryggðra í greiðsluþátttökukerfum heilbrigðisþjónustu og lyfja, svo fólk fresti ekki eða sleppi því að sækja sér nauðsynlega heilbrigðisþjónustu.
  • Nauðsynlegir þjónustuþættir og lyf sem ekki falla undir núverandi greiðsluþátttöku í heilbrigðisþjónustu og lyfjum verði sett undir þök kerfanna.
Fundarstjóri bauð umræður um ályktunina. Sveinn Rúnar Hauksson, Geðhjálp, lagði fram tillögu um viðbót við ályktunina. Garðar Sverrisson, ásamt fleirum, lagði fram ályktun um alvarleg atvik í heilbrigðisþjónustu og báðu um að henni yrði skeytt við ályktunina.
Emil Thóroddsen, formaður málefnahóps um heilbrigðismál, benti á að ekki væri hægt að álykta um allt. Málefnahópurinn ákvað að einblína á greiðsluþátttöku í heilbrigðiskerfinu í ályktun sinni.
Fundarstjóri lagði til að greidd yrðu atkvæði um ályktunina og breytingartillögurnar tvær hverja í sínu lagi. Fundarstjóri las upp tillögu Sveins Rúnars Haukssonar og tillögu Garðars Sverrissonar og félaga. Ákveðið var að vísa báðum breytingartillögum í önnur mál.
Fundarstjóri bar þá upprunarlega ályktun upp til atkvæða og var hún samþykkt.
Formaður kynnti ályktun um kjaramál (sjá fskj. nr. 21).

Aðalfundur Öryrkjabandalags Íslands, haldinn 5. og 6. október 2019 skorar á alla þingmenn að bæta kjör örorkulífeyrisþega með því að hafa áhrif á fjárlagagerð ríkisins fyrir árið 2019 með eftirfarandi hætti:

  • Hækka óskertan lífeyri almannatrygginga frá 1.1.2019 í 413.000 kr.
  • Afnema „krónu á móti krónu“ skerðingu sérstakrar framfærsluppbótar.
  • Draga verulega úr tekjuskerðingum í almannatryggingakerfinu.
  • Hækka persónuafslátt þannig að ekki verði greiddur tekjuskattur af tekjum undir 300.000 kr. á mánuði.
  • Setja lög til að koma í veg fyrir að lífeyrissjóðir skerði greiðslur til örorkulífeyrisþega vegna greiðslna úr almannatryggingakerfinu.

Fundarstjóri bauð umræður en enginn tók til máls. Þá var ályktunin borinn upp til  atkvæða og var hún samþykkt samhljóða.

Formaður kynnti ályktun um málefni barna  (sjá fskj. nr. 22).

Aðalfundur Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ), haldinn 5. og 6. október 2018 skorar á stjórnvöld að:

  • Jafna tækifæri til náms og tryggja að nemendur með sérþarfir (stuðningsþarfir) fái þá lögbundnu þjónustu sem þeir eiga rétt á innan skólakerfisins.
  • Tryggja réttindi barna og gæta að því að hagur þeirra vegi þyngst í öllum ákvörðunum sem um þau eru tekin.
  • Tryggja að raddir barna fái aukið vægi innan kerfisins.
  • Tryggja heildstæða einstaklingsmiðaða þjónustu í leik- og grunnskólum.
  • Tryggja fötluðum börnum rétt til íþrótta- og tómstundaiðkunar til jafns við aðra.
  • Auka geðheilbrigðisþjónustu barna og unglinga og eyða biðlistum.

Fundarstjóri bauð umræður um ályktunina. Til máls tóku fjórir fundarmenn. Samþykkt var að bæta orðinu stuðningsþarfir innan sviga við á eftir orðinu sérþarfir.

Fundarstjóri bar ályktunina um málefni barna, með breytingum, upp til atkvæða. Ályktunin var samþykkt samhljóða.

Formaður kynnti ályktun um mannréttindavernd fatlaðs fólks (sjá fskj. nr. 23).

Aðalfundur Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ) skorar á stjórnvöld að virða þá alþjóðasáttmála sem íslenska ríkið hefur undirgengist til að tryggja mannréttindavernd fatlaðs fólks. ÖBÍ leggur áherslu á eftirfarandi atriði:

  • Að Alþingi samþykki fyrirliggjandi þingsályktunartillögu um lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Í tillögunni kemur fram að lögfesta eigi samninginn eigi síðar en 13. desember 2019, á 13 ára afmælisdegi samningsins.
  • Að stjórnvöld fullgildi valfrjálsu bókunina við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. ÖBÍ fordæmir að það hafi ekki verið gert þrátt fyrir að Alþingi ályktaði þann 20. september 2016 að hún skyldi fullgilt eigi síðar en í árslok 2017.
  • ÖBÍ fagnar lögum nr. 86/2018, um jafna meðferð á vinnumarkaði, þar sem kveðið er á um bann við mismunun á vinnumarkaði á grundvelli fötlunar. ÖBÍ harmar þó þá ákvörðun löggjafans að ekkert fjármagn hafi fylgt með lögfestingunni til að tryggja rétta framkvæmd laganna.
Fundarstjóri bauð umræður en enginn kvaddi sér hljóðs. Þá var ályktun um mannréttindavernd fatlaðs fólks borin upp til atkvæða og samþykkt samhljóða.
Formaður kynnti ályktun um lögfestingu notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar (NPA) (sjá fskj. nr. 24)

Ályktun aðalfundar Öryrkjabandalags Íslands haldinn 5. og 6. október 2018 um lögfestingu notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar (NPA).

Aðalfundur Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ) fagnar innilega að réttur fatlaðs fólks til notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar (NPA) hafi verið lögfestur. NPA tryggir að fatlað fólk getur notið frelsis til jafns við aðra.
Fundarstjóri gaf orðið laust um ályktunina en engar umræður urðu. Fundarstjóri bar ályktun um lögfestingu notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar upp til atkvæða og var hún samþykkt samhljóða.

Önnur mál (20)

Fundarstjóri fékk samþykki fundarins fyrir því að taka til afgreiðslu aðrar tillögur og ályktanir undir liðnum Önnur mál.

Tillaga um viðbót við ályktun um heilbrigðismál

Fyrst var tekin til afgreiðslu ályktun frá Sveini Rúnari Haukssyni, varaformanni Geðhjálpar, um heilbrigðismál, (sjá fskj. nr. 25). Fundarstjóri bauð umræður. Til máls tóku fimm fundarmenn, fylgjandi tillögunni. Bent var á tvítekningu í ályktunum fundarins og lögð var til stytting á ályktun Sveins, sem var samþykkt.
Þá kynnti fundarstjóri ályktunina með áorðnum breytingum svo hljóðandi:
Aðalfundur ÖBÍ 5.-6. október 2018 skorar á ríkisstjórn og Alþingi að fella úr gildi lög og lagaákvæði sem leggja grunn að beitingu nauðungar og ofbeldis gagnvart fólki með geðraskanir.
Núgildandi lög um lögræði stangast í veigamiklum atriðum á við ákvæði sáttmála SÞ.
Var ályktunin borin upp til atkvæða og samþykkt með öllum atkvæðum gegn einu.

Ályktun um alvarleg atvik í heilbrigðisþjónustu

Þá tók fundarstjóri til afgreiðslu tillögu um ályktun aðalfundar ÖBÍ um alvarleg atvik í heilbrigðisþjónustu, svo hljóðandi (sjá fskj. nr. 26):
Aðalfundur ÖBÍ skorar á Alþingi að setja ströng viðurlög við því að skrá ekki og tilkynna um óvænt alvarleg atvik í heilbrigðisþjónustu, bæði innan stofnana og til réttra yfirvalda.
Flutningsmenn tillögunnar voru Garðar Sverrisson, Rósa María Hjörvar, Einar Þór Jónsson, Guðrún Sæmundsdóttir, Sveinn Rúnar Hauksson, Sylviane Pétursson-Lecoultre og Guðmundur Johnsen.
Fundarstjóri bauð umræður um tillöguna en enginn kvaddi sér hljóðs. Þá var tillagan borin upp til atkvæða og var hún samþykkt.

Tillaga um aðgengiseftirlit

Arnar Helgi Lárusson frá SEM – samtökum endurhæfðra mænuskaddaðra kvaddi sér hljóðs. Arnar Helgi taldi tímabært að gera eitthvað róttækt í aðgengismálum og lagði fram eftirfarandi tillögu:
Aðalfundur Öryrkjabandalags Íslands, haldinn 5.-6. október 2018 samþykkir að fela stjórn ÖBÍ að koma á fót aðgengiseftirliti og tryggja fjármögnun fyrir tveimur stöðugildum. Stjórn útfærir aðgengiseftirlitið í nánu samráði við málefnahóp Öryrkjabandalagsins um aðgengismál.
Fundarstjóri bauð fundarmönnum að ræða tillöguna. Til máls tóku átta fundarmenn. Töldu fundarmenn tillöguna góða en að málið þarfnaðist frekari vinnslu.
Fram kom dagskrártillaga um að vísa tillögu Arnars Helga til stjórnar (sjá fskj. nr. 27a). Var hún samþykkt með þorra atkvæða gegn fjórum.
Þá þökkuðu fundarstjórar fyrir sig og afhentu formanni ÖBÍ, Þuríði Hörpu Sigurðardóttur, fundinn.

Fundarlok

Formaður þakkaði góðan fund, starfsfólki fyrir störf sín og óskaði nýkjörnum fulltrúum til hamingju með embætti sín. Formaður þakkaði samstarfið á þessu fyrsta ári sínu sem formaður, full tilhlökkunar til þess næsta.
Formaður sleit fundi kl. 18:02.

Fylgiskjöl:

1) Dagskrá aðalfundar 5. og 6. október 2018
2) Ársskýrsla Öryrkjabandalags Íslands 2017-2018
3) Ársreikningur ÖBÍ 2017
4) Ársreikningar fyrirtækja
    a) BRYNJA hússjóður Öryrkjabandalagsins
    b) Örtækni
    c) Hringsjá
    d) Fjölmennt
5) Niðurstöður stefnuþings 2018 fylgiskjöl a) til f)
    a) varðandi málefnahóp um aðgengismál
    b) varðandi málefnahóp um atvinnu- og menntamál
    c) varðandi málefnahóp um heilbrigðismál
    d) varðandi málefnahóp um kjaramál
    e) varðandi málefnahóp um sjálfstætt líf
    f) varðandi málefnahóp um málefni barna
6) Tillaga að aðildargjaldi 2019
    a) Breytingartillaga frá Arnari Helga Lárussyni
7)         Tillaga að þóknun fyrir stjórnarsetu ÖBÍ
8)         Fulltrúar aðildarfélaga ÖBÍ á aðalfundi 2018
9)         Yfirlit yfir framboð til stjórnar ÖBÍ 2018
10)      Varaformaður ÖBÍ – kynning frambjóðanda, Halldór Sævar Guðbergsson
11)      Gjaldkeri – kynning frambjóðanda, Bergur Þorri Benjamínsson
12)      Frambjóðendur til stjórnar ÖBÍ 2018, fylgiskjöl a) til h)
    a)    Dóra Ingvarsdóttir
    b)    Einar Þór Jónsson
    c)    Elva Dögg Gunnarsdóttir
    d)    Fríða Bragadóttir
    e)    Fríða Rún Þórðardóttir
    f)     Garðar Sverrisson
    g)    Karl Þorsteinsson
    h)    Þorsteinn Þorsteinsson
    i)     Niðurstöður kosninga
13) Lög Öryrkjabandalags Íslands, síðast breytt 2017
14) Lagabreytingartillögur a) til e)
15) Samtök um endómetríósu
    a)    Samtök um endómetríósu, aðildarumsókn
    b)    Lög Samtaka um endómetríósu
    c)    Samtök um endómetríósu, ársreikningur 2015
    d)    Samtök um endometríósu, ársreikningur 2016
    e)    Samtök um endómetríósu, ársreikningur 2017
    f)     Samtök um endómetríósu, stjórn og nefndir 2018
    g)    Samtök um endómetríósu, upplýsingar um endómetríósu 2018
16) Vífill, félag einstaklinga með kæfisvefn og aðrar svefnháðar öndunartruflanir
    a)    Vífill, aðildarumsókn 2018
    b)    Lög Vífils
    c)    Vífill, ársreikningur 2015
    d)    Vífill, ársreikningur 2016
    e)    Vífill, ársreikningur 2017
    f)     Vífill, upplýsingar um  stjórn og trúnaðarstöður
17) Ályktun aðalfundar
18) Ályktun um aðgengi fyrir alla
19) Ályktun um atvinnu- og menntamál
20) Ályktun um kostnaðarþátttöku í heilbrigðisþjónustu
21) Ályktun um kjaramál
22) Ályktun um málefni barna
23) Ályktun um mannréttindi fatlaðs fólks
24) Ályktun um lögfestingu notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar (NPA)
25) Tillaga að ályktun um heilbrigðismál frá Sveini Rúnari Haukssyni
26) Tillaga að ályktun um alvarleg atvik í heilbrigðisþjónustu
27) Tillaga um aðgengiseftirlit
    a)    Dagskrártillaga um vísun til stjórnar

Aðalfundur 2017

Aðalfundur 2016

Aðalfundur 2015