Skip to main content
Frétt

Skýrsla um bótasvik byggð á sandi

By 29. mars 2017No Comments
Öryrkjabandalag Íslands fagnar umfjöllun Kastljóss RÚV um skýrslu Ríkisendurskoðunnar, sem gefin var út í febrúar 2013, þar sem leiddar voru að því líkur að bótasvik í almannatryggingakerfinu næmu allt að 3,4 milljörðum króna á ári. Á grundvelli skýrslunnar var umdeilt lagafrumvarp samþykkt í nóvember sama ár um aukið eftirlit Tryggingastofnunar (TR) sem tóku gildi í febrúar 2014.

Með nýju lögunum var meðal annars víkkað út ákvæði um til hverra upplýsingaskylda til handa TR næði, en þar undir féllu m.a. sveitarfélög, menntastofnanir og sjúkra- og dvalarheimili. Ekki var skilgreint hvaða upplýsingar um væri að ræða, einungis að TR teldi þær vera nauðsynlegar. Þeir sem kannaðir voru fengu ekki upplýsingar þegar slík athugun var gerð. Greiðslum á lífeyri var frestað ef talið var að rökstuddur grunur væri um bótasvik. Ekki voru gefin tímamörk á þeirri frestun og jafngilti það í raun að greiðslur væru stöðvaðar. Þessar auknu heimildir varða persónuréttindi og hagsmuni allra viðskiptavina TR.

Í greinargerð Eiríks Smith, fötlunarfræðings, um skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að byggt var á umdeildri skýrslu danska hugbúnaðar- og ráðgjafarfyrirtækisins KMD frá árinu 2011, og voru niðurstöður hennar yfirfærðar á íslenskt samfélag án nánari athugunar. Skýrsla þessi var harðlega gagnrýnd í Danmörku. Niðurstöður Ríkisendurskoðunar voru byggðar á þýðingarvillu þar sem lagðir voru að jöfnu tveir algjörlega ósambærilegir bótaflokkar hér á landi og í Danmörku.

Samkvæmt eftirfylgniskýrslu Ríkisendurskoðunar til Alþingis frá maí 2016 leiddu auknar eftirlitsheimildir TR til þess að „slíku úrræði (15% álagi á ofgreiddar bætur) og kærum til lögreglu sé sjaldan beitt, að því er virðist einu sinni árið 2015.“ Því er ómögulegt að taka undir fullyrðingu Ríkisendurskoðunar að nauðsynlegt hafi verið að Tryggingastofnun fengi þær auknu eftirlitsheimildir sem veittar voru með lögum í byrjun árs 2014. Samkvæmt tölum frá TR var grunur um „bótasvik“ gefin upp sem ástæða þess að greiðslur voru stöðvaðar í, á bilinu, einu til átján málum á árunum 2011 til 2016. Lítil sem engin umræða hefur hins vegar farið fram um þau réttindi og þær greiðslur sem lífeyrisþegar fara á mis við vegna skorts á upplýsingagjöf TR.

Frumvarpið sem fól í sér hertar eftirlitsheimildir til handa Tryggingastofnun, og réttlætt var með tilvísun í skýrslu Ríkisendurskoðunar, var samþykkt í atkvæðisgreiðslu á Alþingi. Skýrslan hafði mikil og neikvæð áhrif á það hvernig rætt var um stöðu örorkulífeyrisþega. Gífuryrði áhrifafólks í samfélaginu leiddu umræðuna. Í stað þess að nýta tækifærið og fara í upplýsta umræðu og nauðsynlegar kjarabætur til handa örorkulífeyrisþegum, voru þeir gerðir tortryggilegir og ýjað að því að þeir ættu  ekki skilið að fá hækkanir þar sem þeir væru margir hverjir að fá örorkulífeyri með sviksömum hætti. Þá var þessi umræða notuð til að réttlæta að kjör örorkulífeyrisþega ætti ekki að bæta og að nægilegt þætti að lífeyrir væri jafn lágmarkslaunum eða lægri. Árið 2016 hafði helmingur örorkulífeyrisþega innan við 215 þúsund krónur á mánuði í heildartekjur eftir skatt.

Af hálfu ÖBÍ er kallað eftir faglegum vinnubrögðum opinberra stofnana í skýrslugerð sem þessari. Þar leyfist ekki að kastað sé til höndum þegar málin tengjast  örorkulífeyrisþegum eða fólki almennt. Þessi vinnubrögð og orðræða vísar á það eitt að ekki er komið fram við örorkulífeyrisþega af sæmd og ekki er  borin nægileg virðing fyrir þeim málefnum sem þá varða eða brenna á þeim.

Þá  þykir athyglisvert að Ríkisendurskoðun hafi í svörum við spurningum Kastljóss aðeins harmað möguleg áhrif þýðingarvillu í skýrslu sinni og misskilning við túlkun hennar. Í skriflegu svari segir Ríkisendurskoðun:

„Ekki var gengið út frá því (í skýrslunni) að umfang bótasvika væri endilega jafn hátt hér á landi og í Danmörku eða í Bretlandi þar sem ekkert mat um slíkt hefur farið fram. Danska skýrslan var því einungis notuð sem dæmi en skipti ekki sköpum varðandi þær ábendingar Ríkisendurskoðunar sem fram komu.“

Í Kastljósi var hins vegar bent á að í fréttatilkynningu Ríkisendurskoðunar, þegar skýrslan kom út, segi:

Ætla má að bótasvik í almannatryggingakerfinu hafi numið allt að 3,4 milljörðum króna árið 2011. Ríkisendurskoðun telur að efla þurfi eftirlit á þessu sviði, m.a. með því að rýmka lagaheimildir Tryggingastofnunar til að afla og vinna með persónuupplýsingar.“

Mikilvægt að hafa eftirlit í samfélaginu en því þarf að sinna með skynsamlegum hætti, án þess þó að taka einn hóp í þjóðfélaginu út fyrir sviga og láta aðrar og harðari reglur gilda um hann. Gæta skuli friðhelgi einkalífs fólks, tryggja persónuvernd og virða sjálfsákvörðunarrétt fólks.

Miðað við niðurstöðurnar í umfjöllun Kastljóss er ljóst að forsendur eru nú fyrir ríflegum kjarabótum til handa örorkulífeyrisþegum. Markmiðið í samfélaginu hlýtur ætíð að vera að tryggja fólki mannsæmandi kjör, lífsskilyrði og sómasamlegt líf. Málið snýst, þegar upp er staðið, um fólk en ekki tölur á blaði.