Skip to main content

Spurt og svarað

Breytt örorkulífeyrskerfi

22. júní 2024 samþykkti Alþingi lög sem fela í sér umfangsmiklar breytingar á örorkulífeyriskerfi almannatrygginga. Við hjá ÖBÍ réttindasamtökum höfum fylgst náið með framgangi málsins og unnið svör við algengum spurningum.

Aðeins neðar á þessari síðu eru svör við almennum, algengum spurningum sem varða bifreiðastyrki, erfðamál, skuldamál og fleira 

* 1. september 2025

Hvenær tekur nýtt kerfi við?

» Breytingarnar munu taka gildi 1. september 2025. 

» Örorkumöt sem verða í gildi 31. ágúst 2025 (deginum áður en nýtt kerfi verður tekið í notkun) halda gildi sínu.

* Hækkanir og skerðingar

Hvað þýðir hið breytta greiðslukerfi fyrir mig? Mun lífeyrir minn hækka?

Örorkulífeyrir mun hækka hjá langflestum örorkulífeyristökum. Þó er mikilvægt að taka fram að frumvarpið sneri ekki sérstaklega að kjarabótum og munu ÖBÍ réttindasamtök berjast áfram fyrir þeim, enda rík þörf á. 

 Ekki er hægt að svara því með almennum hætti hvernig greiðslur breytast. Kemur það til af því að greiðslur hvers og eins greiðslutaka eru samsettar á marga mismunandi vegu. Þættir sem hafa áhrif á upphæð greiðslna eru m.a. hvort greiðslutaki býr einn eða með öðrum, aldri greiðslutaka við fyrsta örorkumat, öðrum greiðslum sem greiðslutaki fær, s.s. atvinnutekjum og greiðslum frá lífeyrissjóðum, svo eitthvað sé nefnt.  

Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið hefur sett upp » reiknivél vegna fyrirhugaðra breytinga á örorkulífeyriskerfinu til að áætla greiðslur samkvæmt nýja kerfinu. 

Hvernig skerðast örorkulífeyrisgreiðslur í breyttu kerfinu?  

Í breyttu örorkulífeyriskerfi er eitt skerðingarhlutfall, 45% reiknað á þær heildargreiðslur sem greiðslutaki fær úr kerfinu. Upphæðir greiðslna og viðmiðunarfjárhæða hér að neðan miðast við árið 2024 og taka breytingum í samræmi við fjárlög ár hvert.

Almennt frítekjumark gildir gagnvart öllum skattskyldum tekjum, þ.m.t. launatekjur, lífeyrissjóðstekjur og fjármagnstekjur.

  • Almennt frítekjumark fyrir örorkulífeyri og hlutaörorkulífeyri er 100.000 kr. á mánuði.
  • Almennt frítekjumark fyrir sjúkra- og endurhæfingarlífeyri er 40.000 kr. á mánuði.
  • Einstaklingur með hlutaörorkulífeyri er auk þess með frítekjumark vegna atvinnutekna að fjárhæð 250.000 kr. og því samanlagt með 350.000 kr. frítekjumark.
  • Hjá þeim sem eru á sjúkra- og endurhæfingalífeyri er frítekjumark vegna atvinnutekna 160.000 kr. á mánuði. Þau sem fá hlutaörorku og virknistyrk missa styrk fyrir þann dag sem viðkomandi vinnur.

Dæmi

Einstaklingur með örorkulífeyrir (380.000 kr.), aldursviðbót (21.000 kr.) og heimilisuppbót (63.000 kr.) væri með samtals 464.000 kr. á mánuði án tekjuskerðinga.
Auk þess er viðkomandi með 120.000 kr. skattskyldar tekjur annars staðar frá.
Almennt frítekjumark er 100.000 kr. því reiknast skerðing af 20.000 kr. (tekjum umfram frítekjumark). Skerðingarhlutfall er 45%.
Tekjuskerðing: 20.000 kr. *45% = 9.000 kr.
Greiðslurnar frá TR lækka um 9.000 kr. og eru því 455.000 kr. (464.000 – 9.000 = 455.000)

Tafla

Í neðangreindri töflu má sjá upphæðir, frítekjumörk og skerðingarhlutfall fyrir mismunandi aðstæður greiðslutaka. 

Sjónlýsing töflu. Fólk sem fær örorkulífeyrir mun fá í grunngreiðslu lífeyris krónur 380 þúsund. Heimilisuppbótin mun verða 63 þúsund krónur. Aldursviðbótin er 30 þúsund krónur. Almennt frítekjumark er 100 þúsund krónur fyrir öll sem fá örorkulífeyri og skerðingarhlutfall tekna er 45 prósent. Frítekjumark vegna atvinnutekna er núll. Fólk sem fær sjúkra- og endurhæfingargreiðslur mun fá í grunngreiðslu lífeyris krónur 380 þúsund. Heimilisuppbótin mun verða 63 þúsund krónur. Aldursviðbótin er núll. Almennt frítekjumark er 40 þúsund krónur. Frítekjumark vegna atvinnutekna verður 160 þúsund krónur. Skerðingarhlutfall tekna er 45 prósent. Fólk sem fær hlutaörorkulífeyri, það er 82 prósent af örorkulífeyri mun fá í grunngreiðslu lífeyris 311 þúsund og 600 krónur. Heimilisuppbót, 63 þúsund krónur. Aldursviðbótin er 30 þúsund. Almennt frítekjumark er 100 þúsund krónur. Frítekjumark vegna atvinnutekna verður 250 þúsund krónur. Skerðingarhlutfall tekna er 45 prósent. Þau sem virknistyrk sem er 18 prósent af örorkulífeyri munu fá í lífeyri að upphæð 68 þúsund og 400 krónur. Enga heimilisbót, aldursviðbót eða annað. Hvað varðar frítekjumark vegna atvinnutekna þá mun hver dagur reiknast frá ef fólk fær tilfallandi vinnu.

 

Get ég lent í því að greiðslur falli niður í breyttu kerfi t.d. við að fara úr endurhæfingu yfir í örorkulífeyri?

Við gerð þeirra laga sem nú hafa verið samþykkt hafa stjórnvöld lagt áherslu á að tryggja samfellu í hinu breytta örorkulífeyriskerfi til að fyrirbyggja ótta fólks við tekjumissi og að koma í veg fyrir að málum einstaklinga verði ekki sinnt þegar mál þeirra færast frá einni opinberri stofnun til annarrar. Er það m.a. gert með tilkomu miðlægrar þjónustugáttar sem er ætlað að vera vettvangur bætts samstarfs hinna opinberu stofnana.

ÖBÍ telur að hið breytta kerfi muni tryggja betur samfellu í þjónustu og greiðslum en nú er. ÖBÍ telur lögin þó ekki nógu skýr til að hægt sé að fullyrða um hvort greiðslur muni falla niður eða ekki í einstökum málum. Það verði reynslan af hinu breytta kerfi að leiða í ljós. 

Aldursviðbót í breyttu kerfi

Ég fæ greidda aldursviðbót, mun ég fá hana greidda áfram í breyttu örorkulífeyriskerfi?

Ef þú fékkst fyrsta mat á aldrinum 18-43 ára og ert að fá örorku- eða hlutaörorkulífeyri þá getur þú fengið greidda aldursviðbót. Hámarksfjárhæð aldursviðbótar, 30.000 kr. miðast við fyrsta mat á aldrinum 18-24 ára.

Aldursviðbót lækkar um 5% fyrir hvert ár eftir það. Einstaklingur sem fær fyrsta mat 25 ára fær því 95% af aldursviðbót.

Aldursviðbót verður ekki greidd með sjúkra og endurhæfingargreiðslum.

Atvinnuþátttaka, hlutaörorkulífeyrir og virknisstyrkur

Hvað er virknisstyrkur?

Virknistyrkur er styrkur sem fólk á hlutaörorkulífeyri á rétt á meðan á atvinnuleit stendur. Einstaklingar sem metnir verða með 26-50% virkni á vinnumarkaði skv. samþættu sérfræðimati munu fá hlutaörorkulífeyri og munu þurfa að finna hlutastarf til að auka framfærslugetu sína.

Virknisstyrkur getur numið 68.400 kr. á mánuði (fyrir skatt). Hægt er að fá virknisstyrk greiddan í allt að 24 mánuði. Ef fólk hefur ekki fengið atvinnu við hæfi á 24 mánuðum, getur það óskað eftir nýju samþættu sérfræðimati og eiga möguleika á að hefja nýtt 24 mánaða tímabil með virknistyrk.

Hvað er hlutaörorka / hlutaörorkulífeyrir?

Hlutaörorkulífeyrir er nýr greiðsluflokkur sem kemur til framkvæmda við gildistöku laganna 1. september 2025. Á sama tíma fellur úr lögunum örorkustyrkur sem hingað til fólk sem metið er með 50-74% örorku á rétt á.

Réttur til hlutaörorkulífeyris er bundinn því skilyrði að geta umsækjanda til virkni á vinnumarkaði samkvæmt samþættu sérfræðimati sé metin 26–50% vegna langvarandi eða alvarlegs heilsubrests eða fötlunar. Upphæð hlutaörorku er 82% af fullum örorkulífeyri.

  • Þau sem fá greiddan hlutaörorkulífeyri hafa sérstakt frítekjumark upp að 250.000 kr. auk hins almenna frítekjumarks sem er 100.000 kr. og því samanlagt 350.000 kr. frítekjumark.
  • Þau sem fá hlutaörorkulífeyri og eru ekki með atvinnu geta fengið greiddan virknistyrk ef þau eru í virkri atvinnuleit sem nemur mismuninum á fullum örorkulífeyri og hlutaörorkulífeyri.

Samkvæmt stjórnvöldum er tilgangur hlutaörorkulífeyris að bæta hlutaðeigandi það upp að hann getur ekki aflað sér tekna með fullri þátttöku á vinnumarkaði. Hlutaörorkulífeyri sé því í senn ætlað að veita fólki í þessari stöðu fjárhagslegan stuðning sem nemur 82% af örorkulífeyri en um leið fela í sér hvata til atvinnuþátttöku með frítekjumörkum vegna atvinnutekna.

Þarf ég að fara út á vinnumarkaðinn í breyttu kerfi?

Engum ber skylda til að fara út á vinnumarkaðinn en markmið ríkisstjórnarinnar með hinum nýsamþykktu lögum er m.a. að búa til hvata fyrir fólk með skerta starfgetu til að vera virk á vinnumarkaði. Það mun velta á því hver niðurstaða samþætts sérfræðimats í máli hvers einstaklings verður hvaða áhrif það hefur að velja að vera ekki virkur á atvinnumarkaði.

Einstaklingar sem gangast undir samþætt séfræðimat og verða metnir með 26-50% getu til virkni á vinnumarkaði eiga rétt á hlutaörorkulífeyri sem er 82% af upphæð fulls örorkulífeyris. Til að fá greiddan virknisstyrk sem nemur þeirri upphæð sem vantar uppá til að fá fullan örorkulífeyri er gerð krafa um að viðkomandi sé í virkri atvinnuleit.

Hvað ef ég finn ekki starf við hæfi?

Ef þú finnur ekki starf við hæfi getur þú fengið sérstakan einstaklingsmiðaðan stuðning hjá Vinnumálastofnun við að leita að starfi. Ef þú ert metinn með 26-50% getu til virkni á vinnumarkaði samkvæmt samþættu sérfræðimati munt þú eiga rétt á að fá greiddan hlutaörorkulífeyri sem er 82% af fullum örorkulífeyri. Ef þú ert í virkri atvinnuleit átt þú rétt á að fá greiddan virknistyrk sem nemur því sem vantar uppá til að fá fullan örorkulífeyri. Virknistyrkur getur verið greiddur í allt að 24 mánuði og hægt verður að óska eftir nýju samþættu sérfræðimati ef ekki tekst að fá starf við hæfi og hefja nýtt 24 mánaða tímabil með virknistyrk.

Verð ég að þiggja hvaða starf sem mér er boðið?

Í hinum nýsamþykktu lögum eru ákvæði um aðstæður sem geta gert það af verkum að greiðsla virknistyrks fellur niður. Að vera í virkri atvinnuleit er skilyrði fyrir því að fá greiddan virknistyrk.

Ef þú ert í virkri atvinnuleit og hafnar starfi sem þér sannanlega býðst eftir að hafa verið í atvinnuleit í a.m.k. tvo mánuði frá því þú sóttir um að fá greiddan virknistyrk fellur virknistyrkurinn niður næstu tvo mánuði.

Hið sama á við ef þú hafnar atvinnuviðtali sem þér sannanlega býðst, sinnir ekki atvinnuviðtali án ástæðulausrar tafar, hafnar þátttöku í vinnumarkaðsúrræðum eða lætur hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar um það sem kann að hafa áhrif á greiðslu virknistyrks til þín. Virknistyrkur fellur niður til lengri tíma verði endurtekning á framangreindu.

Rétt er að taka fram að ÖBÍ gagnrýndi þessi ákvæði harðlega við meðferð málsins á Alþingi. ÖBÍ beitti sér fyrir breytingum sem að nokkru fengust samþykktar og mun ÖBÍ beita sér áfram fyrir frekari umbótum.

Þær breytingar sem samþykktar voru fela m.a. í sér að þrátt fyrir framangreint fellur virknistyrkurinn ekki niður hafi réttlætanlegar ástæður verið fyrir því að starfi, atvinnuviðtali eða þátttöku í vinnumarkaðsúrræði var hafnað eða að atvinnuviðtali var ekki sinnt án ástæðulausrar tafa eða látið hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar um það sem kann að hafa áhrif á greiðslu virknistyrks til viðkomandi.

Við mat á því hvort réttlætanlegar ástæður hafi verið fyrir hendi skal Vinnumálastofnun líta til aldurs atvinnuleitanda, félagslegra aðstæðna sem tengjast skertri vinnufærni eða umönnunarskyldu vegna ungra barna eða annarra náinna fjölskyldumeðlima.

Enn fremur skal Vinnumálastofnun líta til heimilisaðstæðna atvinnuleitanda þegar hann hafnar starfi fjarri heimili sínu. Þá er skal stofnunin taka tillit til aðstæðna atvinnuleitanda sem getur ekki sinnt tilteknum störfum vegna skertrar getu til virkni á vinnumarkaði samkvæmt samþættu sérfræðimati eða vottorði sérfræðilæknis.

Get ég verið með atvinnutekjur og fengið greiddan virknistyrk?

Ef atvinnuleit þín ber árangur munt þú ekki lengur fá greiddan virknistyrk. Ef einstaklingur sinnir tilfallandi vinnu meðan hann er í atvinnuleit og þiggur virknisstyrk, skerðist virknisstyrkurinn um þann dag sem viðkomandi vinnur, óháð tekjum. Ef 30 dagar eru í mánuði, reiknast hver dagur á 2,280 kr. (68,400/30=2,280). Ef viðkomandi vinnur tvo daga í júní sem er 30 daga mánuður, fær hann 63,440 kr. Hann missir virkisstyrk fyrir tvo daga, samtals 4.560 kr. en á móti heldur hann tekjum sínum sem hann fékk fyrir þessa tveggja daga vinnu

Get ég fengið aðstoð við að finna starf ef ég fæ hlutaörorkulífeyri?

Já. Þau sem fá hlutaörorkulífeyri munu fá sérstaka einstaklingsmiðaðan stuðning frá Vinnumálastofnun við atvinnuleit. Sérstökum atvinnulífstenglum verður fjölgað hjá Vinnumálastofnun til að aðstoða fólk með hlutaörorku við að finna vinnu.

Barnalífeyrir

Verða gerðar breytingar á barnalífeyri með breyttu greiðslukerfi?

Engar breytingar voru gerðar á barnalífeyri með hinu breytta greiðslukerfi. 

Búseta erlendis

Mun fyrri búseta mín erlendis hafa áhrif á greiðslur mínar?

Ekki voru gerðar breytingar varðandi áhrif búsetu erlendis á greiðslur samkvæmt lögum um almannatryggingar. Sem fyrr munu greiðslur örorkulífeyrir því skerðast í hlutfalli við búsetu á Íslandi fyrir fyrsta mat (búsetuhlutfall). Fullt búsetuhlutfall miðast við 40 ára búsetu á Íslandi á aldrinum 16-67 ára.

Ég bý erlendis og fæ örorkulífeyri frá Tryggingastofnun. Munu verða breytingar á greiðslur til mín við lagabreytinguna 1. september 2025?

  • Ef þú hefur gildandi örorkumat hinn 31. ágúst 2025 (deginum áður en nýtt kerfi verður tekið í notkun) getur þú haldið því mati varanlega.
  • Ef þú varst að fá greiðslur úr tveimur greiðsluflokkum, n.t.t örorkulífeyri og tekjutryggingu, þá mun í stað þeirra koma einn greiðsluflokkur, örorkulífeyrir.
  • Ef þú fékkst fyrsta örorkumat fyrir 44 ára aldur munt þú einnig fá greidda aldursviðbót .

Nýr greiðsluflokkur, örorkulífeyrir, að fjárhæð 380.000 kr. er tilkominn með sameiningu þriggja greiðsluflokka (örorkulífeyri, tekjutrygging og framfærsluuppbót). Sökum þess að framfærsluuppbótin fellur út þegar lögin taka gildi, munu greiðslur til örorkulífeyristaka búsettra erlendis (innan EES-svæðisins) hækka við lagabreytinguna.

Heimilisuppbót í breyttu kerfi

Ég fæ greidda heimilisuppbót. Mun ég fá hana greidda áfram í breyttu örorkulífeyriskerfi?

Ef þú ert einhleyp/ur og býrð ekki með öðrum fullorðnum einstaklingi getur þú átt rétt á heimilisuppbót.

Foreldrar ungmenna á aldrinum 18-25 ára geta átt rétt á heimilisuppbót ef ungmenni, sem er heimilismaður, er í námi eða starfsnámi.

Upphæð heimilisuppbótar í breyttu kerfi verður 63.000 kr.

Samþætt sérfræðimat

Hvað er samþætt sérfræðimat?

Samþætt sérfræðimat er heildrænt mat á getu einstaklinga til virkni á vinnumarkaði og er á ábyrgð Tryggingastofnunar. Með breyttu kerfi mun samþætt sérfræðimat leysa núverandi örorkumat af hólmi.

Í núverandi kerfi metur tryggingayfirlæknir örorku þeirra sem sækja um örorkulífeyri til Tryggingastofnunar í ljósi líkamlegrar og andlegrar færniskerðingar þeirra samkvæmt staðli sem er byggður á læknisfræðilega viðurkenndum sjúkdómum eða fötlun.

Samþætt sérfræðimat er staðlað mat og byggir á ICF, alþjóðlegu flokkunarkerfi um færni, fötlun og heilsu. Samkvæmt flokkunarkerfinu er færni afleiðing af samspili heilsufars og aðstæðna einstaklingsins. Þegar geta til virkni á vinnumarkaði verður metin verður þar af leiðandi, auk heilsufarsþátta, litið til færni til athafna og þátttöku, umhverfisþátta og að lokum einstaklingsbundinna þátta. Með umhverfisþáttum er t.d. átt við hjálpartæki, stuðning, tengsl, viðhorf og möguleika á vinnumarkaði. Að matinu mun koma þverfaglegur hópur sérfræðinga, þ.m.t. læknar, sjúkra- og iðjuþjálfarar, félagsráðgjafar, sálfræðingar og þroskaþjálfar.

Samþætt sérfræðimat mun byggja á gögnum um heilsufarsþætti og endurhæfingu einstaklingsins, viðtali hans við viðeigandi sérfræðinga (s.s. sjúkraþjálfara, lækni, sálfræðing, iðjuþjálfarar) nema það sé bersýnilega óþarft, og mati einstaklingsins sjálfs og upplifun hans á aðstæðum sínum, þar á meðal heilsu sinni og væntingum. Við framkvæmd matsins verður haft að leiðarljósi að íþyngja einstaklingum ekki að óþörfu. Það ber að taka fram að vinnu við samþætt sérfræðimat er enni í gangi og hvað endanlega mun felast í matinu liggur ekki fyrir.

Samþætt sérfræðimat geta gefið þrjár niðurstöður.

  1. Minna en 25% geta til virkni á vinnumarkaði = Réttur til örorkulífeyris.
  2. Geta til virkni á vinnumarkaði er metin 26-50%= Réttur til hlutaörorkulífeyris og virknisstyrks.
  3. Meira en 50% geta til virkni á vinnumarkaði = Ekki réttur til framfærslustuðnings úr almannatryggingum.

Þarf ég að fara í samþætt sérfræðimat?

Ef þú ert með gildandi örorkumat 31. ágúst 2025 (deginum áður en nýtt kerfi verður tekið í notkun) getur þú valið að halda því mati varanlega. Ef þú munt telja þörf á að fara í nýtt mat, hvenær sem er, getur þú óskað eftir að gangast undir samþætt sérfræðimat og fellur þá eldra mat úr gildi.
Ef samþætt sérfræðimat er bersýnilega óþarft að mati Tryggingarstofnunar er stofnuninni heimilt að víkja frá skilyrði um að slíkt mat fari fram.

Hvernig sæki ég um samþætt sérfræðimat?

Tryggingastofnun ber ábyrgð á gerð samþætts sérfræðimats. Samþætt sérfræðimat er grundvöllur fyrir greiðslum örorkulífeyris og hlutaörorkulífeyris og sótt er um slíkar greiðslur hjá Tryggingastofnun.

Sjúkra- og endurhæfingargreiðslur

Ég fæ greiddan endurhæfingalífeyri? Verður einhver breyting á fyrirkomulagi endurhæfingarlífeyris?

Með breyttu kerfi koma endurhæfingargreiðslur í stað endurhæfingarlífeyris.

Kerfisbreytingunni er ætlað að tryggja að endurhæfingargreiðslur verði samfelldar greiðslur meðan á endurhæfingu stendur, í allt að 5 ár.

Ef um er að ræða einstakling í mjög viðkvæmri stöðu, sem þarfnast frekari meðferðar og endurhæfingar er hægt að framlengja greiðslurnar um 2 ár.  Á meðan beðið er eftir að endurhæfing geti hafist á kerfisbreytingin að tryggja samfellu í greiðslum.

Að auki getur greiðslutaki viðhaldið endurhæfingagreiðslum í allt að þrjá mánuði ef viðkomandi er skráður í atvinnuleit.

Eins og áður er skilyrði fyrir greiðslunum að umsækjandi eigi ekki rétt eða hafi fullnýtt veikindarétt sinn hjá vinnuveitenda og einnig fullnýtt greiðslur úr sjúkrasjóðum stéttarfélagi.

Fyrir hverja eru sjúkra- og endurhæfingargreiðslur?

Sjúkra- og endurhæfingargreiðslur eru fyrir einstaklinga á aldrinum 18 til 66 ára, búsetta og tryggða hér á landi, sem eru með langvarandi og alvarlegan heilsubrest eða fötlun.

Forsenda fyrir greiðslunum er að  heilsubrestur sé afleiðing af sjúkdómi, slysi eða áfalli. Þá skal miða við að heilsubrestur eða fötlun valdi því að umsækjandi geti hvorki stundað vinnu né nám. Þó getur nám eða vinna verið hluti af endurhæfingaráætlun.

Hægt er að greiða sjúkra- og endurhæfingargreiðslur ef umsækjandi bíður eftir að fá viðurkennda meðferð eða eftir að endurhæfing geti hafist. Á það einnig við ef heilsubrestur kemur í veg fyrir að meðferð eða endurhæfing geti hafist.

Hvað ef ég er of veik/veikur til að fara í endurhæfingu?

Þá gætir þú átt rétt á sjúkragreiðslum sem eru ætlaðar einstaklingum sem eru að bíða eftir að meðferð eða endurhæfing hefjist, eða teljast enn ófærir um að taka þátt í meðferð eða endurhæfingu.

Sama á við ef heilsubrestur, slys eða áfall koma í veg fyrir að meðferð eða endurhæfing geti hafist. Forsenda fyrir slíkum greiðslum er að heilsubrestur umsækjanda sé afleiðing sjúkdóms, slyss eða áfalls og staðfesting á meðferð eða endurhæfingaráætlun liggi fyrir frá þjónustuaðila.

Örorkumat

Ég er með tímabundið örorkumat í dag. Mun ég þurfa að fara í endurmat í breyttu örorkulífeyriskerfi?

Ef þú hefur gildandi örorkumat 31. ágúst 2025 (deginum áður en nýtt kerfi verður tekið í notkun) getur þú haldið því mati varanlega. Ef þú munt telja þörf á að fara í nýtt mat, hvenær sem er, getur þú óskað eftir að gangast undir samþætt sérfræðimat og fellur þá eldra mat úr gildi.

Algengar spurningar

Fjöldi fyrirspurna berast ÖBÍ um hin ýmsu réttindamál. Hér að neðan má sjá algengar spurningar og svör. Svörin byggja að mestu á upplýsingum sem eru aðgengilegar á upplýsinga- og þjónustuveitu hins opinbera á Ísland.is  » Sjá einnig: Þín réttindi – ÖBI (obi.is)

Aðgengi (innanhúss og utanhúss)

Hverju þarf ég að huga að til að gera húsnæði aðgengilegt ? 

„Það er að ýmsu að hyggja þegar kemur að aðgengi innandyra og hefur Mannvirkjastofnun gefið út leiðbeiningar þar sem tilgreint er hvernig mannvirki eru gerð aðgengileg samkvæmt Byggingarreglugerð 112/2012“.

» Leiðbeiningar um aðgengi innandyra (sjalfsbjorg.is)

»  Byggingarreglugerð (byggingarreglugerd.is)

Hver á breidd P merktra bílastæða að vera? 

„Bílastæði hreyfihamlaðra skulu vera 3,8 m. x 5,0 m. að stærð. Fimmta hvert stæði fyrir hreyfihamlaða skal vera 4,5 m x 8,0 m að stærð (fyrir ferðaþjónustubíla með lyftu að aftan).“

» Leiðbeiningar um aðgengi utandyra (sjalfsbjorg.is)

» Byggingarreglugerð (byggingarreglugerd.is)

Hver á hallinn að vera á skábrautum?

„Skábrautir ættu ekki að vera brattari en 1:20 (5%) á leið sem er styttri en 3 m. Sé ekki hægt að koma því við að hallinn sé 1:20 má hafa hallann að mesta lagi 1:12 (8,3%).“

» Leiðbeiningar um aðgengi utandyra (sjalfsbjorg.is)

» Byggingarreglugerð (byggingarreglugerd.is)

Ég er nýfarin að nota hjólastól og þarf því að breyta húsnæðinu og gera aðgengilegra. Get ég sótt um styrk vegna framkvæmdanna?

Því miður höfum við ekki upplýsingar um styrki sem hægt er að sækja um til að gera húsnæði aðgengilegt.

Húsnæðis og mannvirkjastofnun veitir fólki með hreyfihömlun lán til að gera „breytingar á húsnæði eða kaupa dýrara húsnæði vegna sérþarfa.“

» Sérþarfalán til breytinga á húsnæði fyrir fatlað fólk | Ísland.is 

Bifreiðastyrkir og bifreiðagjöld

Á ég rétt á bifreiðastyrk?

Ef þú ert til dæmis með hreyfihömlun þá áttu rétt á styrk til að kaupa bíl og breyta bíl á þann hátt að henti þínum þörfum. Kynntu þér hvaða réttindi þú hefur hjá TR og á island.is

» Bifreiðakaup | Tryggingastofnun (island.is)

» Bifreiðastyrkir fyrir hreyfihamlað fólk, blinda og lífeyrisþega | (island.is)

Þú getur einnig fengið styrk til að reka bíl ef þú færð örorku-, endurhæfingar- eða ellilífeyri frá TR.

» Uppbót til að reka bíl lífeyrisþega | (island.is)

Á ég rétt á niðurfellingu bifreiðagjalda?

Já. Öll sem fá lífeyri eða umönnunargreiðslur frá TR vegna örorku barna.

» Bifreiðagjald | Skatturinn – skattar og gjöld

Bílastæði og P merki

Hvar fæ ég P merki í bílinn?

Ef þú ert með hreyfihömlun þá getur þú sótt um » P-merkið, stæðiskort fyrir hreyfihamlað fólk á Ísland.is (island.is)

» Notkun stæðiskorta fyrir hreyfihamlað fólk – ÖBI (obi.is)

Er ókeypis fyrir mig í bílastæðahús?

Í mars 2023 féll Reykjavíkurborg frá „gjaldtöku af handhöfum stæðiskorta fyrir hreyfihömluð í bílastæðahúsum sem rekin eru á vegum borgarinnar.

Fyrst um sinn munu handhafar stæðiskorta fyrir hreyfihömluð þurfa að hringja í stjórnstöð í síma 411 3403 og gefa upp númer stæðiskorts síns og bílnúmer við komu í bílastæðahús.“ 

Sjá nánar frétt á vef Reykjavíkurborgar  Reykjavíkurborgar: „Fallið frá gjaldtöku af handhöfum stæðiskorta í bílastæðahúsum Reykjavíkurborgar“

Búseta erlendis

Ég bjó erlendis í 10 ár en flutti heim eftir að greindist með sjúkdóm. Hver eru mín réttindi?

Réttindi til örorku- og endurhæfingarlífeyris almannatrygginga ávinnast í gegnum búsetu (lögheimili) á Íslandi.

Fullar greiðslur (100% búsetuhlutfall) miðast við 40 ára búsetu hér á landi þegar umsækjendur eru á milli 16-67 ára. Ef þeirri tímalengd er ekki náð lækkar hlutfall greiðslna í samræmi þann tíma sem viðkomandi hefur búið á Íslandi.

Einstaklingar búsettir erlendis eftir 16 ára aldur og fyrir upphaf endurhæfingar- og/eða örorkulífeyrisgreiðslna geta því verið að fá greiðslur miðað við skert búsetuhlutfall. Upplýsingar um búsetuhlutfall (%) umsækjanda eru að finna í bréfum TR um samþykki örorkumats. Hægt er að óska eftir útreikningi á búsetuhlutfalls hjá TR og að fá leiðbeiningar um að sækja um lífeyri frá fyrra búsetulandi. Þetta á við um umsækjendur sem voru búsettir í öðru EES-landi og eru búsettir á Íslandi. Fyrir þessa einstaklinga annast TR um móttöku umsókna og almenna milligöngu vegna lífeyrisumsókna erlendis.

Einstaklingar sem eru að fá greitt miðað við lægra búsetuhlutfall en 100% geta óskað eftir upplýsingum hjá TR um hvernig búsetuhlutfallið er reiknað út og skýringar á því hvers vegna það er ekki hærra og beðið um leiðbeiningar.

 

Endurhæfingarlífeyrir

Ég fæ endurhæfingarlífeyri. Hef ég sömu réttindi og þau sem fá örorkulífeyri?

Þú greiðir sama gjald fyrir heilbrigðisþjónustu og örorkulífeyristakar (reglugerð nr. 1551/2023).

Hins vegar er ekki gefið út kort sambærilegt við örorkukortið til að framvísa hjá fyrirtækjum sem veita öryrkjum afslátt.

» Endurhæfingarlífeyrir | Ísland.is

Erfðamál

Hefur arfur áhrif á útreikning örorkulífeyris?

Eignastaða hefur ekki áhrif á útreikning örorkulífeyris, aðeins skattskyldar tekjur. Arfur hefur því ekki áhrif á útreikning örorkulífeyris. Hins vegar geta fjármagnstekjur sem stafa af arfi, haft áhrif.

Dæmi

Þú erfir íbúð, selur hana og leggur andvirðið í banka. Innistæða þess reiknings ber vexti sem eru skattskyldar fjármagnstekjur. Þær tekjur koma til frádráttar við útreikning örorkulífeyris, á sama hátt og aðrar skattskyldar tekjur sem þú gætir haft, t.d. af vinnu.

Fasteignagjöld

Á ég rétt á afslætti af fasteignagjöldum?

Sum sveitarfélög veita fólki sem sem lifa af örorkulífeyri afslátt af  fasteignagjöldum. Fjárhæð afsláttar er misjöfn sem og reglur viðkomandi sveitarfélags um tekjumörk umsækjenda.

» Fasteignagjöld og tryggingar | Ísland.is (island.is)

» Afsláttur af fasteignaskatti | Hafnarfjörður (hafnarfjordur.is)

» Afsláttur lífeyrisþega af fasteignagjöldum | Reykjavik

» Gjaldskrá 2024 | Upplýsingavefur sveitarfélagsins Reykjanesbæjar (reykjanesbaer.is)

Húsnæðismál

Útvegar ÖBÍ húsnæði?

ÖBÍ leigir ekki út húsnæði en eitt af fyrirtækjum ÖBÍ gerir það. BRYNJA – leigufélag er sjálfseignarstofnun sem á og rekur leiguhúsnæði fyrir fatlað fólk um allt land.

Einnig má benda á að sveitarfélögin hafa lögbundna skyldu til að útvega fólki húsnæði sem þess þarfnast.

Lyfja- og lækniskostnaður

Ég hef þurft að greiða mikið í lyf og lækniskostnað undanfarið þrátt fyrir greiðsluþáttöku Sjúkratrygginga Íslands. Hvað er til ráða?

Það er hægt að sækja um ívilnun (lækkun tekjuskattsstofns) hjá Skattinum, m.a. vegna veikinda, slysa og ellihrörleika og láta fylgja með reikninga og kvittanir og læknisvottorð. Bæði er hægt að sækja um samhliða framtalsgerð og einnig seinna (jafnvel nokkrum árum seinna) með því að nota eyðublað hjá Skattinum.

Lífeyristakar geta einnig sótt um uppbót á lífeyri hjá TR, sem reyndar fæstir eru að fá sökum þess hversu lág tekjumörkin eru. Það þarf einungis að fylla út umsókn, en enginn fylgigögn. TR fær upplýsingar um lyfjakostnað í gegnum SÍ.

„Almennur venjulegur kostnaður vegna heilbrigðisþjónustu og lyfja telst að jafnaði geta numið samtals 160.000 kr. á ári hjá hverjum og einum en 105.000 kr. í tilviki aldraðra og öryrkja.“

» Lækkun (ívilnun) | Skatturinn – skattar og gjöld

» Viðmiðunarreglur ríkisskattstjóra um ákvörðun á lækkun á skattstofnum (ívilnun) við álagningu opinberra gjalda á árinu 2024

» Greiðsluþátttökukerfi – hvað þarf að borga fyrir heilbrigðisþjónustu? | Ísland.is (island.is)

Nám

Mun lífeyrir frá TR lækka ef ég skrái mig í háskólanám?

Nám á framhalds- eða háskólastigi hefur ekki áhrif á örorkulífeyrisgreiðslur. ÖBÍ hvetur öll sem treysta sér til að skrá sig í nám.

Aftur á móti á það sama ekki við um ef þú færð endurhæfingarlífeyri. Þá þarf námið að geta talist sem liður í endurhæfingu. Hægt er að nálgast upplýsingar um þetta t.d. hjá ráðgjöfum VIRK. Sjá einnig » Nám og  endurhæfingarlífeyrir TR (island.is)

» Fatlað fólk getur sótt um styrk fyrir skólagjöldum og tölvukaupum hjá félagsráðgjöfum flestra sveitarfélaga.

» Þá fá öryrkjar afslátt af skráningargjöldum í Háskóla Íslands

» Þú getur sótt um námsstyrk hjá ÖBÍ

» Hagnýtar upplýsingar um nám og áherslur ÖBÍ um  menntamál

Ráðgjöf

Er ráðgjöf ÖBÍ ókeypis?

Já. Á skrifstofu ÖBÍ býðst fötluðu fólki og aðstandendum þeirra frí ráðgjöf félagsráðgjafa og lögfræðinga um réttindamál.

» Ráðgjöf – ÖBI (obi.is)

» Sveitarfélögin bjóða einnig upp á félagslega ráðgjöf og veita upplýsingar og leiðbeiningar um félagsleg réttindamál.

Ég þarfnast aðstoðar til að fá yfirsýn yfir fjármál mín og skuldir. Hvert á ég að leita til fá fjármálaráðgjöf?

„Umboðsmaður skuldara veitir einstaklingum ókeypis aðstoð við að ná yfirsýn yfir fjármál sín og leita leiða til lausna á fjárhagsvanda.“

» Ráðgjöf | Umboðsmaður skuldara (ums.is)

„Hagsmunasamtök heimilanna veita félagsmönnum óháða ráðgjöf …“

» Óháð ráðgjafarþjónusta (heimilin.is)

Sundlaugar

Frítt er í sundlaugar á höfuðborgarsvæðinu fyrir öll sem fá örorkulífeyri. Það sama á við um aðstoðarmanneskju. Aðeins þarf að framvísa í afgreiðslu » örorkuskírteini frá TR

Einnig er hægt að framvísa » skírteini (sundkorti) sem gefið er út af Sjálfsbjörgu. Skírteinið þarf að endurnýja árlega.

» Um aðgengi að sundlaugum (sjalfsbjorg.is)

Skuld hjá TR

Skuld hjá Tryggingastofnun

Heimild er til að fella niður uppgjörskröfur og er sú heimild háð því skilyrði að sérstakar aðstæður séu fyrir hendi. Við mat á því hvað teljist sérstakar aðstæður er einkum litið til fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna bótaþega og þess hvort hann var í góðri trú um greiðslurétt sinn. Það sama gildir um dánarbú eftir því sem við á.

» Umsókn um niðurfellingu ofgreiðslukröfu TR eða í gegnum mínar síður.

Hægt er að semja um endurgreiðslu á ofgreiðslukröfum frá TR með greiðsludreifingu. Lágmarksendurgreiðsla er kr. 3.000 á mánuði. Að jafnaði er ekki dreift til lengri tíma heldur en 36 mánaða. Hægt er óska eftir lengri tíma sem er háð því skilyrði að rökstyðja þarf að alveg sérstakar aðstæður séu fyrir hendi.

» Greiða skuld við Tryggingastofnun | Ísland.is (island.is)

» Innheimta á skuld | Tryggingastofnun (island.is)

Hægt er að senda beiðni um nýja greiðsludreifingu á Mínum síðum TR  eða með því að hafa samband á innheimta@tr.is

Hvað er hægt að gera til að lækka ofgreiðslukröfur TR vegna eingreiðslna lífeyrissjóða?

Við árlegt uppgjör og endurreikning fær hópur örorkulífeyrisþega ofgreiðslukröfu frá TR vegna eingreiðslu úr lífeyrissjóði. Eingreiðslur lífeyrissjóða ná í ófáum tilvikum marga mánuði og jafnvel nokkur ár aftur í tímann. Ofgreiðslukröfurnar geta numið háum upphæðum og komið mjög illa við lífeyrisþega í þessari stöðu. En hvað er til ráða?

1. Hægt er að óska eftir útreikningi hjá TR á dreifingu eingreiðslna

Örorkulífeyrisþegar í þessari stöðu geta haft samband við TR og óskað eftir útreikningi á því hvort það komi betur út að láta dreifa eingreiðslunni á það tímabil sem hún er greidd fyrir eða ekki. Þetta á eingöngu við ef eingreiðsla er einnig fyrir árið eða árin á undan (t.d. einstaklingur fær eingreiðslu á árinu 2021 fyrir allt árið eða hluta ársins 2020). Til að TR geti afgreitt beiðnina þarf að senda þeim sundurliðun eingreiðslunnar sem þú fékkst frá lífeyrissjóðnum (eða lífeyrissjóðunum ef um eingreiðslu frá fleiri en einum sjóði er að ræða), þar sem fram kemur upphæð greiðslna fyrir hvern og einn mánuð og heildarupphæð greiðslna fyrir hvert ár.

2. Hægt er að óska eftir að Skatturinn taki skattframtöl upp

Í þeim tilvikum sem það kemur betur kemur út að láta dreifa eingreiðslunni er hægt að óska eftir því hjá Skattinum að framtölin sem um ræðir verði tekin upp aftur og eingreiðslunni dreift á árin. Með beiðninni til Skattsins þarf einnig að fylgja áðurnefnd sundurliðun lífeyrissjóðsgreiðslna. Mjög mikilvægt er að hafa í huga að ef eingreiðslunni er dreift mun stofn til útreiknings tekjuskatts og útsvars hækka þau ár sem tekjunum er dreift á og lækka árið sem eingreiðslan var greidd. Slíkt getur haft áhrif til lækkunar greiðslna, s.s. barnabóta, húsaleigubóta, vaxtabóta, þau ár sem tekjuskattsstofn hækkar. Við bendum því fólki á að kynna sér þau mál vel hjá Skattinum. Einnig að fá útreikning frá TR áður en óskað er eftir endurupptöku framtala hjá Skattinum.

3. Óska eftir nýjum endurreiknuðum reikningi frá TR

TR getur endurreiknað uppgjör eftir að niðurstaða frá Skattinum hefur borist. Tilgangur þessa fyrir örorkulífeyrisþega er að fá ofgreiðslukröfu, við uppgjör ársins sem eingreiðsla var greidd, lækkaða og þá oft verulega. Slíkt borgar sig að sjálfsögðu ekki nema að útreikningar sýni að við dreifinguna muni ekki myndast hærri kröfur fyrir árin á undan, þ.e. árin sem eingreiðslunni er dreift á.

Einungis lífeyrissjóðstekjur sem greiddar eru fyrir tímabil eftir að greiðslur hófust hjá TR eiga að hafa áhrif til lækkunar greiðslna frá TR. Ef greiðslur frá lífeyrissjóði ná lengra aftur í tímann en til upphafstíma greiðsla sem þú fékkst frá TR, þá er líklegra að betur komi út að láta dreifa eingreiðslunni.

Dæmi: Örorkulífeyrisþegi fær eingreiðslu frá lífeyrissjóði í desember 2021. Þessi einstaklingur fær fyrstu greiðslur frá TR (endurhæfingarlífeyri) frá 1. apríl 2020. Lífeyrissjóðsgreiðslurnar ná hins vegar aftur til 1. nóvember 2019. Lífeyrissjóðstekjur fyrir tímabilið frá nóvember 2019 til apríl 2020 eiga ekki að hafa áhrif á útreikning TR þar sem þær eru greiddar fyrir tímabil áður en þú mat og byrjaðir að fá greiddan endurhæfingarlífeyri frá TR.

Skuldamál og gjaldþrot

Að semja um almennar skuldir

Þú getur haft samband við kröfuhafann með því að hringja, senda tölvupóst eða mæta á staðinn. Láttu vita að þú getir ekki staðið í fullum skilum og að þú viljir kanna möguleika þína á að endursemja eða gera nýja greiðsluáætlun. Vertu viðbúin/-n því að veita kröfuhafanum upplýsingar um fjárhagsstöðu þína til að sýna fram á hvað þú ræður við að greiða.

Ef greiðslugeta er til staðar skaltu kanna möguleika þína á að fá að endurgreiða skuldina á lengri tíma og lækka þannig mánaðarlegar afborganir.

Ef um tímabundinn vanda er að ræða gæti samningstillagan verið sú að greiða tímabundið lægri afborganir af skuldinni, t.d. að greiða aðeins vexti en fá að fresta afborgunum. Eftir tiltekinn tíma hæfust fullar greiðslur á ný. Annaðhvort væri hægt að halda upphaflegum lánstíma og dreifa greiðslunum sem var frestað á eftirstöðvar lánstímans eða að semja um að lengja lánstímann sem nemur frestuðum greiðslum.

Ef svigrúm er til staðar getur borgað sig að kanna möguleika á að semja um niðurfellingu á áföllnum innheimtu- og/eða vaxtakostnaði skuldar gegn því að bjóða eingreiðslu.

Gerðu grein fyrir aðstæðum þínum, hve mikið þú getur greitt. Ekki samþykkja samning sem þú getur ekki staðið við.

Náist samningur við kröfuhafa skalt þú óska eftir að fá skriflega staðfestingu á samningnum. Haltu vel utan um gögn og greiðslukvittanir. Hafðu til dæmis sérstaka möppu í pósthólfinu þínu fyrir gögn tengd fjármálum eða prentaðu þau út og geymdu í möppu.

Reyndu eins og þú mögulega getur að standa við þá samninga sem þú gerir. Ef ómögulegt er fyrir þig að standa í skilum borgar sig að hafa strax samband við kröfuhafann, gera grein fyrir vandanum og reyna að finna lausn.

Ef þú getur með engu móti greitt af skuld sem þú hefur stofnað til og ef samningar við kröfuhafa skila ekki árangri getur þú leitað þér frekari aðstoðar, t.d. hjá umboðsmanni skuldara sem veitir einstaklingum með örorku ókeypis aðstoð við að ná yfirsýn yfir fjármál sín og leita leiða til lausna á fjárhagsvanda.

Fjárnám

Heimild er í lögum til að undanþiggja muni sem eru einstaklingum nauðsynlegir vegna örorku eða heilsubrests. Undir það falla t.d. ýmis hjálpartæki og sjúkramunir. Að auki gæti þetta einnig átt við um bifreið sem er einstaklingi nauðsynleg vegna örorku eða heilsubrests.

Námslán

Öryrkjar sem eru í verulegum fjárhagsörðugleikum geta sótt um undanþágu frá afborgun námslána.

» Undanþága frá afborgunum (menntasjodur.is)

Skattaskuldir

Einstaklingum er heimilt að gera greiðsluáætlun um flest opinber gjöld eins og skatta. Athugið að hægt er óska eftir lækkun tekjuskatts- og útsvarsstofn einstaklinga.

» Lækkun (ívilnun) | Skatturinn – skattar og gjöld

Meðlagskuldir

Sérstök úrræði eru til staðar vegna atvinnuleysis, örorku, náms og veikinda. Hægt er að sækja um frest á greiðslu höfuðstól og/eða lægri greiðslna en til fellur mánaðarlega, lækkun dráttarvaxta o.fl.

» Úrræði vegna greiðsluerfiðleika (medlag.is)

Hægt er að sækja um frest á greiðslu höfuðstól og / eða lægri greiðslna en til fellur mánaðarlega, lækkun dráttarvaxta o.fl.

Ógreiddar sektir og sakarkostnaður

Hægt er að óska eftir greiðsludreifingu. Beiðnin þarf að berast skriflega á netfangið innheimta@syslumenn.is.

Hvað er gjaldþrot?

Gjaldþrot felur í sér að andvirði eigna þrotamanns er ráðstafað til að greiða skuldir. Ef engar eignir eru til staðar, getur gjaldþrotaskiptum lokið án þess að nokkuð fáist greitt upp í skuldir. Skuldari getur sjálfur krafist skipta á búi sínu eða kröfuhafar.

Getur skuldari óskað eftir gjaldþrotaskiptum og hvað kostar það?

Krefjist skuldari sjálfur gjaldþrotaskipta getur hann sótt um fjárhagsaðstoð vegna skiptakostnaðar hjá umboðsmanni skuldara. Upphæð gjaldþrotaskipta er 300.000 kr. (2024, júlí).Uppfylla þarf ákveðin lagaleg skilyrði til að fá umsókn samþykkta.

» Fróðleikur um gjaldþrotaskipti | Umboðsmaður skuldara (ums.is)

Hvað gerist þegar skuldari hefur verið úrskurðaður gjaldþrota?

Þegar skuldari hefur verið úrskurðaður gjaldþrota verður til sérstakur lögaðili, þ.e. þrotabú, sem tekur við fjárhagslegum réttindum og skyldum skuldara. Allar eignir og skuldir umsækjanda tilheyra þannig þrotabúinu á meðan gjaldþrotaskiptum stendur. Í kjölfar gjaldþrotaúrskurðar skipar héraðsdómari skiptastjóra sem fer með forræði búsins og tekur skiptameðferð alla jafna nokkra mánuði.

Hver er staða skuldara eftir að gjalþrotaskiptum lýkur?

Skuldir sem ekki fást greiddar við gjaldþrotaskipti fyrnast (falla niður) þegar 2 ár eru liðin frá lokum skiptanna.

Kröfur Menntasjóðs námsmanna eru skv. 26. gr. laga um Menntasjóð námsnanna nr. 60/2020 undanskildar ákvæðum laga um gjaldþrotaskipti.

Hver eru áhrif gjaldþrots?

  • Úrskurður um gjaldþrotaskipti er skráður á vanskilaskrá Creditinfo og hefur áhrif á lánshæfismat um tíma.
  • Viðskiptabanki getur skráð gjaldþrotið í viðskiptasögu viðkomandi sem hefur áhrif á lánshæfni.
  • Erfiðara getur því verið að fá lán, yfirdrátt eða kreditkort eftir gjaldþrot.
  • Kröfuhafar geta hafið innheimtu á hendur ábyrgðarmönnum og gera það að alla jafna áður en tveggja ára fyrningarfrestur er liðinn.

Tannlækningar

Hvert á ég að leita til að fá niðurgreiddan tannlæknakostnað?

Fáir þú lífeyri frá TR þá greiða Sjúkratryggingar 75% af tannviðgerðum. Tannlæknirinn sér um samskiptin við Sjúkratryggingar.

»  Tannlækningar | (island.is)

Áður en tannviðgerð hefst þá á tannlæknirinn að upplýsa þig áður um kostnaðinn.

»  Greiðsluþátttaka vegna tannlækninga | (island.is)

Útfararstyrkir

Hvert leita ég til að fá útfararstyrk?

Hafi sá látni verið í stéttarfélagi þá veita flest félögin aðstandendum dánarbætur og/eða styrki til útfarar hins látna.

» VR stéttarfélag | Dánarbætur

» BHM | Sjúkrasjóður 

» BSRB | Úthlutunarreglur (nr. 8) Dánarbætur

» Efling stéttarfélag | Dánarbætur

Sveitarfélögin veita aðstandendum útfararstyrki ef dánarbúið getur ekki staðið að kostnaði við útför þess látna.

» Fjárhagsaðstoð | Kópavogsbær

» Útfararstyrkur | Reykjavik

» Útfararstyrkur | Reykjanesbær

Örorka, miska og slysabætur

Hvað er varanleg örorka?

Varanleg örorka segir til um skerðingu á möguleikum þínum til að afla þér tekna á starfsævinni, sem sagt fjárhagslegt tjón. Þannig þýðir t.d. 10% varanleg örorka að talið sé að vegna slyssins munir þú afla þér 10% minni tekna um ævina en annars hefði verið, annað hvort með því að vinna að meðaltali 10% minna það sem eftir er starfsævinnar.

Tryggingarfélögin greiða skaðabætur fyrir varanlega skerðingu á getu til að afla vinnutekna í framtíðinni t.d. ef einstaklingur þarf að minnka við sig vinnu í framtíðinni eða þarf að skipta um starf vegna slyss. Við mat á varanlegri örorku eru skoðaðir þættir eins og aldur, tekjur, menntun, starfsreynsla, búseta og fleira, t.d. ef tveir einstaklingar missa fingurinn þá fengi píanóleikari hærri prósentu en bankastarfsmaður.

Hvað er varanlegur miski?

Miski er metinn í stigum og miðað er við svokallaðar miskatöflur sem geyma viðmið við mat á miska. Það þýðir að allir eru metnir til sama miska fyrir sams konar áverka eða einkenni. Miski er einnig kallaður læknisfræðileg örorka. Algengur metinn miski vegna háls eða bakverkja af völdum umferðarslyss er 5-20%.

Miskabætur eru bætur fyrir líkamlegt eða andlegt tjón í slysum eða líkamsárásum ekki fjárhagslegt tjón.

Örorkulífeyrir

Hvernig sæki ég um örorkulífeyri?

Hafir þú greinst með sjúkdóm eða slasast þannig að starfsgeta þín er skert þá átt þú rétt á lífeyri frá Tryggingastofnun og lífeyrissjóðum.

» Kjaramál – ÖBI (obi.is)

Öryrki verður 67 ára

Hvað gerist þegar ég verð 67 ára? Hvað breytist og missi ég einhver réttindi?

Við 67 ára aldur fer fólk yfir í greiðslukerfi ellilífeyris. Það sem gerist er að:

  1. Aldursviðbótin fellur út.
  2. Frítekjumörk eru einnig önnur en fyrir örorku- og endurhæfingarlífeyri.

Fólk með hlutfallslegar greiðslur (vegna fyrri búsetu erlendis) getur sótt um félagslegan viðbótarstuðning hjá TR.

» Örorka | Tryggingastofnun (island.is)

Vantar hér upplýsingar?

Sendu okkur endilega póst með spurningu þinni á obi @ obi.is