Skip to main content

Spurt og svarað

Örorka, miska og slysabætur

Hvað er varanleg örorka?

Varanleg örorka segir til um skerðingu á möguleikum þínum til að afla þér tekna á starfsævinni, sem sagt fjárhagslegt tjón. Þannig þýðir t.d. 10% varanleg örorka að talið sé að vegna slyssins munir þú afla þér 10% minni tekna um ævina en annars hefði verið, annað hvort með því að vinna að meðaltali 10% minna það sem eftir er starfsævinnar.

Tryggingarfélögin greiða skaðabætur fyrir varanlega skerðingu á getu til að afla vinnutekna í framtíðinni t.d. ef einstaklingur þarf að minnka við sig vinnu í framtíðinni eða þarf að skipta um starf vegna slyss. Við mat á varanlegri örorku eru skoðaðir þættir eins og aldur, tekjur, menntun, starfsreynsla, búseta og fleira, t.d. ef tveir einstaklingar missa fingurinn þá fengi píanóleikari hærri prósentu en bankastarfsmaður.

Hvað er varanlegur miski?

Miski er metinn í stigum og miðað er við svokallaðar miskatöflur sem geyma viðmið við mat á miska. Það þýðir að allir eru metnir til sama miska fyrir sams konar áverka eða einkenni. Miski er einnig kallaður læknisfræðileg örorka. Algengur metinn miski vegna háls eða bakverkja af völdum umferðarslyss er 5-20%.

Miskabætur eru bætur fyrir líkamlegt eða andlegt tjón í slysum eða líkamsárásum ekki fjárhagslegt tjón.

Lífeyrir almannatrygginga

Hvernig sæki ég um örorkulífeyri?

Hafir þú greinst með sjúkdóm eða slasast þannig að starfsgeta þín er skert þá átt þú rétt á lífeyri frá Tryggingastofnun og lífeyrissjóðum. Sjá nánar á vef TR Örorkulífeyrisþegar (tr.is)

Hefur arfur áhrif á útreikning örorkulífeyris?

Eignastaða hefur ekki áhrif á útreikning örorkulífeyris, aðeins skattskyldar tekjur. Arfur hefur því ekki áhrif á útreikning örorkulífeyris. Hins vegar geta fjármagnstekjur sem stafa af arfi, haft áhrif.

Dæmi: þú erfir íbúð, selur hana og leggur andvirðið í banka. Innistæða þess reiknings ber vexti sem eru skattskyldar fjármagnstekjur. Þær tekjur koma til frádráttar við útreikning örorkulífeyris, á sama hátt og aðrar skattskyldar tekjur sem þú gætir haft, t.d. af vinnu.

Áhrif búsetu erlendis

Réttindi til örorku- og endurhæfingarlífeyris almannatrygginga ávinnast í gegnum búsetu (lögheimili) á Íslandi. Fullar greiðslur (100% búsetuhlutfall) miðast við 40 ára búsetu hér á landi þegar umsækjendur eru á milli 16-67 ára. Ef þeirri tímalengd er ekki náð lækkar hlutfall greiðslna í samræmi þann tíma sem viðkomandi hefur búið á Íslandi.

Einstaklingar búsettir erlendis eftir 16 ára aldur og fyrir upphaf endurhæfingar- og/eða örorkulífeyrisgreiðslna geta því verið að fá greiðslur miðað við skert búsetuhlutfall. Upplýsingar um búsetuhlutfall (%) umsækjanda eru að finna í bréfum TR um samþykki örorkumats. Hægt er að óska eftir útreikningi á búsetuhlutfalls hjá TR og að fá leiðbeiningar um að sækja um lífeyri frá fyrra búsetulandi. Þetta á við um umsækjendur sem voru búsettir í öðru EES-landi og eru búsettir á Íslandi. Fyrir þessa einstaklinga annast TR um móttöku umsókna og almenna milligöngu vegna lífeyrisumsókna erlendis.

Einstaklingar sem eru að fá greitt miðað við lægra búsetuhlutfall en 100% geta óskað eftir upplýsingum hjá TR um hvernig búsetuhlutfallið er reiknað út og skýringar á því hvers vegna það er ekki hærra og beðið um leiðbeiningar.

Skuld hjá TR

Skuld hjá Tryggingastofnun

Heimild er til að fella niður uppgjörskröfur og er sú heimild háð því skilyrði að sérstakar aðstæður séu fyrir hendi. Við mat á því hvað teljist sérstakar aðstæður er einkum litið til fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna bótaþega og þess hvort hann var í góðri trú um greiðslurétt sinn. Það sama gildir um dánarbú eftir því sem við á.

Sótt er um með eyðublaðinu: Umsókn um niðurfellingu ofgreiðslukröfu undir umsóknir á heimasíðu TR eða í gegnum mínar síður.

Hægt er að semja um endurgreiðslu á ofgreiðslukröfum frá TR með greiðsludreifingu. Lágmarksendurgreiðsla er kr. 3.000 á mánuði. Að jafnaði er ekki dreift til lengri tíma heldur en 36 mánaða. Hægt er óska eftir lengri tíma sem er háð því skilyrði að rökstyðja þarf að alveg sérstakar aðstæður séu fyrir hendi. Sjá nánar á heimasíðu TR.

Hægt er að senda beiðni um nýja greiðsludreifingu á Mínum síðum TR og einnig með því að hafa samband á innheimta@tr.is

Hvað er hægt að gera til að lækka ofgreiðslukröfur TR vegna eingreiðslna lífeyrissjóða?

Við árlegt uppgjör og endurreikning fær hópur örorkulífeyrisþega ofgreiðslukröfu frá TR vegna eingreiðslu úr lífeyrissjóði. Eingreiðslur lífeyrissjóða ná í ófáum tilvikum marga mánuði og jafnvel nokkur ár aftur í tímann. Ofgreiðslukröfurnar geta numið háum upphæðum og komið mjög illa við lífeyrisþega í þessari stöðu. En hvað er til ráða?

Hægt er að óska eftir útreikningi hjá TR á dreifingu eingreiðslna

Örorkulífeyrisþegar í þessari stöðu geta haft samband við TR og óskað eftir útreikningi á því hvort það komi betur út að láta dreifa eingreiðslunni á það tímabil sem hún er greidd fyrir eða ekki. Þetta á eingöngu við ef eingreiðsla er einnig fyrir árið eða árin á undan (t.d. einstaklingur fær eingreiðslu á árinu 2021 fyrir allt árið eða hluta ársins 2020). Til að TR geti afgreitt beiðnina þarf að senda þeim sundurliðun eingreiðslunnar sem þú fékkst frá lífeyrissjóðnum (eða lífeyrissjóðunum ef um eingreiðslu frá fleiri en einum sjóði er að ræða), þar sem fram kemur upphæð greiðslna fyrir hvern og einn mánuð og heildarupphæð greiðslna fyrir hvert ár.

Hægt er að óska eftir að Skatturinn taki skattframtöl upp

Í þeim tilvikum sem það kemur betur kemur út að láta dreifa eingreiðslunni er hægt að óska eftir því hjá Skattinum að framtölin sem um ræðir verði tekin upp aftur og eingreiðslunni dreift á árin. Með beiðninni til Skattsins þarf einnig að fylgja áðurnefnd sundurliðun lífeyrissjóðsgreiðslna. Mjög mikilvægt er að hafa í huga að ef eingreiðslunni er dreift mun stofn til útreiknings tekjuskatts og útsvars hækka þau ár sem tekjunum er dreift á og lækka árið sem eingreiðslan var greidd. Slíkt getur haft áhrif til lækkunar greiðslna, s.s. barnabóta, húsaleigubóta, vaxtabóta, þau ár sem tekjuskattsstofn hækkar. Við bendum því fólki á að kynna sér þau mál vel hjá RSK og einnig að fá útreikning frá TR áður en óskað er eftir endurupptöku framtala hjá Skattinum.

Nýr endurreikningur hjá TR

TR getur endurreiknað uppgjör eftir að niðurstaða frá Skattinum hefur borist. Tilgangur þessa fyrir örorkulífeyrisþega er að fá ofgreiðslukröfu, við uppgjör ársins sem eingreiðsla var greidd, lækkaða og þá oft verulega. Slíkt borgar sig að sjálfsögðu ekki nema að útreikningar sýni að við dreifinguna muni ekki myndast hærri kröfur fyrir árin á undan, þ.e. árin sem eingreiðslunni er dreift á.

Einungis lífeyrissjóðstekjur sem greiddar eru fyrir tímabil eftir að greiðslur hófust hjá TR eiga að hafa áhrif til lækkunar greiðslna frá TR. Ef greiðslur frá lífeyrissjóði ná lengra aftur í tímann en til upphafstíma greiðsla sem þú fékkst frá TR, þá er líklegra að betur komi út að láta dreifa eingreiðslunni.

Dæmi: Örorkulífeyrisþegi fær eingreiðslu frá lífeyrissjóði í desember 2021. Þessi einstaklingur fær fyrstu greiðslur frá TR (endurhæfingarlífeyri) frá 1. apríl 2020. Lífeyrissjóðsgreiðslurnar ná hins vegar aftur til 1. nóvember 2019. Lífeyrissjóðstekjur fyrir tímabilið frá nóvember 2019 til apríl 2020 eiga ekki að hafa áhrif á útreikning TR þar sem þær eru greiddar fyrir tímabil áður en þú mat og byrjaðir að fá greiddan endurhæfingarlífeyri frá TR.

Skuldamál

Að semja um almennar skuldir

Þú getur haft samband við kröfuhafann með því að hringja, senda tölvupóst eða mæta á staðinn. Láttu vita að þú getir ekki staðið í fullum skilum og að þú viljir kanna möguleika þína á að endursemja eða gera nýja greiðsluáætlun. Vertu viðbúin/-n því að veita kröfuhafanum upplýsingar um fjárhagsstöðu þína til að sýna fram á hvað þú ræður við að greiða.

Ef greiðslugeta er til staðar skaltu kanna möguleika þína á að fá að endurgreiða skuldina á lengri tíma og lækka þannig mánaðarlegar afborganir.

Ef um tímabundinn vanda er að ræða gæti samningstillagan verið sú að greiða tímabundið lægri afborganir af skuldinni, t.d. að greiða aðeins vexti en fá að fresta afborgunum. Eftir tiltekinn tíma hæfust fullar greiðslur á ný. Annaðhvort væri hægt að halda upphaflegum lánstíma og dreifa greiðslunum sem var frestað á eftirstöðvar lánstímans eða að semja um að lengja lánstímann sem nemur frestuðum greiðslum.

Ef svigrúm er til staðar getur borgað sig að kanna möguleika á að semja um niðurfellingu á áföllnum innheimtu- og/eða vaxtakostnaði skuldar gegn því að bjóða eingreiðslu.

Gerðu grein fyrir aðstæðum þínum, hve mikið þú getur greitt. Ekki samþykkja samning sem þú getur ekki staðið við.

Náist samningur við kröfuhafa skalt þú óska eftir að fá skriflega staðfestingu á samningnum. Haltu vel utan um gögn og greiðslukvittanir. Hafðu til dæmis sérstaka möppu í pósthólfinu þínu fyrir gögn tengd fjármálum eða prentaðu þau út og geymdu í möppu.

Reyndu eins og þú mögulega getur að standa við þá samninga sem þú gerir. Ef ómögulegt er fyrir þig að standa í skilum borgar sig að hafa strax samband við kröfuhafann, gera grein fyrir vandanum og reyna að finna lausn.

Ef þú getur með engu móti greitt af skuld sem þú hefur stofnað til og ef samningar við kröfuhafa skila ekki árangri getur þú leitað þér frekari aðstoðar, t.d. hjá umboðsmanni skuldara sem veitir einstaklingum með örorku ókeypis aðstoð við að ná yfirsýn yfir fjármál sín og leita leiða til lausna á fjárhagsvanda.

Fjárnám. Heimild er í lögum til að undanþiggja muni sem eru einstaklingum nauðsynlegir vegna örorku eða heilsubrests. Undir það falla t.d. ýmis hjálpartæki og sjúkramunir. Að auki gæti þetta einnig átt við um bifreið sem er einstaklingi nauðsynleg vegna örorku eða heilsubrests.

Námslán. Öryrkjar sem eru í verulegum fjárhagsörðugleikum geta sótt um undanþágu frá afborgun námslána. Sjá nánar: Undanþága frá afborgunum (menntasjodur.is)

Skattaskuldir.  Einstaklingum er heimilt að gera greiðsluáætlun um flest opinber gjöld eins og skatta. Athugið að hægt er óska eftir lækkun tekjuskatts- og útsvarsstofn einstaklinga. Sjá nánar: Lækkun (ívilnun) | Skatturinn – skattar og gjöld

Meðlagskuldir. Sérstök úrræði eru til staðar vegna atvinnuleysis, örorku, náms og veikinda. Hægt er að sækja um frest á greiðslu höfuðstól og / eða lægri greiðslna en til fellur mánaðarlega, lækkun dráttarvaxta o.fl.  Sjá nánar: Úrræði vegna greiðsluerfiðleika – Innheimtustofnun sveitarfélaga (medlag.is) Hægt er að sækja um frest á greiðslu höfuðstól og / eða lægri greiðslna en til fellur mánaðarlega, lækkun dráttarvaxta o.fl.

Ógreiddar sektir og sakarkostnaður. Hægt er að óska eftir greiðsludreifingu. Beiðnin þarf að berast skriflega á netfangið innheimta@syslumenn.is

Gjaldþrot

Hvað er gjaldþrot?

Gjaldþrot felur í sér að andvirði eigna þrotamanns er ráðstafað til að greiða skuldir. Ef engar eignir eru til staðar, getur gjaldþrotaskiptum lokið án þess að nokkuð fáist greitt upp í skuldir. Skuldari getur sjálfur krafist skipta á búi sínu eða kröfuhafar.

Getur skuldari óskað eftir gjaldþrotaskiptum og hvað kostar það?

Krefjist skuldari sjálfur gjaldþrotaskipta getur hann sótt um fjárhagsaðstoð vegna skiptakostnaðar hjá umboðsmanni skuldara. Upphæð gjaldþrotaskipta er 250.000 kr. Uppfylla þarf ákveðin lagaleg skilyrði til að fá umsókn samþykkta.

Hvað gerist þegar skuldari hefur verið úrskurðaður gjaldþrota?

Þegar skuldari hefur verið úrskurðaður gjaldþrota verður til sérstakur lögaðili, þ.e. þrotabú, sem tekur við fjárhagslegum réttindum og skyldum skuldara. Allar eignir og skuldir umsækjanda tilheyra þannig þrotabúinu á meðan gjaldþrotaskiptum stendur. Í kjölfar gjaldþrotaúrskurðar skipar héraðsdómari skiptastjóra sem fer með forræði búsins og tekur skiptameðferð alla jafna nokkra mánuði.

Hver er staða skuldara eftir að gjalþrotaskiptum lýkur?

Skuldir sem ekki fást greiddar við gjaldþrotaskipti fyrnast (falla niður) þegar 2 ár eru liðin frá lokum skiptanna. Kröfur Menntasjóðs námsmanna eru skv. 26. gr. laga um Menntasjóð námsnanna nr. 60/2020 undanskildar ákvæðum laga um gjaldþrotaskipti.

Hver eru áhrif gjaldþrots?

Úrskurður um gjaldþrotaskipti er skráður á vanskilaskrá Creditinfo og hefur áhrif á lánshæfismat um tíma. Viðskiptabanki getur skráð gjaldþrotið í viðskiptasögu viðkomandi sem hefur áhrif á lánshæfni. Erfiðara getur því verið að fá lán, yfirdrátt eða kreditkort eftir gjaldþrot. Kröfuhafar geta hafið innheimtu á hendur ábyrgðarmönnum og gera það að alla jafna áður en tveggja ára fyrningarfrestur er liðinn.

Ráðgjöf ÖBÍ

Kostar að fá lögfræðiráðgjöf hjá ÖBÍ?

Nei, fötluðu fólki og aðstandendum þeirra býðst ókeypis ráðgjöf hjá félagsráðgjafa ÖBÍ og lögfræðingum um réttindamál.

Ekki er um fasta viðtalstíma að ræða. Ráðgjafar okkar forgangsraða viðtölum og úthluta tímum ef ekki er hægt að leysa mál í gegnum síma eða tölvupóst.

Athugið að viðtalstíma þarf að panta fyrirfram í síma 530-6700 (á virkum dögum frá kl. 9:30 til 15:00) eða með því að senda beiðni um viðtal í tölvupósti á mottaka@obi.is

Höfðar ÖBÍ dómsmál?

ÖBÍ hefur í gegnum tíðina farið í mörg dómsmál sem varða hagsmuni fólks í aðildarfélögum ÖBÍ. Þegar ÖBÍ tekur ákvörðun um að höfða mál fyrir dómsmálum þá er tekið mið af því að málið hafi fordæmisgildi.

 

Húsnæðismál

Útvegar ÖBÍ húsnæði?

ÖBÍ leigir ekki út húsnæði en eitt af fyrirtækjum ÖBÍ gerir það. BRYNJA – leigufélag er sjálfseignarstofnun sem á og rekur leiguhúsnæði fyrir fatlað fólk um allt land. Sjá nánar á brynjahus.is

Einnig má benda á að sveitarfélögin hafa lögbundna skyldu til að útvega fólki húsnæði sem þess þarfnast.

 • Félagsbústaðir leigja út íbúðir í Reykjavík fyrir einstaklinga og fjölskyldur sem eru undir skilgreindum tekju- og eignamörkum.

P merki og bílastæði

Hvar fæ ég P merki í bílinn?

Stæðiskortið (P-merkið) er gefið út af því sýslumannsembætti á því svæði sem þú býrð á. Kortið er gefið út á einstakling en ekki bílnúmer og er einungis heimilt að gefa út eitt kort á hvern einstakling. Til að sækja um P-merkið þarf að fylla út umsókn á vef viðkomandi sýslumanns.

Er ókeypis fyrir mig í bílastæðahús?

Í mars 2023 féll Reykjavíkurborg frá „gjaldtöku af handhöfum stæðiskorta fyrir hreyfihömluð í bílastæðahúsum sem rekin eru á vegum borgarinnar. Fyrst um sinn munu handhafar stæðiskorta fyrir hreyfihömluð þurfa að hringja í stjórnstöð í síma 411 3403 og gefa upp númer stæðiskorts síns og bílnúmer við komu í bílastæðahús.“  Sjá nánar frétt á vef Reykjavíkurborgar  Reykjavíkurborgar: „Fallið frá gjaldtöku af handhöfum stæðiskorta í bílastæðahúsum Reykjavíkurborgar“

Sundkort

Frítt er í sundlaugar á höfuðborgarsvæðinu og einnig er frítt fyrir aðstoðarmanneskju. Aðeins þarf að framvísa þarf stafrænu örorkuskírteini frá TR

Einnig gefur Sjálfsbjörg  út sundkort ÍTR fyrir fatlaða, Hátúni 12, Reykjavík, sími: 551-7868. Sjá nánari upplýsingar: Sundlaugar (sjalfsbjorg.is)

Upplýsingar um ÖBÍ

Hvað er ÖBÍ?

ÖBÍ réttindasamtök (Öryrkjabandalag Íslands) er heildarsamtök fatlaðs fólks á Íslandi, stofnað 5. maí 1961. Bandalagið samanstendur af 40 aðildarfélögum fatlaðs fólks, öryrkja, einstaklinga með langvinna sjúkdóma og aðstandenda þeirra. Aðildarfélögin eru hagsmunasamtök ólíkra fötlunarhópa sem öll starfa á landsvísu. Hvert og eitt er með sérþekkingu á sínu sviði og veita margskonar fræðslu og stuðning. Samanlagður félagafjöldi þeirra er um 38 þúsund manns.

Hver er formaður ÖBÍ?

Þuríður Harpa Sigurðardóttir var kjörin formaður Öryrkjabandalags Íslands á aðalfundi bandalagsins haustið 2017. Hún er grafískur hönnuður að mennt og var framkvæmdastjóri Nýprents á Sauðárkróki áður en hún tók við formennsku ÖBÍ. Auk þess var Þuríður varaformaður Sjálfsbjargar þegar hún bauð sig fram.

Markmið og hlutverk ÖBÍ?

Markmið ÖBÍ er að íslenskt þjóðfélag verði samfélag jöfnuðar og réttlætis þar sem allir einstaklingar, óháð líkamlegu og andlegu atgervi, njóti mannsæmandi lífskjara og jafnra möguleika til sjálfstæðs lífs og virkrar samfélagslegrar þátttöku.

Hlutverk ÖBÍ er að koma fram fyrir hönd fatlaðs fólks gagnvart opinberum aðilum í hverskyns hagsmunamálum svo sem varðandi löggjöf, framkvæmd hennar og í dómsmálum er snerta rétt þess.

Hvað eru málefnahópar ÖBÍ?

Starf málefnahópanna er hryggjarstykkið í málefnavinnu bandalagsins og gerir það mögulegt að berjast á mörgum stöðum á sama tíma. Málefnahópar bandalagsins fjalla um kjaramál, heilbrigðismál, aðgengismál, atvinnu- og menntamál, sjálfstætt líf og málefni barna.

Skilyrði aðildar að ÖBÍ eru eftirfarandi:

 1. Félagið skal starfa eftir samþykktum lögum sem samræmast hlutverki og markmiðum bandalagsins.
 2. Félagið skal vera lagalega og fjárhagslega sjálfstætt gagnvart öðrum aðildarfélögum.
 3. Félagið skal hafa starfað í þrjú heil reikningsár.
 4. Félagið skal hafa allt landið að starfssvæði sínu.

Umsókn um aðild skal berast stjórn ÖBÍ hið minnsta þremur mánuðum fyrir aðalfund ásamt:

 1. Afriti af lögum félagsins.
 2. Afriti af endurskoðuðum ársreikningum þriggja síðustu ára.
 3. Nöfnum stjórnarmanna og þeirra sem skipa trúnaðarstöður.
  Sjá nánar 3. til 8. grein í lögum ÖBÍ

Samningur SÞ um réttindi fatlaðs fólks

Hvað er „Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks“?

Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF) hefur það að markmiði að tryggja réttindi fatlaðs fólks til jafns við aðra.

Þegar ríki verður aðili samningsins ber það skyldu til að „tryggja og stuðla að því að öll mannréttindi og grundvallarfrelsi verði í einu og öllu að veruleika fyrir allt fatlað fólk án mismununar af nokkru tagi vegna fötlunar“, sbr. 4. gr. hans“ Réttindi eru nánar afmörkuð í einstökum greinum samningsins.

Hver eru grundvallaratriði samningsins?

Við lestur á ákveðnum greinum samningsins er mikilvægt að hafa í huga ákveðin grundvallaratriði og meginreglur samningsins. Þar er kveðið á um:

 • Virðingu fyrir mannlegri reisn, sjálfræði og sjálfstæði allra einstaklinga.
 • Bann við mismunun.
 • Fulla samfélagsþátttöku allra í einu samfélagi fyrir alla.
 • Virðingu fyrir fjölbreytileika fólks og mannlegum margbreytileika.
 • Jöfn tækifæri.
 • Aðgengi.
 • Jafnrétti á milli karla og kvenna.
 • Virðingu fyrir getu fatlaðra barna og virðingu fyrir rétti þeirra til að varðveita sjálfsmynd sína.

Samningur SÞ (SRFF) – (obi.is)

Lögfestum samninginn – (obi.is)

Hvað er?

„Búsetuskerðingarmálið“?

Álit umboðsmanns Alþingis um „búsetuskerðingarmálið“ varðar útreikningsreglu hjá TR fyrir búsetuhlutfall þeirra sem voru búsettir í landi innan EES áður en þeir fengu örorkumat. Það er önnur útreikningsregla fyrir öryrkja sem bjuggu í landi utan EES fyrir fyrsta örorkumat. Niðurstaðan úr þeirri útreikningsreglu er mun hærri miðað við sömu forsendur. Grundvöllur málsins er sá að fullar greiðslur miðast við 40 ára búsetu hér á landi þegar einstaklingar eru á milli 16-67 ára. Regla laga um almannatryggingar segir að þegar einstaklingar hafa ekki náð 67 ára aldri, þá skuli bæta öllum árum við eins og búsetan hafi verið hér á landi. Þessari reglu var árum saman framfylgt hér á landi, nema í þeim tilvikum þegar einstaklingar hafa verið búsettir innan ríkis sem er utan EES.

 

Vantar hér upplýsingar?

Sendu okkur endilega póst með spurningu þinni á obi @ obi.is