Skip to main content

Spurt og svarað

Vantar hér upplýsingar? Sendu okkur endilega póst með spurningu þinni.
Smelltu hér til að senda póst.

Búsetuskerðingar

Innihald

Hvað er "búsetuskerðingarmálið"?

Álit umboðsmanns Alþingis varðar útreikningsreglu hjá TR fyrir búsetuhlutfall þeirra sem voru búsettir í landi innan EES áður en þeir fengu örorkumat. Það er önnur útreikningsregla fyrir öryrkja sem bjuggu í landi utan EES fyrir fyrsta örorkumat. Niðurstaðan úr þeirri útreikningsreglu er mun hærri miðað við sömu forsendur. Grundvöllur málsins er sá að fullar greiðslur miðast við 40 ára búsetu hér á landi þegar einstaklingar eru á milli 16-67 ára. Regla laga um almannatryggingar segir að þegar einstaklingar hafa ekki náð 67 ára aldri, þá skuli bæta öllum árum við eins og búsetan hafi verið hér á landi. Þessari reglu hefur ekki verið framfylgt hér á landi, nema í þeim tilvikum þegar einstaklingar hafa verið búsettir innan ríkis sem er utan EES. Nánari upplýsingar hér á vef ÖBÍ.

Hvert á ég að snúa mér með að sækja leiðréttinguna?

Fólk þarf að snúa sér til Tryggingastofnunar ríkisins, sem ber ábyrgð á málinu og endurgreiðslum.

Ég bjó í Danmörku áður en ég fékk örorkumat hérna heima, á þetta við um mig?

Álitið nær til örorkulífeyrisþega sem fá hlutfallslegar greiðslur vegna fyrri búsetu í löndum innan EES. Það nær því ekki til þeirra sem hafa verið búsettir í löndum utan EES fyrir örorkumat.

Ég var á örorku og lenti í búsetuskerðingum en er núna á ellilífeyri. Á þetta við um mig?

Já. Sá tími sem þú varst á örorku og lentir í búsetuskerðingum er eitthvað sem ætti að leiðrétta.

Ættingi minn varð fyrir búsetuskerðingu en er látinn. Hvað á að gera í þessu tilviki?

Dánarbúið á kröfu á leiðréttingu vegna búsetuskerðinganna.

Á þetta bara við um Íslendinga sem búið hafa erlendis?

Leiðréttingin er óháð ríkisborgararétti, réttindaávinnslan er í gegnum búsetu (lögheimili) á Íslandi.

Er þetta bara fyrir þá sem búa á Íslandi?

Hluti hópsins sem álitið nær til býr erlendis, en þessir einstaklingar fengu örorkumat hjá TR þegar þeir bjuggu á Íslandi.

Ef ég bý erlendis?

Greiðslur skv. lögum um almannatryggingar nr. 100/2007 eru greiddar úr landi til þeirra sem búa í löndum innan EES. Þessar greiðslur eru: örorkulífeyrir (grunnlífeyrir), aldurstengd örorkuuppbót, tekjutrygging og barnalífeyrir. Greiðslur skv. lögum um félagslega aðstoð nr. 99/2007 eru ekki greiddar úr landi.

Erfðamál

Hefur arfur áhrif á útreikning örorkulífeyris?

Eignastaða hefur ekki áhrif á útreikning örorkulífeyris, aðeins skattskyldar tekjur. Arfur hefur því ekki áhrif á útreikning örorkulífeyris. Hins vegar geta fjármagnstekjur sem stafa af arfi, haft áhrif.

Dæmi: þú erfir íbúð, selur hana og leggur andvirðið í banka. Innistæða þess reiknings ber vexti sem eru skattskyldar fjármagnstekjur. Þær tekjur koma til frádráttar við útreikning örorkulífeyris, á sama hátt og aðrar skattskyldar tekjur sem þú gætir haft, t.d. af vinnu.

Gjaldþrot

Hvaða er gjaldþrot?

Gjaldþrot felur í sér að andvirði eigna þrotamanns er ráðstafað til að greiða skuldir. Ef engar eignir eru til staðar, getur gjaldþrotaskiptum lokið án þess að nokkuð fáist greitt upp í skuldir. Skuldari getur sjálfur krafist skipta á búi sínu eða kröfuhafar.

Getur skuldari óskað eftir gjaldþrotaskiptum og hvað kostar það?

Krefjist skuldari sjálfur gjaldþrotaskipta getur hann sótt um fjárhagsaðstoð vegna skiptakostnaðar hjá umboðsmanni skuldara. Upphæð gjaldþrotaskipta er 250.000 kr. Uppfylla þarf ákveðin lagaleg skilyrði til að fá umsókn samþykkta.

Hvað gerist þegar skuldari hefur verið úrskurðaður gjaldþrota?

Þegar skuldari hefur verið úrskurðaður gjaldþrota verður til sérstakur lögaðili, þ.e. þrotabú, sem tekur við fjárhagslegum réttindum og skyldum skuldara. Allar eignir og skuldir umsækjanda tilheyra þannig þrotabúinu á meðan gjaldþrotaskiptum stendur. Í kjölfar gjaldþrotaúrskurðar skipar héraðsdómari skiptastjóra sem fer með forræði búsins og tekur skiptameðferð alla jafna nokkra mánuði.

Hver er staða skuldara eftir að gjalþrotaskiptum lýkur?

Skuldir sem ekki fást greiddar við gjaldþrotaskipti fyrnast (falla niður) þegar 2 ár eru liðin frá lokum skiptanna. Kröfur Menntasjóðs námsmanna eru skv. 26. gr. laga um Menntasjóð námsnanna nr. 60/2020 undanskildar ákvæðum laga um gjaldþrotaskipti.

Hver eru áhrif gjaldþrots?

Úrskurður um gjaldþrotaskipti er skráður á vanskilaskrá Creditinfo og hefur áhrif á lánshæfismat um tíma. Viðskiptabanki getur skráð gjaldþrotið í viðskiptasögu viðkomandi sem hefur áhrif á lánshæfni. Erfiðara getur því verið að fá lán, yfirdrátt eða kreditkort eftir gjaldþrot. Kröfuhafar geta hafið innheimtu á hendur ábyrgðarmönnum og gera það að alla jafna áður en tveggja ára fyrningarfrestur er liðinn.

Miska- og slysabætur

Hvað er varanleg örorka?

Varanleg örorka segir til um skerðingu á möguleikum þínum til að afla þér tekna á starfsævinni, sem sagt fjárhagslegt tjón. Þannig þýðir t.d. 10% varanleg örorka að talið sé að vegna slyssins munir þú afla þér 10% minni tekna um ævina en annars hefði verið, annað hvort með því að vinna að meðaltali 10% minna það sem eftir er starfsævinnar.

Tryggingarfélögin greiða skaðabætur fyrir varanlega skerðingu á getu til að afla vinnutekna í framtíðinni t.d. ef einstaklingur þarf að minnka við sig vinnu í framtíðinni eða þarf að skipta um starf vegna slyss. Við mat á varanlegri örorku eru skoðaðir þættir eins og aldur, tekjur, menntun, starfsreynsla, búseta og fleira, t.d. ef tveir einstaklingar missa fingurinn þá fengi píanóleikari hærri prósentu en bankastarfsmaður.

Hvað er varanlegur miski?

Miski er metinn í stigum og miðað er við svokallaðar miskatöflur sem geyma viðmið við mat á miska. Það þýðir að allir eru metnir til sama miska fyrir sams konar áverka eða einkenni. Miski er einnig kallaður læknisfræðileg örorka. Algengur metinn miski vegna háls eða bakverkja af völdum umferðarslyss er 5-20%.

Miskabætur eru bætur fyrir líkamlegt eða andlegt tjón í slysum eða líkamsárásum ekki fjárhagslegt tjón.

P merki

Hvar fæ ég P merki í bílinn?

Stæðiskortið (P-merkið) er gefið út af því sýslumannsembætti á því svæði sem þú býrð á. Kortið er gefið út á einstakling en ekki bílnúmer og er einungis heimilt að gefa út eitt kort á hvern einstakling. Til að sækja um P-merkið þarf að fylla út umsókn á vef viðkomandi sýslumanns.

Samningur SÞ um réttindi fatlaðs fólks

Hvað er "Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks“?

Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF) hefur það að markmiði að tryggja réttindi fatlaðs fólks til jafns við aðra.

Þegar ríki verður aðili samningsins ber það skyldu til að „tryggja og stuðla að því að öll mannréttindi og grundvallarfrelsi verði í einu og öllu að veruleika fyrir allt fatlað fólk án mismununar af nokkru tagi vegna fötlunar“, sbr. 4. gr. hans“

Réttindi eru nánar afmörkuð í einstökum greinum samningsins.

Hvers vegna var gerður sérstakur alþjóðasamningur um réttindi fatlaðs fólks?

Allir einstaklingar eru jafnir fyrir lögum og eiga sama tilkall til allra mannréttinda. Með samningnum er viðurkennt að fatlað fólk hefur ekki haft sömu tækifæri og aðrir í gegnum tíðina. Aðildarríkin viðurkenna þessa staðreynd og heita því að vinna að bættum hag og bættum rétti fatlaðs fólks. Eins og segir í samningnum sjálfum:

„Aðildarríkin viðurkenna að öll erum við jöfn fyrir lögum og eigum rétt á jafnri vernd og jöfnum hag lögum samkvæmt án nokkurrar mismununar.“
„Aðildarríkin skulu banna hvers kyns mismunun á grundvelli fötlunar og tryggja fötluðu fólki jafna og árangursríka réttarvernd gegn mismunun á öllum sviðum.“

Samningurinn er fyrst og fremst jafnréttissamningur. Aðildarríkjum samningsins ber að vinna að jöfnum rétti og jöfnum tækifærum allra óháð fötlun. Samningurinn hefur nú þegar haft víðtæk áhrif á stöðu fatlaðs fólks í aðildarríkjum samningsins.

Hvert er markmiðið með samningnum?

Í fyrstu grein samningsins segir að markmiðið með SRFF sé:

„Að efla, verja og tryggja full og jöfn mannréttindi og grundvallarfrelsi fyrir allt fatlað fólk til jafns við aðra, jafnframt því að efla og vinna að virðingu fyrir eðlislægri mannlegri reisn þess.“

Orðin efla, verja og tryggja fela í sér skyldur ríkjanna. Þessi orð fela að sama skapi í sér ákveðinn greiningarlykil til þess að meta hvort ríki standi við skuldbindingar sínar.

Hver eru grundvallaratriði samningsins?

Við lestur á ákveðnum greinum samningsins er mikilvægt að hafa í huga ákveðin grundvallaratriði og meginreglur samningsins. Þar er kveðið á um:

 • Virðingu fyrir mannlegri reisn, sjálfræði og sjálfstæði allra einstaklinga.
 • Bann við mismunun.
 • Fulla samfélagsþátttöku allra í einu samfélagi fyrir alla.
 • Virðingu fyrir fjölbreytileika fólks og mannlegum margbreytileika.
 • Jöfn tækifæri.
 • Aðgengi.
 • Jafnrétti á milli karla og kvenna.
 • Virðingu fyrir getu fatlaðra barna og virðingu fyrir rétti þeirra til að varðveita sjálfsmynd sína.

Þegar reynir á skýringu á samningnum skal litið til þessara grundvallarreglna.

Hvað er viðeigandi aðlögun?

Eins og áður sagði er samningurinn fyrst og fremst jafnréttissamningur. Allir eru jafnir fyrir lögum og bannað er að mismuna á grundvelli fötlunar. Eitt af grundvallarhugtökum samningsins er „viðeigandi aðlögun“. Í samningnum segir:

„Viðeigandi aðlögun“ merkir nauðsynlegar og viðeigandi breytingar og lagfæringar, sem eru ekki umfram það sem eðlilegt má teljast eða of íþyngjandi, þar sem þeirra er þörf í sérstöku tilviki, til þess að tryggt sé að fatlað fólk fái notið eða geti nýtt sér, til jafns við aðra, öll mannréttindi og grundvallarfrelsi.“

Í samningnum segir einnig að það teljist til mismununar að neita fötluðu fólki um viðeigandi aðlögun.

Hvar má finna þýðingu samningsins?

Á netinu má finna a.m.k. fjórar útgáfur af þýðingum samningsins á íslensku. Engin þeirra hefur verið óumdeild. Á vef dómsmálaráðuneytisins er að finna efni um samninginn t.a.m. opinbera þýðingu hans frá árinu 2013. ÖBÍ hefur unnið einna helst með þá þýðingu þar sem hún þykir hafa heppnast best. Unnið er að fimmtu útgáfu þýðingar samningsins nú árið 2019. Í þessu samhengi bendum við á upprunalegan samning á ensku.

Hvað eru aðildarríkin mörg?

Þann 28. júní 2019 voru aðildarríkin orðin 178. Einnig höfðu 11 ríki undirritað samninginn að auki, en ekki fullgilt hann. Evrópusambandið er einnig aðili að samningnum. Hér er hægt sjá listann yfir aðildarríki samningsins. Athugið að velja undir „Select a treaty“: Convention on the Rights of Persons with Disabilities. Til vinstri er hægt að sjá listann. Aðildarríkin er merkt dökkblá.

Hvers vegna var mikilvægt fyrir Ísland að fullgilda samninginn?

Hugtakið fullgilding (alþjóðasamninga) tekur yfir það þegar ríki verður aðildarríki viðkomandi samnings og með því undirgengst það þær skuldbindingar sem í þeim felast. Þeim ber þá að tryggja einstaklingum þann rétt sem þar er kveðið á um. Við fullgildingu SRFF varð íslenska ríkið þar með bundið að þjóðarétti til þess að uppfylla þær skyldur sem kveðið er á um í samningnum.

Eftirlit með framkvæmd samningsins á alþjóðavettvangi er í höndum nefndar Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Innan tveggja ára frá fullgildingardegi ber ríkjum að skila inn skýrslum um framkvæmd samningsins. Nefndin óskar þá einnig eftir svokölluðum skuggaskýrslum frá hagsmunaaðilum. Nefndin hefur í framhaldi af yfirferð sinni yfir skýrslurnar gefið út lista yfir þau álitamál (list of issues) sem hún krefst svara við. Ríkin og hagsmunaaðilar geta þá skýrt mál sitt en frekar. Þegar nefndin hefur lokið yfirferð sinni yfir svörin gefur nefndin út tilmæli til úrbóta.

Dæmi eru um að ríki hafi bætt stöðu fatlaðs fólks eftir að hafa fengið slík tilmæli. Á heimasíðu International Disability Alliance, alþjóðasamtaka fatlaðs fólks má finna skjal þar sem allar ábendingar til allra ríkja er komið saman í eitt skjal. Sjá hér

Hver er munurinn á undirritun og fullgildingu samningsins?

Undirritun felur ekki í sér athafnaskyldu en fullgilding felur í sér að ríkið er orðið aðili að samningnum og undirgengist þær skuldbindingar sem í samningnum felast. Sjá einnig svörin hér að ofan.

Hvaða áhrif hefur fullgilding samningsins á gildandi lög og reglugerðir?

Íslenska réttarkerfið er byggt upp með þeim hætti að greint er á milli alþjóðaréttar og innanlandsréttar, fullgildir alþjóðasamningar hafa því ekki þótt fela í sér skýran rétt einstaklinga innan íslenska réttarkerfisins . Hinsvegar er það viðurkennd lögskýringaraðferð á Íslandi að lög skuli skýrð með tilliti til fullgiltra alþjóðasamninga. Fullgilding SRFF ætti þar með að hafa áhrif á inntak lagatexta í landinu.

Einnig er afar mikilvægt að hafa hér í huga að samningurinn felur í sér skuldbindingu ríkja um raunverulegt samráð á milli stjórnvalda og fatlaðs fólks í málum sem varða það.

„Þegar aðildarríkin undirbúa löggjöf sína og stefnu við að innleiða samning þennan og vinna að því að taka ákvarðanir um stöðu fatlaðs fólks skulu þau hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, þar með talið fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd“, sjá 3. tölulið 4. gr. samningsins

Hvaða réttarbætur hefur fullgilding samningsins í för með sér fyrir fatlað fólk?

Fullgilding felur í sér að einstaklingar eiga möguleika á því að byggja á samningnum fyrir dómstólum. Einnig felur fullgilding í sér samráðsskyldu, sbr. svörin hér að ofan.

Jafnframt verða ríki þá, í öllum sínum aðgerðum, að vinna að því að tryggja betur rétt fatlaðs fólks. Þeim ber þá einnig að setja lög sem tryggja stöðu fatlaðs fólks og jafnframt að afnema lög sem takmarka rétt fatlaðs þess.

Samningurinn felur einnig í sér að aðildarríki verði að endurskilgreina fötlun til samræmis við mannréttindaskilning á fötlun og jafnframt að vinna að skýrum aðgerðum til þess að vekja fólk til vitundar um stöðu og getu fatlaðs fólks, t.d. á vinnumarkaði.

Fullgilding mun þar með fela í sér að réttindum fatlaðs fólks verði gert hærra undir höfði og þau verða sýnilegri. SRFF er og verður mikilvægt tæki til þess að koma hlutunum í rétt horf.

Hvað tekur við nú þegar búið er að fullgilda samninginn?

Við fullgildingu hóf ÖBÍ strax að safna saman efni í skuggaskýrslu sína. Jafnframt hefur bandalagið sett enn frekari pressu á ríkisvaldið til þess að breyta lögum sínum og reglugerðum, til þess að tryggja rétt fólks. Efnisleg innleiðing í allt lagakerfið er nauðynleg á næstu misserum. Þar er mikið verk óunnið.

Einnig munu möguleikar fólks opnast til þess að krefjast úrbóta í sínum málum í gegnum dómskerfið.

ÖBÍ hefur í framhaldi af fullgildingu hans krafist þess að samningurinn verði lögfestur.

Hvers vegna lögfesting í framhaldinu?

Lögfesting tryggir best réttarstöðu fatlaðs fólks. Sami túlkunarvandinn verður ekki fyrir hendi og þegar einungis verður búið að fullgilda samninginn. Lögfesting tryggir að hægt sé að byggja rétt fólks á SRFF fyrir dómstólum með beinum hætti.

Hvað er skuggaskýrsla?

Skuggaskýrsla er skýrsla óháðra aðila, þ.e. ekki ríkisvaldsins, um stöðu mála í tilteknu ríki. Slíkar skýrslur eru sendar til nefndar Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Hvað er valfrjáls bókun? Geta einstaklingar kært brot gegn samningnum til SÞ?

Við samþykki Alþingis á fullgildingu samningsins var einnig samþykkt, einróma, að valfrjáls bókun við hann skyldi fullgilt af ráðherra fyrir hönd ríkisins fyrir árslok 2017. Því miður hefur enginn ráðherra orðið við skýrum vilja Alþingis til fullgildingar bókunarinnar..

Með valfrjálsri bókun við samninginn opnast einstaklingsbundin samskiptaleið, telji viðkomandi einstaklingar á sér brotið. Þessi kæruleið er háð þeim skilyrðum að einstaklingur hafi tæmt allar dómstólaleiðir innanlands. Bókunin opnar einnig á að hópar geti beint málum í sama farveg til nefndarinnar.

Einnig felur bókunin í sér ákveðnar rannsóknarheimildir fyrir nefndina telji hún ríki fremja alvarleg brot á samningnum. Hefur hún t.d. tekið fyrir áhrif niðurskurðaraðgerða í bresku velferðarkerfi á stöðu fatlaðs fólks í Bretlandi. Sjá skýrsluna hér:

Hver eru helstu einstaklingsmálin sem farið hafa fyrir nefndina?

Hvað er almennt álit?

Sameinuðu þjóðirnar gefa út svokölluð almenn álit ( e. „general comments“). Í þeim koma fram skýringar nefndarinnar á ákveðnum greinum og efnisatriðum samningsins.

Nefndin hefur gefið sjö almenn álit, þau eru:

 1. Réttarstaða til jafns við aðra (12. gr.)
 2. Aðgengi (9. Og 12. gr.)
 3. Fatlaðar konur og stúlkur (6. gr.)
 4. Réttur til inngildrar menntunar (24. gr.)
 5. Réttur til sjálfstæðs lífs (19. gr.)
 6. Jafnrétti og bann við mismunun (5. gr.)
 7. Þátttaka fatlaðs fólks við framkvæmd samningsins og við eftirlit með honum. ( 3. tölul. 4. gr. samningsins og 3. tölul. 33. gr. samningsins).

Álitin má finna hér

Hver eru helstu einstaklingsmálin sem farið hafa fyrir nefndina?

Nokkur einstaklingsmál hafa farið fyrir nefndina, málin hafa verið margþætt, jafnvel flókin en mörg hver áhugaverð (Sjá málin hér).Í þeim er að finna leiðbeiningar um skýringar á ákvæðum samningsins og setja þar með ákveðin fordæmi fyrir ríki til að fylgja eftir. Þau sem hafa komið hafa falið í sér grundvallarskýringar á gildissviði samningsins, fötlunarhugtakinu, viðeigandi aðlögun og aðgengi.

Einnig hafa komið fyrir nefndina mál sem varða rétt fatlaðra barna til fjölskyldulífs, rétt fatlaðra fanga til aðgangs að réttlæti.

Sundkort

Hvar fæ ég sundkort fatlaðra?

Sjálfsbjörg á höfuðborgarsvæðinu gefur út sundkort ÍTR fyrir fatlaða, Hátúni 12, Reykjavík, sími: 551-7868. Sjá nánari upplýsingar á Þekkingarmiðstöð Sjálfsbjargar

Upplýsingar um ÖBÍ

Hver er formaður ÖBÍ?

Þuríður Harpa Sigurðardóttir var kjörin formaður Öryrkjabandalags Íslands á aðalfundi bandalagsins haustið 2017. Hún er grafískur hönnuður að mennt og var framkvæmdastjóri Nýprents á Sauðárkróki áður en hún tók við formennsku ÖBÍ. Auk þess var Þuríður varaformaður Sjálfsbjargar þegar hún bauð sig fram.

Formaður ÖBÍ

Hvað er ÖBÍ?

ÖBÍ (Öryrkjabandalag Íslands) er heildarsamtök fatlaðs fólks á Íslandi, stofnað 5. maí 1961. Bandalagið samanstendur af 41 aðildarfélögum fatlaðs fólks, öryrkja, einstaklinga með langvinna sjúkdóma og aðstandenda þeirra. Aðildarfélögin eru hagsmunasamtök ólíkra fötlunarhópa sem öll starfa á landsvísu. Hvert og eitt er með sérþekkingu á sínu sviði og veita margskonar fræðslu og stuðning. Samanlagður félagafjöldi þeirra er um 47 þúsund manns.

Markmið og hlutverk ÖBÍ?

Markmið ÖBÍ er að íslenskt þjóðfélag verði samfélag jöfnuðar og réttlætis þar sem allir einstaklingar, óháð líkamlegu og andlegu atgervi, njóti mannsæmandi lífskjara og jafnra möguleika til sjálfstæðs lífs og virkrar samfélagslegrar þátttöku.

Hlutverk ÖBÍ er að koma fram fyrir hönd fatlaðs fólks gagnvart opinberum aðilum í hverskyns hagsmunamálum svo sem varðandi löggjöf, framkvæmd hennar og í dómsmálum er snerta rétt þess.

Hvað eru málefnahópar ÖBÍ?

Starf málefnahópanna er hryggjarstykkið í málefnavinnu bandalagsins og gerir það mögulegt að berjast á mörgum stöðum á sama tíma. Málefnahópar bandalagsins fjalla um kjaramál, heilbrigðismál, aðgengismál, atvinnu- og menntamál, sjálfstætt líf og málefni barna.

Þjónusta ÖBÍ

Útvegar ÖBÍ húsnæði?

ÖBÍ leigir ekki út húsnæði en eitt af fyrirtækjum ÖBÍ gerir það. BRYNJA – leigufélag er sjálfseignarstofnun sem á og rekur leiguhúsnæði fyrir fatlað fólk um allt land. Sjá nánar á brynjahus.is

Einnig má benda á að sveitarfélögin hafa lögbundna skyldu til að útvega fólki húsnæði sem þess þarfnast.

 • Félagsbústaðir leigja út íbúðir í Reykjavík fyrir einstaklinga og fjölskyldur sem eru undir skilgreindum tekju- og eignamörkum.

Kostar að fá lögfræðiráðgjöf hjá ÖBÍ?

Nei, fötluðu fólki og aðstandendum þeirra býðst ókeypis ráðgjöf hjá félagsráðgjafa ÖBÍ og lögfræðingum um réttindamál.

Ekki er um fasta viðtalstíma að ræða. Ráðgjafar okkar forgangsraða viðtölum og úthluta tímum ef ekki er hægt að leysa mál í gegnum síma eða tölvupóst.

Athugið að viðtalstíma þarf að panta fyrirfram í síma 530-6700 (á virkum dögum frá kl. 9:00 til 15:00) eða með því að senda beiðni um viðtal í tölvupósti á mottaka@obi.is

Höfðar ÖBÍ dómsmál?

ÖBÍ hefur í gegnum tíðina farið í mörg dómsmál sem varða hagsmuni fólks í aðildarfélögum ÖBÍ. Þegar ÖBÍ tekur ákvörðun um að höfða mál fyrir dómsmálum þá er tekið mið af því að málið hafi fordæmisgildi. Sjá nánar >