Skip to main content

Samningur SÞ um réttindi fatlaðs fólks

Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF) hefur það að markmiði að tryggja réttindi fatlaðs fólks til jafns við aðra. Þegar ríki verður aðili samningsins ber það skyldu til „að tryggja og stuðla að því að öll mannréttindi og grundvallarfrelsi verði í einu og öllu að veruleika fyrir allt fatlað fólk án mismununar af nokkru tagi vegna fötlunar“ sbr. 4. grein hans.

Um samning SÞ

Mannréttindi og jafnrétti

Allir einstaklingar eru jafnir fyrir lögum og eiga sama tilkall til allra mannréttinda. Með SRFF er viðurkennt að fatlað fólk hefur ekki haft sömu tækifæri og aðrir í gegnum tíðina. Aðildarríkin viðurkenna þessa staðreynd og heita því að vinna að bættum hag og bættum rétti fatlaðs fólks.

Samningurinn er fyrst og fremst jafnréttissamningur. Aðildarríkjum samningsins ber að vinna að jöfnum rétti og jöfnum tækifærum allra óháð fötlun. Samningurinn hefur nú þegar haft víðtæk áhrif á stöðu fatlaðs fólks í aðildarríkjum samningsins.

SRFF á Íslandi

Íslensk stjórnvöld undirrituðu samninginn árið 2007, fullgiltu hann 2016 en hafa enn ekki lögfest hann. Alþingi samþykkti vorið 2019 þingsályktunartillögu sextán þingmanna að ríkisstjórninni yrði falið að undirbúa lögfestingu SRFF og að frumvarpið yrði lagt fyrir Alþingi eigi síðar en 13. desember 2020. Sú varð ekki raunin. ÖBÍ treysti því að samningurinn yrði lögfestur á 152. löggjafarþingi 2021-2022. Sú varð heldur ekki raunin.

Lögfesting samningsins mun tryggja að fatlað fólk á Íslandi geti byggt rétt sinn á samningnum með beinum hætti. Það þýðir verulega réttarbót.

Undanfarin ár hefur ÖBÍ unnið markvisst með beinum og óbeinum hætti að tryggja öllu fötluðu fólki á Íslandi, óháð skerðingum, kynjum, aldri eða stöðu að öðru leiti, öll þau réttindi sem felast í samningnum. Það hefur verið gert með ýmsum hætti eins og með fræðslu, fundum og bréfaskriftum til ráðamanna, umsögnum, undirskriftasöfnunum, kynningum, markaðherferðum, alþjóðlegu samstarfi og ritun svokallaðrar skuggaskýrslu.

Skuggaskýrslan

Skuggaskýrsla er skýrsla óháðra aðila, þ.e. ekki ríkisvaldsins, um stöðu mála í tilteknu ríki. Slíkar skýrslur eru sendar til nefndar Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Alma Ýr Ingólfsdóttir lögfræðingur hefur séð um ritun skuggaskýrslu fyrir bandalagið.

Vert að skoða

Hafir þú spurningar um SRFF þá er búið að taka saman þær algengustu og svara þeim hér og hér fyrir neðan eru gagnlegir tenglar og upplýsingar.  Finnir þú ekki það sem þú leitar að þá endilega sendu okkur fyrirspurn á netfangið obi @ obi.is

Þingsályktun um nýja þýðingu - helstu breytingar

,,Meðal þeirra breytinga sem gerðar voru á þýðingunni eru eftirfarandi atriði:

 • Ekki er lengur talað um frávik í tengslum við fatlað fólk og er hugtakið respect for difference nú þýtt sem virðing fyrir fjölbreytni.
 • Liberty of movement er nú þýtt sem ferðafrelsi en var áður þýtt sem umferðarfrelsi.
 • Access to justice er nú þýtt sem aðgangur að réttinum en var áður aðgangur að réttarvörslukerfinu.
 • Equal recognition before the law er nú þýtt sem jöfn viðurkenning fyrir lögunum en var áður þýtt sem réttarstaða til jafns við aðra.
 • Security of the person er nú þýtt sem öryggi einstaklingsins en var áður mannhelgi.
 • Health er nú þýtt sem heilbrigði en var áður þýtt sem heilsa.
 • Legal capacity er nú þýtt sem löghæfi en var áður þýtt sem gerhæfi.
 • Promote er nú þýtt sem efla en var áður þýtt sem stuðla að.
 • Fundamental freedoms er nú þýtt sem grundvallarfrelsi en var áður mannfrelsi.

Þar að auki voru gerðar ýmsar orðalagsbreytingar í því skyni að gera þýðinguna aðgengi­legri og í betra samræmi við frumtextann. Í fskj. I er nýja þýðingin í heild sinni. Í fskj. II er tafla þar sem sjá má samanburð á frumtextanum, þ.e. gildandi þýðingu og nýju þýðingunni.“

Sjá nánar þingsályktunina.

Spurt og svarað um SRFF

Hafir þú spurningar um SRFF þá er búið að taka saman þær algengustu og svara þeim hér. Finnir þú ekki það sem þú leitar að þá endilega sendu okkur fyrirspurn á netfangið obi@obi.is

SRFF á auðlesnu máli á vef Þroskahjálpar

,,Sam-einuðu Þjóðirnar

Sam-einuðu þjóðirnar er stofnun þar sem þjóðir í heiminum hittast til að ræða og komast að sam-komu-lagi um miki-væg mál sem varða okkur öll
Sam-einðu þjóðirnar vilja frelsi og jafn-rétti allra …“

Sjá nánar á vef Þroskahjálpar

Um SRFF á vef Stjórnarráðsins

,,Markmið samningsins er að efla, verja og tryggja full og jöfn mannréttindi og grundvallarfrelsi fyrir allt fatlað fólk til jafns við aðra, ásamt því að efla og vinna að virðingu fyrir eðlislægri mannlegri reisn þess. Samningurinn felur í sér bann við hvers kyns mismunun á grundvelli fötlunar og að fötluðu fólki sé tryggð jöfn og árangursrík réttarvernd gegn mismunun á öllum sviðum.

Í 3. gr. er að finna almennar meginreglur samningsins, þær eru:

 • virðing fyrir eðlislægri reisn, sjálfræði einstaklinga, þar með talið frelsi til að taka eigin ákvarðanir, og sjálfstæði einstaklinga
 • bann við mismunun
 • full og virk þátttaka í samfélaginu án aðgreiningar
 • virðing fyrir fjölbreytileika og viðurkenning á fötluðu fólki sem hluta af mannlegum margbreytileika og mannkyni
 • jöfn tækifæri
 • aðgengi
 • jafnrétti á milli karla og kvenna
 • virðing fyrir stigvaxandi getu fatlaðra barna og virðing fyrir rétti þeirra til að varðveita sjálfsmynd sína“

Sjá nánar á vef Stjórnarráðsins

SRFF á vef Sameinuðu þjóðanna

Á vef Sameinuðu þjóðanna má nálgast upplýsingar um samninginn og ýmsar útgáfur af honum.

Sjá nánar á vef Sameinuðu þjóðanna