Réttur sérhvers manns er að njóta líkamlegrar og andlegrar heilsu að hæsta marki sem unnt er án mismununar af nokkru tagi. Undir heilbrigðisþjónustu fellur ýmislegt, t.a.m. læknisþjónusta, hjálpartæki, lyf og lyfjakostnaður, sálfræðiþjónusta – svo eitthvað sé nefnt.
Stefna ÖBÍ
Stefna ÖBÍ er að stuðla að því að tryggt sé að fatlað fólk fái og hafi aðgang að bestu heilbrigðisþjónustu sem völ er á. Jafnframt að samfelld þjónusta sé veitt á réttu þjónustustigi hverju sinni og að jafnræðis sé gætt við veitingu heilbrigðisþjónustu.
Niðurgreiðum sálfræðiþjónustu
Sálfélagslegan stuðning hefur sárlega vantað í heilbrigðisþjónustu og endurhæfingu. Tryggja þarf greiðsluþátttöku SÍ á sálfræðiþjónustu eins og skylt er samkvæmt lögum.
Tilvísun í samning Sþ um réttindi fatlaðs fólks, SRFF: 25. gr.
Lækkum greiðsluþátttöku í heilbrigðiskerfinu
Greiðsluþök eru enn of há í greiðslu þátttökukerfi lyfja og heilbrigðisþjónustu. Upphafskostnaður er mörgum um megn. Of mikið af lyfjum og þjónustu er enn utan kerfa.
Tilvísun í samning Sþ um réttindi fatlaðs fólks, SRFF: 25., og 26. gr.
Aukið aðgengi að hjálpartækjum fjarlægir hindranir
Aðgengi að hjálpartækjum verður að miðast við þarfir og óskir fatlaðs fólks, með virkni og sjálfstætt líf að markmiði. Taka verður mið af samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
Tilvísun í samning Sþ um réttindi fatlaðs fólks, SRFF: 4., 20., 26. og 29. gr.
Rétturinn á bestu mögulegu heilsu
Rétturinn á bestu mögulegu heilsu er meðal mikilvægustu grunnmannréttinda og því mikilvægt skilyrði fyrir möguleika fólks á því að njóta annarra mannréttinda. Rétturinn til heilsu felur einnig í sér frelsi hvers og eins til að ráða yfir eigin líkama og taka ákvörðun um viðeigandi meðferð. Bæði innlend löggjöf og fjöldi alþjóðlegra mannréttindasamninga áskilja að rétturinn til bestu mögulegu heilbrigðisþjónustu sé tryggður. Má þar nefna Stjórnarskrá Íslands lög nr. 33/1944, samningur Sameinuðu Þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna, Mannréttindasáttmáli Evrópu, alþjóðasamningurinn um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi, samningurinn um afnám allrar mismununar gagnvart konum og samningurinn um réttindi barnsins.
25. gr. Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks
Greinin fjallar um heilbrigði. Aðildarríkin viðurkenna að fatlað fólk hafi rétt til þess að njóta heilbrigðis án mismununar á grundvelli fötlunar. Aðildarríkin skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir til þess að tryggja fötluðu fólki aðgang að heilbrigðisþjónustu, sem tekur mið af kyni, þar á meðal heilsutengdri endurhæfingu.
Heilbrigðismálahópur ÖBÍ
Hlutverk hópsins er að stuðla að aukinni skilvirkni heilbrigðisþjónustu og aðgengi fatlaðs fólks að henni. Heilbrigðismálahópur ÖBÍ stuðlar að því að réttur til heilbrigðisþjónustu sé tryggður og sé aðgengilegur öllum óháð stöðu, tekjum og búsetu.