Skip to main content

Heilbrigðismál

Fatlað fólk hefur sama rétt og aðrir á heilbrigðisþjónustu. Greining og inngrip skal hefjast eins fljótt og kostur er til að koma í veg fyrir frekari skerðingar ...

Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks

Heilbrigðisþjónusta fyrir alla

Réttur sérhvers manns er að njóta líkamlegrar og andlegrar heilsu að hæsta marki sem unnt er án mismununar af nokkru tagi. Undir heilbrigðisþjónustu fellur ýmislegt, t.a.m. læknisþjónusta, hjálpartæki, lyf og lyfjakostnaður, sálfræðiþjónusta – svo eitthvað sé nefnt.

Stefna ÖBÍ

Stefna ÖBÍ er að stuðla að því að tryggt sé að fatlað fólk fái og hafi aðgang að bestu heilbrigðisþjónustu sem völ er á. Jafnframt að samfelld þjónusta sé veitt á réttu þjónustustigi hverju sinni og að jafnræðis sé gætt við veitingu heilbrigðisþjónustu.

Niðurgreiðum sálfræðiþjónustu

Sálfélagslegan stuðning hefur sárlega vantað í heilbrigðisþjónustu og endurhæfingu. Tryggja þarf greiðsluþátttöku SÍ á sálfræðiþjónustu eins og skylt er samkvæmt lögum.

Tilvísun í samning Sþ um réttindi fatlaðs fólks, SRFF: 25. gr.

Lækkum greiðsluþátttöku í heilbrigðiskerfinu

Greiðsluþök eru enn of há í greiðslu þátttökukerfi lyfja og heilbrigðisþjónustu. Upphafskostnaður er mörgum um megn. Of mikið af lyfjum og þjónustu er enn utan kerfa.

Tilvísun í samning Sþ um réttindi fatlaðs fólks, SRFF: 25., og 26. gr.

Aukið aðgengi að hjálpartækjum fjarlægir hindranir

Aðgengi að hjálpartækjum verður að miðast við þarfir og óskir fatlaðs fólks, með virkni og sjálfstætt líf að markmiði. Taka verður mið af samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Tilvísun í samning Sþ um réttindi fatlaðs fólks, SRFF: 4., 20., 26. og 29. gr.

Rétturinn á bestu mögulegu heilsu

Rétturinn á bestu mögulegu heilsu er meðal mikilvægustu grunnmannréttinda og því mikilvægt skilyrði fyrir möguleika fólks á því að njóta annarra mannréttinda. Rétturinn til heilsu felur einnig í sér frelsi hvers og eins til að ráða yfir eigin líkama og taka ákvörðun um viðeigandi meðferð. Bæði innlend löggjöf og fjöldi alþjóðlegra mannréttindasamninga áskilja að rétturinn til bestu mögulegu heilbrigðisþjónustu sé tryggður. Má þar nefna Stjórnarskrá Íslands lög nr. 33/1944,  samningur Sameinuðu Þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna, Mannréttindasáttmáli Evrópu, alþjóðasamningurinn um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi, samningurinn um afnám allrar mismununar gagnvart konum og samningurinn um réttindi barnsins.

25. gr. Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks

Greinin fjallar um heilbrigði. Aðildarríkin viðurkenna að fatlað fólk hafi rétt til þess að njóta heilbrigðis án mismununar á grundvelli fötlunar. Aðildarríkin skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir til þess að tryggja fötluðu fólki aðgang að heilbrigðisþjónustu, sem tekur mið af kyni, þar á meðal heilsutengdri endurhæfingu.

Heilbrigðismálahópur ÖBÍ

Hlutverk hópsins er að stuðla að aukinni skilvirkni heilbrigðisþjónustu og aðgengi fatlaðs fólks að henni. Heilbrigðismálahópur ÖBÍ stuðlar að því að réttur til heilbrigðisþjónustu sé tryggður og sé aðgengilegur öllum óháð stöðu, tekjum og búsetu.

Sjá nánar um málefnahópinn og starfsemi hans

Hvert getur þú leitað?

Réttindagæslumaður fatlaðs fólks

Samkvæmt lögum um réttindagæslu fyrir fatlað fólk starfa réttindagæslumenn fatlaðs fólks í öllum landshlutum. Verkefni þeirra er að fylgjast með högum fatlaðs fólks og aðstoða það við hvers konar réttindagæslu.

Fatlaður einstaklingur getur leitað til réttindagæslumanns með hvaðeina sem varðar réttindi hans, fjármuni og önnur persónuleg mál. Réttindagæslumaður skal veita honum stuðning og aðstoða hann við að leita réttar síns eftir því sem við á. Einnig er gert ráð fyrir að hver sá sem telur að brotið sé á réttindum fatlaðs einstaklings geti tilkynnt það réttindagæslumanni auk þess sem réttindagæslumaður getur tekið upp mál að eigin frumkvæði. Réttindagæslumaður skal vera sýnilegur og standa fyrir fræðslu fyrir fatlað fólk og þá sem starfa með því.

Sjá nánar.

Sjúkratryggingar Íslands

Sjúkratryggingar greiða hluta af kostnaði eða allan kostnað þeirra sem eru sjúkratryggðir vegna heilbrigðisþjónustu. Markmið laga um sjúkratryggingar er að tryggja aðstoð til verndar heilbrigði og jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag. Á stofnuninni hvílir lagaleg skylda að veita almenningi þjónustu og ráðgjöf um réttindi og skyldum samkvæmt þeim.

Sjá nánar.

Félagsþjónusta sveitarfélaga

Félagsþjónusta sveitarfélaga – Markmið félagsþjónustu sveitarfélaga er að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi íbúanna og stuðla að velferð á grundvelli samhjálpar. Það skal meðal annars gert með því að bæta lífskjör þeirra sem standa höllum fæti, tryggja uppeldisskilyrði barna, veita aðstoð til þess að fólk geti búið sem lengst á eigin heimili, stundað atvinnu og lifað sem eðlilegustu lífi. Einnig skal gripið til aðgerða til að koma í veg fyrir félagsleg vandamál. Við framkvæmd félagsþjónustunnar skal einstaklingurinn hvattur til að bera ábyrgð á sjálfum sér og öðrum, sjálfsákvörðunarréttur hans virtur og hann styrktur til sjálfshjálpar.

Tenglar á gagnlegt efni

Menntun og atvinna á island.is

,,Samkvæmt lögum á fatlað fólk rétt til náms með viðeigandi stuðningi á öllum stigum skólakerfisins. Það á líka rétt á starfsráðgjöf og aðstoð við að finna atvinnu við hæfi.“ Sjá nánar á island.is 

Atvinna og virkni fyrir fatlað fólk hjá Reykjavíkurborg

,,Atvinna er stór og mikilvægur þáttur í lífi fólks. Það að vera virkur þátttakandi í samfélaginu hefur jákvæð áhrif á sjálfsmynd og líðan. Margt fatlað fólk býr yfir dýrmætri reynslu og þekkingu sem getur nýst í ýmsum störfum, en þarf stundum aðstoð eða vinnuaðstöðu, aðgengi, vinnutíma og verkefni sem koma til móts við þarfir þess, almennt kallað viðeigandi aðlögun.“ Sjá nánar á reykjavik.is