Skip to main content

Kjaramál

Mynd: Ruth Ásgeirsdóttir.

Fatlað fólk á rétt á viðeigandi lífskjörum og sífellt batnandi lífsskilyrða til jafns við aðra. Fatlað fólk á rétt á að eiga og erfa eignir, stjórna peningamálum sínum og taka lán ...

Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks

Hlutfall fatlaðs fólks sem á erfitt eða mjög erfitt með að ná endum saman. Varða, 2021

70%
1. maí réttindaganga ÖBÍ. Gengið var frá Skólavörðuholti niður á Ingólfstorg.

Mynd: Ruth Ásgeirsdóttir.

Þín kjör og réttindi

Kjör fatlaðs fólks snúa að grundvallar mannréttindum til mannsæmandi lífs. Kjör snerta líf allra einstaklinga. Viðunandi lífsafkoma fatlaðs fólks er grundvallaratriði fyrir þátttöku þeirra í samfélaginu og að eiga möguleika á að lifa til jafns við aðra. Að búa við fátækt einangrar og aðgreinir fólk frá samfélaginu.

Stefna ÖBÍ


Hækkun örorkulífeyris almannatrygginga

Það er mikið réttlætismál að lífeyrir almannatrygginga hækki samkvæmt skýrum reglum, líkt og gildir til að mynda um þingfararkaup. Frítekjumörk hafa ekki hækkað síðan árið 2009 og löngu tímabært að hækka þau.

Tilvísun í samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, SRFF: 28. gr.

Dregið verði verulega úr tekjutengingum

Mikilvægt er að áratuga löng kjaragliðnun verði bætt með tímasettri áætlun. Allt frá árinu 2009 hefur skilið æ meir á milli örorkulífeyris og lægstu launa. Nú er svo komið að munar um 85 þúsund krónum á grunn lífeyri og lægstu launum. Stærsti hluti þeirra sem hafa framfæri sitt af örorkulífeyri lifa af honum strípuðum.

Tilvísun í samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, SRFF: 28.gr.

Einföldun lífeyriskerfa og samspils þeirra á milli

Við leggjum áherslu á að kerfi almannatrygginga og lífeyrissjóða verði endurskoðuð og einfölduð. Víxlverkanir afnumdar og dregið verulega úr tekjuskerðingum.

Tilvísun í samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, SRFF: 28. gr.

Krafa um samráð og aðkomu ÖBÍ að heildarendurskoðun varðandi kjaramál fatlaðs fólks

 

Staðan í dag

Almannalífeyrir öryrkja er lægri en lágmarkslaun og atvinnuleysisbætur. Skerðingar vegna tekna eru gríðarlegar og með þeim hætti að öryrkjum er illmögulegt að bæta kjör sín.

28. gr. Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF)

28. gr. samningsins fjallar um viðunandi lífskjör og félagslega vernd. Þar segir í 1. lið. Aðildarríkin viðurkenna rétt fatlaðs fólks og fjölskyldna þess til viðunandi lífskjara, þar á meðal viðunandi fæðis, klæða og húsnæðis, og til sífellt batnandi lífsskilyrða og skulu gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja og stuðla að því að þessi réttur verði að veruleika án mismununar á grundvelli fötlunar. Einnig kemur fram í lið 2 eftirfarandi:

  • til þess að tryggja fötluðu fólki og fjölskyldum þess, sem lifa í fátækt, aðgang að aðstoð frá hinu opinbera til þess að standa straum af útgjöldum vegna fötlunar, þar á meðal útgjöldum vegna viðeigandi þjálfunar, ráðgjafar, fjárhagslegrar aðstoðar og hvíldarumönnunar,
  • til þess að tryggja fötluðu fólki aðgang að húsnæðiskerfi á vegum hins opinbera, e) til þess að tryggja fötluðu fólki jafnan aðgang á við aðra að eftirlaunum og eftirlaunakerfum.

Kjarahópur ÖBÍ

Hlutverk kjarahópsins er að berjast fyrir bættum lífskjörum og útrýmingu fátæktar fatlaðs fólks. Á þann hátt má fyrirbyggja félagslega einangrun og jaðarsetningu. Markmiðið er að fatlað fólk geti lifað sjálfstæðu og mannsæmandi lífi af eigin tekjum, sem hvetur til meiri þátttöku í samfélaginu og bætir heilsu.

Sjá nánar um kjarahópinn og starfsemi hans

Hvert getur þú leitað?

Tryggingastofnun ríkisins

Tryggingastofnun er þjónustustofnun og starfar samkvæmt lögum um almannatryggingar og lögum félagslega aðstoð. Tryggingastofnun framkvæmir örorku- og endurhæfingarmöt og sér um að greiða elli-, örorku og endurhæfingarlífeyri. Örorkumat hjá TR byggir á reglugerð um örorkumat nr. 379/1999.

Lífeyrissjóðir

Lífeyrissjóðir greiða elli- og örorkulífeyri til sjóðsfélaga sinna. Sótt er um örorkumat hjá lífeyrissjóði sem síðast var greitt iðgjald til. Trúnaðarlæknar lífeyrissjóða gera örorkumöt.

Sveitarfélög

Sveitarfélögum ber að vera með reglur um og veita sérstakan húsnæðisstuðning sem kemur til viðbótar við húsnæðisbætur frá HMS. Félagsþjónusta sveitarfélaga veitir fjárhagsaðstoð í samræmi við reglur sveitarfélagsins.

ÖBÍ réttindasamtök

Á skrifstofu ÖBÍ býðst fötluðu fólki og aðstandendum þeirra frí ráðgjöf félagsráðgjafa og lögfræðinga um réttindamál. Athugið að viðtalstíma þarf að panta í síma 530-6700 eða með tölvupósti: mottaka@obi.is

Þegar brotið er á réttindum  fatlaðs fólks og málið er fordæmisgefandi fyrir heildina eða stóra hópa fólks er kannað hvort lagt skuli í málaferli. Stjórn ÖBÍ tekur ákvörðun þar um.

Húsnæðis-og mannvirkjastofnun (HMS)

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun annast framkvæmd laga nr. 75/2016 um húsnæðisbætur og tekur ákvarðanir um rétt til húsnæðisbóta. Húsnæðisbætur eru mánaðarlegar greiðslur sem eru ætlaðar til að aðstoða þá sem leigja íbúðarhúsnæði, hvort sem er í félagslega kerfinu, námsgörðum eða á hinum almenna leigumarkaði.