Skip to main content

Samráð

Ekkert um okkur án okkar

Tala á við fatlað fólk þegar teknar eru ákvarðanir sem snerta líf þess. Fatlað fólk á rétt á að hafa áhrif á allar slíkar ákvarðnir  – en til þess að það geti gerst þarf samtal. Samráð er samtal þar sem raunverulega er hlustað á fatlað fólk og ákvarðanir eru byggðar á sjónarmiðum og vilja þess.

Þrátt fyrir að samráð þýði í sinni einföldustu mynd bara samtal þar sem hlustað er á vilja fatlaðs fólks, hefur orðið mun dýpri merkingu þegar það er skoðað í skilningi laga. Samkvæmt lögum á samráðsskylda við um allar ákvarðanir stjórnvalda sem tengjast fötluðu fólki.

 

Samráð ríkisins við fatlað fólk

Þegar Alþingi mótar lög sem tengjast fötluðu fólki ber því skylda til að eiga samráð við það. Þetta er í takti við einkunnarorð ÖBÍ „ekkert um okkur án okkar“. Á ríkinu hvílir  „frumkvæðisskylda“ til samráðs sem þýðir að samráðið á að byrja strax á fyrstu stigum þegar verið er að móta stefnu, til dæmis að nýjum lögum. Það er ekki raunverulegt og þýðingarbært samráð ef fötluðu fólki er boðið til samtals þegar löggjöf hefur þegar verið mótuð, heldur á það rétt á að taka þátt í stefnumótuninni fá byrjun. Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks tekur meðal annars á þessu en í honum segir að við þróun og innleiðingu löggjafar og við annað ákvörðunartökuferli varðandi málefni fatlaðs fólks, skuli ríkið hafa „náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, þar á meðal fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd“.

 

Samráð sveitarfélaga við fatlað fólk

Skipta má skyldu sveitarfélaga til samráðs við fatlað fólk upp í þrjú mismunandi stig, sem geta þó öll átt við í sumum tilfellum:

Samráð við fatlaðan einstakling um þjónustu hans

Þar sem sveitarfélög veita fötluðu fólki þjónustu er sérstaklega mikilvægt að þau eigi samtal og samráð við manneskjuna sjálfa um hvernig best megi útfæra þjónustuna sem hún á rétt á að fá.

Samráð við fatlað fólk í nærsamfélaginu

Sveitarfélögum ber skylda til þess að viðhafa almennt samráð við fatlað fólk í nærsamfélaginu og hagsmunasamtök þess í sinni stefnumótun. Dæmi um slík samráð eru „notendaráð“ sem eru sérstakar nefndir þar sem fulltrúar fatlaðs fólks sitja með fulltrúum sveitarfélaga og fjalla um ákvarðanir og stefnumótun í sveitarfélaginu.

Það er lögbundin skylda sveitarfélaga að hafa slík notendaráð og jafnframt að fá tilnefningar um fatlaða fulltrúa frá hagsmunasamtökum á borð við ÖBÍ. Þó að um mál hafi verið fjallað í notendaráði er eðlilegt að sveitarfélög hafi stundum beint samráð hagsmunasamtök fatlaðs fólks þar sem hjá þeim er gjarnan að finna víðtæka sérfræðikunnáttu. Þegar öllu er á botninn hvolft, er einfaldlega ekki hægt að viðhafa of mikið samráð. Nánar um notendaráð.

 

Samráð við hagsmunasamtök

Í stærri og flóknari málum, eins og þegar setja á nýjar reglur um þjónustu er rétt að sveitarfélög viðhafi samráð við hagsmunasamtök fatlaðs fólks beint. Þá er mikilvægt að sveitarfélög horfi til sem flestra sjónarmiða og taki mið af fjölbreyttum röddum úr röðum fatlaðs fólks.