Það eru sjálfsögð mannréttindi að hugsað sé fyrir því að fatlað fólk upplifi ekki hindranir þar sem aðrir komast áfram að eigin rammleik. Fatlað fólk vill lifa sjálfstæðu lífi og því þarf að huga að allt frá hönnun til framkvæmdar og notkunar að aðgengi sé greitt að byggingum og öðrum mannvirkjum, samgöngum, upplýsingum og þjónustu. Þar sem framkvæmd hefur verið ábótavant á að gera úrbætur sem unnt er.
Stefna ÖBÍ
ÖBÍ leggur mikla áherslu á að stjórnvöld tryggi réttindi fatlaðs fólk með lögum og setji upp þá ramma sem nauðsynlegir þykja til að fylgjast með því að þau séu virt.
Algild hönnun húsnæðis
Tryggja þarf að ákvæðum byggingareglugerðar þar um verði framfylgt. Það gagnast öllum, ekki bara fötluðu fólki.
Tilvísun í samning Sþ um réttindi fatlaðs fólks, SRFF: 4., 9. og 28. gr.
Aðgengilegar almenningssamgöngur
Enn vantar töluvert upp á að almenningssamgöngur séu aðgengilegar, þrátt fyrir lagaákvæði þar um. Það nær til farartækja, sem og biðstöðva.
Tilvísun í samning Sþ um réttindi fatlaðs fólks, SRFF: 4., 9., 18 og 20. gr.
Stafrænt aðgengi að upplýsingum
Gæta þarf þess að stafrænar lausnir uppfylli kröfur gildandi staðla um aðgengi. Allir skulu hafa jafnt aðgengi að hinum stafræna heimi.
Tilvísun í samning Sþ um réttindi fatlaðs fólks, SRFF: 9., 21., 23. og 31. gr.
Lagagrundvöllur stafræns aðgengis
Engin löggjöf tryggir stafrænt aðgengi á Íslandi á sama hátt og þekkist í Evrópu. Íslandi ber að innleiða tilskipanir EES um opinber vefsvæði og smáforrit.
Tilvísun í samning Sþ um réttindi fatlaðs fólks, SRFF: 9., 21., 23., og 31. gr.
Staðan í dag
Því miður er lögum ekki alltaf fylgt og einnig vantar kvaðir um að bæta aðgengi afturvirkt. Sem dæmi má telja að aðgengi að nýbyggingum er oft ábótavant þrátt fyrir að skýrt komi fram í byggingarreglugerð að fatlað fólk eigi að geta komist sinnar leiðar á eigin spýtur rétt eins og aðrir. Fólk þarf til dæmis að glíma við þungar hurðir án sjálfvirkra opnara, háa þröskulda og skort á bílastæðum. Tilskipun um stafrænt aðgengi að opinberum heimasíðum og öppum hefur ekki verið tekin upp á Íslandi, en í öllum öðrum Evrópulöndum. Biðstöðvar á landsbyggðinni eru allar óaðgengilegar að meira eða minna leyti skv. úttekt ÖBÍ.
Þín réttindi
Ákvæði eru um algilda hönnun í t.d. skipulags- og mannvirkjalögum og einnig eru ákvæði í löggjöf um samgöngur og samgöngutæki um að biðstöðvar eða samgöngumiðstöðvar eigi að vera aðgengilegar, sem og samgöngutæki á borð við flugvélar, almenningsvagna og ferjur, auk þess sem starfsfólk á að vera upplýst og þjálfað í að þjónusta fatlað fólk.
9. gr. & 20 gr. Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks
9. gr. samningsins fjallar um aðgengi: Til að gera fötluðu fólki kleift að lifa sjálfstæðu lífi og taka fullan þátt á öllum sviðum lífsins skulu aðildarríkin gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja fötluðu fólki aðgengi, til jafns við aðra, að efnislegu umhverfi sínu, samgöngum, upplýsingum og samskiptum, þ.m.t. samskiptatækni og -kerfi og að annarri aðstöðu og þjónustu sem opin er eða veitt almenningi hvort sem er í þéttbýli eða dreifbýli. Ráðstafanir þessar, sem skulu fela í sér að bera kennsl á og útrýma hindrunum og tálmunum aðgengis, skulu meðal annars ná til: a) bygginga, vega, samgangna og annarrar aðstöðu innan dyra sem utan, þar á meðal skóla, íbúðarhúsnæðis, heilbrigðisstofnana og vinnustaða, b) upplýsinga og samskipta auk annarrar þjónustu, þar á meðal rafrænnar þjónustu og neyðarþjónustu.
20. gr. samningsins fjallar um ferlimál einstaklinga: Aðildarríkin skulu gera árangursríkar ráðstafanir til þess að tryggja að fatlað fólk geti farið allra sinna ferða og tryggja sjálfstæði þess í þeim efnum, eftir því sem frekast er unnt, meðal annars með því: að greiða fyrir því að fatlað fólk geti farið allra sinna ferða með þeim hætti og á þeim tíma sem það kýs og á viðráðanlegu verði, að greiða fyrir aðgangi fatlaðs fólks að gæðaferliaðstoð, -búnaði, -stuðningstækni og ýmiss konar persónulegri aðstoð og milliliðum, þar á meðal með því að hafa búnað og þjónustu tiltæk á viðráðanlegu verði, að láta fötluðu fólki og sérhæfðu starfsfólki, sem vinnur með því, í té fræðslu og þjálfun í hreyfifærni, að hvetja framleiðendur hjálpartækja, búnaðar og stuðningstækni til þess að taka tillit til allra þátta ferlimála fatlaðs fólks.
Aðgengishópur ÖBÍ
Hlutverk hópsins er að stuðla að auknu aðgengi fatlaðs fólks að samfélaginu, upplýsingum, þjónustu, manngerðu umhverfi og náttúrunni.