Skip to main content
AðgengiHúsnæðismálUmsögn

Landsskipulagsstefna fyrir árin 2024–2038 ásamt aðgerðaáætlun

By 15. desember 2023No Comments
Umsögn ÖBÍ réttindasamtaka um tillögu til þingsályktunar um landsskipulagsstefnu fyrir árin 2024–2038 ásamt fimm ára aðgerðaáætlun fyrir árin 2024–2028, þskj. 621, mál 535.

ÖBÍ réttindasamtök (ÖBÍ) fagnar því að landsskipulag miði að því að samhæfa og efla stefnumótun og áætlanagerð á sviði húsnæðis- og skipulagsmála, samgangna og byggðamála. Fatlað fólk á rétt til ferðafrelsis og frelsis til að velja sér búsetu, sbr. 18. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF). Sá réttur er ekki virtur nema að stjórnvöld tryggi það að á búsetusvæðunum sé nægt framboð af aðgengilegu húsnæði, að samgönguleiðir séu greiðar og almenningssamgöngur geri ráð fyrir öllum. Einnig þarf að tryggja heilbrigðis- og félagsþjónustu og að öryggi allra sé borgið í hættuástandi, til dæmis vegna náttúruhamfara.

Hugmyndafræði um algildra hönnun þarf að vera öllum áætlunum til grundvallar, eins og kveðið er á um í lögum um mannvirki, nr. 160/2010 og skipulagslög nr. 123/2010. Algild hönnun á ekki aðeins við um manngert umhverfi heldur alla þjónustu og felur í sér að horft sé til þarfa allra frá upphafi. Algild hönnun kemur í veg fyrir að kostnaðarsamar, tímafrekar og flóknar viðbætur komi til þegar kerfin eru tekin í notkun en oftar en ekki kemur í ljós að kerfi og þjónusta útiloka og jaðarsetja ákveðna þjóðfélagshópa. Brýnt er að huga vel að fjölbreyttum aðstæðum einstaklinga og skipuleggja aðgengilegt samfélag fyrir öll en ekki bara sum. ÖBÍ leggur því fram eftirfarandi athugasemdir og tillögur til úrbóta.

Lykilviðfangsefni

Meirihluti íbúðarhúsnæðis og mannvirkja á Íslandi er óaðgengilegt fötluðu fólki sem hefur því fá úrræði til að taka virkan þátt í samfélaginu til jafns við ófatlað fólk. Mikilvægt er að stjórnvöld tilgreini þessa stöðu sem eitt af lykilviðfangsefnum landskipulags.

ÖBÍ leggur til eftirfarandi breytingar á 2. lið lykilviðfangsefna: „2. Jafnvægi í uppbyggingu aðgengilegs húsnæðis, mannvirkja og jafnt aðgengi að lífsgæðum í byggðu umhverfi.“

Markmið, áherslur og mælikvarðar

Áhersla B.2.
ÖBÍ telur jákvætt að við framfylgd skipulagsgerðar verði stuðlað að búsetufrelsi með sem jöfnustu aðgengi að grunnþjónustu, húsnæði og fjölbreyttum atvinnutækifærum.

ÖBÍ óskar eftir að stjórnvöld tilgreini með skýrum hætti hvernig þau sjá fyrir sér að ná fram þessum áherslum með tilliti til aðgengis fatlaðs fólks að grunnþjónustu, húsnæði og fjölbreyttum atvinnutækifærum.

Áhersla B.4.
Uppbygging aðgengilegs húsnæðis og bættir innviðir aðgengilegra almenningssamgangna leggur grunninn að sjálfstæðu lífi og ýtir undir þátttöku fatlaðs fólks í samfélaginu, ekki síst á vinnumarkaði. Það stuðlar að bættu félagslífi og minnkar hættuna á félagslegri einangrun. Þegar fólk getur sjálft sótt sér þjónustu utan heimilis minnkar það þörfina á félags- og heilbrigðisþjónustu heim og stofnanauppbyggingu. Í dag eru fjölmörg dæmi um að fatlað fólk sé fast í sínu nærumhverfi eða á heimilum sínum sökum skorts á aðgengi.

ÖBÍ leggur til að stjórnvöld bæti við í leiðarljós sitt um skipulag skilvirkra samgangna að samgöngur séu aðgengilegar og mæti þörfum fatlaðs fólks. Sú áhersla nær jafnt til þéttbýlis sem og dreifbýlis enda er fatlað fólk fjölbreyttur hópur með búsetu um land allt.

Áhersla B.7.
Að mati ÖBÍ er áhersla stjórnvalda um að gert verði ráð fyrir aðstæðum ólíkra aldurs- og getuhópum við skipulag almenningsrýma og útivistarsvæða í dreifbýli sem og þéttbýli jákvætt skref í rétta átt.

Áhersla B.8.
Óaðgengileg hönnun íbúða og nærumhverfis þrengir verulega að tækifærum fatlaðs fólks um að komast í örugga búsetu á eigin forsendum. Það er afar mikilvægt að nú þegar skrifa á byggingarreglugerð með forskriftarákvæðum, að arkitektar og hönnuðir, verktakar og iðnaðarmenn og almenningur allur hafi aðgang að góðum upplýsingum og leiðbeiningum um hvernig á að uppfylla skyldu um algilda hönnun og algilda framkvæmd sem tryggja á aðgengi fyrir alla að mannvirkjunum.

Til að stjórnvöld nái markmiðum sínum í 3. lið í áherslu B.8. leggur ÖBÍ til að slökkviliðinu og öðrum eftirlitsaðilum verði veitt aðgengiseftirlit með byggingu íbúða á öllum framvindustigum til að tryggja jafnt aðgengi fatlaðs fólks í samræmi við markmið SRFF.

Áhersla C.6.
Í áherslunni er tekið fram að mörkuð verði stefna um uppbyggingu atvinnuhúsnæðis sem taki mið af fyrirsjáanlegum þörfum samfélagsins og þróun til framtíðar. Einnig að í skipulagi atvinnusvæða verði tekið mið af því hvernig þau geti nýtt eða styrkt núverandi innviði til að mæta þörfum atvinnulífs og heimila. ÖBÍ bendir á að atvinnutækifæri fatlaðs fólks eru af skornum skammti og dæmi eru um að atvinnurekendur veigri sér við að ráða fatlað fólk til starfa sökum þess að vinnustaðurinn sé óaðgengilegur.

ÖBÍ leggur til að bæta eftirfarandi áherslupunkti við áherslu C.6: „Í skipulagi á uppbyggingu atvinnuhúsnæðis og samgöngum verði stuðst við algilda hönnun til að jafna stöðu fatlaðs fólks og tryggja aðgengi allra til þátttöku í atvinnulífinu.“

Áhersla C.7.
Við skipulag um uppbyggingu ferðaþjónustu þarf að gæta þess að hún sé fyrir öll. Aðgengi fatlaðs fólks að ferðamannastöðum er afar takmarkað enda hefur ekki nægilega vel verið tekið mið af því að fatlað fólk vill geta ferðast eins og aðrir við uppbyggingu ferðamannastaða.

Allar uppbyggingaráætlanir og framkvæmdir þurfa að gera ráð fyrir að fatlað fólk hafi aðgengi að þjónustu, bílastæðum og salernum og að gönguleiðir séu hindrunarlausar frá bílastæðum að því markverðasta á svæðinu. Ef t.d. byggður er útsýnispallur með yfirsýn yfir stórbrotna náttúru þá verður að gæta þess að öll komist að honum og þurfi ekki að snúa við vegna hindrana. Mikilvægt er að hafa það til grundvallar við framkvæmd aðgerðar 12 og eru ábyrgðar- og framkvæmdaraðilar hvattir til að fara eftir stöðlum, byggingarreglugerð og gátlistum allt frá fyrstu drögum.

Aðgerðaráætlun 2024-2028

3. Skipulag mæti húsnæðisþörf.
ÖBÍ telur jákvætt að ríki og sveitarfélög nái yfirsýn yfir raunstöðu á þörf fyrir félagslegt húsnæði innan hvers sveitarfélags og að sveitarfélög sammælist um skilgreiningar á félagshópum og viðmiðum. Nú þegar er í lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991 og lögum um húsnæðismál, nr. 44/1998 að sveitarfélög skuli tryggja framboð af húsnæði og að sveitarfélögin beri ábyrgð á að leysa húsnæðisþörf fólks sem þarfnast aðstoðar við húsnæðisöflun.

Dæmi eru um að sveitarfélög firri sig ábyrgð í húsnæðismálum fatlaðs fólks vegna skorts á félagslegu húsnæði og fjármagni fyrir uppbyggingu og þjónustu. Vanfjármögnun réttlætir ekki lögbundna skyldu og er það á ábyrgð ríkisins að tryggja sveitarfélögum aðgang að fjármagni til að sinna lögbundinni skyldu. Jafnframt ber öllum sveitarfélögum og þjónustusvæðum að taka virkan þátt í að framfylgja lögbundnum skyldum sínum. Fatlað fólk er fjölbreyttur hópur með búsetu víðsvegar um landið og á rétt á sömu lögbundnu þjónustu óháð búsetu.

ÖBÍ leggur til að HMS verði falið það hlutverk að framkvæma símat um þörf fyrir félagslegt húsnæði innan hvers sveitarfélags sem verður aðgengilegt almenningi og fjölmiðlum. Jafnframt að HMS verði falið að gera árlega skýrslu þar sem sveitarfélög þurfa að gera grein fyrir raun stöðu á þörf fyrir félagslegt húsnæði og fyrirhugaðar aðgerðir til úrbóta. Mikilvægt er að eftirlitsaðilar geti veitt stjórnvöldum aðhald og beitt sér fyrir því að enginn lögbundinn aðili hlaupist undan ábyrgð.

17. Einn ferill húsnæðisuppbyggingar.
Einföldun og samræming ferla á sviði skipulags- og byggingarmála við uppbyggingu íbúðarhúsnæðis getur leitt til meiri skilvirkni og fagmensku ef rétt er haldið á spilum. Einföldun verður að vera ítarlega rökstudd og má aldrei leiða til þess að kröfur um öryggi, heilsu og jafnt aðgengi allra sé ýtt til hliðar. Slíkur afsláttur leiðir til fúsks með tilheyrandi auka kostnaði á samfélagið í gegnum heilbrigðis- og velferðakerfið.

Dæmi eru um að óöruggt og óheilnæmt húsnæði leiði til langvarandi veikinda og fötlunar. Þá er ónefndur ágóði samfélagsins af algildri hönnun á húsnæði. Meirihluti íbúðarhúsnæðis á Íslandi er óaðgengilegt fötluðu fólki. Þjóðin er að eldast og því verður að gæta þess vel að allt nýtt íbúðarhúsnæði sé fyllilega aðgengilegt svo að fólk þurfi ekki að flytja í sértæk úrræði þegar aldurinn færist yfir og hreyfigetan minnkar.

ÖBÍ undirstrikar ummæli sín um áherslu B.8. og krefst þess allar fyrirhugaðar endurskipulagningar og samþættingar tilgreini hvort og þá hvernig áformaðar breytingar munu hafa áhrif á öryggi, heilsu og jafnt aðgengi landsmanna. ÖBÍ leggur til að fyrirhugaðar leiðbeiningar til sveitarfélaga leggi áherslu á algilda hönnun og aðgengi fyrir alla. Jafnframt leggur ÖBÍ til að HMS fræði sveitarfélög landsins um ávinning sveitarfélaga af aðgengilegu húsnæði og mannvirkjum í samræmi við samkonarfræðslu Husbanken, systurstofnun HMS í Noregi.

ÖBÍ áskilur sér rétt til að koma á framfæri frekari athugasemdum á seinni stigum.

Ekkert um okkur án okkar!

Með vinsemd og virðingu,

Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ

Kjartan Þór Ingason
verkefnastjóri ÖBÍ

Stefán Vilbergsson
verkefnastjóri ÖBÍ


Landsskipulagsstefna fyrir árin 2024–2038 ásamt fimm ára aðgerðaáætlun fyrir árin 2024–2028
535. mál, þingsályktunartillaga. Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis.
Umsögn ÖBÍ 15. desember 2023