Skip to main content
AðgengiHúsnæðismálUmsögn

Drög að borgarstefnu

By 11. apríl 2024apríl 15th, 2024No Comments

„Til að tryggja að áformað búsetufrelsi gildi um öll en ekki bara sum má fötlun ekki verða til þess að fólk rífi upp rætur. Frelsi felur í sér val en ekki nauðung“

Umsögn ÖBÍ réttindasamtaka um drög að borgarstefnu, mál nr. S-32/2024

ÖBÍ réttindasamtök taka undir þau markmið sem birtast í drögum um borgarstefnu er varða aukna samhæfingu í stefnumótun ríkis og sveitarfélaga. Fram kemur að við mótun borgarstefnu var horft til viðmiða OECD, en meginstef viðmiðanna er að byggja upp snjallar, sjálfbærar og inngildandi borgir. Skipulagsstefnur og kerfisbreytingar án aðkomu fatlaðs fólks á hönnunarstigi fyrirhugaðra breytinga leiða af sér lausnir sem virka fyrir sum en ekki fyrir öll. Í kjölfarið getur fatlað fólk getur ekki tekið þátt í samfélaginu til jafns við ófatlað fólk.

Í 19. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF) segir að aðildarríki samningsins skuli „gera árangursríkar og viðeigandi ráðstafanir til þess að fatlað fólk megi að fullu njóta þessa réttar og fullrar aðildar og þátttöku í samfélaginu án aðgreiningar, meðal annars með því að tryggja:
a) að fatlað fólk hafi tækifæri til þess að velja sér búsetustað og hvar og með hverjum það býr, til jafns við aðra, og að því sé ekki gert að eiga heima í tilteknu búsetuformi,
b) að fatlað fólk hafi aðgang að ýmiss konar þjónustu, svo sem heimaþjónustu, búsetuþjónustu og annarri samfélagslegri stuðningsþjónustu, þar á meðal persónulegri aðstoð, sem nauðsynleg er til stuðnings lífi án aðgreiningar í samfélaginu og til að koma í veg fyrir einangrun og aðgreiningu frá samfélaginu,
c) að samfélagsþjónusta og aðstaða fyrir almenning standi fötluðu fólki til boða til jafns við aðra og mæti þörfum þess.”

Samræming milli sveitarfélaga

Í drögunum kemur fram að áframhaldandi þróun borgarsvæðanna, byggð á samstarfi á milli stjórnsýslustiga mun styrkja bæði svæðin. Jafnframt að borgarstefna á vettvangi ríkisins muni styðja við stefnumörkun ríkis og sveitarfélaga á borgarsvæðunum til að tryggja að allir aðilar rói í sömu átt. ÖBÍ telja þetta jákvætt skref í rétta og undirstrika mikilvægi þess að sveitarfélög og eða þjónustusvæði hafi burði og metnað til að sinna lagalegum skyldum sínum. Sveitarfélög verða að hafa aðgang að traustum tekjustofnum í samræmi við umfang og útgjalda lögbundna verkefna. Skortur á félagslegu húsnæði, fjármagni auk stærðar sveitarfélags og eða þjónustusvæðis veitir ekki undanþágu frá lögbundinni þjónustu við fatlað fólk.

Búsetufrelsi fatlaðs fólks

ÖBÍ fagna ákvörðun Innviðaráðherra um að allar stefnur á málefnasviði ráðuneytisins verði samhæfðar í þágu búsetufrelsis líkt og fram kemur í kafla 5 undir heitinu framtíðarsýn og áhrif. Þar er tekið fram að lífsgæði fólks eru ekki síst fólgin í því að það geti búið sér heimili þar sem það helst kýs, í búsetuformi sem því hentar og njóti sambærilegra umhverfisgæða, innviða og opinberrar þjónustu hvar á landinu sem er. Fjölbreytt íbúðasamsetning, nærþjónusta og grunnkerfi fjölbreyttra samgöngumáta óháð staðsetningu á landinu er því grunnstefið í hugtakinu búsetufrelsi.

ÖBÍ taka undir þessar áherslur bendir á að uppbygging innviða og þjónustu þarf að taka mið af þörfum og getu sem hentar öllum. Stjórnvöld eru því hvött til að tilgreina og tryggja búsetufrelsi fatlaðs fólks til jafns við aðra í borgarstefnu stjórnvalda.

Meirihluti mannvirkja á Íslandi eru óaðgengileg fötluðu fólki og skortur á félagslegum leiguíbúðum á vegum sveitarfélaga og eða félagsþjónustu er viðvarandi vandamál. Vandinn er misjafn milli sveitarfélaga og mörg dæmi um að fatlað fólk neyðist til að flytja milli landshluta, fjarri fjölskyldu og vinum. Til að tryggja að áformað búsetufrelsi gildi um öll en ekki bara sum má fötlun ekki verða til þess að fólk rífi upp rætur. Frelsi felur í sér val en ekki nauðung. Því þurfa ríki og sveitarfélög að ganga í takt, gera kröfur um aðgengi og algilda hönnun við uppbyggingu mannvirkja og tryggja inngildingu fyrir öll að borgum og bæjum hringinn í kringum landið.

ÖBÍ áskilur sér rétt til að koma á framfæri frekari athugasemdum á seinni stigum.

Ekkert um okkur án okkar!

Með vinsemd og virðingu,

Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ

Kjartan Þór Ingason
verkefnastjóri ÖBÍ

Stefán Vilbergsson
verkefnastjóri ÖBÍ


Drög að borgarstefnu
Mál nr. S-32/2024. Innviðaráðuneytið.
Umsögn ÖBÍ, 11. apríl 2024
[Sveitarfélög og byggðamál].