Skip to main content
AðgengiHúsnæðismálMálefni barnaUmsögn

Skilgreining á opinberri grunnþjónustu

By 7. febrúar 2024febrúar 8th, 2024No Comments

„Dæmi eru um að sveitarfélög skorist undan að sinna hlutverki sínu á grundvelli fjárskorts og fámennis. Skortur á félagslegu húsnæði, fjármagni auk stærð sveitarfélags veitir ekki undanþágu frá lögbundinni þjónustu.“

ÖBÍ réttindasamtök (ÖBÍ) fagna fyrirætlunum stjórnvalda um að skilgreina grunnþjónustu og aðgengi að grunnþjónustu í lögum. Mikilvægt er að tryggja sameiginlegan skilning á innihaldi þessara hugtaka meðal opinberra aðila um land allt svo enginn þurfi að koma að tómum kofanum þegar á reynir.

Fatlað fólk er fjölbreyttur hópur fólks á öllum aldri, með búsetu víðsvegar um landið og eru u.þ.b. 15% íbúa á Íslandi.

Tryggt aðgengi fatlaðs fólks að grunnþjónustu til jafns við ófatlað fólk er ein af grunnstoðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF). Í dag vinna stjórnvöld að lögfestingu SRFF sem og innleiðingu ákvæða hans inn í íslensk lög og er því brýnt að viðmið löggjafarvaldsins um grunnþjónustu samræmist ákvæðum samningsins. ÖBÍ vill koma eftir athugasemdum á framfæri.

1.
ÖBÍ er sammála þeim áherslum sem fram koma í almennri skilgreiningu opinberrar grunnþjónustu og rétt til opinberrar grunnþjónustu um þá ótvíræðu ábyrgð ríkis og sveitarfélaga landsins að tryggja jafnan rétt íbúa til opinberrar grunnþjónustu skv. stjórnarskrá. Lágmarksþjónusta er ekki ígildi grunnþjónustu og á ábyrgð ríkis og sveitarfélaga að ákveða viðmið um þjónustustig lágmarksþjónustu fyrir dreifbýli.

  • ÖBÍ telur brýnt að stjórnvöld hafi virkt samráð við fatlað fólk um viðmið lágmarksþjónustu í þjónustukjörnum með 50-400 íbúa.
  • ÖBÍ leggur til að viðmiðin verði algild með skýrt verklag er varðar samfellu milli þjónustustiga svo enginn falli á milli í kerfinu.
  • ÖBÍ vill árétta lagalega skyldu sveitarfélaga að starfrækja notendaráð og því ber öllum sveitarfélögum að starfrækja slíkan samráðsvettvang með fötluðu fólki.

2.
Samkvæmt skilgreiningu Innviðaráðuneytisins á grunnþjónustu eru níu þjónustuþættir sem falla undir flokk lögskyldrar þjónustu sem opinberum aðilum ber að veita. Af þeim eru sjö þjónustuþættir á hendi sveitarfélaga að öllu leyti eða hluta, þ.m.t. félagsþjónusta sveitarfélaga, þjónusta við fatlað fólk.

Dæmi eru um að sveitarfélög skorist undan að sinna hlutverki sínu á grundvelli fjárskorts og fámennis. Skortur á félagslegu húsnæði, fjármagni auk stærð sveitarfélags veitir ekki undanþágu frá lögbundinni þjónustu. ÖBÍ undirstrikar mikilvægi þess að sveitarfélög hafi burði, bjargráð og vilja til að sinna allri lögskyldri þjónustu sem þeim ber að veita.

3.
Á bls. 5 má finna finna útlistun á valkvæðum verkefnum sem stjórnvöld ákveða að sinna tímabundið. Þar er tiltekið dæmi um tilraunaverkefni til styrktar langveikum börnum og börnum með ADHD greiningu. Starfshópur var settur á laggirnar árið 2016 til að vinna málið áfram en skilaði aldrei af sér og þar með var aldrei tekin afstaða til þess að þetta verkefni fengi styrkari stöðu sem grunnþjónusta.

  • ÖBÍ óskar eftir upplýsingum um tiltekið tilraunaverkefni og hvaða sveitarfélög tóku þátt.
  • ÖBÍ leggur til að stjórnvöld ljúki vinnu starfshóps frá 2016 og taki afstöðu um mikilvægi verkefnisins í þágu farsældar langveikra barna og barna með ADHD.

4.
ÖBÍ tekur heilshugar undir þá áherslu sem kemur fram á bls. 6 þar sem segir: „Þar sem hægt er að veita fjarþjónustu eða þjónustu með stafrænum lausnum skal tryggja aðgengi allra landsmanna að henni. Varast þarf þó að slík þjónusta skerði þá þjónustu sem fyrir er.”

Stafrænar lausnir nýtast vel þorra landsmanna og eru til þess fallnar að minnka álag á þjónustuveitendur. Í asanum við að setja upp stafræn þjónustukerfi hefur samt verið horft fram hjá því að mjög margir eru háðir því að fá aðstoð starfsmanna og almenn afgreiðsla hefur víða ekki aðeins verið skert heldur alveg aflögð.

Sífellt hertari öryggiskröfur þrengja enn aðgang fólks að nauðsynlegum upplýsingum og þjónustu innan stafrænna kerfa. Í þessu felst mismunun sem Umboðsmaður Alþingis hefur ítrekað lýst yfir áhyggjum af, enda sé aðgengi fyrir alla ekki tryggt að rafrænni stjórnsýslu sem unnið er að á grundvelli laga um stafrænt pósthólf í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda (pósthólfslög).

  • ÖBÍ krefst þess að þjónustustofnunum sé bannað að leggja niður fyrri þjónustuleiðir meðan ekki er tryggt að allir landsmenn geti nýtt sér nýjar þjónustuleiðir.

5.
Til að opinber grunnþjónusta sé skilvirk og aðgengileg þarf heildræna hugsun til. ÖBÍ bendir á mikilvægi þess að kerfi séu brúuð og ábyrgð stofnana sé skýrð þar sem hún skarast.

Við innleiðingu nýrra kerfa er ekki alltaf horft til annara kerfa og lagasetningar. Þar má nefna að innleiðing svokallaðs hringrásarhagkerfis sem meðal annars felur í sér aukna sorpflokkun almennings í djúp- og grenndargáma hefur ekki tekið vel mið af möguleikum fatlaðs fólks til að skila af sér heimilissorpi. Gámarnir eru oft á tíðum staðsettir utan leyfilegra fjarlægðarmarka frá íbúðarhúsum sem tilgreind eru í skipulags- og mannvirkjalöggjöf auk þess sem önnur ákvæði eru ekki alltaf virt, með þeim afleiðingum að fatlað fólk er öðrum háð við daglegar athafnir. Tillögur um breytingar á póstlöggjöf eru sömu annmörkum háðar.

ÖBÍ bendir á að fötlun er samspil einstaklings og umhverfis og leggur til að við innleiðingu og breytingu á þjónustu og löggjöf sé beitt hugmyndafræði algildrar hönnunar. Hún sem felur í sér að þegar á fyrstu stigum sé hugað að því hvernig á að koma til móts við þjóðfélagsþegna sem annars eiga á hættu að lenda á jaðrinum. Þannig verða til skilvirkari og betri kerfi sem minnka hættuna á því að fara síðar í kostnaðarsamar og flóknar viðbætur fyrir afmarkaða hópa.

Það mun fela í sér aukið samráð við samtök fatlaðs fólks og annara málsvara almennings, en minnt á samráðsskyldu stjórnvalda við fatlað fólk sbr. 3. mgr. 4. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SSRF):

„Við þróun og innleiðingu löggjafar og stefnu við innleiðingu samnings þessa og við annað ákvörðunartökuferli varðandi málefni fatlaðs fólks, skulu aðildarríkin hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, þar á meðal fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd.“

ÖBÍ áskilur sér rétt til að koma á framfæri frekari athugasemdum á seinni stigum.

Ekkert um okkur án okkar!

Með vinsemd og virðingu,

Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ

Kjartan Þór Ingason
verkefnastjóri ÖBÍ

Stefán Vilbergsson
verkefnastjóri ÖBÍ


Skilgreining á opinberri grunnþjónustu
Mál nr. S-238/2023. Innviðaráðuneytið.
Umsögn ÖBÍ, 7. febrúar 2024