Skip to main content
AðgengiUmsögn

Efling og uppbygging sögustaða

By 7. maí 2024No Comments

Ferðaþjónustan á Íslandi hefur alltaf vanmetið þörfina fyrir aðgengi fyrir fatlað fólk að ferðamannastöðum og -þjónustu. Aðgengi fatlaðs fólks hefur alltof oft mætt afgangi, sérstaklega í þeirri hröðu uppbyggingu sem hefur átt sér stað undanfarin ár. Fatlað fólk hefur því oft setið eftir heima eða tekið sín frí erlendis þegar aðrir hafa séð sér hag í að ferðast um landið og upplifa íslenska náttúru og gestrisni.

Um 15% jarðarbúa eru fatlað fólk og er stór hluti þeirra hreyfihamlaður. Það má heldur ekki líta fram hjá því að þjóðin er að eldast og er margt eldra fólk hreyfihamlað. Öll eiga rétt á að njóta aðgengis að samfélaginu til jafns við aðra en hér er ekki eingöngu um réttindamál að ræða heldur gríðarlegt tækifæri fyrir ferðaþjónustuna og Ísland sem áfangastað.

Með bættu aðgengi eykst aðdráttarafl áfangastaða ásamt því að réttur fatlaðs fólks til að njóta þess að ferðast á sömu forsendum og aðrir er betur virtur. Aukið aðgengi að sögustöðum getur þýtt að það þurfi að setja upp rampa og brautir, lyftur og kennileiti, sem er sjálfsögð krafa í dag. Víðast hvar erlendis hika yfirvöld og rekstraraðilar ekki við að bæta aðgengi fatlaðs fólks að merkum fornminjum og sögustöðum. Svo má búa um hnútana að breytingar séu afturkræfanlegar og því er ekki hætt við að sögunni sé fórnað á altari úrbóta.

Ekkert um okkur án okkar!

Með vinsemd og virðingu,

Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ

Stefán Vilbergsson
verkefnastjóri ÖBÍ


Efling og uppbygging sögustaða
941. mál, þingsályktunartillaga
Umsögn ÖBÍ, 7. maí 2024