Aðgengishópur
Hlutverk aðgengishóps ÖBÍ er að stuðla að auknu aðgengi fatlaðs fólks að samfélaginu, upplýsingum, þjónustu, manngerðu umhverfi og náttúrunni.
Aðgengi fyrir alla felur í sér að fatlað fólk geti lifað eins sjálfstæðu lífi og hægt er án hindrana og sérstakra ráðstafana. Það á meðal annars við um byggingar og umhverfi, samgöngur, upplýsingar og samskiptatækni. Lög og reglur eiga að sjá til þess að þetta sé virt og góðar leiðbeiningar þarf til þess að framkvæmdaraðilar unnið eftir hugmyndafræði algildrar hönnunar svo að gagnast öllum sem best.
Bætt aðgengi fatlaðs fólks að samfélaginu bætir aðgengi allra.
Byggingar og umhverfi
Löggjöf og leiðbeiningar
Samkvæmt núgildandi íslenskri löggjöf á að gæta þess frá hönnun til framkvæmdar að fatlað fólk geti farið um mannvirki, hvort sem það eru byggingar, götur og torg eða náttúra Íslands, með sama hætti og aðrir. Í lögum um mannvirki og skipulag er þau ákvæði að finna og í reglugerðum sem ætlað er að útfæra lögin: bygginga- og skipulagsreglugerð.
Þrátt fyrir þessa lagaskyldu er oft illa hugað að aðgengi fyrir fatlað fólk. Þá getur reynst nauðsynlegt að kvarta við byggingarfulltrúa, úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.
Einnig þurfa hönnuðir og iðnaðarmenn betri leiðbeiningar um hvernig best er að útfæra hlutina svo að þeir gagnist öllum sem best.
Hönnun
ÖBÍ hefur hafið samstarf um upplýsingagjöf um algilda hönnun við arkitektafélögin, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun og félag byggingafræðinga til að bæta upplýsingar og leiðbeiningar um algilda hönnun sem allir binda vonir við að muni leiða til betri hönnunar og framkvæmdar fyrir fatlað fólk, en gott aðgengi fyrir fatlað fólk leiðir af sér betra aðgengi fyrir alla.
Aðgengisfulltrúar
ÖBÍ hefur barist fyrir auknu eftirliti með mannvirkjagerð og hefur tekist að fá skipaða aðgengisfulltrúa í allflestum sveitarfélögum landsins. Hlutverk þeirra er að greina hvar fara þarf í framkvæmdir til að bæta aðgengi fyrir fatlað fólk og fylgjast með því að framkvæmdaáform horfi ekki framhjá þörfum fatlaðs fólks.
Þá hefur ÖBÍ tekið að sér að kynna úthlutunarmöguleika úr Fasteignasjóði Jöfnunarsjóðs til sveitarfélaganna sem eiga að liðka fyrir framkvæmdum sem stuðla að betra aðgengi.
Götur og torg
Aðgengishópur ÖBÍ gaf út leiðbeiningarit um algilda hönnun í almenningsrými árið 2017 til að aðstoða hönnuði við að skipuleggja götur og torg með hagsmuni fatlaðs fólks að leiðarljósi.
Í framhaldi af því gaf Vegagerðin út ítarlega hönnunarhandbók fyrir sveitarfélögin, þar sem málefnahópurinn var til ráðgjafar.
Ferðamannastaðir og náttúra Íslands
7. maí 2021 |Menningar- og viðskiptaráðuneytið | 53,7 milljónir í bætt aðgengi fyrir alla að ferðamannastöðum
Samgöngur
Samkvæmt íslenskri löggjöf eiga almenningssamgöngur nú að vera aðgengilegar fötluðu fólki og á að gæta þess í útboði og innkaupum á samgöngutækjum, hvort sem það eru flugvélar, bátar og skip eða strætó og rútur. Auk þess eiga samgöngustöðvar að vera aðgengilegar og starfsfólk að hafa þekkingu á þörfum fatlaðs fólks. Ekki síst eiga góðar upplýsingar að vera til staðar um aðgengi og þjónustu við fatlað fólk.
Flug
Málefnahópur ÖBÍ um aðgengismál átt í samskiptum við Isavia, Icelandair og önnur flugfélög sem hafa leitt til bætts aðgengis og þjónustu. Málefnahópurinn gaf út flugleiðbeiningar fyrir fatlaða flugfarþega árið 2021.
Bátar og skip
Ferjur á Íslandi eru flestar komnar til ára sinna og þykja óaðgengilegar hreyfihömluðu fólki. Það er brýnt að farið verði í umfangsmiklar framkvæmdir við hafnir við kaup á nýjum bátum og gæta þarf að því að þeir séu aðgengilegir.
Strætó og áætlunarbílar
Úttekt málefnahóps ÖBÍ um aðgengismál sýndi fram á að strætisvagnar í Reykjavík væru oft óaðgengilegir og óöryggir hreyfihömluðu fólki og að ástand biðstöðva væri mjög slæmt. Ítarleg úttekt borgarinnar staðfesti þetta, en eftir að hún var gerð var sett af stað áætlun um að bæta aðgengi að biðstöðvum á höfuðborgarsvæðinu.
Samkvæmt stefnu stjórnvalda eiga 90% biðstöðva að teljast aðgengilegar fyrir fatlað fólk á árinu 2024. Samkvæmt nýrri úttekt ÖBÍ með styrk úr framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks telst engin biðstöð á hringveginum uppfylla aðgengisviðmið. Sumarið 2022 verður úttektin kláruð með styrk úr byggðasjóði. Þess er enn beðið að áætlun um úrbætur á biðstöðvunum fari af stað.
Útgáfa
- Kosningar og aðgengi fatlaðs fólks (2022)
- Leiðbeiningar fyrir flugfarþega með fatlanir og aðrar skerðingar (október, 2021)
- Skýrsla: Ástand stoppistöðva á landsvísu [PDF] (september, 2021)
- Aðgengi að viðburðum á vegum ÖBÍ – undirbúningur og framkvæmd
- Leiðbeiningarit um algilda hönnun í almenningsrými (2017)
- Könnun á aðgengi strætisvagna og biðstöðva – lokaskýrsla (mars, 2019)

Aðgengishópinn skipa:
- Bergur Þorri Benjamínsson – Sjálfsbjörg lsh. – formaður
- Gísli Jónasson – MND félagi Íslands
- Hlynur Þór Agnarsson – Blindrafélaginu
- Hreiðar Þór Örsted Hreiðarsson – Einhverfusamtökunum
- Ingólfur Már Magnússon – Heyrnahjálp
- Ingveldur Jónsdóttir – MS félagi Íslands
- Ólafía Ósk Runólfsdóttir – Sjálfsbjörg lsh.
- Starfsmaður: Stefán Vilbergsson – stefan @ obi.is
Hagnýtar upplýsingar
- Aðgengi, Þekkingarmiðstöð Sjálfsbjargar.
- Sjá ehf. gerir úttektir á aðgengi vefsíðna og stendur fyrir námskeiðum þar um. Sjá ehf. hefur í samráði við ÖBÍ veitt vefsíðum aðgengisvottun.