Skip to main content

Aðgengi að viðburðum á vegum ÖBÍ

Undirbúningur

Framsetning upplýsinga

 • Æskilegt er að upplýst sé um viðburði með a.m.k fjögurra vikna fyrirvara og áminning send út tveim vikum síðar. Ef þátttakendur þurfa að kynna sér efni fyrir viðburð, svo sem fyrir aðalfund, þurfa upplýsingar helst að vera aðgengilegar 4 vikum áður. Senda áminningu daginn áður, til dæmis með sms eða tölvupósti.
 • Upplýsingar um viðburði birtist á heimasíðu og facebook síðu ÖBí og séu sendar með tölvupósti til aðildarfélaga og annara tengiliða. Æskilegt að þær séu til á íslensku táknmáli og á hljóðskrá.
 • Auglýsingar á Facebook og Twitter séu hnitmiðaðar, með tilvísun í ítarlegri upplýsingar á heimasíðu sem séu með hlustunarmöguleika.
 • Varast örar myndskiptingar, blikkandi atriði og ljósblossa ef notast er við myndskeið.
 • Ritaðar upplýsingar séu vel uppsettar í ólæstu PDF eða Word. Haus sé á hverjum lið fyrir sig, nota hausa (e. Headings) sem sé lýsandi fyrir innihald. Góð skerpa sé á gögnunum.
 • Gott væri að upplýsingar séu dregnar saman með aðalatriðin í punktaformi. Á sérstaklega við um viðamiklar upplýsingar svo sem skýrslur. Þá sé vísað á viðeigandi slóð fyrir frekari upplýsingar.

Dagskrá

 • Samsett skýringamynd-klukka, ilmvatn; flass úr myndavélViðburðir hefjist ekki fyrir kl. 10:00. Huga þarf að því þegar viðburðir eru skipulagðir um helgar að þeir skarist ekki við vetrarfrí í skólum.
 • Ganga þarf frá og taka þarf fram í dagskrá að táknmáls- og rittúlkun standi til boða, tónmöskvar séu uppsettir og nettenging til staðar.
 • Biðja fólk um að setja ekki á sig sterka lykt fyrir viðburði, svo sem ilmvatn eða rakspíra.
 • Taka þarf fram hvort boðið sé upp á veitingar. Veitingar séu kynntar í dagskrá með upplýsingum um hvort þær séu lausar við ofnæmisvalda. Taka fram að veitingar á viðburðum séu hnetulausar.
 • Fundir séu teknir upp og streymt. Það þarf að brýna fyrir ljósmyndurum og tökumönnum að varast að nota skörp ljós og flass.
 • Skapalón þarf að standa til boða fyrir kosningar.

Sérstakar þarfir

 • Biðja þarf þátttakendur að tilkynna sérþarfir fyrirfram, svo hægt sé að bregðast við þeim. Það er á ábyrgð notenda að láta vita af sínum þörfum, þar á meðal um mataræði, raddtúlkun og aðstoð frá starfsfólki.
 • Einnig þarf að óska sérstaklega eftir aðstöðu afsíðis vegna notkunar á hóstavélum og/eða öndunarvélum, eða til að kúpla sig frá áreiti með hvíldaraðstöðu með rúmi eða hægindastól sem stúkuð er af.
 • Hægt sé að panta sér- og ofnæmisfæði.

Framkvæmd

Aðkoma

 • Stutt sé í strætósamgöngur og næg bílastæði séu til staðar. P-merkt stæði sem næst inngangi. Góð bílastæði fyrir lyftubíla. Varast staði með stöðugjaldi.
 • Athuga hvort ástæða sé til að fjölga P-merktum stæðum á bílastæði með færanlegum skiltum. Huga sérstaklega að því í vetrarfærð að bílaplan og aðkomuleiðir séu snjómokaðar.
 • Gott aðgengi fyrir stóra rafmagnsstóla allt frá bílastæði og um allt svæðið. Farið sé eftir viðurkenndum stöðlum.
 • Sem styst fjarlægð sé að fundarrými frá inngangi. Lyfta sé til staðar ef viðburðurinn er ekki á fyrstu hæð.
 • Tekið sé á móti fólki í anddyri sem vísar áfram og aðstoðar ef þörf er á. Fólk sem óskað hefur eftir aðstoð í sæti, að veitingarborði og/eða annarri aðstoð hitti aðstoðarmanninn við komu og geti þá útskýrt sínar þarfir. Ef ekki hefur verið óskað eftir aðstoð fyrirfram verði reynt að verða við þeim óskum.

Uppsetning í sal

 • Ekki raða of þétt í salinn. Fundarstjóri bendi fólki á að ganga frá stólum við borð þegar staðið er upp.
 • Nettenging sé á staðnum. Æskilegt að hægt sé að tengjast í rafmagn á borðum.
 • Rittúlkun og táknmálstúlkun sé á viðburðum. Táknmálstúlkur sé vel sýnilegur. Bakgrunnur sé ekki flöktandi og ekki ljós bak við túlkinn. Túlkað sé úr öðrum tungumálum.
 • Góð lýsing sé í sal. Flúorljós eru óæskileg. Kertaljós er óæskilegt. Passa upp á og vara við leifturljósum á skjám.
 • Gott skipulag á borðum. Borð séu dúkuð og dúkar séu í öðrum lit en stell og pappír á borðum. Dúkar séu í öðrum lit en gólfið. Hægt sé að fá ljós til að lýsa á gögn sem koma fram á fundi.
 • Hljóð sé gott og tönmöskvar séu tengdir. Huga þarf að hljóðvist í sal og reyna að dempa glamur. Ekki nota undirskálar á borðum. Ef hægt er, þá séu valdir staðir með hörðum gólfefnum með hljóðdempandi eiginleika, svo sem gólfdúka eða kork.
 • Ávallt gera ráð fyrir hreyfihömluðum fyrirlesurum. Gott aðgengi að og við púlt. Púlt sé stillanlegt. Að öðrum kosti sé það fjarlægt og allir fyrirlesarar sitja við sama borð.

VeitingarTeikning af borði og helstu ofnæmisvöldum eins og skelfisk og hnetum

 • Hægt sé að fá bæði sætt og ósætt. Fólk láti vita af séróskum eða -þörfum fyrirfram.
 • Veitingar séu innihaldsmerktar við bakkana, svo að fólk geti fundið þær veitingar sem ekki innihalda helstu ofnæmisvalda, s.s. glúten, mjólkurvörur, o.fl. Veitingar séu ávallt hnetulausar.
 • Ekki blanda matartegundum saman. Varast að mismunandi tegundir snertist.
 • Aðstoð sé til taks ef óskað hefur verið eftir með veitingar fyrir hjólastólanotendur. Aðstoð til og frá borði ef óskað hefur verið eftir fyrir sjónskerta og aðstoð við að velja veitingar.
 • Rými sé gott við veitingaborð. Gjarnan hafa veitingar á fleiri en einu borði til að stytta raðir.
 • Kaffi og vatn sé á borðum.

Upplýsingar á viðburðum

 • Upplýsingum varpað á skjá eða tjald. Pappír, en ekki meira en nauðsynlegt er. Æskilegt að geta nálgast gögn á tölvutæku formi, fyrir þá sem hafa með sér spjaldtölvu.
 • Upplýsingar séu dregnar saman á skjá og séu þá í punktaformi.
 • Varast örar myndskiptingar, blikkandi atriði og ljósblossa.
 • Hljóðupptaka, sem helst sé aðgengileg á vef eftir viðburð.
 • Streyma sem mestu á Facebook og heimasíðu, gjarnan netmiðlum. Setja þar inn glærur, sé það mögulegt.

Fyrirlesarar

 • Fyrirlesarar verði beðnir um að draga upplýsingar saman á skjá og í punktaformi.
 • Varast örar myndskiptingar, blikkandi atriði og ljósblossa ef notast er við myndskeið.
 • Fyrirlesarar sjónlýsi því sem kemur fram á glærum og lesi það sem þar stendur.
 • Óska eftir því frá fyrirlesurum að þeir sendi glærur og erindi til skipuleggjanda með að minnsta kosti þriggja daga fyrirvara. Skipuleggjandi áframsendi efnið til túlka.

Eftir viðburð

 • Birting á upptökum eftir viðburði séu kynntar sérstaklega fyrir þátttakendum.