Skip to main content
AðgengiUmsögn

Breyting á lögum um fjölmiðla (EES-innleiðing)

By 24. nóvember 2023nóvember 30th, 2023No Comments

Umsögn ÖBÍ réttindasamtaka (ÖBÍ) um frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjölmiðla (EES-innleiðing)

ÖBÍ fagnar því að loks liggur fyrir í frumvarpi til laga ákvæði sem leggur þá skyldu á fjölmiðla að gera allt myndefni aðgengilegt fötluðu fólki. Samtökin hafa barist fyrir því lengi enda vinnur ákvæðið gegn mismunun og er í samræmi við ákvæði samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF) sem lögfesta á á yfirstandandi kjörtímabili.

Upplýsingatækni þróast hratt sem mun auðvelda fjölmiðlum að fara að lögum. ÖBÍ hvetur stjórnvöld til að styðja við þróun stafrænna lausna sem nýtast við textun og hljóðlýsingu og fjölmiðlar geta tekið í notkun til að tryggja aðgengi allra að miðluðu myndefni.

Takmarkanir fjölmiðlalaga

Þjónusta fjölmiðla, og ekki síst sjónvarpsstöðva, er ekki ýkja aðgengileg fötluðu fólki og stjórnvöld hafa lítið gert til að tryggja úrbætur hvað það varðar. ÖBÍ hefur um árabil vakið athygli á skorti á textun innlends sjónvarpsefnis, sem hefur valdið því að heyrnarskert og heyrnarlaust fólk, aldraðir, börn og innflytjendur hafa ekki haft sömu tækifæri og aðrir til að fylgjast með og taka þátt í umræðu um samfélagsleg málefni.

Það hefur liðist en í lögum um fjölmiðla, nr. 38/2011, er mun ríkari krafa gerð á textun erlends efnis en íslensks, sbr. 29. og 30. gr. laganna. Samkvæmt 29. gr. laganna skal erlendu efni „jafnan fylgja íslenskt tal eða texti á íslensku eftir því sem við á hverju sinni“, en samkvæmt 30. gr. laganna skulu „þær fjölmiðlaveitur sem miðla myndefni […] eins og kostur er leitast við að gera þjónustu sína aðgengilega sjón- og heyrnarskertum auk þeirra sem búa við þroskaröskun.“ Hér eru fyrirvarar með bæði belti og axlaböndum, sem hefur valdið því að erlent efni er jafnan textað en innlent efni mun sjaldnar, og nær eingöngu í útsendingum RÚV.

Þökk sé Evrópusambandinu er nú von á úrbótum með innleiðingu tilskipunar (ESB) 2018/1898 ESB í íslensk lög, sem fela í sér að fjölmiðlaveitur komast ekki lengur upp með þá mismunun heldur bæti án tafar aðgengi sjón- og heyrnarskerts fólks að myndefni.

Tæknilausnir

Helstu rök gegn því að skylda alla fjölmiðla að texta allt innlent mynddeiliefni, líkt og gert er við erlent efni, hafa verið að það sé íþyngjandi fyrir sjónvarpsstöðvar og aðrar fjölmiðlaveitna sem glími við brothættan rekstur.

Það þyrfti ekki að vera hindrun þegar fram í sækir því að íslensk fyrirtæki hafa unnið að tæknilausnum sem lofa mjög góðu og gætu komið í stað starfsfólks af holdi og blóði innan skamms. Lausnirnar eru þó háðar því að áframhaldandi þróun séu fjármagnaðar og stuðningur sé við þær til framtíðar enda þarf stöðugt að viðhalda þeim og endurbæta. Það er þó lítil fjárfesting sem tryggja á að kröfur sem gerðar eru um að upplýsinga- og tjáningarfrelsið sé virt með því að allir landsmenn hafi aðgang að fjölbreyttu fjölmiðlaefni.

Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að fjölmiðlaveitur geri þjónustu sína stöðugt og stigvaxandi aðgengilegri sjón- og heyrnarskertum. Stuðningur við stafrænar tæknilausnir ætti að stytta þann tíma sem fjölmiðlaveitur þurfi til að svo geti orðið.

Eftirlit og viðurlög

Mikilvægt er að standa vörð um réttindi fólks. Það nægir ekki að setja lög heldur þarf að viðhafa virkt eftirlit með framfylgd þeirra með viðurlögum við því að fylgja þeim ekki.

ÖBÍ fagnar nýju ákvæði í c.liðar 3. mgr. 10. gr. þar sem kveðið er á um skyldu fjölmiðlanefndar til að veita og viðhalda upplýsingum um kröfur til fjölmiðla um aðgengi sjón- og heyrnarskerts fólks, en einnig til að gera því kleift að koma kvörtunum vegna brota á framfæri á einfaldan hátt.

Það er sjálfsagt aðhald fólgið í því að fjölmiðlaveitur sendi fjölmiðlanefnd árlega skýrslu með upplýsingum um hvernig þær framfylgi lögunum með áætlunum og aðgerðum. Í frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir því að hægt sé að mæla fyrir um viðurlög því það teljist of matskennt hvað teljist vera „stöðugt og stigvaxandi“ aðgengi fyrir sjón- og heyrnarskert fólk. Með stuðningi við stafrænar lausnir og er hægt að hraða þeirri þróun og auðvelda gerð mælikvarða á eðlilegt þjónustustig hverju sinni.

Að gefnu tilefni er ítrekað að stjórnvöldum er skylt að hafa virkt samráð við heildarsamtök fatlaðs fólks um ákvarðanir sem varða hagsmuni þess, samkvæmt ákvæðum SSRF, enda segir í 3. mgr. 4. gr., „aðildarríkin skulu, þegar þau undirbúa og beita löggjöf sinni og stefnu samningi þessum til framkvæmda og vinna að ákvarðanatöku um málefni fatlaðs fólks, hafa náið samráð og tryggja virka þátttöku fatlaðs fólks, þ.m.t. fötluð börn, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd“.

Ekkert um okkur án okkar!

Með vinsemd og virðingu,

Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ

Stefán Vilbergsson
verkefnastjóri ÖBÍ


Frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjölmiðla (EES-innleiðing)
Mál nr. 228/2023. Menningar- og viðskiptaráðuneytið.
Umsögn ÖBÍ, 24. nóvember 2023