Skip to main content
AðgengiFlóttafólk og innflytjendurHúsnæðismálUmsögn

Lögheimili og aðsetur o.fl. (úrbætur í brunavörnum)

By 12. desember 2023júní 6th, 2024No Comments

Umsögn ÖBÍ réttindasamtaka (ÖBÍ) um frumvarp til laga um breytingu á lögum um lögheimili og aðsetur, lögum um mannvirki og lögum um brunavarnir, þingskjal 638 – 542. mál.

ÖBÍ vísar til umsagnar bandalagsins sem lögð var fram þegar frumvarpið var kynnt í samráðsgátt í október sl. Umsögninni er svarað í kafla 5.1.4. í greinargerð með þessu frumvarpi (bls. 13-14).

Það er ekki öfundsvert hlutskipti stjórnvalda að finna ásættanlega lausn þegar ástandið í húsnæðismálum er jafn alvarlegt og raun ber vitni. Innviðir hafa fengið að grotna niður um langt skeið með þeim afleiðingum að við glímum við gríðarmikinn húsnæðisskort. Fjárfestar hafa náð fótfestu og halda eignum frá almenningi, skortur er á eftirliti og viðurlögum sem þýðir að íbúðarhúsnæði uppfyllir víða ekki lágmarkskröfur um aðgengi, hollustuhætti og brunavarnir. Ástandið er enn verra í svokölluðu óleyfishúsnæði, þ.e. atvinnuhúsnæði sem fólk í viðkvæmri stöðu neyðist til að búa í sökum þessa.

ÖBÍ ítrekar aftur þá afstöðu að aðsetursheimild sem gert er ráð fyrir til eins árs geti fest sig í sessi. Í svari ráðuneytisins segir að margir einstaklingar sem búa í atvinnuhúsnæði séu hér tímabundið vegna vinnu og að sólarlagsákvæði geri ráð fyrir að heimildin falli úr lögunum 1. maí. Vonandi verður ástandið á húsnæðismarkaðnum orðið betra þá, en áætlanir hafa ekki staðist fram að þessu.

Varast þarf að tengja þetta búsetuform aðeins við farandverkamenn sem þurfa að sætta sig við að búa við óboðlegar aðstæður meðan þörf er á þeim. Ástandið bitnar ekki síður og kannski enn verr á fólki á jaðrinum, heimilislausu fólki, fötluðu fólki og flóttafólki sem glímir við sjúkdóma og skerðingar. Fólki sem hefur ekki líkamlega getu til að bjarga sér sjálft úr hættuástandi ef flóttaleiðir eru ekki greiðar.

Í svarinu ráðuneytisins sem er að finna í kafla 5.1.4. í greinargerð segir að það standi ekki til að setja þá skyldu á slökkvilið að greina myglu í húsnæði og að aðgengi fatlaðra og eftirlit með því sé hluti af stærra samhengi sem sé ekki efni þessa frumvarps.

Aðgengi fatlaðra að húsnæði er öryggismál. Markmið mannvirkjalaga nr. 160/2010 er að „vernda líf og heilsu manna, eignir og umhverfi með því að tryggja faglegan undirbúning mannvirkjagerðar og virkt eftirlit með því að kröfum um öryggi mannvirkja og heilnæmi sé fullnægt,“ og að „tryggja aðgengi fyrir alla.“ Í skilgreiningu segir: „Með aðgengi fyrir alla er átt við að fólki sé ekki mismunað um aðgengi og almenna notkun mannvirkja á grundvelli fötlunar, skerðinga eða veikinda og það geti með öruggum hætti komist inn og út úr mannvirkjum, jafnvel við óvenjulegar aðstæður, t.d. í eldsvoða.

ÖBÍ hefur um langt skeið barist fyrir því að heimildir slökkviliðs verði auknar svo að það taki að sér aðgengiseftirlit með hefðbundnu eldvarnareftirliti. Hér er kjörið tækifæri til að samþykkja auknar eftirlitsheimildir slökkviliðs svo að það skoði sérstaklega hversu greitt aðgengi er fyrir fatlað fólk og mæli enn fremur heilnæmi húsnæðis, svo sem myglu.

Nýjustu spár Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) benda til þess að markmið stjórnvalda um uppbyggingu íbúða munu ekki ganga eftir. Háir vextir spila þar lykil hlutverk og draga úr framkvæmdum með auknum álögum á efniskostnaði. Því er brýnt að stjórnvöld bregðist strax við til að skapa heilbrigt efnahagslíf, setji húsnæðismál í forgang og beiti sér til að ná eigin markmiðum um uppbyggingu íbúðarhúsnæðis á tilsettum tíma.

ÖBÍ áskilur sér rétt til að koma á framfæri frekari athugasemdum á seinni stigum.

Ekkert um okkur án okkar!

Með vinsemd og virðingu,

Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ

Kjartan Þór Ingason
verkefnastjóri ÖBÍ

Stefán Vilbergsson
verkefnastjóri ÖBÍ


Lögheimili og aðsetur o.fl. (úrbætur í brunavörnum)
542. mál, lagafrumvarp.
Reykjavík, 12. desember 2023