Skip to main content
AðgengiFrétt

Flókin staða og alvarleg í stafrænum aðgengismálum

Með aukinni yfirfærslu alls kyns þjónustu yfir á stafrænt form hefur aðgengi fólks að mikilvægri þjónustu breyst verulega. Staðan er bæði flókin og alvarleg, enda verða ýmsir fötlunarhópar gjarnan útundan. Rósa María Hjörvar er stafrænn verkefnastjóri hjá ÖBÍ réttindasamtökum og gætir að hagsmunum fatlaðs fólks í stafrænu umhverfi. Hér að neðan má lesa viðtal við Rósu um þessi málefni.

Hver er staðan í stafrænum málum hvað varðar fólk með fötlun?

Staðan er í raun bæði flókin og alvarleg, samfélagið okkar er á skömmum tíma orðið stafrænt án þess að það hafi verið hugsað fyrir þörfum eða takmörkunum okkar hóps. Við sjáum það bæði í stóru og smáu, í sjálfsafgreiðslulausnum úti í búð og í samskiptum okkar við hið opinbera. Þeir innan okkar raða sem ekki hafa aðgengi að þessari tækni verða einangraðri og ósjálfstæðari með hverjum degi sem líður.

Hver er helsti vandinn?

Vandinn er í raun tvíþættur, í fyrsta lagi eru einfaldlega ekki til stafrænar lausnir sem henta öllum hópum – það á einfaldlega eftir að þróa þær – og þess vegna er ákveðið mengi sem jafnvel í bestu aðstæðum getur ekki notað stafræn viðmót. Hitt er að þróunin hefur verið allt of hröð og ekki hefur verið gætt að því að prófa lausnir áður en þeim er rúllað út. Svo við erum svoldið að lenda í vandamálum í rauntíma – og þa er kannski búið að loka á gömlu lausnina og engin varaleið í boði.

Hvernig hafa stjórnvöld brugðist við?

Það hefur tekið langan tíma fyrir stjórnvöld að átta sig á umfangi og alvarleika vandans, en nú er ágætt starf í gangi sem snýr að afmörkuðum hluta af innskránningarvandanum. Það er aukennisvandinn. Við erum í samstarfi við stjórnvöld um að reyna að finna lausnir á þeim vanda sem snýr að rafrænum skilríkjum, bæði með að tryggja aðgengi sem flestra að þeim og að tryggja að það sé ekki ofnotað. Við sjáum því miður mörg dæmi þess að rafræn skilríki séu notuð að óþörfu og verða þannig óþarfa hindrun fyrir þá sem geta ekki hagnýtt þau.

Er hægt að leysa þennan vanda?

Það er margt hægt að gera, og mjög jákvætt að ríkistjórnin sé vakandi yfir þessu. En það þarf margt að koma til. Við þurfum að hætta að hugsa um tækni sem afmarkað svið og sjá hana frekar sem hluta af samfélaginu og að hún þess vegna þurfi að lúta þeim viðmiðum sem við notum venjulega, um mannréttindi og sjálfbærni. Svo þurfum við að flýta okkur hægt, ekki henda gömlum góðum aðferðum bara vegna þess að við sjáum ofsjónir yfir nýrri skínandi tækni. Fyrst og fremst þarf samfélagið að vera aðgengilegt og öruggt fyrir alla – svo er hægt að fara leika sér.