Samráð sveitarfélaga við fatlað fólk
Skipta má skyldu sveitarfélaga til samráðs við fatlað fólk upp í þrjú mismunandi stig, sem geta þó öll átt við í sumum tilfellum:
Samráð við fatlaðan einstakling um þjónustu hans
Þar sem sveitarfélög veita fötluðu fólki þjónustu er sérstaklega mikilvægt að þau eigi samtal og samráð við manneskjuna sjálfa um hvernig best megi útfæra þjónustuna sem hún á rétt á að fá.
Samráð við fatlað fólk í nærsamfélaginu
Sveitarfélögum ber skylda til þess að viðhafa almennt samráð við fatlað fólk í nærsamfélaginu og hagsmunasamtök þess í sinni stefnumótun. Dæmi um slík samráð eru „notendaráð“ sem eru sérstakar nefndir þar sem fulltrúar fatlaðs fólks sitja með fulltrúum sveitarfélaga og fjalla um ákvarðanir og stefnumótun í sveitarfélaginu.
Það er lögbundin skylda sveitarfélaga að hafa slík notendaráð og jafnframt að fá tilnefningar um fatlaða fulltrúa frá hagsmunasamtökum á borð við ÖBÍ. Þó að um mál hafi verið fjallað í notendaráði er eðlilegt að sveitarfélög hafi stundum beint samráð hagsmunasamtök fatlaðs fólks þar sem hjá þeim er gjarnan að finna víðtæka sérfræðikunnáttu. Þegar öllu er á botninn hvolft, er einfaldlega ekki hægt að viðhafa of mikið samráð. Nánar um notendaráð.