Skip to main content
HeilbrigðismálUmsögn

Breyting á reglugerð um hávaða

By 3. júlí 2025ágúst 14th, 2025No Comments
Nærmynd af konusem heldur með báðum höndum utan um eyrun, með lokuð augun. Peysan sem hún klæðist er röndótt sem er tilvísun í gangbrautir og umferðarhávaða.

Umsögn ÖBÍ réttindasamtaka um drög að breytingum á reglugerð um hávaða nr. 724/2008. ÖBÍ réttindasamtök (ÖBÍ) eru heildarsamtök fatlaðs fólks á Íslandi. ÖBÍ lætur sig varða heilbrigði fólks og einkum þeirra sem eru veikari fyrir sem oft á við um fatlað fólk.

Rannsóknir hafa sýnt fram á margskonar alvarlegar afleiðingar hávaða á heilsu fólks. ÖBÍ telur þörf á að umræðu um slík áhrif megi upplýsa mun meira en verið hefur og byggja á niðurstöðum innlendra og alþjóðlegra rannsókna. Þegar lög og reglur eru settar um efni sem þetta ætti grundvallarforsendan alltaf að vera heilbrigði fólks að mati ÖBÍ.

Athugasemdir við ákvæði draganna

ÖBÍ telur margt jákvætt koma fram í drögunum. Að mati samtakanna mætti þó ganga lengra í vernda heilsu fólks, einkum vegna sérstaklega hávaðasamra framkvæmda. Einnig telur ÖBÍ þörf á að gera ríkari kröfur til framkvæmdaaðila, gera kæruleiðir skýrari og skilvirkari og bæta aðföng og úrræði eftirlitsaðila.
Í 6. mgr. 3. gr. draganna segir að heilbrigðisnefnd verði heimilt að krefja framkvæmda- og rekstraraðila um hljóðmælingar s.s. sírita hljóðmæli, við framkvæmdir og starfsemi og skuli mæligögn vera aðgengileg eftirlitsaðila. ÖBÍ telur að um sé að ræða góða nýjung hvað eftirlit varðar. Að mati ÖBÍ mætti þó að vera um að ræða skyldu framkvæmdaaðila að viðhafa síritamælingar og að hafa mæligögn ætíð aðgengileg eftirlitsaðila fremur en að heilbrigðisnefnd sé gert heimilt að krefjast þess.

Þær breytingar sem lagðar eru til með 7. gr. draganna eru vissulega til bóta. Þar segir í 1. mgr. að til að draga úr óþægindum við fleygun, gagnvart þeim sem hafa aðsetur í nærliggjandi byggingum, skuli gera hlé á fleygun á tveggja klukkutíma fresti í a.m.k. 30 mínútur í senn. ÖBÍ telur þó af fenginni reynslu að ástæða gæti verið til að gera ríkari kröfur til framkvæmdaaðila hvað þetta varðar. ÖBÍ hvetur til þess að upplýst verði um hvort þau viðmið sem lögð eru til eigi sér stoð í rannsóknum.

Samkvæmt 2. mgr. 7.gr. draganna verður heilbrigðisnefnd heimilt að setja þrengri tímatakmarkanir á háværar og sérstaklega háværar framkvæmdir sem eru nálægt viðkvæmari starfsemi svo sem leik- og grunnskólum og dvalar- og hjúkrunarrýmum. Heilbrigðisnefnd geti einnig gripið til þrengri tímatakmarkana á svæðum sem hafa lengi verið undri álagi vegna framkvæmdahávaða. Þetta ákvæði er einnig til bóta. Að mati ÖBÍ mætti þó rýmka heimildir eftirlitsaðila enn meira. Enn fremur telur ÖBÍ að heimildin ætti að eiga við almennt þar sem fólk dvelur og starfar. Fólk, þ.m.t. fatlað fólks, hvar sem er getur orðið fyrir alvarlegum skaða á heilsu af völdum hávaða.

Þá telur ÖBÍ að kveða ætti á um ríkar kröfur framkvæmdaaðila til að vernda heilsu fólks í nágrenni við sérstaklega hávaðasamar framkvæmdir. T.d. mætti kveða á um skyldur framkvæmdaðlia til að tryggja fóki sem dvelur eða starfar við aðstæður sem eru óheilsusamlegar vegna hávaða tímabundinn flutning á kostnað framkvæmdaaðilans. Einnig mætti kveða á um skaðabótaskyldu framkvæmdaaðila gagnvart þeim sem verða fyrir tjóni vegna hávaða, þ.m.t. heilsutjóni.

Ekkert um okkur án okkar!

Með vinsemd og virðingu,

Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ

Sigurður Árnason
lögfræðingur ÖBÍ


Breyting á reglugerð um hávaða
Mál nr. S-99/2025. Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið. [Umhverfismál].
Umsögn ÖBÍ, 3. júlí 2025