Skip to main content
Málefni barnaMenntamálStafrænt aðgengiUmsögn

Áform um breytingu á lögum um grunnskóla (snjalltæki)

By 6. ágúst 2025ágúst 15th, 2025No Comments

ÖBÍ réttindasamtök fagna öllum áformum um miðlæg viðmið um notkun tölvutækni í grunnskólum. Fatlað fólk var fyrst til að innleiða tölvutækni og síðar snjalltæki í skólaumhverfi og framfarir okkar hóps í námi eru í beinum tengslum við aðgengi að viðeigandi tæknilausnum. Við teljum því heildarsamtök fatlaðs fólks og TMF – Tölvumiðstöð fatlaðra – vera lykilhagsmunaaðila í öllum áformum um breytingar á reglum um tækninotkun í grunnskólum. Við hvetjum jafnframt stjórnvöld til að virkja bæði fatlaða nemendur og sérkennara í þessu mikilvæga starfi.

Mikilvægt er að huga vel að EES-samningnum, þar sem á íslenska ríkinu hvíla ríkar skyldur um aðgengi að þeim tæknilausnum sem notaðar eru í þjónustu hins opinbera. Þá ber einnig að hafa í huga ákvæði Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks um algilda hönnun og viðeigandi aðlögun.

Komið hefur fyrir að ekki sé tekið nægilegt tillit til þarfa fatlaðra nemenda við val á tölvu- og tæknilausnum í grunnskólum. Bæði hefur verið valinn tölvubúnaður án þess að aðgengi samkvæmt stöðlum hafi verið tryggt, og einnig hefur aðferðafræði við notkun tækninnar verið útilokandi fyrir hóp fatlaðs fólks. Þetta er óþarfi – tæknin gerir okkur einmitt kleift að brúa bilið milli skerðingar og samfélags, og þegar rétt er staðið að málum, getur hún gert fötluðum nemendum kleift að standa jafnfætis öðrum. Því er varhugavert að útiloka tækni alfarið úr grunnskólum.

Í því samhengi er mikilvægt að muna að sumir hópar fatlaðs fólks eru alfarið háðir tölvutækni til að geta stundað nám og atvinnu. Því er brýnt að þau fái þjálfun og menntun í notkun tækninnar strax á grunnskólastigi. Hér er ekki aðeins um undanþágu frá notkunarbanni að ræða – heldur er nauðsynlegt að einhver axli ábyrgð á að kenna fötluðum börnum á þessa tækni og allt það sem hún hefur í för með sér, bæði af hættum og tækifærum.

ÖBÍ hlakkar til að halda þessu samtali áfram og fagnar því að inngilding sé miðlægt markmið í þessu starfi. Notkun snjalltækja er nefnilega grundvöllur frelsis og öryggis fyrir marga fatlaða einstaklinga.

Ekkert um okkur – án okkar!

Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ réttindasamtaka

Rósa María Hjörvar
stafænn verkefnastjóri ÖBÍ réttindasamtaka


Áform um breytingu á lögum um grunnskóla, nr. 91/2008 (snjalltæki)
Mál nr. S-126/2025. Mennta- og barnamálaráðuneytið.
Umsögn ÖBÍ, 6. ágúst 2025