Skip to main content
AlmannatryggingarSjúkratryggingarUmsögn

Breyting á lögum um slysatryggingar almannatrygginga (sjúkrahjálp)

By 18. nóvember 2024september 1st, 2025No Comments

ÖBÍ réttindasamtök (ÖBÍ) hafa fengið til umsagnar drög að frumvarpi til laga um slysatryggingu nr. 45/2015 (sjúkrahjálp) sem er að finna í samráðsgátt stjórnvalda. ÖBÍ lýsir andstöðu við frumvarpið því það felur í sér skerðingu á réttindum sjúkratryggða einstaklinga og eykur kostnaðarþátttöku þeirra við að leita sér lækninga.

ÖBÍ vekur athygli á því að undrun sætir að tillaga um slíka róttæka skerðingu á réttindum sjúkratryggða einstaklinga er lögð fram í ljósi þess að lögin um slysatryggingar almannatrygginga tóku gildi 2015 eða fyrir níu árum síðan.

Með frumvarpinu á að afnema ákvæði um sjúkrahjálp í lögum um slysatryggingar almannatrygginga nr. 45/2015 (10. gr.). Þetta ákvæði hefur veitt sjúkratryggðum ákveðna vernd eins og segir í inngangi frumvarpsins: „Valdi bótaskylt slys sjúkleika og vinnutjóni skal greiða nauðsynlegan kostnað vegna lækningar hins slasaða og tjóns á gervilimum eða hjálpartækjum, í samræmi við það sem tilgreint er í ákvæðinu. Læknishjálp, lyf, viðgerð vegna brots á tönnum og sjúkraþjálfun eru t.a.m. greidd að fullu, sem og gervilimir eða svipuð hjálpartæki.“

Rök heilbrigðisráðuneytis fyrir því að fella út ofangreint ákvæði úr lögunum er að dregið hafi úr vægi sjúkrahjálpar samhliða aukinni greiðsluþátttöku sjúkratrygginga í kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu. Að auki er afnám þessara réttinda réttlætt með eftirfarandi rökum: „Með frumvarpinu er leitast við að draga töluvert úr umsýslu í starfsemi Sjúkratrygginga vegna umsókna um tiltölulega lágar bótafjárhæðir og nýta krafta stofnunarinnar í önnur verkefni. Rúmlega eitt stöðugildi sérhæfðs fulltrúa, auk stuðnings sérfræðinga, fer í að afgreiða umsóknir um sjúkrahjálp.“

Í greinargerð frumvarpsins segir að ef það verði að lögum, muni það hafa einkum áhrif á sjúkratryggða einstaklinga sem falla undir 10. gr. laganna um sjúkrahjálp og nytu ekki lengur gjaldfrjálsar þjónustu samkvæmt ákvæðinu.

Með frumvarpinu er áætlað að spara um 180-250 milljónir með því að afnema ákvæðið og að auki muni greiðsluþátttaka sjúkratryggða einstaklinga aukast um 70 milljónir á ári. Ef fjárhagslegar tölur eru skoðaðar betur, þá kemur í ljós að um 2000 sjúkratryggðir einstaklingar hafa notið þessa ákvæðis sem þýðir að kostnaður þeirra vegna aukinnar greiðsluþátttöku muni aukast um 35.000 kr á ári.

Af þeim sökum lýsir ÖBÍ yfir andstöðu við þetta frumvarp. Ljóst er að sá sparnaður sem fæst við að afnema 10. gr. laganna og þar með ákvæði um sjúkrahjálp er miklu meir en kostnaður við eitt stöðugildi. Með þessari breytingu er því verið að seilast meir í vasa sjúkratryggða til að greiða fyrir heilbrigðisþjónustu en gert er í dag. ÖBÍ getur aldrei fallist á slíka breytingu. Því leggur ÖBÍ til að hætt verði við þessa breytingu á lögum um slysatryggingu almannatrygginga.

Ekkert um okkur án okkar. 

Virðingafyllst,

Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ réttindasamtaka

Rósa María Hjörvar
verkefnastjóri ÖBÍ réttindasamtaka

Gunnar Alexander Ólafsson
hagfræðingur ÖBÍ réttindasamtaka


Frumvarp til laga um breytingu á lögum um slysatryggingar almannatrygginga (sjúkrahjálp)
Mál nr. S-211/2024. Heilbrigðisráðuneytið
Umsögn ÖBÍ, 18. nóvember 2024