Skip to main content
AðgengiHúsnæðismálUmsögn

Áform um breytingu á ýmsum lögum vegna sameiningar starfsemi Skipulagsstofnunar og HMS

By 8. ágúst 2025september 1st, 2025No Comments

ÖBÍ réttindasamtök (ÖBÍ) styður þau áform að sameina starfsemi Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) og Skipulagsstofnunar með það að markmiði að skapa sterka og öfluga stjórnsýslustofnun. Slík sameining gæti aukið skilvirki í grunnþjónustu og stuðlað að nauðsynlegum kerfisbreytingum. ÖBÍ bendir þó á að sameining ein og sér tryggi ekki sjálfkrafa betri árangur eða skilvirkni. Því er brýnt að markmið, hlutverk og verkferlar hinnar nýju stofnunar séu skýrlega skilgreind frá upphafi.

Skipulag og uppbygging mannvirkja hafa veruleg áhrif á daglegt líf fatlaðs fólks og möguleika þeirra til að taka virkan þátt í samfélaginu. Þegar samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF) verður lögfestur hér á landi, mun hvíla lagaleg skylda á íslenska ríkinu að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja fötluðu fólki jafnan aðgang að byggðu umhverfi, samgöngum og opinberri þjónustu – hvort sem er í þéttbýli eða dreifbýli.

ÖBÍ vill koma eftirfarandi athugasemdum og tillögum á framfæri.

Aðgengi allra til samfélagslegrar þátttöku og heildstætt skipulag

Fjölmargar hindranir sem fatlað fólk mætir í daglegu lífi má rekja til þess að ekki er nægilega tekið tillit til fjölbreyttra þarfa fólks í skipulagi, hönnun, framkvæmdum og eftirliti með mannvirkjum og umhverfi. Þótt lög kveði á um að byggt skuli fyrir alla, þá eru niðurstöðurnar í reynd oft aðeins hagstæðar fyrir hluta íbúanna.

Stór hluti íbúðarhúsnæðis á Íslandi er óaðgengilegur fötluðu fólki, og staðan er jafnvel enn verri þegar kemur að atvinnuhúsnæði og öðrum opinberum mannvirkjum. Þrátt fyrir að núgildandi skipulagslög og mannvirkjalög eigi að tryggja aðgengi, þá tekst það ekki alltaf í framkvæmd. Eitt helsta vandamálið er að ábyrgð á aðgengismálum er dreifð á milli margra stofnana, sem leiðir til skorts á samhæfingu og getur valdið óskilvirkni og ábyrgðarleysi.

Ófullnægjandi hönnun húsnæðis og nærumhverfis getur takmarkað verulega möguleika fatlaðs fólks til að búa sjálfstætt og lifa sjálfstæðu lífi. Til eru tilfelli þar sem fatlað fólk á öllum aldri hefur orðið nánast innilokað í eigin heimili vegna þess að hönnunin gerir ekki ráð fyrir öðrum en einstaklingum með fulla hreyfigetu. Slíkt felur í sér samfélagslega mismunun.

ÖBÍ telur að ný sameinuð stofnun sem sinnir skipulagi og mannvirkjagerð hafi einstakt tækifæri til að snúa þessari þróun við og stuðla að raunverulegu aðgengi fyrir alla. Með markvissri stefnumótun og góðum undirbúningi getur stofnunin orðið leiðandi afl í innleiðingu og fræðslu um algilda hönnun, í samræmi við skuldbindingar Íslands samkvæmt SRFF.

ÖBÍ leggur til að stofnunin setji sér heildstæða aðgengis- og inngildingarstefnu sem skal uppfærð og endurskoðuð á þriggja ára fresti. Einnig er mikilvægt að stofnunin ráði sérfræðinga í aðgengismálum, sem hefði það hlutverk að:

  • Tryggja að aðgengi sé grundvallarviðmið í allri stefnumótun, hönnun og leyfisveitingum.
  • Veita ráðgjöf og stuðning við mótun reglna, viðmiðana og hönnunarleiðbeininga í samræmi við hugmyndafræði algildrar hönnunar.
  • Meta áhrif fyrirhugaðra framkvæmda á aðgengi og leggja fram úrbótatillögur.
  • Hafa eftirlit með framkvæmdum og beita sér fyrir því að mistök í aðgengismálum séu leiðrétt í tæka tíð.

Jafnframt leggur ÖBÍ áherslu á að stjórnendur og starfsfólk nýrrar stofnunar fái reglubundna fræðslu um mikilvægi og gildi algildrar hönnunar, svo að aðgengi verði sjálfsagður hluti af öllu skipulagi og mannvirkjagerð.

Skýrt samfélagslegt hlutverk

Hlutverk nýrrar sameinaðrar stofnunar á sviði skipulags og mannvirkjagerðar þarf að vera skýrt skilgreint í lögum. Sérstaklega þarf að tryggja að stofnunin beri skýra samfélagslega ábyrgð gagnvart öllum almenningi óháð efnahag, fötlun eða öðrum aðstæðum. Lögin ættu sérstaklega að kveða á um að stofnunin skuli stuðla að uppbyggingu aðgengilegra og inngildandi mannvirkja, í samræmi við SRFF og hugmyndafræði algildrar hönnunar. Það þarf að vera ljóst að aðgengi sé ekki aukaatriði heldur grundvallarviðmið í öllu skipulagi og mannvirkjagerð.

Gagnlegt er að líta til sambærilegrar stofnunar í Noregi, Husbanken, sem hefur skýrt og samfélagslega þýðingarmikið hlutverk með það að markmiði að fyrirbyggja að almenningur lendi í vandræðum á húsnæðismarkaðnum. Husbanken veitir lán og styrki sem gera fólki kleift að kaupa, halda eða bæta húsnæði sitt, þar á meðal til að bæta aðgengi að eldra húsnæði þannig að það nýtist fólki óháð hreyfigetu eða fötlun. Stofnunin hefur einnig það hlutverk að stuðla að öruggum og fyrirsjáanlegum leigumarkaði.

ÖBÍ telur æskilegt að nýja íslenska stofnunin fái sambærilegt samfélagslegt hlutverk og Husbanken. Slíkt hlutverk myndi fela í sér að tryggja að fólk geti búið við öruggar, aðgengilegar og viðeigandi aðstæður óháð fjárhagsstöðu eða líkamlegum aðstæðum og að stuðlað sé að réttlátum húsnæðismarkaði sem tekur mið af fjölbreytileika samfélagsins.

ÖBÍ áskilur sér rétt til að koma á framfæri frekari athugasemdum á seinni stigum.

Ekkert um okkur án okkar!

Með vinsemd og virðingu,

Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ

Kjartan Þór Ingason
verkefnastjóri ÖBÍ

Stefán Vilbergsson
verkefnastjóri ÖBÍ


Áform um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna sameiningar starfsemi Skipulagsstofnunar og Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar
Mál nr. S-120/2025. Félags- og húsnæðismálaráðuneytið.
Umsögn ÖBÍ, 8. ágúst 2025