
Um 21.000 börn á Gaza eru fötluð eftir árásir Ísraelshers síðustu tvö ár. Þetta segir í frétt RÚV sem byggir á tölum frá Sameinuðu þjóðunum.
ÖBÍ réttindasamtök lýsa þungum áhyggjum af stöðunni og kalla eftir því að Ísland og alþjóðasamfélagið allt bregðist við með skýrum hætti og tryggi vernd og mannréttindi.
Ísraelsher hefur náð yfirráðum á stórum hluta svæðisins og hrakið fjölda fólks á flótta. Fyrir margt fatlað fólk getur slíkur flótti verið nær ómögulegur. Sameinuðu þjóðirnar greina frá því að fatlað fólk hafi verið þvingað til að flýja án hjálpartækja, jafnvel þurft að skríða eftir jörðinni til að komast undan.
Á sama tíma hefur neyðaraðstoð til Gaza verið hleypt inn í mjög litlum mæli. Þessi skortur hefur sérstaklega alvarleg áhrif á fatlað. Samkvæmt gögnum hafa allt að 83% fatlaðs fólks á Gaza misst hjálpartæki sín, svo sem hjólastóla, göngugrindur, spelkur eða gerviútlimi.
ÖBÍ réttindasamtök eru á meðal fjölda félaga sem taka þátt á fjöldafundinum „Þjóð gegn þjóðarmorði“ sem boðað hefur verið til á Austurvelli laugardaginn 6. september.

