Formáli
Þessar ábendingar eru unnar af fjórum hagsmunasamtökum fatlaðs fólks á Íslandi (samtökin). Þau eru ÖBÍ réttindasamtök, Landssamtökin Þroskahjálp, Landssamtökin Geðhjálp og Umhyggja. Ábendingarnar eru til framlagningar fyrir 21. undirbúningsfund starfshóps Nefndar Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks í tengslum við fyrstu skýrslu Íslands samkvæmt 35. gr. samnings sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (samningurinn). Í ábendingunum er tilteknum málefnum lýst varðandi innleiðingu samningsins og mannréttindi fatlaðs fólks á Íslandi. Í þeim er einnig að finna spurningar sem samtökin leggja til að nefndin leggi fyrir ríkisstjórn Íslands í tenglum við skýrsluna og innleiðingu samningsins.
Íslensk stjórnvöld hafa stigið ákveðin skref í innleiðingu samningsins. Árið 2022 hóf ríkisstjórnin vinnu við gerð landsáætlunar í málefnum fatlaðs fólks. Þann 20. mars 2024 samþykkti Alþingi Íslendinga þingsályktun um áætlunina fyrir árin 2024-2027. Landsáætluninni var ætlað að fela í sér framtíðarsýn, kortlagningu, greiningu og mat á kostum í þjónustu og þróun réttinda fatlaðs fólks til að stuðla að innleiðingu samningsins. Áætlunin inniheldur 60 tilgreindar aðgerðir, sem eru mismunandi langt á veg komnar. Vinnu við sumar þeirra er lokið en vinna við aðrar hefur ekki hafist. Á þessari stundu er frumvarp til meðferðar á Alþingi lagt fram af ríkisstjórn Íslands um lögfestingu samningsins í heild sem er jafnframt ein af aðgerðum landsáætlunarinnar.
Barátta fyrir mannréttindum fatlaðs fólks er viðvarandi verkefni hagsmunasamtaka. Þessum ábendingum er ætlað að vekja athygli nefndarinnar á málefnum sem varða mannréttindi fatlaðs fólks á Íslandi og samtökin telja mest aðkallandi á þessari stundu.
Samtökin
ÖBÍ réttindasamtök
ÖBÍ réttindasamtök eru hagsmuna- og mannréttindasamtök fatlaðs fólks á Íslandi sem starfað hafa frá árinu 1961. ÖBÍ eru regnhlífarsamtök 40 aðildarfélaga sem eru hagsmunasamtök ólíkra fötlunarhópa. Hvert og eitt er með sérþekkingu á sínu sviði og veitir margskonar fræðslu og stuðning. Samanlagður félagafjöldi þeirra er um 40.200 manns. Markmið ÖBÍ er að íslenskt þjóðfélag verði samfélag jöfnuðar og réttlætis þar sem allir einstaklingar, óháð líkamlegu og andlegu atgervi, njóti mannsæmandi lífskjara og jafnra möguleika til sjálfstæðs lífs og virkrar samfélagslegrar þátttöku. Hlutverk samtakanna er að koma fram fyrir hönd fatlaðs fólks gagnvart opinberum aðilum í hverskyns hagsmunamálum svo sem varðandi löggjöf, framkvæmd hennar og í dómsmálum er snerta rétt þess. Samningur Sameinuðu Þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er leiðarljós í vinnu samtakanna. » obi.is
Landssamtökin Þroskahjálp
Landssamtökin Þroskahjálp eru mannréttindasamtök fatlaðs fólks sem beita sér sérstaklega fyrir hagsmunum og réttindum fólks með þroskahömlun og skyldar fatlanir, einhverfs fólks og fatlaðra barna. Samtökin eru heildarsamtök og undir regnhlíf Þroskahjálpar sameinast fatlað fólk, aðstandendur fatlaðs fólks og fagfólk í sameiginlegri baráttu fyrir jafnrétti, mannréttindum og jöfnum tækifærum. Verkefni Þroskahjálpar snerta öll svið samfélagsins og áherslan er á að fatlað fólk fái ævinlega tækifæri til að miðla reynslu sinni og hugmyndum, njóti sjálfræðis og jafnra tækifæra og fái til þess nauðsynlegan stuðning og viðeigandi aðlögun, svo sem skylt er að veita samkvæmt íslenskum lögum og mannréttindasamningum sem íslensk stjórnvöld hafa undirgengist. Eitt af hlutverkum samtakanna er að koma fram fyrir hönd fólks með þroskahömlun og skyldar fatlanir, einhverfs fólks og fatlaðra barna gagnvart opinberum aðilum. Þroskahjálp grundvallar allt sitt starf á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. » throskahjalp.is
Geðhjálp
Hlutverk Landssamtakanna Geðhjálpar er að standa vörð um og rækta geðheilsu Íslendinga. Samtökin voru stofnuð 1979 og eru félag allra sem láta sig geðheilbrigðismál varða. Geðhjálp eru samtök 7.500 félaga; fólks með persónulega reynslu af andlegum áskorunum, aðstandenda, fagfólks og áhugafólks um bættan hag fólks sem býr við geðrænar áskoranir í samfélaginu. Samtökin vinna að því að bæta þjónustu, verja réttindi og vinna gegn fordómum með hagsmunagæslu, ráðgjöf, upplýsinga- og þekkingarmiðlun. » gedhjalp.is
Umhyggja
Umhyggja er félag sem vinnur að bættum hag langveikra og fatlaðra barna og fjölskyldna þeirra. Innan Umhyggju eru bæði foreldrar og fagmenn, en einnig eiga 18 félög sem tengjast langvinnum sjúkdómum aðild að Umhyggju. Félagið er því til staðar fyrir mjög breiðan hóp fjölskyldna langveikra og fatlaðra barna með mismunandi sjúkdóma og þarfir. Umhyggja gætir hagsmuna langveikra barna og styður við fjölskyldur þeirra eftir fremsta megni. Félagið aðstoðar foreldra við að sækja réttindi barna sinna hjá ríki og sveitarfélögum. Auk þess býður Umhyggja foreldrum langveikra barna meðal annars upp á gjaldfrjálsa sálfræðiráðgjöf, lögfræðiráðgjöf, iðjuþjálfun, almenna ráðgjöf, fjárstyrki og dvöl í sérútbúnum orlofshúsum. Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks skiptir stóran hluta félagsmanna Umhyggju miklu máli enda ljóst að sjúkdómar geta leitt af sér fötlun. » umhyggja.is
Málefni og ráðlagðar spurningar
Grein 4 – Almennar skuldbindingar
Málefni
- Félags- og húsnæðismálaráðuneytið fer með yfirstjórn málefna fatlaðs fólks samkvæmt lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, nr. 38/2018. Fatlað fólk skal eiga rétt á allri almennri þjónustu ríkis og sveitarfélaga. Á Íslandi sjá sveitarfélögin, sem eru 62 talsins, um framkvæmd á þjónustu til fatlaðs fólks. Oft reynir þó á samstarf milli sveitarfélaganna og ríkisins vegna fjármögnunar og annars konar aðkomu ríkisins að málaflokknum. Að mati samtakanna verður togstreita á milli ríkis og sveitarfélaga of oft til þess að fatlað fólk fær ekki lögbundna þjónustu eða þarf að bíða eftir henni til langs tíma. Af sömu ástæðu hefur orðið dráttur á að tryggja samræmdar reglur varðandi þjónustu við fatlað fólk sem og framkvæmd af hálfu sveitarfélaga. Skýrt dæmi um þetta er togstreita á milli ríkis og sveitarfélaga um fjármögnun og reglusetningu vegna samninga um notendastýrða persónulega aðstoð (NPA samninga).
- Ríkisstjórnin hefur lagt fram frumvarp um lögfestingu samningsins en valfrjáls bókun við samninginn hefur verið undirrituð af hálfu Íslands en ekki fullgilt. Að mati samtakanna er mikilvægt að fullgilda bókunina til að stuðla að réttri framkvæmd á samningnum.
- Málefni jafnréttis- og mannréttindamála heyra undir dómsmálaráðuneytið samkvæmt forsetaúrskurði um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, sem tók gildi 15. mars 2025. Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks heyrir þó, einn alþjóðlegra mannréttindasamninga, undir félags- og húsnæðismálaráðuneytið. Með því að aðskilja samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks frá öðrum mannréttindasamningum telja samtökin hættu á að samningurinn verði fyrst og fremst túlkaður sem velferðar- og félagsþjónustusamningur, fremur en mannréttindasamningur.
- Dæmi eru um að sveitarfélög hafi þrengt hugtakið fötlun til dæmis með þeim hætti að sjúkdómur geti ekki leitt af sér fötlun þrátt fyrir að sjúkdómurinn hindri fulla og árangursríka samfélagsþátttöku til jafns við aðra. Þetta verður til þess að einstaklingar fá ekki þjónustu skv. lögum nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Að mati samtakanna er þetta augljóslega í andstöðu við samninginn.
Ráðlagðar spurningar
- Hvernig ætlar ríkisstjórnin að sjá til þess að samstarf ríkis og sveitarfélaga tryggi sem best að fatlað fólk fái notið réttinda sinna og koma í veg fyrir að togstreita komi niður á þjónustu?
- Hver eru áform ríkisstjórnarinnar varðandi valfrjálsa bókun við samninginn og hvernig ætlar ríkisstjórnin að stuðla að réttri framkvæmd á samningnum?
- Hvaða rök eru fyrir því að fela dómsmálaráðuneyti ekki ábyrgð á framkvæmd samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem annars fer með alla aðra mannréttindasamninga sem Ísland er aðili að?
- Er það skoðun ríkisstjórnarinnar að hugtakið fötlun geti verið með mismunandi hætti í lögum og framkvæmd og að heimilt sé eftir aðstæðum að þrengja hugtakið?
- Hvað hyggst ríkisstjórnin gera til að tryggja samræmda skilgreiningu á fötlun í lögum og reglugerðum sem og í framkvæmd í samræmi við samninginn?
Grein 6– Fatlaðar konur
Málefni
- Samtökin hafa áhyggjur af því að fatlaðar konur njóti ekki fullnægjandi verndar gegn ofbeldi og misnotkun. Huga þarf sérstaklega að hættu á stafrænu ofbeldi og misnotkun, meðal annars kynferðislegri og/eða fjárhagslegri. Það á sérstaklega við fatlaðar konur sem dvelja/búa á búsetukjörnum eða í svipuðum úrræðum. Að mati samtakanna þarf að gera betur í að tryggja vernd þessara kvenna, bæði í daglegu lífi sem og í málsmeðferðum innan réttarvörslukerfisins, einkum kvenna með geðraskanir, þroskahömlun og/eða skyldar fatlanir.
Ráðlagðar spurningar
- Hvernig ætlar ríkisstjórnin að tryggja vernd fatlaðra kvenna gegn ofbeldi og misnotkun?
Grein 7– Fötluð börn
Málefni
- Fjöldi fatlaðra barna bíður til langs tíma, jafnvel árum saman, eftir nauðsynlegri og lögbundinni félags- og heilbrigðisþjónustu. Á það meðal annars við um geðheilbrigðisþjónustu, þjónustu vegna taugaþroskaraskana, þjónustu heyrnar- og talmeinafræðinga og fleira. Sama á við um bið barna eftir viðeigandi greiningum. Sem dæmi má nefna að í janúar 2025 biðu alls 2093 börn eftir þjónustu á Geðheilsumiðstöð barna og þar af höfðu 1808 beðið í yfir 3 mánuði. Umboðsmaður barna hefur lýst þungum áhyggjum af stöðu biðlista barna.
- Dæmi eru um að fötluð börn með fjölþættan vanda, þar með talið hegðunarvanda, fíknivanda, geðraskanir, og/eða þroskaraskanir, séu frelsissvipt vegna skorts á viðeigandi úrræðum.
- Samkvæmt nýlegri rannsókn eru aðeins um 4% fatlaðra barna þátttakendur í skipulögðu íþróttastarfi á Íslandi. Meðal þess sem orsakar þetta lága hlutfall að mati samtakanna er að skilgreiningar á hjálpartækjum samkvæmt lögum og í framkvæmd eru of þröngar sem meðal annars takmarkar tækifæri fatlaðra barna til að taka þátt í íþrótta- og tómstundastarfi.
- Það telst til undantekningartilvika að fötluð börn fái samþykkta umsókn um NPA samninga þrátt fyrir að uppfylla lagalegar kröfur.
Ráðlagðar spurningar
- Hvað telur ríkisstjórnin vera æskilegan hámarksbiðtíma barna eftir nauðsynlegri félags- og heilbrigðisþjónustu?
- Til hvaða aðgerða ætlar ríkisstjórnin að grípa til að stytta biðlista að lögbundinni og nauðsynlegri félags- og heilbrigðisþjónustu fyrir fötluð börn?
- Hvað hyggst ríkisstjórnin gera til að koma í veg fyrir að fötluð börn séu frelsissvipt?
- Til hvaða ráðstafana ætlar ríkisstjórnin að grípa til að auka möguleika fatlaðra barna til þátttöku í skipulögðu tómstunda- og íþróttastarfi og hver eru markmið ríkisstjórnarinnar hvað það varðar?
- Hvað veldur því að börn fá aðeins í undantekningartilvikum samþykkta umsókn um NPA samning?
Grein 8 - Vitundarvakning
Málefni
- Að mati samtakanna er skortur á markvissri fræðslu um þá hugmyndafræði sem samningurinn byggir á. Mjög skortir á þekkingu á hugmyndafræðinni á sviðum félags- og heilbrigðismála. Almenn þekking á þessum sviðum á félagslegri og mannréttindalegri nálgun samningsins og grundvallarhugtökum er takmörkuð.
- Þörf er á að auka almenna fræðslu og bæta upplýsingagjöf til einstaklinga í tengslum við fósturskimanir með tilliti til fatlana þar sem gætt er fyllsta hlutleysis og fordómaleysis. Hlutfall þungunarrofa í kjölfar fósturskimana er hátt á Íslandi í samanburði við nágrannaríki og fyrirbyggja þarf að rangar upplýsingar og fordómar liggi til grundvallar.
Ráðlagðar spurningar
- Til hvaða aðgerða hyggst ríkisstjórnin grípa til að stuðla að þekkingu opinberra starfsmanna sem og almennri þekkingu á hugmyndafræði samningsins og efni hans?
- Hefur ríkisstjórnin áform um að auka almenna fræðslu og upplýsingagjöf til einstaklinga í tengslum við fósturskimanir með tilliti til fatlana?
Grein 9– Aðgengi
Málefni
- Skortur er á heildrænni stefnumótun og regluverki sem tryggir óhindraða stafræna þátttöku fatlaðs fólks. Stjórnvöldum ber að tryggja aðgang alls fólks í samfélaginu að upplýsingum og þjónustu sem og tæknilegt öryggi. Auk þess að hindra aðgengi að þjónustu og upplýsingum hefur skortur á slíku aðgengi í för með sér aukna hættu á jaðarsetningu, einangrun sem og ofbeldi og misnotkun. Nefna má að rafræn skilríki sem eru óaðgengileg mörgu fötluðu fólki eru ennþá eina rafræna leiðin til að fá aðgang að aðgangsstýrðum opinberum vefsvæðum. Sama á við um margskonar þjónustu sem veitt er af einkaaðilum. Þá geta einstaklingar sem ekki geta notað rafræn skilríki ekki fengið útgefin vegabréf eða önnur skilríki. Til að tryggja að kröfum um stafrænt aðgengi verði framfylgt verður ríkisstjórnin að ákveða og upplýsa um hvaða aðili innan stjórnsýslunnar skuli vera ábyrgur fyrir innleiðingu þess. Til þessa liggur ekki fyrir hver ber þá ábyrgð. Þrátt fyrir skyldu sína samkvæmt EES samningum hefur ríkið ekki innleitt í íslensk lög tilskipun Evrópuþingsins og -ráðsins nr. 2016/2102 um aðgengi vefsetra opinberra aðila og smáforrita þeirra fyrir fartæki (aðgengistilskipun).
- Skortur er á að nýbyggingar uppfylli kröfur laga og reglugerða um aðgengi fyrir fatlað fólk, meðal annars hvað varðar algilda hönnun. Eftirlit sem og úrræði eftirlitsaðila eru að mati samtakanna ófullnægjandi. Þá er ekki tryggð menntun á sviði algildrar hönnunar.
- Samtökin telja þörf á að ríkið leggi til fjármuni til að tryggja aðlögun vinnustaða sem tryggir jafnt aðgengi fatlaðs fólks að vinnumarkaði, til dæmis með stofnsetningu sjóðs sem vinnustaðir geta sótt í. Þrátt fyrir nýsamþykkt lög um breytingar á almannatryggingum sem eiga að fela í sér hvata fyrir fatlað fólk til að fara út á atvinnumarkaðinn hefur slíkum sjóði ekki verið komið á.
Ráðlagðar spurningar
- Hvaða áform hefur ríkisstjórnin um að tryggja óhindraða stafræna þátttöku fatlaðs fólks?
- Hvaða aðili/aðilar innan íslenskrar stjórnsýslu bera ábyrgð á að tryggja óhindraða stafræna þátttöku fatlaðs fólks?
- Hvaða aðili/aðilar innan íslenskrar stjórnsýslu bera ábyrgð á því misrétti sem fatlað fólk verður fyrir þegar það fær ekki útgefin rafræn skilríki á grundvelli þeirra skilyrða sem stjórnvöld setja?
- Hvenær mun innleiðingu tilskipunar Evrópuþingsins og -ráðsins nr. 2016/2102 verða lokið?
- Hvernig er tryggt að byggingar uppfylli kröfur laga og reglna um aðgengi fyrir fatlað fólk?
- Hvaða aðföng munu eftirlitsaðilum vera tryggð til að vinna gegn brotum á reglum um algilda hönnun og aðgengi fyrir öll?
- Hvaða áform hefur ríkisstjórnin um að tryggja menntun á sviði algildrar hönnunar?
- Hefur ríkið áform um að koma á stuðningi um að tryggja viðeigandi aðlögun á vinnustöðum til að stuðla að jafnrétti á vinnumarkaði?
Grein 11 – Aðstæður sem skapa hættu og neyðarástand sem kallar á mannúðaraðstoð
Málefni
- Tryggja þarf réttindi fatlaðs fólks á flótta, þar með talið fatlaðra barna. Nýleg dæmi eru um ákvarðanir stjórnvalda þess efnis að vísa alvarlega fötluðu fólki, þar með talið börnum, frá landinu þrátt fyrir að fyrir liggi upplýsingar um hættu á alvarlegum afleiðingum fyrir heilsu þess.
Ráðlagðar spurningar
- Hvaða áform hefur ríkisstjórnin um að tryggja betur mannréttindi fatlaðs fólks, þ.m.t. fatlaðra barna, á flótta?
Grein 12 – Jöfn viðurkenning fyrir lögum
Málefni
- Að mati samtakanna er nauðsynlegt að fram fari heildarendurskoðun á lögræðislögum nr. 71/1997 til samræmis við 12. gr. samningsins. Einnig ákvæðum annarra laga eins og þörf er á til að ná sama markmiði, þar með talið almennra hegningarlaga, laga um réttindi sjúklinga og fleira Í núverandi mynd ganga lögin í berhögg við samninginn. Á meðal skilyrða fyrir lögræðissviptingu er að einstaklingur sé ekki fær um að ráða persónulegum högum sínum eða fé vegna andlegs vanþroska, ellisljóleika eða geðsjúkdóms eða vegna annars konar alvarlegs heilsubrests, sbr. a-lið 1. mgr. 4. gr.
- Samtökin hafa áhyggjur af bakslagi hvað varðar löghæfi fatlaðs fólks. Vísbendingar eru um tilhneigingu hjá opinberum aðilum til að stuðla um of að staðgengilsákvarðanatöku, lögræðis-, sjálfræðis- og fjárræðissviptingum, meðal annars hjá sýslumönnum sem hafa það hlutverk að afgreiða umsóknir fatlaðs fólks um persónulega talsmenn.
Ráðlagðar spurningar
- Hvaða áform hefur ríkisstjórnin um endurskoðun lögræðislaga til samræmis við samninginn?
- Hefur ríkisstjórnin í hyggju að grípa til aðgerða til að vernda löghæfi fatlaðs fólks og tryggja studda ákvarðanatöku?
Grein 13 – Aðgangur að réttinum
Málefni
- Samtökin telja skort vera á viðeigandi og samræmdri notkun ákvæða um hæfan stuðningsaðila fyrir fatlað fólk samkvæmt 9. gr., 61. gr., 113. gr. og 123., gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Tryggja þarf að þau standi fötluðu fólki ávallt til boða þegar við á. Samkvæmt upplýsingum samtakanna er skortur á að aðrir en réttindagæslumenn fatlaðs fólks geti talist vera hæfir stuðningsaðilar.
- Tryggja verður að fræðsla fyrir starfsfólk réttarvörslukerfisins, þar með talið lögreglu, ákæruvalds, dómstóla og fangelsa um aðstæður, þarfir og réttindi fatlaðs fólks og aðlögun málsmeðferðar samkvæmt 13. gr. samningsins sé viðvarandi.
- Of lítill fjárhagslegur stuðningur er að mati samtakanna við fatlað fólk til að leita réttar síns, þar með talið fyrir dómstólum.
Ráðlagðar spurningar
- Vinsamlegast veitið upplýsingar um beitingu ákvæða sakamálalaga um hæfan stuðningsaðila fyrir fatlað fólk sem og aðlögun málsmeðferðar innan réttarvörslukerfisins.
- Hver eru skilyrði þess í framkvæmd að fötluðum einstaklingi sé boðinn hæfur stuðningsaðili samkvæmt 9. gr., 61. gr., 113. gr. og 123. gr. sakamálalaga?
- Hvernig er aðlögun málsmeðferðar tryggð innan réttarvörlukerfisins?
- Hvernig verður viðvarandi fræðsla fyrir starfsfólk réttarvörslukerfisins um aðstæður, þarfir og réttindi fatlaðs fólks, sbr. 2. mgr. 13. gr. samningsins tryggð?
- Hvernig er fötluðu fólki tryggður fjárhagslegur stuðningur til að leita réttar síns fyrir dómstólum og hvernig er sá stuðningur ólíkur almennum stuðningi?
Grein 14 – Frelsi og öryggi einstaklingsins
Málefni
- Samtökin hafa miklar áhyggjur af þeirri nauðung og þvingun sem viðgengst á Íslandi, sem bersýnilega er ekki í samræmi við samninginn. Umboðsmaður Alþingis hefur lýst þungum áhyggjum af réttaröryggi fatlaðs fólks í tengslum við beitingu nauðungar.
- Gera þarf verulegar úrbætur á lögum og framkvæmd er varðar nauðungarvistanir. Nauðungarvista má einstakling í allt að 72 klukkustundir samkvæmt ákvörðun læknis. Nauðungarvista má sjálfráða mann gegn vilja hans á sjúkrahúsi til meðferðar í allt að 21 dag frá dagsetningu samþykkis sýslumanns ef hann er haldinn alvarlegum geðsjúkdómi eða verulegar líkur eru taldar á að svo sé eða ástand hans er þannig að jafna megi til alvarlegs geðsjúkdóms. Sama gildir ef maður á við alvarlega áfengisfíkn að stríða eða ofnautn ávana- og fíkniefna og nauðungarvistun er óhjákvæmileg að mati læknis. Skráningu nauðungarvistana er að mati samtakanna verulega ábótavant. Margskonar nauðung og þvinganir eru viðhafðar án lagaheimilda eða eftirlits. Einnig er ráðgjöf til nauðungarvistaðs einstaklings og kynning á réttarstöðu ábótavant. Eftirlit með skráningu er að sama skapi verulega ábótavant að mati samtakanna.
- Samkvæmt upplýsingum samtakanna er fötluðu fólki, einkum fólki með fjölþættan vanda, mismunað varðandi möguleika á reynslulausn frá afplánun refsinga. Í flestum tilvikum þurfa einstaklingar í slíkri stöðu að afplána dóm sinn að fullu án reynslulausnar. Þá eru fatlaðir einstaklingar stundum látnir sitja lengur í fangelsi vegna skorts á viðeigandi úrræðum að lokinni afplánun.
Ráðlagðar spurningar
- Til hvaða aðgerða hyggst ríkisstjórnin grípa til að tryggja að beiting nauðungar verði ekki framkvæmd líkt og gert er í dag?
- Hvaða áform hefur ríkisstjórnin um endurskoðun laga um nauðungarvistanir til samræmis við samninginn?
- Hefur ríkisstjórnin áform um að herða eftirlit með beitingu og skráningu nauðungar og þvingunar?
- Vinsamlegast leggið fram upplýsingar um meðferð umsókna um reynslulausn sem sýna samanburð á afgreiðslu umsókna fatlaðs fólks og annarra.
- Vinsamlegast leggið fram upplýsingar um fjölda tilvika sem fatlaðir einstaklingar hafa setið í fangelsi eftir afplánun vegna skorts á viðeigandi úrræðum að lokinni afplánun undanfarin 10 ár.
Grein 19 – Að lifa sjálfstæðu lífi og án aðgreiningar í samfélaginu
Málefni
- Verulegur skortur er á húsnæðisúrræðum fyrir fatlað fólk. Á það bæði við um almennt og sértækt húsnæði. Skortur á viðeigandi úrræðum og aðgengilegu húsnæði nær til allra hópa fatlaðs fólks, þar með talið fólks með hreyfi-, sjón- og heyrnarskerðingar, vitsmunaskerðingar, skerðingar á geðsmunum og þess háttar. Nýleg dómsmál sem sum samtakanna hafa höfðað á hendur Reykjavíkurborg vegna langrar biðar eftir sértæku húsnæði sýna dæmi um bið í allt að 11 ár. Skortur er á samræmdu regluverki og framkvæmd við úthlutun húsnæðis á milli sveitarfélaga sem og innan sveitarfélaga. Þá þurfa einstaklingar að bíða til langs tíma, oftast um árabil, eftir að fá virkjaða NPA samninga. Dæmi eru um að ungt fatlað fólk sé vistað á dvalar- og/eða hjúkrunarheimilum fyrir aldraða, oft gegn vilja sínum, í stað þess að vera tryggð viðeigandi búseta. Þá er skortur á viðeigandi úrræðum þegar fatlað barn verður fullorðið og til marks um það var 31 einstaklingur á árinu 2024 sem nýtti sér skammtímadvalarúrræði ætlað börnum í Reykjavík.
- Mikil þörf er á að bæta aðgengi að stoð- og stuðningsþjónustu sveitarfélaga við fatlað fólk. Veruleg þörf er á að samræma aðgengi að þjónustu og gæði þjónustu á milli sveitarfélaga. Koma þarf í veg fyrir alla mismunun á milli hópa fatlaðs fólks að þjónustu.
- Verulegra úrbóta er þörf á aðgengi fatlaðs fólks að hjálpartækjum. Þörf er á að útvíkka skilgreiningu hjálpartækjahugtaksins og endurskoða hugmyndafræði. Skortur er á skilningi á því að hjálpartæki eiga að hjálpa fólki að taka virkan þátt í lífinu til jafns við aðra og að lifa innihaldsríku lífi. Koma þarf í veg fyrir alla mismunun á milli hópa fatlaðs fólks hvað varðar aðgengi að hjálpartækjum.
Ráðlagðar spurningar
- Hvað telur ríkisstjórnin vera æskilegan hámarksbiðtíma eftir húsnæðis-úrræðum fyrir fatlað fólk?
- Til hvaða aðgerða ætlar ríkisstjórnin að grípa til að tryggja fötluðu fólki viðeigandi búsetu og stytta biðlista?
- Vinsamlegast leggið fram upplýsingar um fjölda fólks undir ellilífeyrisaldri sem dvalið hefur ótímabundið á dvalarheimilum fyrir aldraða undanfarin 10 ár.
- Hvaða áform hefur ríkisstjórnin um að samræma reglur og framkvæmd stoð- og stuðningsþjónustu og tryggja að fatlað fólk fái nauðsynlega þjónustu?
- Vinsamlegast leggið fram upplýsingar um skilgreiningar varðandi hjálpartæki og skilyrði fyrir því að fatlað fólk eigi rétt á hjálpartækjum.
- Hvaða áform hefur ríkisstjórnin um að bæta aðgengi fatlaðs fólks að hjálpartækjum og tryggja jafnrétti á milli hópa fatlaðs fólks?
Grein 24 – Menntun
Málefni
- Skortur er á inngildandi menntun á öllum skólastigum. Mikil vöntun er á fagaðilum í skólastarfi. Til þess að stefnan um inngildandi menntun geti staðið undir nafni er mikilvægt að auka til muna þverfaglega samvinnu á öllum skólastigum. Nauðsynlegt er að fagaðilar vinni saman að málefnum fatlaðra nemenda, en þar er átt við þroskaþjálfa, iðjuþjálfa, sálfræðinga, námsráðgjafa, heyrnar- og talmeinafræðinga og kennara. Samtökin hafa áhyggur af bakslagi á stefnu um skóla án aðgreiningar.
- Of mörg dæmi eru um að fötluð börn fái ekki námsefni aðlöguð að þörfum þeirra. Á efri stigum náms á fatlað fólk sérlega erfitt með að fá námsefni aðlagað að þeirra þörfum og sama á við um aukinn tímafrest við verkefna- og prófaskil.
Ráðlagðar spurningar
- Hvaða áform hefur ríkisstjórnin til að auka inngildingu fatlaðs fólks í menntakerfinu á öllum skólastigum?
- Hvaða áform hefur ríkisstjórnin um að bæta aðlögun náms og námsefnis?
Grein 25 – Heilbrigði
Málefni
- Mikil vöntun er á aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu, meðal annars fyrir fólk með þroskahömlun og skyldar fatlanir og einhverft fólk, nema fyrir alvarlegustu tilfellin. Engin meðferðarúrræði eru fyrir fólk með einhverfu. Engin meðferðarúrræði eru fyrir fólk með þroskahömlun eða taugaþroskaraskanir með fíknivanda. Má að óbreyttu gera ráð fyrir því að vandamálin varðandi geðheilbrigði þessa hóps verði meiri og flóknari á komandi árum.
Ráðlagðar spurningar
- Hvaða áform hefur ríkisstjórnin um að bæta aðgengi að geðheilbrigðis-þjónustu og meðferðarúrræðum?
Grein 31 - Tölfræðilegar upplýsingar og gagnasöfnun
Málefni
- Almennt er mikill skortur á tölfræðilegum upplýsingum og rannsóknum um stöðu fatlaðs fólks í samfélaginu. Árin 2023-2024 var hafið verkefni í tilraunaskyni um birtingu tölfræði um fatlað fólk sem lagðist af. Að mati samtakanna er það þróun í ranga átt.
Ráðlagðar spurningar
- Hvaða áform hefur ríkisstjórnin um að mæta kröfum 31. gr. samningsins?
Grein 33 - Framkvæmd og eftirlit innan lands
Málefni
- Eftirlit ríkisins með framkvæmd og framfylgd sveitarfélaga er að mati samtakanna ófullnægjandi. Það orsakar mikið ósamræmi í þjónustu við fatlað fólk á milli sveitarfélaga. Verulegur skortur er á samræmdu regluverki hvað varðar þjónustu við fatlað fólk.
Ráðlagðar spurningar
- Hvaða áform hefur ríkisstjórnin um að bæta eftirlit með þjónustu sveitarfélaga við fatlað fólk?
- Hvaða áform hefur ríkisstjórnin um að samræma og bæta regluverk og framkvæmd félagsþjónustu á öllu landinu?
Tilvísanir
Vísanir í heimildir eru settar fram eftir umfjöllun um einstakar greinar samningsins.
Formáli
Þingsályktun um framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks fyrir árin 2024–2027, löggjafarþing 154, 2023-2024, þingskjal nr. 1297, mál nr. 584. [Alþingi].
Frumvarp um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, löggjafarþing 156, 2025, þingskjal nr. 204, mál nr. 187. [Alþingi].
Grein 4 – Almennar skuldbindingar
Vísir. (2024, 19. september). Ríki og sveitarfélög benda á hvort annað varðandi NPA [Fjölmiðlar].
Vísir. (2024, 20. september). Biðin óásættanleg og vill skýr svör frá ríkinu [Fjölmiðlar].
Vísir. (2024, 22. september). Vonar að sveitarfélögin leysi úr NPA-vandanum [Fjölmiðlar].
Vísir. (2024, 22. september). Óásættanlegt að vísa NPA-vandanum alfarið til sveitarfélaga [Fjölmiðlar].
Ríkisendurskoðun. (2025, febrúar). Frumkvæðisathugun á stoð- og stuðningsþjónustureglum sveitarfélaga [Skýrsla].
Grein 6 – Fatlaðar konur
RÚV. (2023, 6. janúar). Fatlað fólk ítrekað beitt ofbeldi: Reynt að þvinga konu í legnám [Fjölmiðlar].
Vísir. (2023, 26. nóvember). Ofbeldi gegn fötluðum stúlkum og konum [Fjölmiðlar].
Vísir. (2025, 25. janúar). „Stórkostlega undarlegt“ að þekktir gerendur séu ekki ákærðir [Fjölmiðlar].
MBL. (2021, 3. mars). Fatlaðar konur algeng fórnarlömb ofbeldis [Fjölmiðlar].
Grein 7 – Fötluð börn
Umboðsmaður barna. (2025, 3. mars). Upplýsingar um bið eftir þjónustu [Vefsíða].
RÚV. (2024, 12. september). Yfir þrjú þúsund börn á biðlista eftir þjónustu [Fjölmiðlar].
Umboðsmaður Alþingis. (2024, 12. desember). Neyðarvistun barna á lögreglustöðinni Flatahrauni: Heimsókn á Flatahraun 12. desember 2024: OPCAT eftirlit með stöðum þar sem frelsissviptir dvelja [Skýrsla].
Vísir. (2024, 10. mars). Einungis 4% fatlaðra barna á Íslandi æfa íþróttir [Fjölmiðlar].
Grein 9 – Aðgengi
Vísir. (2022, 3. september). Fatlað fólk fær ekki rafræn skilríki á Íslandi [Fjölmiðlar].
RÚV. (2023, 23. nóvember). Auðkenni braut á fatlaðri konu þegar henni var neitað um rafræn skilríki [Fjölmiðlar].
Vísir. (2024, 10. júlí). Hver er ráðherra stafrænnar innleiðingar? [Fjölmiðlar].
Vísir. (2022, 9. september). Stafræna lestin á fleygiferð — en komast allir með? [Fjölmiðlar].
Vísir. (2023, 16. júlí). Hefur ítrekað slasast við að reyna komast á salernið heima hjá sér [Fjölmiðlar].
Vísir. (2025, 2. júní). Segir vegið að rétti fatlaðra við uppbyggingu á Fannborgar- og Traðarreit [Fjölmiðlar].
Grein 11 – Aðstæður sem skapa hættu og neyðar-ástand sem kallar á mannúðaraðstoð
Vísir. (2024, 21. júní). Yazan endanlega vísað úr landi og boðað hefur verið til mótmæla [Fjölmiðlar].
ÖBÍ. (2024, 28. júní). ÖBÍ og Þroskahjálp skora á þingmenn og ráðherra [Fjölmiðlar].
RÚV. (2025, 13. janúar). Gert að yfirgefa landið tæpum mánuði fyrir nauðsynlega aðgerð [Fjölmiðlar].
Grein 14 – Frelsi og öryggi einstaklingsins
Umboðsmaður Alþingis. (2025, 4. febrúar). Brýnt að bregðast skjótt við og skoða hvort réttaröryggi fatlaðs fólks sé nægilega tryggt [Bréf].
Grein 19 – Að lifa sjálfstæðu lífi og án aðgreiningar í samfélaginu
Stjórnarráð Íslands. (2024, júní ). Yngra fólk á hjúkrunarheimilum: Skýrsla starfshóps [Skýrsla].
RÚV. (2021, 20. desember). 45 ára en þarf að vera á dvalarheimili aldraðra [Fjölmiðlar].
RÚV. (2023, 2. október). Fimm ár og fátt hefur gengið eftir [Fjölmiðlar].
RÚV. (2024, 19. september). Biðin eftir NPA: „Það er fólk að deyja á meðan það bíður“ [Fjölmiðlar].
Kjartan Þór Ingason og María Pétursdóttir. (2023, nóvember). Skýrsla um húsnæðismál fatlaðs fólks. ÖBÍ réttindasamtök [Skýrsla].
RÚV. (2023, 9. nóvember). Úrbóta er þörf fyrir fatlað fólk á húsnæðismarkaði [Fjölmiðlar].
Gæða og eftirlitsstofnun velferðarmála. (2025, febrúar). Þjónusta við fatlað fólk skv. lögum nr. 38/2018: Eftirfylgni [Skýrsla].
RÚV. (2024, 19. september). Synjað um þjónustu sem læknar segja nauðsynlega [Fjölmiðlar].
Vísir. (2025, 7. mars). Upplifir lífið eins og stofufangelsi [Fjölmiðlar].
Vísir. (2024, 24. september). Með banvænan sjúkdóm í stöðugri baráttu við Kópavogsbæ [Fjölmiðlar].
Vísir. (2024, 4. júní). Endurskoðun á hjálpartækjahugtakinu [Fjölmiðlar].
Grein 24 – Menntun
Vísir. (2022, 31. ágúst). „Sumt fólk dæmir fatlað fólk svo mikið því það heldur að það geti ekki gert neitt eins vel og þau“ [Fjölmiðlar].
Vísir. (2022, 8. nóvember). Aðgengi er ekki bara aðgengi að byggingum [Fjölmiðlar].
Grein 25 – Heilbrigði
Stjórnarráð Íslands. (2024, nóvember). „Hvert á ég að leita?“: Geðheilbrigðisþjónusta fyrir einhverfa 18 ár og eldri: niðurstaða ferlagreiningar [Skýrsla].
RÚV. (2022, 9. nóvember). Lýstu áhyggjum af stöðu geðheilbrigðisþjónustu [Fjölmiðlar].
Grein 33 – Framkvæmd og eftirlit innan lands
Gæða og eftirlitsstofnun velferðarmála. (2025, febrúar). Þjónusta við fatlað fólk skv. lögum nr. 38/2018: Eftirfylgni [Skýrsla].
Vísir. (2025, 12. maí). „Þau ákváðu einfaldlega að hann væri minna fatlaður í Garðabæ“ [Fjölmiðlar].

