Skip to main content
AðgengiUmsögn

Aðalskipulag Reykjavíkur 2040 – Keldur og nágrenni

By 10. september 2025No Comments
Loftmynd af Keldnaholti, Grafarholti og Grafarvogi.

Fyrir liggja drög að aðalskipulagsbreytingu fyrir Keldur og nágrenni þar sem til stendur að byggja upp nýjan borgarhluta með um 6000 íbúðum fyrir 12000 íbúa og þar sem skapast 7-8000 störf við verslun og þjónustu. Í gögnunum er lögð sérstök áhersla á félagslega blöndun í aðlaðandi byggð í tengslum við náttúruna, góðar göngu- og hjólaleiðir og nálægð við Borgarlínuna.

Í áætlunum er ekki gert ráð fyrir bílakjöllurum undir fjölbýlishúsum heldur geti íbúar leigt eða eignast bílastæði í svokölluðum samgönguhúsum sem eru innan 400 metra radíus frá íbúðahúsum. Einnig er gert ráð fyrir bílastæðum fyrir hreyfihamlaða við íbúðagötur.

ÖBÍ réttindasamtök leggja áherslu á að áform þessi uppfylli ekki þarfir fatlaðs fólks.

Lagt er til að í aðalskipulagi sé gert ráð fyrir bílakjöllurum undir fjöleignahúsum, P-merktum gestastæðum við götur og að aðrir geti lagt bílum sínum í sérstökum samgönguhúsum með möguleika fyrir samnýtingu.

Áherslur Reykjavíkurborgar í uppbyggingu nýrra hverfa

Stefna Reykjavíkurborgar er að fækka ferðum einkabílsins og uppbyggingaráætlanir nýrra hverfa miða allar að því. Í þessum hverfum er gert ráð fyrir fjórðungi úr bílastæði fyrir eins herbergja íbúðir en hlutfallið hækkar allt upp í 0,75 bílastæði á íbúð eftir því sem herbergjum fjölgar.

Það er sjálfsagt að búa til hvata, en fyrir fólk sem óraunhæft er að nota almenningssam-göngur, hjóla eða ganga er aftur á móti verið að búa til nýjar hindranir og hafa af því sjálfstæðið. Fatlað fólk er öðrum fremur háð einkabílnum til að komast milli staða, því hinn kosturinn er fyrir marga akstursþjónusta sveitarfélaga sem enginn vill þurfa að nota nema í neyð.

Samkvæmt kröfu í byggingarreglugerð má fjarlægð frá bílastæði fyrir hreyfihamlað fólk að inngangi byggingar ekki vera meiri en 25 metrar í hindrunarlausri aðkomuleið. Þá kröfu er hægt að uppfylla með bílakjöllurum en ekki með samgönguhúsum í allt að 400 metra fjarlægð. Bílastæði hreyfihamlaðra á götum í nálægð við byggingar verður frekar að líta á sem gestastæði en stæði ætluð íbúum, nema að þau séu þeim mun fleiri, enda er æskilegt „að við fjölbýlishús séu stæði fyrir hreyfihamlaða sem ætluð eru til tímabundinnar notkunar fyrir ferðaþjónustu fatlaðra, sjúkrabíla og gesti“ (leiðbeiningar við 6.2.4. gr. byggingarreglugerðar nr. 112/2012).

Landslag og veðurfar á Keldum og nágrenni er ekki hægt að jafna saman við aðstæður í Suður-Svíþjóð, sem er fyrirmynd þessara áforma. Gera má ráð fyrir vetrarhörkum og ofankomu sem gera aðkomuleiðir allar mjög krefjandi fyrir hreyfihamlað fólk ef það hefði aðeins aðgang að bílastæðum undir beru lofti.

Sorplausnir

Við eigum bara eina jörð og þurfum að bæta okkur í umhverfismálum. Með því að minnka vægi einkabílsins stuðlum við að betri loftgæðum og með sorpflokkun förum við betur með auðlindir jarðar. Flokkunarkerfin sem við notumst við á Íslandi eru þó ekki nægilega vel hönnuð. Djúpgámar á lóð eiga ekki að vera fjær inngöngum að stigagöngum en 25 metrar í hindrunarlausri umferðarleið skv. byggingarreglugerð, en þeim kröfum er sjaldnast framfylgt. Það hefur valdið því að fjöldi fólks hefur ekki getað komið frá sér heimilissorpi án aðstoðar. Fram kemur í greinargerð að erfitt sé að koma fyrir djúpgámum á svæðinu og því er lagt til að „umsjón sorphirðu og endurvinnslu er almennt leyst með sérstöku úrvinnsluhúsi sem tengist hverri fasteign […] Söfnunarkerfi með röralausn liggur að einni eða fleiri söfnunarstöðvum í útjöðrum til að draga sem mest úr viðveru sorphirðubíla í hverfisgötum.“ Með réttri útfærslu gæti þessi tillaga gæti leyst ýmsan vanda.

Betur má ef duga skal

Áform Reykjavíkurborgar um uppbyggingu nýs hverfis á Keldum og nágrenni eru að mörgu leyti mjög vel hugsuð. Lögð er áhersla á hönnun, skipulag, nálægð við náttúru og nýja samgöngumáta. Hins vegar hefur ekki verið nægilega hugað að þörfum fatlaðs fólks, sem hefur ávallt haft úr litlu að moða á húsnæðismarkaði vegna slæms aðgengis og aðstöðu. Fólks sem hefur ekki getað lifað sjálfstæðu lífi til jafns við aðra vegna óaðgengilegs almenningssamgöngukerfis, takmarkaðrar vetrarþjónustu og annarra hindrana. Borgarlínan mun að öllum líkindum auka möguleika fólks en ekki leysa allan vanda og ekki koma í staðinn fyrir einkabílinn fyrir þau sem ekki geta nýtt sér hana.

Félagsleg blöndun verður ekki fyllilega að veruleika ef fatlað fólk kýs ekki að búa þar vegna hafta við ferðafrelsi þess.

Ekkert um okkur án okkar!

Með vinsemd og virðingu,

Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ

Stefán Vilbergsson
verkefnastjóri ÖBÍ


Aðalskipulag Reykjavíkur 2040 – Keldur og nágrenni
Mál nr. 1133/2024. Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar.
Umsögn ÖBÍ, 10. september 2025