Skip to main content
AtvinnumálUmsögn

Áform um breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar

By 19. september 2025september 22nd, 2025No Comments
Fólk á ferð í stórum sal, myndin er óskýr (blurruð) þannig að ekki sést í andlit.

Að óbreyttu leggst ÖBÍ gegn þeim áformum um breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar sem hér eru til umsagnar. ÖBÍ leggst gegn því að stytta hámarkslengd tímabils sem atvinnuleysistryggingar eru greiddar um 40% eða úr 30 mánuðum í 18 mánuði. Að auki leggst ÖBÍ gegn því að lengja lágmarksskilyrði fyrir ávinnslu atvinnuleysistrygginga úr þrem mánuðum í tólf mánuði.

Markmið breytinga á atvinnuleysistryggingakerfinu er að grípa fólk fyrr en áður og stuðla að aukinni virkni hjá þeim hópi sem er útsettur fyrir langtímaatvinnuleysi.

Áætlaður sparnaður við þessar breytingar eru áætlaðar 6,2 milljarða króna á ári. Annars vegar er áætlað að stytting hámarkslengdar tímabils sem atvinnuleysistryggingar eru greiddar spari um 6 milljarða á ári og hins vegar mun lenging tímabils að lágmarksskilyrði fyrir ávinnslu atvinnuleysistrygginga úr þremur mánuðum í 12 mánuði spari um 200 milljónir á ári.

Það er mat ÖBÍ að stjórnvöld geti náð markmiðum frumvarpsins um að „grípa fólk fyrr en áður og stuðla að aukinni virkni hjá þeim hópi sem er útsettur fyrir langtímaatvinnuleysi“ innan núverandi laga og með þeim tækjum sem þau hafa í dag, án þess að grípa til jafnróttækra aðgerða, sérstaklega í ljósi þess góða árangurs Vinnumálastofnunar undanfarin ár við að draga úr langtímaatvinnuleysi.

Íslenskt hagkerfi sveiflukenndara

Að mati ÖBÍ þjónar það litlum tilgangi að nota atvinnuleysistímabil á Norðurlöndum til viðmiðunar þars sem hvergi á Norðurlöndunum er hagkerfið og vinnumarkaður jafn sveiflukennt og óstöðugt eins og á Íslandi. Íslenskt hagkerfi er mjög viðkvæmt fyrir breytingum og má nefna að fall flugfélagsins WOW hafði gífurleg áhrif, m.a. aukið atvinnuleysi og minni hagvöxt.

ÖBÍ telur að atvinnuleysisbætur séu mjög mikilvægar fyrir einstaklinga og fjölskyldur þeirra sem stuðningur við tímabundnu atvinnumissi.Atvinnumissir er áfall fyrir viðkomandi og það getur tekið viðkomandi mislangan tíma að treysta sér í virkni aftur. Til viðbótar því er hinn óstöðugi vinnumarkaður og hið óstöðuga hagkerfi á Íslandi ákveðin hindrun fyrir fólk að snúa fljótt til baka á vinnumarkað, sbr. dæmið um fall WOW flugfélagsins.

Tryggingargjald fjármagnar atvinnuleysisbætur

Hvað varðar atvinnuleysisbætur, þá eru þær fjármagnaðar með tryggingagjaldi sem launagreiðendur greiða. Atvinnutryggingagjald fjármagnar atvinnuleysisbætur og er hluti af tryggingagjaldi (21,3%). Í fjárlögum fyrir árið 2026 er gert ráð fyrir því að tryggingagjald skili um 160 milljarða tekjum í ríkissjóð og hlutur atvinnutryggingagjalds verði um 34 milljarðar. Ef lækka á greiddar atvinnuleysisbætur um 6 milljarða hlýtur sú spurning að vakna hvort tryggingagjald og þá sérstaklega atvinnutryggingagjald verði hlutfallslega lækkað í kjölfarið?

Áhrif á sveitarfélög

ÖBÍ saknar þess í áformaskjalinu að ekki hafi fylgt mat á áhrifum áformaðra breytinga á sveitarfélög. Ef viðkomandi atvinnuleitandi hefur ekki fengið vinnu, þegar greiðslu atvinnuleysisbóta lýkur, tekur við fjárhagsaðstoð sveitarfélag. Í því sambandi ber að minnast þess að hámarkslengd atvinnuleysistrygginga hefur verið stytt áður og þá úr 36 mánuðum í 30 mánuði í tengslum við frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2014. Í umsögn frá Sambandi Íslenskra sveitarfélaga um það mál kom fram að sú aðgerð myndi kosta sveitarfélögin um 500 milljónir á verðlagi 2014. Ef sú upphæð er framreiknuð til dagsins í dag og tvöfölduð í ljósi þess að styttingin nú er tvöfalt lengri, má áætla að þessi breyting geti aukið kostnað sveitarfélaga vegna fjárhagsaðstoðar um 1.5 milljarð á ári.

Afleiðingar atvinnuleysis

Í ritgerð við Félagsráðgjafadeild Háskóla Íslands um atvinnuleysi og afleiðingar þess, eftir Nönnu Báru Maríasdóttur, kemur fram að félagsleg áhrif atvinnuleysis á heilsu eru bæði líkamleg og andleg. Það skiptir öllu máli fyrir atvinnulaust fólk að halda virkni, t.d. með námi, starfsþjálfun eða félagslegri þátttöku og fyrir líðan viðkomandi að hafa traust félagslegt net. Í ritgerðinni var vísað í rannsóknir sem sýndu að það skiptir miklu máli fyrir atvinnulausa að þeim sé sýnd virðing og vinsemd.

Í grein frá árinu 2020 eftir Jón Sigurð Karlsson um afleiðingar atvinnuleysis kemur fram að afleiðingarnar  geta verið alvarlegar eins og:

  • Aukin vanlíðan og streita.
  • Aukin depurð og kvíði, minnkandi sjálfstraust og tilfinning um tilgangsleysi og áhrifaleysi eykst.
  • Samhliða því getur félagsleg einangrun aukist.
  • Erfiðleikar innan fjölskyldu eykst sem birtist í algengari tíðni skilnaðar hjá atvinnulausu fólki.

ÖBÍ telur að stytting tímabils sem atvinnuleysisbætur eru greiddar geti haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar og aukið á einstaklingsbundna og félagslega vanheilsu einstaklinga, m.a. vegna fjárhagskvíða, með þeim afleiðingum að í stað þess að auka möguleika þess að virkni á vinnumarkaði leiði það til minni getu jafnvel örorku.

Í ljósi ofangreindra atriða leggst ÖBÍ gegn áformum um styttingu hámarkslengdar tímabils sem atvinnuleysistryggingar eru greiddar. Að auki leggst ÖBÍ gegn því að lengja lágmarksskilyrði fyrir ávinnslu atvinnuleysistrygginga úr þremur mánuðum í 12 mánuði. ÖBÍ telur að umrædd áform feli í sér skert lífskjör þeirra sem verða fyrir atvinnumissi og þeim afleiðingum sem kunna að koma í kjölfar.

Ekkert um okkur án okkar!

Með vinsemd og virðingu,

Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ

Sunna Elvíra Þorkelsdóttir
lögfræðingur ÖBÍ

Gunnar Alexander Ólafsson
hagfræðingur ÖBí

Sigurður Árnason
lögfræðingur ÖBí


Áform um breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar
Mál nr. S-159/2025. Félags- og húsnæðismálaráðuneytið.
Umsögn ÖBÍ, 19. september 2025


ÖBÍ réttindasamtök (ÖBÍ) eru heildarsamtök fatlaðs fólks á Íslandi. Hlutverk samtakanna er að koma fram fyrir hönd fatlaðs fólks í hverskyns hagsmunamálum.