Skip to main content
Hinsegin menning & málefniUmsögn

Drög að aðgerðaáætlun í málefnum hinsegin fólks 2026–2029

By 22. september 2025No Comments
Myndin er tekin í Gleðigöngunni 2025. Í forgrunni eru tveir fulltrúar ÖBÍ réttindasamtaka. Annar þeirra, Rúnar Björn Herrera formaður NPA samtakanna, situr í rafmagnshjólastól, brosandi, og er í bol merktum ÖBÍ. Hann er einnig með regnbogalitað skraut um hálsinn. Við hlið hans stendur maður í samskonar öbÍ bol. Hann heldur á skilti sem á stendur: Skert aðgengi! Fyrir öll sem falla ekki undir staðalbúnað í mannréttindamálum. Í kringum þá eru margir þátttakendur í göngunni, margir með regnbogafána og litrík föt. Göngufólkið gengur niður Skólavörðustíg og Hallgrímskirkja, er í baksýn. Gatan er máluð í regnbogalitum og hátíðarstemning ríkir í mannhafinu.

ÖBÍ réttindasamtök fagna því að ný aðgerðaáætlun í málefnum hinsegin fólks verði lögð fram fyrir tímabilið 2026–2029. Hinsegin regnhlífin samanstendur af fjölbreyttum hópi einstaklinga, sum hver tilheyra líka öðrum hópum sem hafa einnig þurft að berjast fyrir tilverurétti sínum og jafnrétti í samfélaginu, til að mynda fólk með erlendan bakgrunn og fatlað fólk. Því er mikilvægt að vanda vel til verka við framsetningu og vali á aðgerðum, til að tryggja að enginn litur regnbogans verði undanskilinn þegar framfara skref eru tekin.

Í þingsályktun um aðgerðaáætlun í málefnum hinsegin fólks fyrir árin 2022–2025 má finna aðgerð sem ber heitið “líðan hinsegin öryrkja og aldraðra”. ÖBÍ kom með ábendingu í umsögn um áform um aðgerðaráætlun, að fatlað fólk er fjölbreyttur hópur og ekki allt fatlað fólk eru öryrkjar þó svo að allir öryrkjar séu vissulega fatlað fólk og þá er ekki samasem merki á milli öryrkja og aldraðra. Jafnframt lagði ÖBÍ til að í nýrri aðgerðaáætlun verði skilgreiningin hinsegin öryrkjar uppfærð í hinsegin fatlað fólk. ÖBÍ lýsir yfir furðu sinni að engin aðgerð snýr að fjölbreyttum áskorunum hinsegin fatlaðs fólks í drögum að aðgerðaáætlun í málefnum hinsegin fólks 2026–2029, þrátt fyrir ábendingar í fyrri umsögn sem og á samráðsfundi. Að mati ÖBÍ er það afturför frá aðgerðaráætluninni 2022-2025, sem þó tilgreindi aðgerð fyrir þann hluta hinsegin fatlaðs fólks sem fær örorkulífeyrir.

Bæði hinsegin fólk og fatlað fólk standa frammi fyrir stigma og staðalímyndum, hindrunum í hvers kyns þjónustu og þá sérstaklega í heilbrigðisþjónustu, býr við félagslega og samfélagslega útilokun, mætir margþættri mismunun og margskonar ofbeldi.

Heilbrigðisþjónusta getur verið mjög óaðgengileg fyrir hinsegin fatlað fólk, kynfræðsla getur verið óaðgengileg og eða útilokandi, og önnur þjónustukerfi eru þess eðlis að þau gera ekki ráð fyrir samtvinnun skerðinga og hinseginleika. Á fatlað fólk er öllu jafna ekki litið á sem kynverur eða fólk með sjálfsákvörðunarrétt og hvað þá hinsegin fatlað fólk. Það er því gríðarlega mikilvægt að stuðla að aukinni þátttöku hinsegin fatlaðs fólks í stefnumótun og ákvarðanatöku og auka fræðsla um samtvinnun fötlunar og hinseginleika innan stofnana, skóla, heilbrigðis og félagsþjónustu.

ÖBÍ vill koma eftirfarandi athugasemdum og tillögum á framfæri.

Aðgengi hinsegin fatlaðs fólks og margþætt mismunun

Gott aðgengi að samfélagi er grundvallarforsenda virkni og þátttöku. Í 9. gr. samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF) er kveðið á um að aðildarríki tryggi fötluðu fólki aðgengi til að lifa sjálfstæðu lífi og taka fullan þátt í samfélaginu. Þetta á einnig við um þjónustu og aðstöðu einkaaðila sem opin er almenningi. Samtökin ’78 hafa sett sér aðgengisstefnu og gegna lykilhlutverki í réttindabaráttu hinsegin fólks. Þó eru margir viðburðir skipulagðir utan samtakanna af einstaklingum og smærri hópum. Erlendar rannsóknir sýna að barir og skemmtistaðir eru mikilvægur vettvangur fyrir samveru og tengslamyndun hinsegin fólks. Á Íslandi er hins vegar meirihluti íbúðarhúsnæðis óaðgengilegur fötluðu fólki, og aðgengi að atvinnuhúsnæði og skemmtistöðum er enn lakara.

Mismunun á grundvelli fötlunar felur í sér útilokun, aðgreiningu eða takmarkanir og getur komið fram á öllum sviðum samfélagsins. Einstaklingar sem tilheyra fleiri jaðarsettum hópum verða oft fyrir margþættri mismunun. Hún getur byggst á fötlun, uppruna, kyni, kynhneigð, kyngervi eða kyntjáningu og leiðir jafnan til félagslegs óréttlætis, útskúfunar, kerfisbundinnar kúgunar, ójafnrar meðferðar og öráreiti.
Hinsegin fatlað fólk verður jafnvel fyrir fordómum og aðkasti bæði innan og utan eigin hópa. Í aðgerðaráætlun norsku ríkisstjórnarinnar í málefnum hinsegin fólks 2023-2026 er sérstakur kafli sem snýr að hinseginfólki sem tilheyra einnig öðrum minnihlutahópum og áhrifum margþættrar mismununar. Þar kemur fram að rannsóknir sýna að það að tilheyra fleiri en einum minnihlutahópi getur skapað sérstakar áskoranir og falið í sér reynslu af margþættri mismunun. Jafnframt að hinsegið fatlað fólk verði fyrir neikvæðri athygli, einelti og mismunun, og að mörg þeirra upplifi einmanaleika og skort á sýnileika. Fatlað fólk verður oftar fyrir hatursorðræðu en ófatlaðir, óháð því hvort fötlunin er sýnileg eða ekki.

ÖBÍ leggur því til nýja aðgerð til viðbótar sem styrkir inngildingu hinsegin fatlaðs fólks og vinnur gegn áhrifum margþættrar mismununar:

__. Bætt aðgengi hinsegin fatlaðs fólks og vitundarvakning um margþætta mismunun.
Boðið verði upp á breytt samtal hinsegin fatlaðs fólks um margþætta mismunun og aðgengi fatlaðs fólks að hinsegin samfélaginu. Áhersla verður lögð á að hlusta á fjölbreyttar reynslusögur og safna saman tillögum til úrbóta. Efnistök samtalsins verða nýtt í vitundarvakningu um áhrif margþættar mismununar og jafnframt komið áleiðis til Rannsóknastofnunar í jafnréttisfræðum við Háskóla Íslands.
Undirbúningur og skipulag samtalsins verður á ábyrgð stjórnvalda og unnið í nánu samráð við Samtökin 78, ÖBÍ réttindasamtök, Þroskahjálp og Geðhjálp.
Markmið aðgerðarinnar verði að tryggja hinsegin fötluðu fólki rödd, að það njóti reisnar og geti tekið virkan þátt í samfélagi hinsegin fólks sem og íslensku samfélagi í heild sinni.
Tímaáætlun: 2026–2028
Ábyrgð: Félags- og húsnæðismálaráðuneytið.
Framkvæmdaraðili: Skrifstofa félags- og lífeyrismála í samvinnu við helstu hagaðila.
Kostnaðaráætlun: Rúmist innan fjárheimilda.

Fötlunargleraugun og aðrar aðgerðir áætlunarinnar

Það er fagnaðarefni að sjá hvernig aðgerðaráætlunin hefur þróast og vaxið með verkefninu, en að sama skapi er mikilvægt að þeir sem leiða starfið tileinki sér þá margþættu sýn sem krefst til þess að tryggja jafnrétti fyrir öll. Þannig má hæglega bæta margar þeirra aðgerða sem nú þegar eru í áætluninni með því að setja upp fötlunargleraugu og tryggja að horft sé til hinsegin fatlaðs fólks, hvort sem það er í málefnum transbarna, hvað varðar heimilisofbeldi eða þegar útbúa á fræðsluefni. Í allri þessari vinnu er mikilvægt að hafa skilgreinda ferla sem trygggja að fólk með fötlun sé haft með frá fyrstu ferð.

ÖBÍ áskilur sér rétt til að koma á framfæri frekari athugasemdum á seinni stigum.

Ekkert um okkur án okkar!

Með vinsemd og virðingu,

Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ

Kjartan Þór Ingason
verkefnastjóri ÖBÍ

Rósa María Hjörvar
verkefnastjóri ÖBÍ


Drög að aðgerðaáætlun í málefnum hinsegin fólks 2026–2029
Mál nr. S-157/2025. Dómsmálaráðuneytið.
Umsögn ÖBÍ, 22. september 2025