
Umsögn um drög að breytingu á lögum um Heyrnar- og talmeinastöð.
ÖBÍ réttindasamtök fagna því að stjórnvöld hyggist endurbæta þjónustu við fólk með heyrnarskerðingu, enda löngu tímabært að þessi hópur fái þjónustu í samræmi við aðra og það sem þekkist í löndunum í kringum okkur.
Málefni fólks með heyrnarskerðingu eru flókin og umfangsmikill málaflokkur sem nær yfir skimun, snemmtæka íhlutun, greiningu, læknisfræðileg úrræði, hjálpartæki, endurhæfingu og félagsleg úrræði. Auk þess sem þessi stóri hópur inniheldur mjög viðkvæma minnihlutahópa, fólk með samþættar skerðingar og einstaklinga með alvarlegan tjáskiptavanda. Hér er því mikilvægt að allar breytingar séu gerðar af yfirveguðu ráði og í virku samráði við fatlað fólk og í samræmi við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
Í þeim áformum sem hér eru til umsagnar felast mögulega mikil framför fyrir þann hóp sem hefur mesta heyrnarskerðingu og verður vonandi til þess að bæta aðgengi þessara einstaklinga að bæði heyrnarfræðingum og heyrnartækjum. Það er jafnframt mikilvægt að huga að endurhæfingu og félagslegri stöðu, en heyrnarskerðing er mjög einangrandi fötlun og hefur bág félagsleg staða fólks verulega slæm áhrif á almenna heilsu þeirra. Því er mikilvægt að sú eining sem sinnir sérhæfðri þjónustu hafi góða og heildræna yfirsýn yfir stöðu málaflokksins og geti haft frumkvæði af jákvæðri þróun.
Stafræna byltingin á ekki síður við um þennan málaflokk, það eru framfarir í nýsköpun hvað varðar tjáskipti og virkni. Hæfing og endurhæfing eru ávallt lykillinn að því að slík tækni nýtist, það krefst þekkingaröflunar og virks samráðs við hlutaðeigandi aðila til að þróa góða þjónustu á þessu sviði. Hér þarf einnig sérstaklega að huga að talmeinum, og stöðu þeirra tjáskiptaforma sem skipta sköpum fyrir ákveðinn hóp eins og til að mynda haptísk tákn.
Fyrir DEAF-samfélagið er táknmál lykillinn að menningu og samskiptum. Íslenskt táknmál á að njóta verndar, ekki bara til varðveislu, heldur þarf að fjárfesta í þróun þess og notkun. Við tökum undir með Félagi heyrnarlausra um áhyggjur af stöðu táknmálsins í þessum breytingum. En vonumst til að þær skili betra aðgengi að túlkaþjónustu, sem ítrekað fellur niður vegna fjárskorts.
Í þessari umsögn verður lögð sérstök áhersla áþað sem ÖBÍ hefur sérstakar áhyggjur af, jafnframt tekur ÖBÍ undir áherslur í umsögnum Heyrnarhjálpar, Félagi heyrnarlausra og Fjólu – félag fólks með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu.
Líkt að ofan greinir fagna ÖBÍ þessum áformum og tækifærinu til þess að gera betur við hópa sem lengi hafa mætt afgangi í velferðarþjónustu, en að sama skapi hvetur ÖBÍ til þess að virkt samráð sé haft við þá notendur sem hér eiga í hlut. Líkt og samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks kveður á um, þá er mikilvægt að samráð sé haft við fatlað fólk á öllum stigum stefnumótunar.Hér er verið að vinna með hugmyndir sem eiga uppruna sinn í starfshópi sem notendur höfðu sæti í og mikilvægt að næstu skref í ferlinu verði gerð í jafn miklu samráði til þess að tryggja að sérhæfð sjónarmið og viðkvæm málefni týnist ekki. Þar má líka benda á fordæmi þess efnis að stofnannir sem sinna ákveðnum fötlunarhópum starfræki notenderáð, samanber Sjónstöð Íslands og Hljóðbókasafn Íslands.
ÖBÍ er reiðbúið í frekara samtal og samráð vegna málsins.
Virðingarfyllst,
Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ
Rósa María Hjörvar
stafrænn verkefnastjóri
Drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um Heyrnar- og talmeinastöð, nr. 42/2007 (brottfall laga)
Mál nr. S-164/2025. Heilbrigðisráðuneytið.
Umsögn ÖBÍ, 24. september 2025

